Aðalráðstefna
Nauðsynleg samtöl
Aðalráðstefna apríl 2021


Nauðsynleg samtöl

Við getum ekki beðið eftir því að börn okkar snúist einfaldlega til trúar. Trúarumbreyting fyrir slysni fyrirfinnst ekki í fagnaðarerindi Jesú Krists.

Hafið þið nokkru sinni hugleitt hvers vegna Barnafélagið kallast „Primary“ [fyrstur] á ensku? Þó að nafnið vísi til þess andlega lærdóms sem börnin hljóta fyrstu ár lífsins, þá minnir það mig einnig á áhrifamikinn sannleika. Hvað varðar föðurinn, þá hafa börn aldrei verið í öðru sæti – þau hafa alltaf verið í fyrsta sæti „primary“1

Hann treystir okkur til að meta börn mikils, virða og vernda þau sem börn Guðs. Það þýðir að við sköðum þau aldrei líkamlega, munnlega eða tilfinningalega á nokkurn hátt, jafnvel þegar óróleiki eða álag er mikið. Í stað þess metum við börnin mikils og gerum allt sem við getum til að vinna gegn illsku misnotkunar. Umönnun þeirra er í fyrsta sæti hjá okkur – að sama skapi og hjá honum.2

Ungir foreldrar sátu við eldhúsborð sitt og fóru yfir daginn. Inn af ganginum heyrðu þau dynk. Móðirin spurði: „Hvað var þetta?“

Því næst heyrðu þau hljóðan grát koma innan úr herbergi fjögurra ára sonar þeirra. Þau flýttu sér inn eftir ganginum. Þar lá hann á gólfinu, við hlið rúmsins. Móðirin tók litla drenginn upp og spurði hvað hefði gerst.

Hann sagði: „Ég datt út úr rúminu.“

Hún sagði: „Hvers vegna dastu út úr rúminu?“

Hann yppti öxlum og sagði: „Ég veit það ekki Kannski komst ég ekki nógu langt upp í rúmið.

Það sem mig langar að tala um í dag er að „komast langt.“ Það eru forréttindi okkar og ábyrgð að aðstoða börnin við að „komast nógu langt“ inn í fagnaðarerindi Jesú Krists Við getum ekki byrjað of snemma.

Það er einstakur tími í lífi barna þegar þau eru vernduð frá áhrifum Satans. Það er tími sem þau eru saklaus og syndlaus.3 Það er heilagur tími fyrir foreldri og barn. Börnum þarf að kenna, í orði og verki, áður og eftir að þau hafa „náð ábyrgðaraldri gagnvart Guði.“4

Henry B. Eyring forseti kenndi: „Tækifærin gefast hjá hinum ungu. Best er að byrja snemma að kenna börnum, meðan þau eru enn ónæm fyrir freistingum síns jarðneska óvinar og löngu áður en erfiðara verður fyrir þau að heyra sannleikann fyrir hávaðanum af eigin baráttu.“5 Slík kennsla mun hjálpa þeim að gera sér grein fyrir sínu eigin guðlega auðkenni, tilgangi þeirra og ríkulegum blessunum sem bíða þeirra er þau gera helga sáttmála og meðtaka helgiathafnir á sáttmálsveginum.

Við getum ekki beðið eftir því að börn okkar einfaldlega snúist til trúar. Trúarumbreyting fyrir slysni fyrirfinnst ekki í fagnaðarerindi Jesú Krists. Það er ekki háð tilviljun að við verðum eins og frelsarinn. Það getur hjálpað börnum strax á unga aldri að finna fyrir áhrifum heilags anda ef við erum meðvituð í kærleika, kennslu og vitnisburði. Heilagur andi er nauðsynlegur vitnisburði barna okkar og trúarlegum viðsnúningi þeirra til Jesú Krists; við þráum að þau „hafi hann ávallt í huga, svo að andi hans sé með þeim.“6

Ljósmynd
Fjölskylduumræður

Hugleiðið mikilvægi fjölskylduumræðna um fagnaðarerindi Jesú Krists, nauðsynlegra samtala, sem geta boðið andanum heim. Þegar við eigum slík samtöl við börn okkar, hjálpum við þeim að byggja grundvöll, „[öruggan grundvöll], og ef [þau] byggja á þeim grundvelli, geta [þau] ekki fallið.“7 Þegar við styrkjum barn, styrkjum við fjölskylduna.

Þessi mikilvægu samtöl geta leitt börnin til að:

  • Skilja kenningu iðrunar.

  • Trúa á Krist, son hins lifanda Guðs.

  • Velja skírn og gjöf heilags anda þegar þau eru átta ára gömul.8

  • Biðja svo og „ganga grandvör frammi fyrir Drottni.“9

Frelsarinn hvatti: „Þess vegna gef ég þér þau fyrirmæli, að fræða börn þín óspart um þetta.“10 Hvað vildi hann að við kenndum svo óspart?

  1. Fall Adams

  2. Friðþægingu Jesú Krists

  3. Mikilvægi þess að endurfæðast11

Öldungur D. Todd Christofferson sagði: „Óvininum er vissulega skemmt þegar foreldrar vanrækja að kenna börnum sínum og innræta þeim trú á Krist og andlega endurfæðingu.“12

Á hinn bóginn myndi frelsarinn vilja að við hjálpuðum börnunum að „[setja] traust [sitt] á þann anda, sem leiðir til góðra verka.“13 Til þess að svo megi vera, getum við hjálpað börnum að bera kennsl á er þau skynja andann og að skilja hvaða gjörðir valda því að andinn hörfar. Þannig læra þau að iðrast og snúa sér til ljóssins í gegnum friðþægingu Jesú Krists. Þetta hvetur til andlegs úthalds.

Við getum haft gaman að því að hjálpa börnum okkar að byggja upp andlegt úthald á hvaða aldri sem er. Það þarf ekki að vera flókið eða tímafrekt. Einfalt, kærleiksríkt samtal getur leitt börn að því að vita ekki einungis hverju þau trúa, heldur það sem mikilværara er, hvers vegna þau trúa því. Kærleiksrík samtöl sem gerast eðlilega og reglulega, geta leitt til betri skilnings og svara. Leyfum ekki að þægindi raftækja haldi okkur frá því að kenna og hlusta á börn okkar og horfast í augu við þau.

Ljósmynd
Mæðgnasamtal

Fleiri tækifæri til nauðsynlegra samtala geta veist með hlutverkaleik. Fjölskyldumeðlimir geta sett upp leikþætti þar sem þeirra er freistað eða á þau þrýst til að taka slæmar ákvarðanir. Slíkar æfingar geta styrkt börnin til að vera undirbúin fyrir erfiðar aðstæður. Til dæmis getum við leikið þetta, svo rætt málið og spurt börnin hvað þau myndu gera:

  • Ef þeirra væri freistað til að brjóta Vísdómsorðið.

  • Ef þau stæðu andspænis klámi.

  • Ef þau freistuðust til að ljúga, stela eða svindla.

  • Ef þau heyrðu eitthvað frá vini eða kennara í skólanum sem væri í andstöðu við trú þeirra eða gildi.

Þegar þau leika þetta og spjalla síðan um það, geta börn verið vopnuð „[skildi] trúarinnar, en með honum [geta þau] að engu gjört glóandi örvar hinna ranglátu.“14

Náinn vinur lærði þessa mikilvægu lexíu átján ára gamall. Hann skráði sig í bandaríska herinn þegar Bandaríkin áttu í stríði við Víetnam. Hann var skráður í grunnþjálfun í fótgönguliðið til að verða fótgönguliði. Hann útskýrði að þjálfunin hefði verið ströng. Hann lýsti herþjálfanum sem grimmum og ómannúðlegum.

Einn tiltekinn dag var sveit hans útbúin öllum bardagabúnaði, á göngu í steikjandi hita. Þjálfinn hrópaði skyndilega og skipaði þeim að henda sér á jörðina og hreyfa sig ekki. Leiðbeinandinn fylgdist með hverri minnstu hreyfingu. Hver hreyfing myndi valda alvarlegum afleiðingum síðar. Sveitin þjáðist í meira en tvo klukkutíma í vaxandi reiði og óánægju gagnvart leiðtoga þeirra.

Mörgum mánuðum síðar stóð vinur okkar frammi fyrir því að leiða sína eigin sveit í gegnum frumskóga Víetnam. Það var raunveruleikinn, ekki aðeins þjálfun. Skotum tók að rigna ofan frá úr trjánum í kring. Öll sveitin henti sér viðstöðulaust til jarðar.

Hverju var óvinurinn að leita eftir? Hreyfingu. Hver hreyfing myndi kalla eftir skothríð. Vinur minn sagði að þar sem hann lá sveittur og hreyfingarlaus á í frumskóginum, bíðandi eftir því að myrkrið skylli á eftir marga langa klukkutíma, varð honum hugsað til grunnþjálfunar sinnar. Hann minntist hinnar áköfu reiði sem hann bar til herþjálfa síns. Nú fann hann ákaft þakklæti – fyrir það sem hann hafi kennt og hvernig hann hefði undirbúið hann fyrir þessa alvarlegu aðstæður. Herþjálfinn hafði útbúið vin okkar og sveit með þeirri kunnáttu að vita hvað gera ætti þegar orrustan væri yfirstandandi. Hann hafði í raun bjargað lífi vinar okkar.

Hvernig getum við gert slíkt hið sama fyrir börn okkar andlega? Hvernig getum við unnið að því enn frekar að kenna, styrkja og undirbúa þau löngu áður en þau fara inn á orrustuvöll lífsins?15 Hvernig getum við boðið þeim að „komast nógu langt?“ Myndum við ekki frekar vilja að þau „svitnuðu“ í öruggu lærdómsumhverfi heima, en að blæða á orrustuvelli lífsins?

Þegar ég horfi tilbaka, þá voru stundir þar sem mér og eiginmanni mínum fannst við vera herþjálfar í ákefð okkar að hjálpa börnum okkar að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists. Spámaðurinn Jakob setti sömu tilfinningar í orð þegar hann sagði: „mér er annt um velferð sálna yðar. Já, áhyggjur mínar vegna yðar eru þungar, og þér vitið sjálf, að það hafa þær ávallt verið.“16

Þegar börn læra og þroskast mun trú þeirra vera reynd. Ef þau eru með almennilegan búnað, geta þau vaxið í trú, hugrekki og sjálfsöryggi, jafnvel mitt í sterku mótlæti.

Alma kenndi okkur að „[búa] hugi [barnanna] undir að heyra orðið.“17 Við erum að búa upprennandi kynslóð undir að verða framtíðar verðir trúarinnar, að skilja „að [þau hafi] frelsi til að breyta sjálfstætt, til að velja leiðina til ævarandi dauða eða leiðina til eilífs lífs.“18 Börnin eiga skilið að skilja þennan mikla sannleik: Eilífðin er ekki sá hlutur sem þau vilja hafa rangt fyrir sér með.

Megi einföldu, en mikilvægu, samtölin við börn okkar hjálpa þeim að „njóta orða eilífs lífs“ nú, svo að þau megi njóta „eilífs lífs í komanda heimi, já, ódauðlegrar dýrðar.“19

Þegar við nærum og undirbúum börn okkar, gerum við ráð fyrir sjálfræði þeirra, við elskum þau af öllu hjarta, við kennum þeim boðorð Guðs og gjafir hans varðandi iðrun, og við gefumst aldrei,nokkurntíma upp á þeim. Er það ekki, eftir allt, þannig sem Drottinn gerir með okkur?

Sækjum fram stöðug í Kristi, vitandi að við getum verið í „fullkomnu vonarljósi“20 í gegnum ástkæran frelsara okkar.

Ég ber vitni um að hann er ávallt svarið. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá 3. Nefí 17:23–24.

  2. Sjá Michaelene P. Grassli, „Behold Your Little Ones,“ Ensign, nóv. 1992, 93: „To me, the word behold is significant. It implies more than just ‘look and see.’ Þegar Drottinn bauð Nefítum að líta á börn þeirra, trúi ég því að hann hafi sagt þeim að fylgjast með börnum þeirra, að hugleiða þau, að horfa fram yfir nútímann og sjá eilífa möguleika þeirra.“

    Sjá einnig Russell M. Nelson, „Listen to Learn,“ Ensign, maí 1991, 22:“Að stjórna börnum okkar með valdi er aðferð Satans, ekki frelsarans. Nei, við eigum ekki börn okkar. Forréttindi okkar er að elska þau, leiða þau og síðan að sleppa af þeim hendinni.

  3. Sjá Kenning og sáttmálar 29:46–47.

  4. Kenning og sáttmálar 20:71.

  5. Henry B. Eyring, „The Power of Teaching Doctrine,“ Liahona, Júlí 1999, 87.

  6. Kenning og sáttmálar 20:79.

  7. Helaman 5:12.

  8. Sjá Kennign og sáttmálar 68:25; sjá einnig Trúaratriðin 1:4.

  9. Kenning og sáttmálar 68:28.

  10. HDP Móse 6:58; skáletrað hér.

  11. Sjá HDP Móse 6:59; sjá einnig Kenning og sáttmálar 20:29–31.

  12. D. Todd Christofferson, „Af hverju hjónaband og fjölskylda?,“ aðalráðstefna, apríl 2015.

  13. Sjá Kenning og sáttmálar 11:12–13; sjá einnig Kenning og sáttmálar 93.

  14. Kenning og sáttmálar 27:17; skáletrað hér; sjá einnig Marion G. Romney, „Home Teaching and Family Home Evening,“ Improvement Era, júní 1969, 97: „Satan óvinur okkar er í allsherjar orrustu gegn réttlæti. Vel stýrðir herflokkar hans eru aragrúi. Börn og okkar og æska eru aðal skotmörk hans. Þau eru allstaðar undir árás illrar og grimmrar áróðursstarfsemi. Hvern sem þau snúa standa þau frammi fyrir illsku, lævíslega hannað til að blekkja og eyða öllu heilögu og öllum réttlátum reglum. … Ef börn okkar eiga að vera nægilega styrk til að standa gegn þessum djöfullegu árásum, verður þeim að vera kennt og þau þjálfuð heima við, eins og Drottinn hefur boðið.“

  15. Sjá Russell M. Nelson, „Children of the Covenant,“ Ensign, maí 1995, 32:

    „Fyrir mörgum árum, þegar ég starfaði sem læknanemi, sá ég marga sjúklinga þjást af sjúkdómum sem nú má koma í veg fyrir. Í dag er hægt að bólusetja einstaklinga gegn sjúkdómum sem áður ullu fötlun – jafnvel dauða. Ein læknisfræðileg aðferð sem stuðlar að ónæmi er bólusetning. Hugtakið inoculate [bólusetja] er heillandi. Það kemur af tveimur latneskum rótum: in, sem þýðir ‚innan‘, og oculus, sem þýðir ‚auga.‘ Sögnin to inoculate [að bólusetja], þýðir þar af leiðandi ‚að segja auga inn í‘ – eða fylgjast með gegn skaða.

    Sjúkdómur eins og mænusótt getur valdið fötlun eða eyðilagt líkamann. Sjúkdómur eins og synd getur valdið fötlun eða eyðilagt andann. Nú er hægt að koma í veg fyrir eyðileggingu mænusóttar með bólusetningu, en eyðilegging syndar kallar á annars konar forvarnir. Læknar geta ekki bólusett gegn ranglæti. Andleg vörn kemur einungis frá Drottni – á hans hátt. Jesús velur að bólusetja ekki – heldur að innræta. Aðferðir hans nota ekki bóluefni, heldur kennslu guðlegrar kenningar – stýrandi ,auga hið innra‘ – til verndar eilífum öndum barna hans.

  16. 2. Nefí 6:3.

  17. Alma 39:16.

  18. 2. Nefí 10:23.

  19. HDP Móse 6:59; skáletrað hér.

  20. 2 Nefí 31:20.