2023
Nauðsynleg fjölskyldusamtöl
Janúar 2023


„Nauðsynleg fjölskyldusamtöl,“ Líahóna, jan. 2023.

Nauðsynleg fjölskyldusamtöl

Nauðsynleg samtöl munu hjálpa börnum okkar að vita hverju þau trúa og hvers vegna þau trúa því.

Ljósmynd
faðir og sonur klífa fjall

Myndskreyting: Noah Regan

Sonur bað föður sinn að kenna sér um fjallaklifur. Faðirinn kenndi öll helstu atriðin, þar á meðal skipulagningu, öryggi, undirbúning og búnað. Sonurinn spurði hvenær þeir myndu tala um hvað gera ætti í neyðartilvikum. Faðirinn sagði að hann vildi ekki hræða son sinn og að slíkt samtal gæti beðið þar til nauðsyn krefði.

Þeir luku þjálfun sinni og fóru í sinn fyrsta klifurleiðangur upp á Rainier-fjall, nálægt Seattle, Washington. Upplifunin og aðstæðurnar voru frábærar til að byrja með, allt þar til veðrið fór að versna og þeir sáu snjóflóð koma æðandi.

Þeir vissu ekki hvað gera skyldi, því þeir höfðu ekki rætt það. Sonurinn spurði föður sinn: „Er ég tilbúinn fyrir samtalið um hvað gera skal í neyðartilvikum núna, pabbi?“

Nauðsynleg samtöl – í öruggri umgjörð heimilis okkar – geta hjálpað okkur að búa okkur undir snjóflóð lífsins.

„Mikilvægasti sannleikur alheims er að Guð elskar okkur,“ sagði öldungur Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni.1 Orð hans minna okkur á að kærleikurinn er grundvöllur allrar eilífðar og okkar daglega lífs. Með þá elsku sem forsendu, eru samtölin og tengslin sem við myndum við fjölskyldu okkar nauðsynleg.

Sem eiginmaður, faðir, skólaráðgjafi og löggiltur geðheilbrigðisráðgjafi, hef ég komist að því að fjölskyldusamtöl eru mikilvæg og þeim ætti ekki að slá á frest. Joy D. Jones, fyrrverandi aðalforseti Barnafélagsins, sagði: „Við getum ekki beðið eftir því að börn okkar snúist einfaldlega til trúar. … Fjölskyldusamtöl um fagnaðarerindi Jesú Krists, nauðsynleg samtöl, … geta boðið heim andanum.“2

Hvað eru nauðsynleg samtöl?

Systir Jones skilgreindi nauðsynleg samtöl sem „einföld, umhyggjusöm samtöl, [sem] geta leitt til þess að börnin [og hvert okkar] viti ekki aðeins hverju þau trúa, heldur það sem er mikilvægara, af hverju þau trúa því.“3 Eitt orð sem ég elska í þessari skilgreiningu er einföld. Samtal okkar þarf ekki að vera djúpt eða flókið eða jafnvel skipulagt. Reyndar er ekki hægt að skipuleggja sum bestu samtalanna sem við munum eiga, öðruvísi en að vera undirbúin og hafa alltaf andann með sér okkur til hjálpar.

Systir Jones kenndi: „Trúarumbreyting fyrir slysni fyrirfinnst ekki í fagnaðarerindi Jesú Krists. Það er ekki háð tilviljun að við verðum eins og frelsarinn.“4 Það gerist setning á setning ofan, með tíma, ásetningi og fyrirhöfn.

Hversu oft ættu nauðsynleg samtöl að eiga sér stað?

Við ættum að tala við börnin okkar daglega. Því oftar sem við eigum nauðsynleg samtöl, því eðlilegri, náttúrlegri og meira upplýsandi verða þau.

Versta leiðin til að eiga nauðsynleg samtöl er að hafa þau alls ekki! Við höldum oft að tíminn sé ekki réttur, þetta sé of flókið eða að börnin okkar muni ekki skilja. Við viljum ekki misbjóða eða segja eitthvað rangt eða láta einhverjum líða óþægilega. Það er þó hið minnsta betra að reyna að eiga samtal en að segja ekki neitt.

Hvernig eigum við nauðsynleg samtöl við börnin okkar?

Hin einfalda forskrift sem ég hef uppgötvað að nauðsynlegum samtölum er að elska, hlusta og breytast. Þótt við séum kannski ekki fullkomin í neinu af þessu, þá getum við stöðugt reynt að fylgja forskriftinni.

Elska: Áhrifaríkustu, nauðsynlegustu samtölin geta ekki átt sér stað án þess að elska sér höfð að grundvelli. Elska er grundvöllur alls sem við gerum í fjölskyldum okkar, hvað við gerum, hvenær, hvers vegna og hvernig við gerum það. Börn okkar þurfa að finna fyrir öryggi þegar þau tengjast okkur og elskan veitir það mikilvæga umhverfi. Við getum alltaf sýnt elsku. Jesús Kristur sýndi okkur hvernig.

Systir Jones sagði: „Þegar við nærum og undirbúum börn okkar, gerum við ráð fyrir sjálfræði þeirra, við elskum þau af öllu hjarta, við kennum þeim boðorð Guðs og gjafir hans varðandi iðrun, og við gefumst aldrei, nokkurn tíma upp á þeim. Er það ekki, eftir allt, þannig sem Drottinn gerir með okkur?“5

Hlusta: Ég hef lært af eigin mistökum að virk hlustun er mikilvægur hluti af öllum nauðsynlegum samtölum. Hlustun ætti að koma fyrst og vera tvöfalt oftar. Jesús Kristur er besta dæmið um það hvernig á að eiga nauðsynleg samtöl og hlusta á virkan máta. Í Jóhannes 8 lærum við að þegar farísearnir færðu til hans konuna sem var staðin að hórdómi, voru það spurningar sem hann lagði fyrst fyrir konuna: „Hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ (vers 10). Til að nauðsynleg fræðsla ætti sér stað, spurði hann spurninga og hlustaði áður en hann kenndi.

Breytast: Þegar við höfum elskað, hlustað og tengst, hvað gerum við þá eftir það? Þurfum við að iðrast, kenna, hlusta meira, þjóna, biðjast afsökunar, fyrirgefa? Nauðsynleg samtöl ættu að gefa okkur tækifæri til að breytast. Vonandi erum við alltaf að leitast við að verða, eins og Russell M. Nelson forseti sagði, „örlítið betri dag hvern.“6

Ljósmynd
faðir og sonur tala saman

Hvernig getum við átt nauðsynleg samtöl oftar?

Ykkur mun leiðbeint með opinberun um hvað virkar best fyrir fjölskyldu ykkar. Íhugið þessar ábendingar frá reynslu fjölskyldu okkar:

Ritningarnám fjölskyldunnar: Þegar ég spurði börnin okkar að því hvað við gerum sem hjálpar þeim mest að eiga samtöl um fagnaðarerindið, sögðu þau að það væri að læra ritningarnar saman á hverju kvöldi með því að nota Kom, fylg mér.

Vitnisburðarfundur fjölskyldunnar á hverjum föstusunnudegi: Þetta er venjulega ekki formlegur vitnisburðarfundur, heldur tími fyrir hvern einstakling í fjölskyldu okkar til að deila tilfinningum, trú, baráttu og árangri. Ég og eiginkona mín kappkostum alltaf að bera vitni um Jesú Krist. Þessi fundur er orðinn ein áhrifamesta upplifunin á heimili okkar.

Fjölskyldukvöldverður: Þegar við segjum: „Hvernig líður tímanum?“ í kvöldmatnum, vita börnin að það er kominn tími fyrir hvern og einn að segja frá einhverju einu sem gekk vel og einhverju einu sem þau óskuðu að hefði verið betra á þeim degi. Það leiðir oft til tjáningu þakklætis, kærleika, stundum gremju og oft til trúarlegra samtala, sem annars hefðu ekki átt sér stað.

Einstaklingssamtöl: Mér þykir vænt um þann tíma í hverjum mánuði á föstudögum, að sitja með hverju barna minna, biðja fyrir þeim með nafni, horfa í augu þeirra og spyrja þau spurninga. Ég reyni að hlusta og tengjast þeim tilfinningalega og skilja þarfir þeirra. Það gæti hafa verið skrítið fyrir þau fyrst, en núna sakna þau þess ef við gerum það ekki. Ég vona að þau viti að tími minn með þeim er mikilvægari en nokkuð annað og að ég vilji eiga nauðsynleg samtöl við þau daglega.

Markmiðsskoðun: Við búum til persónuleg markmið og hjóna- og fjölskyldumarkmið í hverjum janúarmánuði. Við ræðum síðan vöxt okkar og framfarir í hverjum mánuði í ritningarnámi eða á heimiliskvöldstund. Þetta leiðir til nauðsynlegra samtala.

Hjóna- eða foreldrasamstarf: Á hverju sunnudagskvöldi, þegar við hjónin förum yfir vikudagatölin okkar, spyrjum við líka hvort annað um líðan hvors annars og hvað við erum að glíma við eða þurfum aðstoð við. Við eigum nauðsynleg samtöl um hjónaband okkar og hvert barn okkar og það sem við þurfum að gera til að innræta enn frekar fagnaðarerindi Jesú Krists í hjörtu hvers og eins.

Eiginkona mín er miklu betri hlustandi en ég og mun betri í því að gera okkur mögulegt að halda stöðugleika og einbeita okkur að sáttmálsveginum. Ég læri svo mikið af henni og er svo blessaður af því að hún valdi mig að eilífu.

Fjölskyldan okkar gerir þessa hluti ekki fullkomlega, en við gerum okkar besta og höldum áfram að reyna.

Verið viðbúin áður en skriðan kemur

Bíðið ekki þar til snjóflóð lífsins koma í hjónabandi ykkar, hjá börnum ykkar eða í öðrum samböndum. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær. Samtöl um fagnaðarerindið og aðra nauðsynlega hluti, undirbúa okkur aðeins á bestan hátt ef þau eru höfð með ásetningi og reglubundið.

Að vera með eiginkonu minni, börnum og fjölskyldu um eilífð, er mitt æðsta markmið og tilgangur alls sem ég geri, þar á meðal hvers nauðsynlegs samtals.

Ég er breyskur, eins og við öll erum, en fyrir kraft Jesú Krists og iðrun er mér lyft upp. Frelsarinn hefur lofað að styrkja okkur með krafti sínum og hinu fullkomna vonarljósi, sem hann gefur okkur með friðþægingu sinni. Við þurfum ekki að vera fullkomin, en við þurfum að reyna að bæta okkur! Hverju okkar býðst sá kraftur. Ykkur mun ekki mistakast. Árangur felst alltaf í fyrirhöfninni.

Nelson forseti hefur lofað því að „þegar við veljum að láta Guð ríkja í lífi okkar, munum við upplifa fyrir okkur sjálf að Guð okkar er ,Guð kraftaverka‘ [Mormón 9:11].“7 Í því getur falist að láta Guð ríkja í nauðsynlegum samtölum okkar. Allt er mögulegt með hjálp frelsara okkar, Jesú Krists, þar á meðal þessi nauðsynlegu samtöl. Elska er alltaf svarið hans!

Höfundur býr í Washington, Bandaríkjunum.