Aðalráðstefna
Hryggð okkar mun snúast í fögnuð
Aðalráðstefna apríl 2021


Hryggð okkar mun snúast í fögnuð

Ég býð öllum sem syrgja, öllum sem spyrja sig hvað gerist eftir dauðann, að leggja trú sína á Krist.

Fyrir nokkrum árum, þegar ég sótti fundi í Salt Lake City, var mér heilsað af okkar ástkæra spámanni, Russell M. Nelson. Á sinn einlæga og persónulega hátt spurði hann: „Mark, hvernig heilsast móður þinni?“

Ég sagði honum að ég hefði verið hjá henni fyrr í vikunni, á heimili hennar í Nýja-Sjálandi og að hún væri að eldast, en væri full trúar og öllum innblástur sem hana þekktu.

Hann sagði svo: „Skilaðu kærri kveðju til hennar … og segðu henni að ég hlakki til að sjá hana aftur.“

Ég var hissa og spurði: „Stefnir þú að því að ferðast til Nýja-Sjálands á næstunni?“

Hann svaraði á einlægan hátt: „Ó nei, ég mun hitta hana í næsta lífi.“

Það var ekkert léttúðugt við svar hans. Það var fullkomlega eðlileg framsetning staðreyndar. Á þessu nána, einlæga augnabliki, heyrði ég og fann hreinan vitnisburð lifandi spámanns um að lífið heldur áfram eftir dauðann.

Þessa ráðstefnuhelgi hlýðið þið á lifandi postula og spámenn vitna um upprisu Jesú Krists. „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins[;] … allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við [þennan sannleika].“1 Ég lofa að þegar þið hlustið af hjartans einlægni, mun andinn staðfesta sannleiksgildi þessara vitnisburða í huga ykkar og hjarta.2

Postular Jesú til forna breyttust varanlega, eftir að hann birtist þeim eftir dauða sinn. Tíu þeirra sáu með eigin augum að hann hafi risið upp. Tómas, sem hafði verið fjarverandi sagði: „Sjái ég ekki … mun ég alls ekki trúa.“3 Jesús áminnti Tómas síðar: „Vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“4 Drottinn kenndi þeim síðan mikilvægi trúar: „Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“5

Hinn upprisni Drottinn fól postulum sínum þá ábyrgð að vitna um hann. Líkt og okkar núlifandi postular, sögðu þeir skilið við veraldleg viðfangsefni og vörðu því sem eftir var ævinnar við að lýsa djarflega yfir að Guð hefði reist upp Jesú. Máttugur vitnisburður þeirra leiddi til þúsunda sem tóku boðinu um að skírast.6

Dásamlegur boðskapur páskamorguns er þungamiðja kristninnar. Jesús Kristur er risinn upp frá dauðum og vegna þess munum við einnig lifa eftir dauðann. Þessi vitneskja veitir lífi okkar merkingu og tilgang. Ef við sækjum fram í trú munum við taka varanlegum breytingum, eins og postularnir til forna. Við, eins og þeir, fáum staðist hvers kyns erfiðleika, með trú á Jesú Krist. Trúin veitir okkur einnig von um tíma þar sem „hryggð [okkar] mun snúast í fögnuð.“7

Trú mín kviknaði í kjölfar sorgartíma.

Faðir minn og móðir voru fjárbændur á Nýja-Sjálandi.8 Þau nutu lífsins. Sem ung hjón, voru þau blessuð með þremur dætrum. Yngst þeirra var Ann. Dag nokkurn, þegar þau vörðu fríi sínu við stöðuvatn nokkurt, vappaði hin 17 mánaða Ann í burtu. Eftir að hafa leitað örvæntingarfull í nokkrar mínútur, fannst hún lífvana í vatninu.

Þessi martröð olli ólýsanlegri sorg. Faðir minn skrifaði mörgum árum síðar að varanlega hefði dregið úr lífsgleði þeirra. Þetta olli líka þrá til að fá svör við mikilvægustu spurningum lífsins: Hvað verður um dýrmætu Ann okkar? Hittum við hana nokkurn tíma aftur? Hvernig getur fjölskyldan verið hamingjusöm á ný?

Nokkrum árum eftir þennan harmleik, komu tveir ungir trúboðar frá Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á býlið til okkar. Þeir hófu að kenna um sannleikann sem Mormónsbók og Biblían höfðu að geyma. Þessi sannindi innihéldu loforð um að Ann lifði í andaheiminum. Vegna upprisu Jesú Krists, yrði hún líka reist upp. Þeir kenndu að kirkja Jesú Krists hefði aftur verið endurreist á jörðinni, með lifandi spámanni og tólf postulum. Þeir kenndu þá einstöku og markverðu kenningu að fjölskyldur gætu verið bundnar eilíflega saman með sama prestdæmisvaldi sem Jesús Kristur veitti Pétri, fremsta postula sínum.9

Móðir mín bar strax kennsl á sannleikann og hlaut vitni frá andanum. Faðir minn háði baráttu næsta árið, milli efa og andlegrar hvatningar. Hann var líka tregur til að breyta lífsstíl sínum. Einn morguninn, eftir andvökunótt, gekk hann um gólf, sneri sér að móður minni og sagði: „Ég læt skírast í dag eða aldrei.“

Móðir mín sagði trúboðunum frá því sem hafði gerst og þeir sáu strax trúarneista í föður mínum, sem yrði annaðhvort að báli eða slokknaði.

Þennan morguninn ferðaðist fjölskyldan að næstu strönd. Án þess að vita hvað stæði til, sátum við, börnin, í sandinum og borðuðum nesti þegar öldungar Boyd Green og Gary Sheffield leiddu foreldra mína út í sjó og skírðu þau. Í annarri trúarbreytni skuldbatt faðir minn sig Drottni í einrúmi að halda ávallt þau loforð sem hann hafði gefið, hvað sem á gengi.

Einu ári síðar var Hamilton-musterið á Nýja-Sjálandi vígt. Stuttu síðar kraup fjölskylda okkar, með staðgengil fyrir Ann, umhverfis altarið í hinu helga húsi Drottins. Með valdi prestdæmisins vorum við sameinuð sem eilíf fjölskylda í einfaldri og fallegri athöfn. Þetta vakti mikinn frið og hamingju.

Fyrir mörgum árum sagði faðir minn mér, að ef ekki væri fyrir hörmulegan dauða Ann, hefði hann aldrei orðið nógu auðmjúkur til að taka við hinu endurreista fagnaðarerindi. Andi Drottins veitti smám saman von um að það sem trúboðarnir kenndu væri satt. Trú foreldra minna óx áfram, þangað til hún varð að kraftmiklum vitnisburði sem leiðbeindi þeim hljótt og auðmjúklega í hverri ákvörðun lífs þeirra.

Ég verð ávallt þakklátur fyrir fordæmi foreldra minna til komandi kynslóða. Ógerlegt er að vita hve mörg líf hafa tekið varanlegum breytingum vegna trúarbreytni þeirra, sem hlaust af gífurlegri sorg.

Ég býð öllum sem syrgja, sem berjast við efa, sem spyrja sig hvað gerist eftir dauðann, að trúa á Krist. Ég lofa að ef þið þráið að trúa, breytið í trú og fylgið lágværri rödd andans, munuð þið finna gleði í lífinu og í næsta heimi.

Ég hlakka mikið til dagsins þegar ég hitti systur mína, Ann. Ég hlakka til gleðiríkra endurfunda við föður minn, sem lést fyrir meira en 30 árum. Ég vitna um gleðina sem felst í trúarlífi, að trúa án þess að sjá, en vita fyrir kraft heilags anda að Jesús Kristur lifir. Af öllu hjarta og sálu, kýs ég að fylgja Jesú Kristi og endurreistu fagnaðarerindi hans. Það blessar alla þætti lífs míns. Ég veit að Jesús er Kristur, sonur Guðs, frelsari okkar og lausnari. Í nafni Jesú Krists, amen.