Aðalráðstefna
Ekki eins og heimurinn gefur
Aðalráðstefna apríl 2021


Ekki eins og heimurinn gefur

Lausnirnar sem við höfum til að vinna að bjartari tíð og efla hagkerfi raunverulegs góðæris, finnast í ríkum mæli í fagnaðarerindi Jesú Krists.

Fyrir fyrstu páskana, þegar Jesús lauk hinni nýju helgiathöfn sakramentis sem hann hafði veitt hinum Tólf, hóf hann sín tignarlegu kveðjuorð og hélt í átt að Getsemane, svikum og krossfestingu. Hann skynjaði þó áhyggjur og ef til vill einskæran ótta sem sumir þessara manna hljóta að hafa upplifað, og sagði við þá (og til okkar allra):

„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. …

Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. …

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“1

Krefjandi tímar koma í þessum jarðneska heimi, þar á meðal hjá hinum trúuðu, en hinn hughreystandi boðskapur Krists er að þótt hann, páskalambið, færi eins og „sauður [til þeirra] er rýja hann“2 myndi hann rísa og alltaf verða, eins og höfundur Sálmanna sagði: „Hæli [okkar] og styrkur, örugg hjálp í nauðum.“3

Þegar við áttum okkur á hversu erfiðar stundirnar voru sem biðu Krists, með krossinn framundan, og fyrir lærisveina hans, sem á hádegisbaugi tímans myndu færa heiminum fagnaðarerindi hans, farið þá með mér nú í tengdan boðakap fyrir meðlimi kirkju frelsarans á síðari dögum. Hann er að finna í miklum fjölda versa í Mormónsbók, sem fjalla um átök af einu eða öðru tagi, allt frá eilíflega ergjandi hegðun Lamans og Lemúels að lokabardaga með hundruðum þúsunda hermanna. Ein augljósasta ástæðan fyrir slíka áherslu er sú, að þótt Mormónsbók hafi verið rituð fyrir síðari daga lesendur, þá vara þessir höfundar (sem sjálfir upplifðu mikla stríðstíma) okkur spámannlega við því að ofbeldi og átök muni verða einkennandi fyrir sambönd á síðustu dögum.

Auðvitað er kenning mín um síðari daga erjur ekki mjög frumleg. Fyrir næstum 2000 árum varaði frelsarinn við því að á síðustu dögum myndu menn „spyrja hernað og ófriðartíðindi“4 og sagði síðar að „friður [yrði] burtu tekinn af jörðu.“5 Þessi Friðarhöfðingi, sem kenndi eindregið að erjur væru af djöflinum,6 hlýtur að gráta, ásamt hinum guðdómlega föður sínum, yfir þeim í fjölskyldu mannkyns á okkar tíma sem eru „án ástúðar“ og geta ekki fundið út hvernig lifa á saman í kærleika.7

Bræður og systur, við sjáum miklar erjur, átök og almenna óháttvísi umhverfis. Sem betur fer hefur núverandi kynslóð ekki þurft að há þriðju heimsstyrjöldina eða upplifað efnahagslegt hrun eins og varð árið 1929, sem leiddi til Kreppunnar miklu. Við stöndum þó frammi fyrir einskonar þriðju heimsstyrjöld, sem ekki snýst um að brjóta óvini á bak aftur, heldur herkvaðningu barna Guðs til að sýna hvert öðru meiri umhyggju og hjálpa við að græða sár í svo hrjáðum heimi. Sú mikla kreppa sem við nú stöndum frammi fyrir, snýst minna um skort á sparifé og meira um skort á innra sjálfstrausti, þar sem skortur er á trú, von og kærleika hvarvetna umhverfis. Lausnirnar sem við höfum til að vinna að bjartari tíð og efla hagkerfi raunverulegs góðæris í samfélagi, finnast í ríkum mæli í fagnaðarerindi Jesú Krists. Við höfum ekki efni á því – heimurinn hefur ekki efni á því – að láta bregðast að taka þessi trúarhugtök og styrkjandi sáttmála til fullrar persónulegrar og almennrar notkunar.

Hvernig finnum við það sem Jehóva sagði vera „[hagsæld mikla] í „[aumum, hröktum heimi], sem enga huggun hlýtur“? Við finnum hana með því að snúa okkur til hans sem „af ævarandi gæsku“ sagðist miskunna okkur og veita börnum okkar frið.8 Svo þrátt fyrir ógnvekjandi spádóma og óþægilegar ritningar, sem lýsa yfir að friður verði almennt tekinn af jörðu, hafa spámennirnir, þar á meðal okkar ástkæri Russell M. Nelson, kennt að ekki þurfi að taka hann frá okkur persónulega!9 Á þessum páskum skulum við reyna að iðka persónulegan frið, nýta okkur náð og græðandi smyrsl friðþægingar Drottins Jesú Krsts á okkur sjálf og fjölskyldu okkar og þá sem við náum til umhverfis. Sem betur fer, jafnvel svo undrun sætir, er þetta græðandi smyrsl til staðar fyrir okkur „án silfurs og endurgjaldslaust.“10

Slík hjálp og von er afar brýn, vegna þess að í þessum heimssöfnuði í dag eru margir sem glíma við ýmis konar áskoranir – líkamlegar eða tilfinningalegar, félagslegar eða fjárhagslegar eða tugi annarra vandamála. Mörg okkar eru þó ekki nógu sterk til að takast á við þetta einsömul, því liðsinnið og friðurinn sem við þurfum er ekki eins og „heimurinn gefur.“11 Nei, fyrir hin afar erfiðu vandamál þurfum við það sem ritningarnar kalla „kraft himins“ og til að fá aðgang að þessum krafti verðum við að lifa eftir því sem þessar sömu ritningar kalla „reglur réttlætisins.“12 Að skilja sambandið á milli reglu og máttar, er lexía sem mannkyn virðist aldrei geta lært, segir Guð himins og jarðar!13

Hvaða reglur eru það? Þær hafa jú verið þuldar ítrekað í ritningunum, þær eru kenndar aftur og aftur á ráðstefnum sem þessari og í okkar ráðstöfun voru þær kenndar spámanninum Joseph Smith sem svar við hans eigin útgáfu hrópsins: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“14 Í kaldri og kærleikslausri innilokun í Liberty fangelsinu var honum kennt að reglur réttlætis feli í sér dyggðir eins og þolinmæði, langlundargeð, mildi og fölskvalausa ást.15 Séu þessar reglur ekki til staðar, er víst að við munum að lokum standa frammi fyrir ágreiningi og átökum.

Í því sambandi, tala ég andartak opinskátt um fjarveru þessara réttlætisreglna að nokkru á okkar tíma. Venjulega er ég bjartsýnn og glaðlegur að upplagi, og það er svo margt sem er gott og fallegt í heimi okkar. Við njótum fleiri efnislegra blessana en nokkur kynslóð í sögunni, en almennt í menningu 21. aldar og of oft í kirkjunni, sjáum við þó enn líf í vanda, þar sem málamiðlanir hafa leitt til of margra brotinna sáttmála og of margra brostinna hjartna. Hugsið ykkur hið grófa tungumál sem fer samhliða kynferðisbrotum, sem hvorttveggja er svo ríkjandi í kvikmyndum eða sjónvarpi, eða þá kynferðislegu áreitni og aðra ósiðsemi á vinnustöðum, sem við lesum svo mikið um þessa dagana. Hvað sáttmálshreinleika varðar, þá er hið helga of oft gert venjulegt og hið heilaga of oft vanhelgað. Ég segi við hvern þann sem freistast til að ganga eða tala eða haga sér á þennan hátt – „eins og heimurinn gefur,“ ef svo mætti að orði komast – ekki búast við að það leiði til friðsællrar reynslu; ég lofa ykkur í nafni Drottins að það mun ekki gerast, því „aldrei hefur hamingjan falist í ranglæti,“16 sagði forn spámaður eitt sinn. Þegar dansinum er lokið, verður alltaf að greiða flautuleikaranum og oftast er það með tárum og eftirsjá.17

Ef til vill sjáum við annars konar misnotkun eða smán. Hve sérstaklega varkár við verðum að vera sem lærisveinar Drottins Jesú Krists að gefa okkur ekki að slíku atferli. Við megum aldrei gerast sek um einhvers konar misnotkun eða ranglát yfirráð eða siðlausa harðstjórn – líkamlega eða tilfinningalega eða kirkjulega eða af einhverju öðru tagi. Ég man eftir að hafa hrifist af eldmóði Gordons B. Hinckley forseta fyrir nokkrum árum þegar hann talaði til karlmanna kirkjunnar varðandi þá sem hann kallaði „harðstjóra heima hjá sér“:18

„Það fyrirbæri að misþyrma konu er hörmulegt og algjörlega ógeðfellt,“ sagði hann. „Sérhver karlmaður í þessari kirkju sem misþyrmir eiginkonu sinni, sem misbýður henni, sem smánar hana, sem beitir hana ranglátum yfirráðum, er ekki verðugur þess að hafa prestdæmið. [Hann] er ekki verðugur þess að hafa musterismeðmæli.“19 Hann sagði misnotkun barns jafn viðurstyggilega – eða nokkra aðra misnotkun.20

Of oft og öðruvísi geta trúfastir karlar, konur og jafnvel börn gerst sek um að tala óvingjarnlega, jafnvel niðurrífandi, við þá sem þau jafnvel eru innsigluð með helgiathöfnum í musteri Drottins. Allir hafa rétt á að vera elskaðir og finna frið og öryggi heima hjá sér. Megum við vinsamlega reyna að viðhalda því andrúmslofti þar. Fyrirheit þess að vera friðflytjandi er að þið munið hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut og blessanir munu berast ykkur „án þvingana,“ að eilífu.21 Enginn getur beitt beittri tungu eða óvinsamlegum orðum og jafnframt „[sungið] söng hinnar endurleysandi elsku.“22

Ég lýk þar sem ég byrjaði. Á morgun eru páskar, tími fyrir hinar réttlátu reglur fagnaðarerindis Jesú Krists og friðþægingar hans, til að fara „fram hjá“ erjum og átökum, örvæntingu og misgjörð og að lokum fram hjá dauða. Það er tími til að heita algerri hollustu, í orði og verki, við lamb Guðs, sem „[bar] vorar þjáningar … vor harmkvæli,“23 af staðfestu við að fullgera hjálpræði fyrir okkur.

Þrátt fyrir svik og sársauka, misþyrmingu og grimmd, meðan hann bar uppsafnaðar syndir alls mannkyns, leit sonur lifandi Guðs niður á hinn langa veg jarðlífsins, sá okkur þessa helgi og sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“24 Eigið blessaða, gleðilega og friðsæla páska. Hinir ólýsanlegu möguleikar þeirra hafa þegar verið greiddir af Friðarhöfðingjanum, sem ég elska af öllu hjarta, hvers kirkja þetta er, og ég ber vitni um, í hans nafni, já, Drottins Jesú Krists, amen.