Aðalráðstefna
Gröfin sigrar ekki
Aðalráðstefna apríl 2021


Gröfin sigrar ekki

Brostin hjörtu geta læknast, þjáningar orðið að friði og ógæfa að von fyrir atbeina endurleysandi friðþægingar og dýrðlegrar upprisu Jesú Krists.

Á þessum dýrðlega páskasunnudegi syngja börn okkar full gleði: „Vordag fagran frelsarinn fullan sigur hlaut og tæmdi grafar dómsins djúp og dauðans hlekki braut.“1

Við erum þakklát fyrir þekkingu okkar á upprisu Jesú Krists. Einhvern tíma á lífsleiðinni munum við samt hafa verið í hjartasorg vegna ástvinamissis. Í gegnum yfirstandandi heimsfaraldur hafa mörg okkar misst ástvini – annað hvort fjölskyldumeðlimi eða vini.2 Við biðjum fyrir þeim sem syrgja slíkan missi.

Russell M. Nelson forseti hefur sagt:

„Sama hver aldurinn er þá syrgjum við ástvinamissi. Sorgin er ein innilegasta tjáning hreinnar ástar. …

Ennfremur munum við ekki fyllilega kunna að meta gleðilega endurfundi án átakanlegs aðskilnaðar. Eina leiðin til þess að aðskilja sorgina frá dauðanum er að aðskilja ástina frá lífinu.“3

Ljósmynd
Kvenlærisveinar syrgja Jesú

Við getum ímyndað okkur hvernig vinum Jesú leið sem höfðu fylgt honum og þjónað,4 er þeir urðu vitni að dauða hans.5 Við vitum að „þeir hörmuðu nú og grétu.“6 Á degi krossfestingarinnar hljóta þeir að hafa verið aðframkomnir af sorg, ekki vitandi hvað myndi gerast á sunnudeginum, hugleiðandi hvernig þeir myndu halda áfram án Drottins síns. Þrátt fyrir það héldu þeir áfram að þjóna honum, jafnvel í dauðanum.

Jósef frá Arímaþeu grátbað Pílatus að fela sér í hendur líkama Jesú. Hann tók líkamann niður, vafði hann í línklæði, lagði hann í sína eigin nýteknu gröf og velti stórum stein fyrir grafarmunnan.7

Nikódemus kom með myrru og alóe. Hann hjálpaði Jósef að taka líkamann niður og vefja hann í línklæðin með jurtunum.8

María Magdalena og aðrar konur fylgdu Jósef og Nikódemusi, sáu hvar þeir lögðu líkama Jesú og höfðu til ilmjurtir og olíur til að smyrja hann með.9 Samkvæmt ströngum reglum þessa dags, biðu þær með frekari undirbúning og að smyrja líkamann því að laugardagur var hvíldardagur.10 Snemma að sunnudagsmorgni fóru þær svo að gröfinni. Eftir að þær gerðu sér grein fyrir að líkami frelsarans var ekki þar, fóru þær til að láta lærisveinana vita, sem voru postular Jesú. Postularnir fóru með þeim að gröfinni og sáu að hún var tóm. Að lokum fóru allir burt nema María Magdalena, óvissir með hvað hefði komið fyrir líkama frelsarans.11

María Magdalena dvaldi einsömul við gröfina. Einungis nokkrum dögum áður hafði hún orðið vitni að hræðilegum dauða vinar síns og meistara. Nú var gröf hans tóm og hún vissi ekki hvar hann var. Það reyndist henni of þungbært og hún grét. Á þeirri stundu kom hinn upprisni frelsari til hennar og spurði hvers vegna hún gréti og hvers hún leitaði. Í þeirri trú að þar færi garðvörðurinn, spurði hún hvort hann hefði tekið líkama Drottins og bað hann að segja sér hvar hann væri svo hún gæti náð í hann.12

Ljósmynd
María Magdalena

Ég get ímyndað mér að Drottinn hafi leyft Maríu Magdalenu að syrgja og tjá þjáningu sína.13 Hann kallaði hana því næst með nafni og hún snéri sér að honum og þekkti hann. Hún sá hinn upprisna Krist og varð vitni að dýrðlegri upprisu hans.14

Eins og þið, get ég á vissan hátt skilið þjáningarnar sem María Magdalena og vinir hennar upplifðu er þeir syrgðu fráfall Drottins þeirra. Þegar ég var níu ára gömul missti ég eldri bróðir minn í hræðilegum jarðskjálfta. Það sem þetta gerðist óvænt, þá tók það mig svolítinn tíma að gera mér grein fyrir raunveruleika þess sem hafði gerst. Ég var niðurbrotin og sorgmædd og átti til að spyrja sjálfa mig: „Hvað kom fyrir bróður minn? Hvar er hann? Hvert fór hann? Mun ég nokkurn tíma sjá hann aftur?

Á þeim tíma vissi ég ekki enn um sáluhjálparáætlun Guðs og ég þráði að vita hvaðan við kæmum, hver tilgangur lífsins væri og hvað yrði um okkur eftir að við dæjum? Upplifum við ekki öll slíka þrá þegar við missum ástvin eða förum í gegnum erfiðleika í lífinu?

Nokkrum árum seinna fór ég að hugsa um bróður minn á ákveðinn hátt. Ég ímyndaði mér að hann bankaði á hurðina hjá okkur. Að ég opnaði dyrnar og hann stæði þar og segði við mig: „Ég er ekki dáinn. Ég er á lífi. Ég gat ekki komið til ykkar en nú mun ég dvelja hjá ykkur um eilífð og fer aldrei aftur.“ Þessi hugsun, líkust draumi, hjálpaði mér að takast á við sársaukann yfir því að missa hann. Hugsunin um að hann myndi vera með mér kom ítrekað upp í huga minn. Sundum starði ég jafnvel á hurðina, í þeirri von að hann myndi banka og ég sæi hann aftur.

Um 40 árum seinna, um páskana, var ég að hugleiða upprisu Jesú Krists og fór að hugsa um bróður minn. Þá var eins og eitthvað smylli í huga mér. Ég minntist þess að hafa hugsað um hann koma til að hitta mig.

Þann dag var mér ljóst að andinn hafði veitt mér huggun á erfiðum tíma. Ég hafði öðlast vitnisburð um að andi bróður míns væri ekki dáinn, hann lifði. Hann er enn að þroskast í eilífri tilvist sinni. Ég veit nú að „bróðir [minn] mun upp rísa“15 á þeirri mikilfenglegu stundu þegar við rísum öll upp, vegna upprisu Jesú Krists. Að auki hefur hann gert okkur öllum kleift að verða sameinuð sem fjölskyldur og njóta eilífrar gleði í návist Guðs, ef við veljum að gera og halda helga sáttmála við hann.

Nelson forseti hefur kennt:

„Dauðinn er nauðsynlegur þáttur í eilífri tilveru okkar. Enginn veit hvenær hann kemur, en hann er nauðsynlegur í hinni miklu sæluáætlun Guðs. Svo er friðþægingu Drottins fyrir að þakka, að væntanleg upprisa er staðreynd og eilíft líf er möguleiki öllu mannkyni. …

… fyrir syrgjandi ástvini sem eftir lifa … er broddur dauðans slævður með staðfastri trú á Krist, fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna og djúpri þrá eftir að þjóna þeim. Sú trú, sú von, sá kærleikur mun gera okkur hæf til að koma inn í heilaga návist Guðs og, ásamt okkar eilífu förunautum og fjölskyldum, dvelja með honum til eilífðar.“16

Ljósmynd
Grafhvelfingin

Ég ber vitni um að „hefði Kristur hvorki risið upp frá dauðum né rofið helsi dauðans, svo að gröfin hrósaði engum sigri og dauðinn hefði engan brodd, gæti engin upprisa hafa átt sér stað.

En upprisan er til, þess vegna hrósar gröfin engum sigri, og Kristur hefur innbyrt brodd dauðans.

Hann er ljós og líf heimsins, já, óendanlegt ljós, sem aldrei getur myrkvast, já, og einnig óendanlegt líf, svo að dauðinn verður aldrei framar til.“17

Ljósmynd
Hinn upprisni frelsari

Jesús mælti sjálfur: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.18

Ég ber vitni um að brostin hjörtu geta læknast, þjáningar orðið að friði og ógæfa að von fyrir atbeina endurleysandi friðþægingar og dýrðlegrar upprisu Jesú Krists. Hann getur umfaðmað okkur öll með örmum miskunnar, huggunar, styrktar og lækningar. Í nafni Jesú Krists, amen.