2023
Ef hann getur breytt vatni í vín …
Janúar 2023


„Ef hann getur breytt vatni í vín … ,“ Líahóna, jan. 2023.

Kraftaverk Jesú

Jóhannes 2:4–11

Ef hann getur breytt vatni í vín …

Þrennt sem ég lærði af þessu kraftaverki sem oft er horft fram hjá.

Ljósmynd
krúsir með vatni og víni

Jóhannes er eini guðspjallahöfundurinn sem segir frá því að frelsarinn hafi breytt vatni í vín (sjá Jóhannes 2:1–11). Honum fannst upplifun þessi svo áhrifamikil að hann sagði frá þessu „fyrsta tákni“ (Jóhannes 2:11).

Menningarlega séð, gætu afleiðingar þess að verða uppiskroppa með vín hafa skaðað félagslega stöðu hlutaðeigandi. 1 Þótt ég telji ekki að kraftaverk þurfi að vera stórbrotin til að breyta lífi, hef ég velt því fyrir mér hvers vegna Jóhannesi fannst þetta kraftaverk vera svo mikilvægt meðal hinna mörgu sem voru bæði stórbrotin og lífsbreytandi.

Hvers vegna kraftaverk?

Hvers vegna voru kraftaverk svo mikilvæg í þjónustu frelsarans? Vissulega að hluta til vegna samúðar hans með hinum nauðstöddu (sjá Markús 1:41). Auk þess voru kraftaverk mikilvæg staðfesting á guðlegum mætti hans og valdi (sjá Markús 2:5, 10–11). Undraverðir atburðir gátu líka styrkt trú og vakið athygli á boðskap hans (sjá Jóhannes 2:11; 6:2).

Einhver benti mér síðan á að kraftaverk frelsarans fengu fólk ekki aðeins til að hlýða á boðskapinn; þau hjálpuðu við að kenna boðskapinn.2 Þegar ég spurði sjálfan mig að því hvað ég gæti lært um Jesú Krist og guðdómlegt hlutverk hans af því að hann breytti vatni í vín, þá fór ég að sjá hlutina í nýju ljósi.

Hér eru þrjár lexíur sem ég lærði af kraftaverkinu í Kana um frelsarann og mátt hans til að frelsa.

1. „Minn tími er ekki enn kominn“

Þegar María bað Jesú um hjálp, svaraði hann: „Minn tími er ekki enn kominn“ (Jóhannes 2:4). Án frekari upplýsinga, er ekki ljóst af heimild Jóhannesar nákvæmlega hverju María bjóst við eða hvað Jesús átti við með svari sínu að tími hans væri enn ekki kominn.

Þetta orðtak stóð upp úr hjá mér sem mikilvægt. Mögulegt er að Jesús hafi verið að vísa til einhvers atburðar í náinni framtíð, eins og upphafs opinberrar þjónustu hans. Á sama tíma, býr orðtakið yfir bergmáli sem hljómar í gegnum heimild Jóhannesar og bendir oft fram til hins fullkomna kraftaverks friðþægingarfórnar hans (sjá Jóhannes 4:21–23; 5:25–29; 7:30; 8:20). Orðalagið er síðan endurtekið við lok jarðneskrar þjónustu Jesú, er „Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins“ (Jóhannes 13:1, skáletrað hér; sjá einnig Jóhannes 12:23, 27; 16:32). Áður en hann fór til Getsemane, bað hann: „Faðir, stundin er komin. Ger son þinn dýrlegan til þess að sonurinn geri þig dýrlegan“ (Jóhannes 17:1, skáletrað hér).

Að sjá að Jóhannes endurtók þetta orðtak í gegnum heimild sína, hjálpaði mér að sjá endinn frá upphafinu. Í fyrsta lagi, breytti Jesús vatni í vín til að seðja líkamlegan þorsta. Síðan, þegar dró að lokum, notaði hann sakramentisvín til að tákna friðþægingarblóð sitt, sem gerði eilíft líf mögulegt og varð til þess að þeir sem tryðu á hann, myndu aldrei aftur þyrsta (sjá Jóhannes 4:13–16; 6:35–58; 3. Nefí 20:8).

2. „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera“

Eftir að María hafði beðið Jesú um hjálp, sagði hún við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera“ (Jóhannes 2:5). Það felst lærdómur í þessari yfirlýsingu og í heillandi samlíkindum þessarar frásagnar og frásagnarinnar um Jósef í Egyptalandi.

„Þegar hungursneyðin gekk síðan yfir allt Egyptaland heimtaði lýðurinn brauð af faraó en hann svaraði: „Farið til Jósefs og gerið eins og hann segir ykkur““ (1. Mósebók 41:55, skáletrað hér).

María ætlaði kannski ekki að tengja þetta saman og Jóhannes kannski ekki heldur. Þegar ég hins vegar tók eftir samlíkingunni, komu tvær hugmyndir upp í hugann.

Í fyrsta lagi, sá ég enn aðra samlíkingu Jósefs og annarra einstaklinga í Gamla testamentinu við fyrirmynd Jesú Krists og hlutverks hans. Það sem þó er meira um vert, frásagnirnar frá Egyptalandi og Kana minntu mig á að Jesús Kristur getur ekki aðeins frelsað okkur frá synd og dauða með friðþægingu sinni – sem hann síðar táknaði með brauði og víni – heldur getur hann líka frelsað okkur frá líkamlegum, félagslegum og öðrum áskorunum. Þegar fólkið var orðið uppiskroppa með brauð, sagði faraó þeim að gera allt það sem Jósef segði. Það gerði það og fékk brauð og var bjargað frá líkamlegum þjáningum. Þegar þjónarnir urðu uppiskroppa með vín, sagði María þeim að gera allt það sem Jesús segði. Þeir gerðu það og fengu vín og þeim sem áttu hlut í máli var bjargað frá því að bregðast skyldum sínum.

Ljósmynd
Jesús með manni og barni

Ef við erum fús til að gera allt sem Jesús segir, getur hann gert kraftaverk í lífi okkar.

Smyrsl Gíleaðs, eftir Annie Henrie Nader, óheimilt að afrita.

Ef við erum fús til að gera allt sem Jesús segir, getur hann gert það sama fyrir okkur og gert kraftaverk í lífi okkar (sjá Hebreabréfið 10:35–36). Stærsta kraftaverk hans er að frelsa okkur og til þess þurfum við að hlýða (sjá Kenning og sáttmálar 14:7; Trúaratriðin 1:3).

3. „Þeir fylltu þau á barma“

Frelsarinn bauð þjónunum að fylla sex steinvatnsker með vatni. „Þeir fylltu þau á barma“ (Jóhannes 2:6–7).

Þótt sérfræðingar hafi lagt til mismunandi magn, er líklega óhætt að segja að hvert ker hafi rúmað nokkra lítra. Hvort erfiðara sé að breyta einum lítra af vatni eða 100 lítrum af vatni í vín, veit ég ekki. Það sem breytt hefur lífi mínu, er sú hugmynd að Jesús hafi mátt til að breyta einu í eitthvað allt annað. Hann bjó ekki bara til vatn með vínbragði; hann tók vatn með sinni einföldu sameindabyggingu og breytti því í vín, flókna blöndu af hundruðum efnasambanda.

Ef hann getur gert það, þá getur hann breytt erfiðleikum mínum í blessanir – ekki bara að lægja storminn, heldur í raun að umbreyta raunum mínum í eitthvað sem blessar mig (sjá Rómverjabréfið 8:28; 2. Nefí 2:2).

Ef hann getur gert það hvað eina áskorun varðar, þá getur hann gert það sama við allar. Hafið því hugfast, þegar lífið virðist barmafullt af þrengingum, að hann megnar að breyta vatni í vín. Hann getur gefið okkur höfuðdjásn í stað ösku (sjá Jesaja 61:3). Hann getur snúið illu til góðs (sjá 1. Mósebók 50:20). Hann getur umbreytt mistökum mínum í vöxt og tekið syndir mínar og breytt þeim úr fordæmingu í framþróun.3

Sá skilningur finnst mér mikilvægastur allra. Þetta kraftaverk sem mér eitt sinn yfirsást, hefur kennt mér að ef við höfum trú til að gera það sem hann segir, megnar hann að breyta okkur frá því sem við vorum yfir í það sem við getum orðið – eins og hann er.

Heimildir

  1. Sjá Peter J. Sorensen, „The Lost Commandment: The Sacred Rites of Hospitality,“ BYU Studies, útg. 44, nr. 1 (2005), 4–32.

  2. Sjá Bible Dictionary, „Miracles.“

  3. Sjá Bruce C. Hafen, „The Atonement: All for All,“ Liahona, maí 2004, 97–99.