Aðalráðstefna
Blessum í hans nafni
Aðalráðstefna apríl 2021


Blessum í hans nafni

Tilgangur þess að meðtaka prestdæmið er að leyfa okkur að blessa fólk fyrir Drottin og gera það í hans nafni.

Kæru bræður mínir, samþjónar í prestdæmi Guðs, það er heiður fyrir mig að tala til ykkar í kvöld. Þið eigið mína dýpstu virðingu og þakklæti. Þegar ég ræði við ykkur og heyri um hina miklu trú ykkar, er það trú mín að það sé síaukinn prestdæmiskraftur í heiminum, með sífellt sterkari sveitum og trúfastari prestdæmishöfum.

Þessa stuttu stund sem ég hef með ykkur í kvöld langar mig að ræða við þá ykkar sem viljið vera enn árangursríkari í persónulegri prestdæmisþjónustu ykkar. Þið kannist við það að eiga að efla köllun ykkar í þjónustu.1 Þig gætuð hins vegar velt því fyrir ykkur hvað það þýðir fyrir ykkur að efla köllun ykkar.

Ég ætla að byrja á nýjustu djáknunum, því að það er líklegast að þeir séu óvissir með það hver merking þess gæti verið að efla prestdæmisþjónustuna. Nýlega vígðir öldungar gætu líka viljað leggja við hlustir. Biskup sem er að stíga sín fyrstu skref í þjónustunni gæti líka haft áhuga.

Það er lærdómsríkt fyrir mig að horfa til baka á fyrstu daga mína sem djákni. Ég vildi óska þess að einhver hefði sagt mér það þá sem ég ætla að leggja til núna. Það má vera að það hefði hjálpað í öllum prestdæmisverkefnum sem ég hef fengið frá þeim tíma – jafnvel í þeim sem ég hlýt enn þann dag í dag.

Ég var vígður djákni í svo lítilli grein að ég var eini djákninn og bróðir minn Ted var eini kennarinn. Við vorum eina fjölskyldan í greininni. Öll greinin kom saman heima hjá okkur. Prestdæmisleiðtogi okkar bræðranna var nýr meðlimur sem hafði nýverið hlotið prestdæmið sjálfur. Ég held að eina prestdæmisskylda mín þá hafi verið að bera út sakramentið í borðstofunni heima hjá mér.

Þegar fjölskylda mín flutti til Utah, var ég kominn í stóra deild með mörgum djáknum. Á fyrstu sakramentissamkomunni horfði ég á djáknana – heilan herflokk að mér fannst –ganga um af nákvæmni er þeir báru út sakramentið, eins og vel þjálfað lið.

Ég var svo hræddur að næsta sunnudag fór ég snemma í samkomuhúsið til að vera einn með sjálfum mér þar sem enginn gat séð mig. Ég man að þetta var Yalecrest deildin í Salt Lake City og að það var stytta á lóðinni. Ég fór á bak við styttuna og bað heitt um að vita hvernig ég gæti forðast mistök er ég færi á minn stað til að bera út sakramentið. Bæn minni var svarað.

Ég veit það nú að það eru betri leiðir til að biðja og hugsa er við reynum að vaxa í prestdæmisþjónustu okkar. Ég hef öðlast skilning á því hvers vegna einstaklingum er veitt prestdæmið. Tilgangur þess að meðtaka prestdæmið er að leyfa okkur að blessa fólk fyrir Drottin og gera það í hans nafni.2

Það var mörgum árum eftir að ég var vígður sem djákni að ég lærði hvað það þýddi raunverulega. Til dæmis fékk ég hlutverk, sem háprestur, að heimsækja sakramentissamkomu á hjúkrunarheimili. Ég var beðinn um að bera út sakramentið. Í staðinn fyrir að hugsa um ferlið eða nákvæmnina í því hvernig ég bæri út sakramentið, horfði ég framan í hvern og einn eldriborgarann. Ég sá marga þeirra gráta. Ein kona greip í ermi mína, horfði upp og sagði upphátt: „Þakka þér fyrir, þakka þér fyrir.“

Drottinn hafði blessað þjónustu mína í hans nafni. Þann dag hafði ég beðið fyrir slíku kraftaverki, í stað þess að biðja um að ég myndi sinna hlutverki mínu vel. Ég bað þess að fólkið myndi skynja elsku Drottins í gegnum kærleiksríka þjónustu mína. Ég hef lært að það er lykillinn að þjónustu og því að blessa aðra í hans nafni.

Ég heyrði nýverið af reynslu sem minnti mig á slíkan kærleika. Þegar öllum kirkjusamkomum var aflýst vegna Kóvíd–19 heimsfaraldursins, þáði þjónandi bróðir það verkefni frá öldungarsveitaforseta sínum að blessa og bera út sakramentið fyrir systur sem hann þjónaði. Þegar hann hringdi í hana til að bjóða henni að koma með sakramentið þáði hún það hikandi, mjög treg að draga hann út af heimil sínu á svo hættulegum tímum og taldi einnig að fljótlega yrði ástandið aftur eðlilegt.

Þegar hann kom heim til hennar þennan sunnudagsmorgun, bað hún hann bónar. Gætu þau gengið út í næsta hús og líka boðið 87 ára gömlum nágranna hennar sakramentið? Með leyfi biskupsins samþykkti hann það.

Í margar, margar vikur og með því að passa upp á félagslega fjarlægð og aðra öryggisþætti, hittist þessi litli hópur heilagra á hverjum sunnudegi í einfaldri sakramentisþjónustu. Einungis voru nokkrir brauðmolar brotnir og bollar af vatni – en mörg tár voru felld fyrir góðvild kærleiksríks Guðs.

Eftir ákveðinn tíma gátu hinn þjónandi bróðir, fjölskylda hans og systirin sem hann þjónaði, farið aftur til kirkju. Hin 87 ára gamla ekkja, nágranninn, varð að vera áfram heima vegna aukinna varúðarráðstafanna. Hinn þjónandi bróðir – minnugur um verkefni sitt gagnvart nágranna hennar, en ekki þessari öldruðu systur – heldur enn áfram að koma hljóðlega heim til hennar á hverjum sunnudegi, með ritningarnar og örlítinn brauðmola í hendi, til að veita henni sakramenti síðustu kvöldmáltíðar Drottins.

Prestdæmisþjónusta hans er veitt af kærleika, á sama hátt og mín var í hjúkrunarheimilinu um árið. Í raun spurði þessi þjónandi bróðir, biskup sinn að því hvort það væru fleiri sem hann gæti annast. Þrá hans til að efla prestdæmisþjónustu sína hafði vaxið er hann þjónaði í Drottins nafni og svo til einungis í vitneskju Drottins. Ég veit ekki hvort hinn þjónandi bróðir hafi beðið eins og ég gerði, fyrir því að þeir sem hann þjónaði myndu finna elsku Drottins, en vegna þess að þjónusta hans hefur verið í nafni Drottins, hefur niðurstaðan verið sú sama.

Hin sami dásamlegi árangur verður þegar ég bið þessa áður en ég veiti einhverjum prestdæmisblessun, hvort heldur í veikindum eða þörf. Það gerðist eitt sinn á sjúkrahúsi þegar óþolinmóður læknir hvatti mig – meira en hvatti mig – skipaði mér – að flýta mér og fara svo frá svo þeir gætu unnið vinnu sína, frekar en að gefa mér tækifæri til að veita prestdæmisblessunina. Ég var kyrr og veitt blessunina. Litla stúlkan sem ég blessaði þennan dag, sem læknarnir höfðu haldið að myndi deyja, lifði. Ég er þakklátur í dag að þann daginn lét ég ekki mínar eigin tilfinningar þvælast fyrir mér heldur fann að Drottinn vildi að litla stúlkan fengi blessun. Ég vissi hver blessunin væri. Ég veitti henni lækningarblessun. Hún læknaðist.

Þetta hefur oft gerst er ég hef veitt einhverjum blessun sem virðist við dauðans dyr, með fjölskyldumeðlimi umhverfis rúmið, vonandi eftir læknandi blessun. Jafnvel þó að ég hafi bara eitt augnablik, bið ég þess ávallt að vita hvernig blessun Drottinn hefur í huga sem ég get veitt í hans nafni. Ég bið einnig um að vita hvernig hann vilji að ég blessi þennan einstakling og ekki hvað ég eða fólkið umhverfis vill. Reynsla mín er sú að jafnvel þó að blessunin sé ekki sú sem hinir vilja fyrir sig eða ástvini sína, þá snertir andinn hjörtu til að upplifa sátt og huggun, frekar en vonbrigði.

Sami innblástur kemur þegar patríarki fastar og biður um leiðsögn til að gefa þá blessun sem Drottinn óskar einhverjum. Enn og aftur þá hef ég heyrt blessanir sem hafa komið mér á óvart og einnig þeim sem meðtekur blessunina. Það var greinilegt að blessunin kom frá Drottni – bæði eru viðvaranir hennar og loforðin gefin í hans nafni. Drottinn svaraði bæn og föstu patríarkans.

Sem biskup, lærði ég að á meðan á verðugleikaviðtali stóð að biðja um að Drottinn gæfi mér tilfinningu um það sem hann vildi til handa þeirri persónu. Það er erfitt ef Drottinn vill blessa einhvern með leiðréttingu, í kærleika. Það tekur á að greina hvað það er sem Drottinn vill, frá því sem þið viljið og persónan kann að vilja.

Ég trúi því að við getum eflt prestdæmisþjónustu okkar allt okkar líf og jafnvel fram yfir það. Það fer eftir elju okkar við að reyna að þekkja vilja Drottins og viðleitni okkar í að heyra rödd hans, svo að við getum betur vitað hvað hann vill fyrir þann einstakling sem við erum að þjóna í hans nafni. Eflingin mun koma í smáum skrefum. Hún kann að hljótast smám saman, en það mun gerast. Drottinn lofar okkur þessu:

„Því að hver sá, sem af staðfestu hlýtur þessi tvö prestdæmi, sem ég hef talað um, og eflir köllun sína, er helgaður af andanum til endurnýjunar líkama sínum.

Þeir verða synir Móse og Arons og niðjar Abrahams, og kirkjan og ríkið og hinir kjörnu Guðs.

Og einnig allir þeir, sem taka á móti þessu prestdæmi, taka á móti mér, segir Drottinn.“3

Það er vitnisburður minn að lyklar prestdæmisins voru endurreistir spámanninum Joseph Smith. Þjónar Drottins birtust af himnum til að endurreisa prestdæmið fyrir þá miklu atburði sem hafa þegar gerst og sem enn eru ókomnir. Ísrael mun safnað saman. Fólk Drottins mun vera undirbúið fyrir dýrðlega síðari komu hans. Endurreisnin mun halda áfram. Drottinn mun opinbera spámönnum sínum og þjónum vilja sinn enn frekar.

Ykkur gæti fundist þið smávægileg í samanburði við það mikla verk sem Drottinn mun framkvæma. Ef ykkur finnst það, þá býð ég ykkur að biðja einlæglega um að vita hvernig Drottinn sér ykkur. Hann þekkir ykkur persónulega, hann veitti ykkur prestdæmið og það skiptir hann máli að þið rísið upp og eflið prestdæmi ykkar, því hann elskar ykkur og treystir ykkur til að blessa fólk sem hann ann, í hans nafni.

Ég blessa ykkur nú með að geta skynjað elsku hans og traust, í nafni Drottins Jesú Krists, amen.