Aðalráðstefnur
Verja okkar guðlega innblásnu stjórnarskrá


Verja okkar guðlega innblásnu stjórnarskrá

Trú Síðari daga heilagra á guðlegan innblástur, veitir þeim þá sérstöku ábyrgð að viðhalda og verja stjórnarskrá Bandaríkjanna og reglur hennar.

Á þessum erfiða tíma hefur mér fundist ég þurfa að ræða hina innblásnu stjórnarskrá Bandaríkjanna. Stjórnarskrá þessi er einkar mikilvæg fyrir meðlimi okkar í Bandaríkjunum, en hún er einnig sameiginlegur alþjóðlegur stjórnarskrárarfur.

I.

Stjórnarskrá er grunnur ríkisstjórnar. Hún er rammi og takmarkar valdbeitingu stjórnvalds. Stjórnarskrá Bandaríkjanna er elsta skrifaða stjórnarskráin sem gildir enn á okkar tíma. Þótt hún hafi upphaflega aðeins verið samþykkt af fáum nýlendum, varð hún fljótt alþjóðleg fyrirmynd. Í dag hafa allar þjóðir nema þrjár tekið upp skrifaða stjórnarskrá.1

Með þessum ummælum tala ég ekki máli neins stjórnmálaflokks eða annars hóps. Ég tala til stuðnings stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem ég hef rannsakað í yfir 60 ár. Ég tala af reynslu sem lagaritari hjá Yfirdómara hæstaréttar Bandaríkjanna. Ég tala út frá 15 ára reynslu minni sem lagaprófessor og þremur og hálfu ári sem hæstaréttardómari í Utah. Mikilvægast er að ég tala út frá 37 ára reynslu sem postuli Jesú Krists, með þá ábyrgð að rannsaka merkingu hinnar guðlega innblásnu stjórnarskrá Bandaríkjanna, eins og hún á við um verk hinnar endurreistu kirkju hans.

Stjórnarskrá Bandaríkjanna er einstök, vegna þess að Guð opinberaði að hann hafi „sett“ hana, til að „tryggja rétt og vernd alls holds“ (Kenning og sáttmálar 101:77; sjá einnig vers 80). Þess vegna snertir þessi stjórnarskrá sérstaklega Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu um allan heim. Hvort eða hvernig eigi að beita reglum hennar í öðrum þjóðum heims er þeirra að ákveða.

Hver var tilgangur Guðs með því að setja stjórnarskrá Bandaríkjanna? Við sjáum það í kenningunni um siðferðislegt sjálfræði. Á fyrsta áratug hinnar endurreistu kirkju urðu meðlimir á vesturvígstöðvunum fyrir ofsóknum einstaklinga og almennings. Að hluta var það vegna andstöðu þeirra við þrælahald manna, sem þá var viðhaft í Bandaríkjunum. Við þessar miður góðu aðstæður opinberaði Guð með spámanni sínum, Joseph Smith, eilíf sannindi um kenningu sína.

Guð hefur veitt börnum sínum siðferðislegt sjálfræði – eiginleika til að ákveða og breyta að eigin vilja. Æskilegasta skilyrðið til beitingar þess sjálfræðis, er hámarks einstaklingsfrelsi karla og kvenna til að ákveða og breyta að eigin vilja. Opinberunin útskýrir síðan: „Sérhver maður [verður] ábyrgur fyrir sínar eigin syndir á degi dómsins“ (Kenning og sáttmálar 101:78). „Þess vegna,“ opinberaði Drottinn, „er ekki rétt að einhver maður sé í annars ánauð“ (Kenning og sáttmálar 101:79). Þetta felur augljóslega í sér að þrælahald manna er rangt. Samkvæmt sömu reglu er rangt að borgararnir hafi enga rödd við val á valdhöfum sínum eða við gerð eigin laga.

II.

Sú trú okkar að stjórnarskrá Bandaríkjanna hafi verið guðlega innblásin, felur ekki í sér að guðleg opinberun hafi ráðið hverju orði og orðtaki, svo sem ákvæðinu um fjölda fulltrúa frá hverju ríki eða lágmarksaldur hvers.2 Stjórnarskráin var ekki „fullgert skjal,“ sagði J. Reuben Clark forseti. „Þvert á móti,“ útskýrði hann, „þá teljum við að hún þurfi að vaxa og þróast til að mæta breyttum þörfum þróandi heims.“3 Dæmi um það er afnám þrælahalds með innblásnum breytingum og veiting kosningaréttar til kenna. Við sjáum þó ekki innblástur í öllum ákvörðunum og túlkunum hæstaréttar á stjórnaskráni.

Ég tel stjórnarskrá Bandaríkjanna geyma hið minnsta fimm guðlega innblásnar reglur.4

Í fyrsta lagi er það reglan um að stjórnvald sæki vald sitt til fólksins. Á tíma þar sem almennt var talið að ríkisvaldið væri bundið guðlega skipuðum konungum eða hervaldi, var byltingarkennt að færa valdið yfir til fólksins. Heimspekingar höfðu talað fyrir þessu, en í stjórnarskrá Bandaríkjanna var þetta fyrst gert að veruleika. Að fólkið hafi valdið, merkir ekki að múgur eða einhverjir hópar geti gripið inn í til að ógna stjórnvöldum eða knýja fram aðgerðir. Stjórnarskrá Bandaríkjanna kveður á um stjórnarskrárlegt lýðræði og lýðveldi, þar sem fólkið nýtir vald sitt í gegnum kjörna fulltrúa sína.

Önnur innblásin regla er skipting hins framselda valds milli þjóðarinnar og undirríkja hennar. Í sambandsríki okkar hefur þessari fordæmalausu reglu stundum verið breytt með innblásnum breytingum, til að mynda með afnámi þrælahalds og veitingu kosningaréttar til kvenna, eins og áður var getið. Mikilvægt er að stjórnarskrá Bandaríkjanna takmarkar alríkisstjórn til að beita valdi sem veitt er sérstaklega eða með fyrirvara, og hún áskilur allt annað vald „hverju ríki fyrir sig eða fólkinu.“5

Önnur innblásin regla er aðskilnaður valds. Í rúma öld, fyrir stjórnarsáttmálann 1787, var enska þingið brautryðjandi í aðskilnaði löggjafarvalds og framkvæmdavalds, þegar það fór með ákveðið vald konungs. Innblásturinn í bandaríska sáttmálanum var óháð skipting í framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald, svo að þessi þrjú svið gætu haft aðhald og eftirlit með hvert öðru.

Fjórða innblásna reglan tengist ýmsum tryggingum á réttindum einstaklinga og sérstökum takmörkunum stjórnvalds í réttindaskrá, sem samþykkt var sem viðauki, aðeins þremur árum eftir að stjórnarskráin tók gildi. Réttindaskrá var ekki ný af nálinni. Hér var innblásturinn í hagnýtri innleiðingu reglna sem áttu uppruna í Englandi, með Magna Carta. Höfundar stjórnarskrárinnar þekktu þetta, því sumir nýlendusáttmálanna höfðu slíkar tryggingar.

Án réttindaskrár hefðu Bandaríkin ekki getað verið sú þjóð sem hýsti endurreisn fagnaðarerindisins, sem hófst aðeins þremur áratugum síðar. Það var guðlegur innblástur að í upphaflega ákvæðinu skyldu opinber embætti ekki vera trúarlega skilyrt,6 en viðbótin um trúfrelsi og andstöðurétti í fyrsta viðauka var bráðnauðsynleg. Við sjáum einnig guðlegan innblástur í málfrelsi og prentfrelsi fyrsta viðauka og einstaklingsverndinni í öðrum viðaukum, svo sem vegna refsiverðra ákæruatriða.

Ljósmynd

Í fimmta og síðasta lagi sé ég guðlegan innblástur í mikilvægum heildartilgangi stjórnarskrárinnar. Við eigum að láta stjórnast af lögum en ekki af einstaklingum og hollusta okkar er bundin stjórnaskránni og reglum og aðferðum hennar, en ekki einhverjum embættishafa. Á þennan hátt eiga allir að vera jafnir fyrir lögum. Þessar reglur eru andsnúnar sjálfstýrðum metnaði, sem hefur spillt lýðræði í sumum löndum. Þær fela einnig í sér að ekkert hinna þriggja sviða ríkisvaldsins ætti að vera ráðandi yfir hinum eða geta komið í veg fyrir að hin geti sinnt sínu rétta stjórnskipunarhlutverki, að hafa aðhald á hinum.

III.

Þrátt fyrir guðlega innblásnar reglur stjórnarskrár Bandaríkjanna, hafa ófullkomnir menn ekki alltaf náð að uppfylla sinn ásetta tilgang. Mikilvæg viðfangsefni löggjafar, eins og á við um sum lög um fjölskyldusambönd, hefur alríkisstjórnin tekið af undirríkjunum. Fyrsti viðaukinn, sem tryggir málfrelsi, hefur stundum verið útþynntur með því að bæla niður óvinsæla málræðu. Reglan um aðskilnað valds hefur alltaf sætt þrýstingi, þegar einn ríkisgeiri gerir reglubundið breytingar og iðkar til þess vald sem framselt hefur verið öðrum.

Til eru aðrar ógnir sem grafa undan innblásnum reglum stjórnarskrár Bandaríkjanna. Stöðugleiki stjórnarskrárinnar minnkar þegar reynt er að gera núverandi samfélagsþróun að stofnástæðu hennar, í stað frelsis og sjálfsstjórnar. Léttvægt er farið með valdsvið stjórnarskrárinnar af frambjóðendum eða embættismönnum er hunsa reglur hennar. Virðing og styrkur stjórnarskrárinnar minnkar þegar sumir vísa til hennar sem hollustuprófs eða pólitísks slagorðs í stað háleits skjals sem afmarkar valdsvið stjórnvalds.

IV.

Trú Síðari daga heilagra á guðlegan innblástur, veitir þeim þá sérstöku ábyrgð að viðhalda og verja stjórnarskrá Bandaríkjanna og reglur hennar, hvar sem þeir búa. Við ættum að treysta Drottni og vera jákvæð varðandi framtíð þessarar þjóðar.

Hvað annað ber trúföstum Síðari daga heilögum að gera? Við verðum að biðja þess að Drottinn leiði og blessi allar þjóðir og leiðtoga þeirra. Þetta er hluti af trúaratriðum okkar. Að lúta forsetum eða ráðamönnum,7 kemur auðvitað ekki á neinn hátt í veg fyrir að við getum verið ósammála einstaklingum, lögum og reglum. Það þýðir að okkur ber að beita áhrifum okkar friðsamlega og af háttvísi, innan ramma stjórnarskrár okkar og viðeigandi laga. Í umdeildum málum ættum við að leitast við að semja og sameina.

Það eru aðrar skyldur sem tengjast því að viðhalda innblásinni stjórnarskrá. Við ættum að kynna okkur og styðja hinar innblásnu reglur stjórnarskrárinnar. Við ættum að finna og styðja vitra og góða einstaklinga, sem munu viðhalda þessum reglum með sínum opinberu aðgerðum.8 Við ættum að vera upplýstir borgarar sem reyna á virkan hátt að hafa áhrif á samfélagsmál.

Í Bandaríkjunum og öðrum lýðræðisríkjum er pólitískum áhrifum beitt með því að bjóða sig fram til embættis (sem við hvetjum til) með atkvæðagreiðslu, með fjárhagslegum stuðningi, með aðild að stjórnmálaflokkum og þjónustu þar og með áframhaldandi samskiptum við embættismenn, flokka og frambjóðendur. Til að lýðræðisríki virki sem best, þarf allt þetta að vera til staðar, en hver samviskusamur borgari þarf ekki að standa undir öllu þessu.

Pólitísk málefni eru fjölmörg og enginn flokkur, vettvangur eða einstakur frambjóðandi fær uppfyllt allar persónulegar óskir. Hver borgari verður því að ákveða hvaða málefni séu honum eða henni mikilvægust á einhverjum tilsettum tíma. Þá ættu meðlimir að leita sér innblásturs um hvernig skuli greiða atkvæði í samræmi við eigin forgangsröðun. Þetta ferli er ekki auðvelt. Það kann að krefjast breytinga á stuðningi við flokk eða vali á frambjóðendum, jafnvel frá einum kosningum til annarra.

Slík sjálfstæð athöfn mun stundum krefjast þess að kjósendur styðji frambjóðendur eða stjórnmálaflokka eða vettvang sem gætu verið andstæðir í öðrum málum.9 Það er ein ástæða þess að við hvetjum meðlimi okkar að forðast að dæma hver annan vegna pólitískra málefna. Við ættum aldrei að fullyrða að trúaður Síðari daga heilagur geti ekki tilheyrt ákveðnum flokki eða kosið tiltekinn frambjóðanda. Við kennum réttar reglur og látum meðlimum okkar eftir að velja hvernig þeir skuli forgangsraða og beita þessum reglum á málefni sem af og til eru kynnt. Við förum einnig fram á, og biðjum leiðtoga okkar um hið sama, að pólitískar ákvarðanir og sambönd verði ekki viðfangsefni kennslu eða umræðu á nokkurri kirkjusamkomu okkar.

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu mun að sjálfsögðu nýta sér þann rétt sinn að mæla með eða á móti einstökum lagafrumvörpum, sem við teljum hafa áhrif á frjálsa trúariðkun eða grundvallarhagsmuni samtaka kirkjunnar.

Ég vitna um hina guðlega innblásnu stjórnarskrá Bandaríkjanna og bið þess að við, sem viðurkennum hina guðdómlegu veru sem innblés hana, munum alltaf viðhalda og verja hinar miklu reglur hennar. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Mark Tushnet, „Constitution,“ í Michel Rosenfeld og András Sajó, ritst., The Oxford Handbook of Comparative Constitutional Law (2012), 222. Löndin þrjú með óskrifaða skráða stjórnarskrá eru Bretland, Nýja-Sjáland og Ísrael. Hvert þeirra hefur sterkar hefðir stjórnarskrárhyggju, þó að stjórnunarákvæði séu ekki sett í eitt skjal.

  2. Sjá Stjórnarskrá Bandaríkjanna, grein 1, hluti 2.

  3. J. Reuben Clark yngri, „Constitutional Government: Our Birthright Threatened,“ Vital Speeches of the Day, 1. jan. 1939, 177, vitnað í Martin B. Hickman, „J. Reuben Clark, Jr.: The Constitution and the Great Fundamentals,“ í Ray C. Hillam, ritst., By the Hands of Wise Men: Essays on the U.S. Constitution (1979), 53. Brigham Young hafði svipaða þróunarsýn á stjórnarskrána og kenndi að rammasmiðirnir hefðu „lagt grunn að henni og það væri hlutverk komandi kynslóða að þróa hana áfram“ (Discourses of Brigham Young, samant. af John A. Widtsoe (1954), 359).

  4. Þessar fimm eru svipaðar, en ekki eins og lagðar eru til í J. Reuben Clark yngri, Stand Fast by Our Constitution (1973), 7; Ezra Taft Benson, „Our Divine Constitution,“ Ensign, nóv. 1987, 4–7; og Ezra Taft Benson, „The Constitution—A Glorious Standard,“ Ensign, sept. 1987, 6–11. Sjá almennt, Noel B. Reynolds, „The Doctrine of an Inspired Constitution,“ í By the Hands of Wise Men 1–28.

  5. Stjórnarskrá Bandaríkjanna, viðauki 10.

  6. Sjá Stjórnarskrá Bandaríkjanna, grein 6.

  7. Sjá Trúaratriðin 1:12.

  8. Sjá Kenning og sáttmálar 98:10.

  9. Sjá David B. Magleby, „The Necessity of Political Parties and the Importance of Compromise,“ BYU Studies, bindi 54, nr. 4 (2015), 7–23.