Aðalráðstefna
Von í Kristi
Aðalráðstefna apríl 2021


Von í Kristi

Við þráum að hjálpa öllum þeim sem finnst þeir ekki tilheyra. Ég ætla einkum að ræða um þá sem nú eru einhleypir.

Bræður og systur, á þessum páskum einblínum við á hina dýrðlegu upprisu Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists. Við minnumst hins kærleiksríka boðs hans: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“1

Boð frelsarans um að koma til hans er fyrir alla, ekki einungis að koma til hans, heldur líka að tilheyra kirkju hans.

Í versunum sem fara á undan þessu kærleiksríka boði, kennir Jesús hvernig það er gert með því að leitast við að fylgja honum. Hann lýsti yfir: „Enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.“2

Jesús vill að við vitum að Guð er kærleiksríkur himneskur faðir.

Vitneskjan um að við séum elskuð af himneskum föður, mun hjálpa okkur að vita hver við erum og að við tilheyrum hans miklu eilífu fjölskyldu.

Mayo Clinic heilsugæslan setti nýlega fram þessa athugasemd: „Að tilheyra er svo mikilvægt. … Næstum allir þættir lífs okkar snúast um að tilheyra einhverju.“ Þessi greinargerð bætir við: „Við getum ekki aðskilið mikilvægi þess að tilheyra frá líkamlegu og geðrænu heilbrigði“3 – og ég myndi bæta við, frá andlegu heilbrigði.

Kvöldið áður en frelsarinn þjáðist í Getsemane og dó á krossinum, var frelsarinn með lærisveinum sínum til að neyta Síðustu kvöldmáltíðarinnar. Hann sagði við þá: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“4 Fyrir sólsetur daginn eftir hafði Jesús Kristur þjáðst og „[dáið á krossinum] vegna synda okkar.“5

Ég velti fyrir mér hve einmana hinir trúuðu karlar og konur sem fylgdu honum í Jerúsalem hljóta að hafa verið þegar sólin settist og myrkur og ótti náðu yfirhönd.6

Eins og þessir fornu lærisveinar fyrir næstum 2000 árum, þá geta mörg ykkar líka verið einmana af og til. Ég hef upplifað þessa einsemd frá andláti minnar dýrmætu eiginkonu, Barböru, fyrir rúmum tveimur og hálfu ári. Ég þekki hvað það er að vera umlukinn fjölskyldumeðlimum, vinum og kunningjum og vera samt einmana – því ást lífs míns er ekki lengur mér við hlið.

Kóvíd-19 heimsfaraldurinn hefur vakið mörgum slíka tilfinningu einangrunar og einsemdar. Þrátt fyrir þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í lífinu, getum við, eins og fyrsta páskadagsmorgunin, vaknað til nýs lífs í Kristi með nýjum og dásamlegum möguleikum og nýjum veruleika, er við snúum okkur til Drottins eftir von og löngun til að tilheyra.

Ég skynja persónulega sársauka þeirra sem finnst þeir ekki tilheyra. Þegar ég horfi á heimsfréttir, sé ég marga sem virðast upplifa þessa einsemd. Ég tel að fyrir marga sé það vegna þess að þeir vita ekki að himneskur faðir elskar þá og að við tilheyrum öll eilífri fjölskyldu hans. Að trúa því að Guð elski okkur og að við séum börn hans, veitir huggun og fullvissu.

Sökum þess að við erum andabörn Guðs, eru allir af guðlegum uppruna, eðli og möguleikum. Sérhvert okkar er „ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra.“7 Það er okkar auðkenni! Þetta er það sem við í raun erum!

Andleg sjálfsmynd okkar styrkist þegar við skiljum okkar mörgu jarðnesku auðkenni, svo sem þjóðerni okkar, menningu eða þjóðararf.

Þessi tilfinning andlegrar og menningarlegrar sjálfsmyndar, elsku og aðildar, getur vakið von og kærleika til Jesú Krists.

Ég tala ekki um von í Kristi sem óskhyggju. Þess í stað tala ég um von sem er vænting sem verður að veruleika. Slík von er nauðsynleg til að sigrast á mótlæti, þróa andlegt úthald og styrk og vakna til vitundar um að við erum elskuð af eilífum föður og erum börn hans sem tilheyrum fjölskyldu hans.

Þegar við eigum von í Kristi, munum við skilja að með því að gera og halda heilaga sáttmála, geta dýpstu þrár okkar og draumar uppfyllst fyrir hans tilstilli.

Tólfpostulasveitin hefur ráðgast saman í bænaranda og þráð að skilja hvernig mætti hjálpa öllum þeim sem finnst þeir einmana eða finnst þeir ekki tilheyra. Við þráum að hjálpa öllum þeim sem líður þannig. Ég ætla einkum að ræða um þá sem nú eru einhleypir.

Bræður og systur, í dag er yfir helmingur fullorðinna í kirkjunni ekkjur, ekklar eða fráskildir eða enn ógiftir. Sumir velta fyrir sér stöðu sinni og stað í áætlun Guðs og í kirkjunni. Við ættum að skilja að eilíft líf er ekki einfaldlega spurning um núverandi hjúskaparstöðu, heldur lærisveinsstöðu og að vera „hugdjörf í vitnisburðinum um Jesú.“8 Von allra sem eru einhleypir er sú sama og allra meðlima hinnar endurreistu kirkju Drottins – að fá notið náðar Krists með „hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“9

Ég bendi á að það eru nokkur mikilvæg lögmál sem við þurfum að skilja.

Í fyrsta lagi staðfesta ritningar og spámenn síðari daga að allir sem halda sáttmála fagnaðarerindisins af trúmennsku fái tækifæri til upphafningar. Russell M. Nelson forseti kenndi: „Á Drottins eigin hátt og tíma verður engum blessunum haldið frá hinum dyggu heilögu.“ Drottinn mun dæma og launa hverjum og einum bæði í samræmi við hjartans þrá þeirra og gerðir.“10

Í öðru lagi hefur ekki verið algjörlega opinberað hvenær og hvernig blessanir upphafningar eru veittar, en engu að síður eru þær vísar.11Dallin H. Oaks forseti útskýrði að sumar aðstæður jarðlífsins verða færðar til rétts vegar í þúsund ára ríkinu, en á því tímabili mun allt uppfylt sem óuppfyllt er í hinni miklu sæluáætlun fyrir öll verðug börn föður okkar.“12

Það þýðir þó ekki að sérhverri blessun verði frestað fram að þúsund ára ríkinu; sumar hafa þegar veist og aðrar munu halda áfram að veitast fram að þeim tíma.13

Í þriðja lagi er það lýsandi um áframhaldandi hlýðni og andlega framþróun að setja traust á Drottin. Að setja traust á Drottin, merkir ekki að bíða af sér tíma. Ykkur ætti aldrei að líða eins og þið væruð í biðstofu.

Að setja traust á Drottin, felur í sér verk. Mér hefur lærst í áranna rás að von í Kristi eykst þegar við þjónum. Að þjóna eins og Jesús gerði, eykur sjálfkrafa von okkar í honum.

Sá persónulegi vöxtur sem nú er mögulegt að hljóta með því að setja traust sitt á Drottin og fyrirheit hans, er ómetanlegur, helgur hluti af áætlun hans fyrir hvert okkar. Það verk sem við getum nú gert til hjálpar við að byggja upp kirkjuna á jörðu og safna saman Ísrael, er afar nauðsynlegt. Hjúskaparstaða hefur ekkert að gera með hæfni okkar til að þjóna. Drottinn heiðrar þá sem þjóna og setja traust sitt á hann í þolinmæði og trú.14

Í fjórða lagi býður Guð öllum börnum sínum eilíft líf. Allir þeir sem taka við iðrunargjöf frelsarans og lifa eftir boðorðum hans, munu hljóta eilíft líf, jafnvel þótt þeir tileinki sér ekki alla eiginleika þess og fullkomnun í jarðlífinu. Þeir sem iðrast munu upplifa fúsleika Drottins til að fyrirgefa, eins og hann hefur staðfest: „Já, og jafnoft og fólk mitt iðrast, mun ég fyrirgefa því brot þess gegn mér.“15

Að lokum verður það aðeins Drottinn sem getur lagt mat á getu, þrár og tækifæri einstaklings út frá sjálfræði og vali, þar með talið hvort hann sé hæfur fyrir eilífar blessanir.

Í fimmta lagi byggist eigin fullvissa um þetta á trú okkar á Jesú Kristi, sem með náð sinni færir allt til rétts vegar í jarðlífinu.16 Allar fyrirheitnar blessanir eru gerðar mögulegar með honum, friðþægingu hans, sem „sté neðar öllu“17 og „sigraði heiminn.“18 Hann „hefur … sest til hægri handar Guði, til að krefja föðurinn um rétt sinn til miskunnar fyrir mannanna börn. … Þess vegna talar hann máli mannanna barna.“19 Að lokum, munu „hinir heilögu fyllast dýrð hans og hljóta arf sinn“20 sem „samarfar Krists.“21

Við höfum þá þrá að þessar reglur muni auka öllum von í Kristi og tilfinningu aðildar.

Gleymið aldrei að þið eruð börn Guðs, eilífs föður okkar, nú og alltaf. Hann elskar ykkur og kirkjan þarfnast ykkar. Já, við þörfnumst ykkar! Við þörfnumst radda ykkar, hæfileika, góðvildar og réttlætis.

Í mörg ár höfum við rætt um „ungt einhleypt fullorðið fólk,“ „einhleypt fullorðið fólk“ og „fullorðið fólk.“ Þessar skilgreiningar geta stundum verið gagnlegar í stjórnsýslunni, en geta óvart breytt því hvernig við sjáum hvert annað.

Er mögulegt að forðast slíka mannlega tilhneigingu sem getur aðskilið okkur?

Nelson forseti bauð að við vísuðum til okkar sjálfra sem meðlima Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga helögu. Það ætti að ná yfir þetta allt, ekki satt?

Fagnaðarerindi Jesú Krists hefur kraft til að sameina okkur. Þegar allt kemur til alls þá er meira líkt með okkur en ólíkt. Sem meðlimir í fjölskyldu Guðs, erum við sannlega bræður og systur. Páll sagði: „[Guð] skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar.“22

Ykkur, stikuforseta, biskupa og leiðtoga sveita og systra, bið ég um að líta á hvern meðlim í stiku ykkar, deild, sveit eða samtökum, sem meðlim sem getur lagt sitt af mörkum og þjónað í köllunum og tekið þátt á margan hátt.

Sérhver meðlimur í sveitum okkar, samtökum, deildum og stikum, hefur guðsgjafir og hæfileika sem geta hjálpað við að byggja upp ríki hans núna.

Köllum þá meðlimi okkar sem eru einhleypir til að þjóna, lyfta og kenna. Lítið framhjá gömlum viðhorfum og hugmyndum sem stundum hafa óafvitandi vakið þeim tilfinningar einmanaleika og að þeir falli ekki í hópinn eða geti ekki þjónað.

Á þessari páskahelgi ber ég vitni um frelsara okkar Jesú Krists og þá eilífu von sem hann gefur mér og öllum sem á nafn hans trúa. Ég gef þennan vitnisburð af auðmýkt, í hinu heilaga nafni, já, Jesú Krists, amen.