Aðalráðstefna
Kenna að hætti frelsarans
Aðalráðstefna apríl 2021


Kenna að hætti frelsarans

Ábyrgðin hvílir á sérhverju okkar að fylgja fordæmi meistarans og kenna eins og hann.

Framúrskarandi kennari

Fyrir nokkrum mánuðum, lagði fyrrverandi bekkjarsystir mín frá heimabæ mínum í Overton í Nevada til að við slægjum saman í jólagjöf fyrir kæran leikskólakennara okkar, sem nýlega átti 98 ára afmæli. Hún kenndi okkur vingjarnleika, mikilvægi góðs blundar, að meta mjólk og þurrkex og elska hvert annað. Þakka þér, systir Davis, fyrir að vera svo yndislegur kennari.

Ljósmynd
Systir Davis

Ég hafði annan framúrskarandi kennara þegar ég var í Ricks College fyrir mörgum árum. Ég var að búa mig undir trúboð og taldi gagnlegt að mæta á undirbúningsnámskeið trúboða. Það sem ég upplifði breytti lífi mínu.

Frá fyrsta kennsludegi áttaði ég mig á því að ég var í návist meistarakennara. Kennarinn var bróðir F. Melvin Hammond. Ég vissi að bróðir Hammond elskaði Drottin og mig sjálfan. Ég gat séð það og heyrt á andliti hans og rödd. Þegar hann kenndi, upplýsti andinn huga minn. Hann kenndi kenningar en bauð mér líka að læra þær sjálfur. Þetta boð hjálpaði mér að skilja vel þá ábyrgð mína að læra kenningu Drottins sjálfur. Sú reynsla breytti mér að eilífu. Þakka þér, bróðir Hammond, fyrir að kenna að hætti frelsarans.

Bræður og systur, allir eiga skilið að upplifa slíka kennslu, bæði heima og í kirkju.

Í inngangi Kom, fylg mér er sýnt hverju hægt er að áorka með kristilegri kennslu. „Markmið alls trúarnáms og kennslu,“ segir þar, „er að auka trúarlegan viðsnúning okkar til Jesú Krists og hjálpa okkur að verða líkari honum.… Að læra fagnaðarerindið á þann hátt að það styrki trú okkar og leiði til mikillar trúarumbreytingar, gerist ekki í einni svipan. Það er gert með því að ná til hjarta og heimilis einstaklinga utan kennslustofunnar.“1

Í ritningunum segir að þjónusta frelsarans í Ameríku til forna hafi verið svo áhrifarík og víðtæk að „allir [höfðu] snúið til Drottins um gjörvallt landið, bæði Nefítar og Lamanítar, og engar deilur né óeining var meðal þeirra, heldur breyttu allir réttlátlega hverjir við aðra.“2

Hvernig getur kennsla okkar haft álíka áhrif á þá sem við elskum? Hvernig getum við kennt meira eins og frelsarinn og hjálpað öðrum til aukinnar trúar? Ég ætla að leggja til nokkrar ábendingar.

Líkið eftir frelsaranum

Leggið fyrst og fremst á ykkur að læra allt sem þið getið um meistarakennarann sjálfan. Hvernig sýndi hann öðrum elsku? Hvað upplifðu þeir er hann kenndi? Hvað kenndi hann? Hvers vænti hann af þeim sem hann kenndi? Eftir íhugun spurninga sem þessara, leggið þá mat á og aðlagið kennsluhætti ykkar meira að hans.

Kirkjan sér okkur fyrir fjölda kennsluúrræða í smáforritinu Gospel Library og á ChurchogJesusChrist.org. Eitt slíkt úrræði heitir Kenna að hætti frelsarans. Ég býð ykkur að lesa og læra þar hvert orð. Reglurnar þar hjálpa ykkur í þeirri viðleitni að verða kristilegri í kennslu ykkar.

Leysa kraft fjölskyldu úr læðingi

Skilgreina mætti næstu ábendingu mína með reynslu sem ég hlaut fyrir nokkrum mánuðum þegar ég kom við hjá kærum vini. Ég heyrði eiginkonu hans tala við einhvern í bakgrunni og afsakaði mig fljótt svo hann gæti farið aftur til fjölskyldu sinnar.

Um klukkustund síðar bárust mér þessi textaskilaboð frá ljúfri eiginkonu hans: „Bróðir Newman, takk fyrir að koma til okkar. Við hefðum átt að bjóða þér inn fyrir, en ég ætla að segja þér hvað við vorum að gera. Allt frá heimsfaraldrinum höfum við verið að ræða Kom, fylg mér við fullorðin börn okkar alla sunnudaga í Zoom. Það hefur í raun gert kraftaverk. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem dóttir okkar les Mormónsbók á eigin spýtur. Í dag var síðasta lexían í Mormónsbók og við vorum rétt að ljúka þegar þú komst. … Ég hélt að þú hefðir áhuga á að vita hvernig Kom, fylg mér, Zoom og heimsfaraldurinn hafa veitt tækifæri til hjartans breytingar á réttum tíma. Þetta fær mig til að hugsa hversu mörg lítil kraftaverk hafa gerst á þessum skrítna tíma. “

Þetta hljómar fyrir mér eins og uppfylling loforðsins, sem Russell M. Nelson forseti gaf í október 2018. Hann sagði heimilismiðað, kirkjustyrkt trúarnám hafa „þann möguleika að leysa kraft fjölskyldu úr læðingi, er hver fjölskylda fylgir því eftir samviskusamlega og vandlega að breyta heimilum sínum í griðarstað trúar. Ég lofa að er þið vinnið samviskusamlega að því að gera heimili ykkar að miðstöð trúarnáms, þá munu helgidagar ykkar smám saman verða ljúfir. Börn ykkar munu hlakka til að læra og lifa eftir kenningum frelsarans. … Breytingar á fjölskyldu ykkar verða afgerandi og varanlegar.“3 Hve yndislegt loforð!

Svo raunveruleg lífsbreyting verði, þá þarf trú á Jesú Krist að gegnsýra alla sál okkar og alla þætti lífs okkar. Hún þarf því að taka mið af þungamiðju lífs okkar – fjölskyldu okkar og heimili.

Munið að trúarlegur viðsnúningur er persónulegur

Síðasta ábending mín er að hafa hugfast að umbreyting verður að koma innan frá. Eins og fram kemur í dæmisögunni um meyjarnar tíu, þá getum við ekki gefið öðrum olíu umbreytingar okkar, hversu mikið sem við hefðum viljað það. Eins og öldungur David A. Bednar kenndi: „Þessa dýrmætu olíu þarf dropa fyrir dropa … af þolinmæði og þrautseigju. Styttri leiðir eru ekki tiltækar; ekki er hægt að undirbúa sig í flýti á síðustu mínútu.”4

Kom, fylg mér byggist á þeim sannleika. Ég líki þessu við engilinn sem hjálpaði Nefí að læra um Jesú Krist, sem sagði: „Sjá!“5 Eins og þessi engill, þá býður Kom, fylg mér okkur að sjá orð ritninganna og nútíma spámanna, til að finna frelsarann og hlýða á hann. Eins og Nefí, mun okkur kennt persónulega af andanum er við lesum og íhugum orð Guðs. Kom, fylg mér er stökkbretti sem gerir hverju okkar kleift að kafa djúpt í hið lifandi vatn kenninga Krists.

Ábyrgð foreldra er á margan hátt svipuð. Börn erfa margt frá foreldrum sínum, en vitnisburður er ekki eitt af því. Við getum ekki yfirfært vitnisburð okkar á börnin, fremur en að láta sáðkorn vaxa. Við getum þó séð þeim fyrir vaxtarstað, með góðum jarðvegi, án þyrna sem „kæfa orðið.“ Við getum reynt að skapa bestu aðstæður svo börn okkar – og aðrir sem við elskum – geti fundið sáðkorninu stað, „[heyrt orðið og skilið það]“6 og séð sjálf „að sáðkornið [er] gott.“7

Ljósmynd
Bróðir Newman og sonur hans, Jack

Fyrir mörgum árum, gafst mér og syni mínum, Jack, tækifæri til að spila á Old Course-vellinum í St. Andrews í Skotlandi, þar sem golfið á upptök sín. Það var einfaldlega ótrúlegt! Þegar ég kom aftur reyndi ég að segja öðrum frá þessari miklu upplifun. Ég gat það ekki. Myndir, myndbönd og mínar bestu lýsingar voru algerlega ófullnægjandi. Ég áttaði mig loks á að eina leiðin til að skilja mikilfengleika St Andrews-vallarins er að upplifa hann sjálfur – að sjá víðar brautirnar, anda að sér loftinu, finna vindinn á andlitinu og slá nokkur skot í runnana og holóttar glompurnar, sem við vorum natnir við að gera.

Þannig er það með orð Guðs. Við getum kennt það, prédikað það, útskýrt það. Við getum talað um það, sagt frá því, jafnvel vitnað um það. En það til maður skynjar hið helga orð Guðs falla á sál manns sem dögg af himni, fyrir atbeina heilags anda,8 verður eins og að skoða póstkort eða myndir einhvers frá sumarfríi. Þið verðið að fara þangað sjálf. Trúarumbreyting er persónulegt ferðalag – ferðalag samansöfnunar.

Allir sem kenna á heimilinu og í kirkju, geta boðið öðrum að upplifa sjálf andlega reynslu. Fyrir slíkar upplifanir munu þau „vita sannleiksgildi allra hluta“ fyrir sig sjálf.9 Nelson forseti kenndi: „Ef þið hafið einlægar spurningar um fagnaðarerindið eða kirkjuna, er þið veljið að láta Guð ríkja, munið þið leidd til að finna og skilja hinn altæka, eilífa sannleika sem mun vísa ykkur veg og gera ykkur kleift að vera staðföst á sáttmálsveginum.“10

Bæta kennslu svo um munar

Ég býð leiðtogum og kennurum í öllum samtökum kirkjunnar að eiga samráð við foreldra og unglinga, til að bæta kennsluna verulega á öllum sviðum – í stikum, deildum og á heimilum. Þessu verður náð með því að kenna kenninguna og bjóða upp á andlega umræðu um sannleikann sem heilagur andi hefur kennt okkur á hljóðum stundum einkanáms okkar.

Kæru vinir mínir í Kristi, ábyrgðin hvílir á sérhverju okkar að fylgja fordæmi meistarans og kenna eins og hann. Leið hans er hin sanna leið! Er við fylgjum honum og „hann birtist, þá verðum vér honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er; að vér megum eiga þessa von; að vér megum verða hreinir eins og hann er hreinn.“11 Í nafni hans sem er upprisinn, meistarakennara okkar, já, Jesú Krists, amen.