Aðalráðstefna
„Grundvallarreglur fagnaðarerindis míns“
Aðalráðstefna apríl 2021


„Grundvallarreglur fagnaðarerindis míns“

(Kenning og sáttmálar 42:12)

Grundvallarregla fagnaðarerindisins [er] kenningarleg leiðsögn fyrir réttláta iðkun siðferðilegs sjálfræðis.

Á aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í október 1849 var öldungur John Taylor úr Postulasveitinni kallaður til að opna Frakkland fyrir prédikun fagnaðarerindis Jesú Krists. Í þjónustu hans fólst að ritstýra fyrstu opinberu ritgrein kirkjunnar þar í landi. Öldungur Taylor undirbjó og birti grein árið 1851 sem svar við tíðum spurningum sem hann var spurður að um kirkjuna. Undir lok greinarinnar minntist öldungur Taylor á eftirfarandi frásögn:

„Fyrir nokkrum árum í Nauvoo spurði herramaður og þingmaður, í minni viðurvist, Joseph Smith að því hvernig hann færi að því að hafa stjórn á svo mörgu fólki og hafa fullkomna reglu á öllu; og bætti við að þeim væri ógjörningur að gera slíkt annars staðar. Herra Smith sagði að það væri allsendis auðvelt að gera slíkt. ‚Hvernig?‘ spurði herramaðurinn, ‚okkur reynist þetta ákaflega erfitt.‘ Herra Smith svaraði: ‚Ég kenni þeim réttar reglur og þeir stjórna sér sjálfir.‘“1

Ég bið þess að heilagur andi megi leiðbeina og uppfræða sérhvert okkar er ég ítreka mikilvægi hlutverks grundvallarreglna hins endureista fagnaðarerindis Jesú Krists.

Grundvallarreglur

Drottinn opinberaði Joseph Smith að „öldungar, prestar og kennarar þessarar kirkju [skyldu] kenna grundvallarreglur fagnaðarerindis [hans], sem eru í Biblíunni og Mormónsbók, er geyma fyllingu fagnaðarerindisins.“2 Hann lýsti því einnig yfir að hinir Síðari daga heilögu skyldu „enn betur fræddir verða um fræðisetningar, reglur, kenningu og lögmál fagnaðarerindisins, um allt er lýtur að Guðs ríki og yður er gagnlegt að skilja.“3

Skilmerkilega sagt, þá er grundvallarregla fagnaðarerindisins kenningarleg leiðsögn fyrir réttláta iðkun siðferðilegs sjálfræðis. Grundvallarreglur koma úr víðtækum sannleika fagnaðarerindisins og veita leiðsögn og staðla er við sækjum fram á sáttmálsveginum.

Fyrstu þrjú trúaratriðin veita til dæmis grundvallarsýn á kenningu hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists: Eðli Guðdómsins í fyrsta trúaratriðinu, áhrif falls Adams og Evu í öðru trúaratriðinu og blessanir þær sem friðþæging Jesú Krists gerir mögulega í þriðja trúaratriðinu4 og fjórða trúaratriðið setur fram frumreglur - leiðbeiningar fyrir iðkun trúar á Jesú Krist og iðrun - og fyrstu helgiathafnir prestdæmisins sem gerir kleift að friðþæging Jesú Krists verði virk í lífi okkar.5

Vísdómsorðið er annað dæmi um grundvallarreglu sem leiðsögn. Vinsamlega athugið upphafsversin í kafla 89 í Kenningu og sáttmálum:

„Gefið sem regla með fyrirheiti, sniðið eftir getu hinna veiku og veikustu allra heilagra, sem eru eða hægt er að kalla heilaga.

Sjá, sannlega segir Drottinn svo við yður: Sökum illsku og klækja, sem finnast og munu finnast í hjörtum undirhyggjumanna á síðustu dögum, hef ég ráðlagt yður og aðvara yður með því að gefa yður þetta vísdómsorð með opinberun.“6

Hin innblásna tilsögn sem fylgir þessum inngangi veitir varanlegar leiðsögn bæði fyrir líkamlega og andlega velferð og vitnar um sértækar blessanir háðar hlýðni við grundvallarregluna.

Að læra, skilja og lifa eftir grundvallarreglum fagnaðarerindisins, styrkir trú okkar á frelsarann, eykur hollustu okkar við hann og veitir okkur margfaldar blessanir og andlegar gjafir. Reglur réttlætisins hjálpa okkur líka að líta fram hjá eigin óskum og sjálfhyggjuþrám með því að gefa dýrmæta sýn á eilífan sannleika, er við tökumst á við mismunandi kringumstæður, áskoranir, ákvarðanir og reynslu jarðlífsins.

Samtímadæmi um að kenna réttar reglur

Yfirlýsing Josephs Smith um að kenna réttar reglur er ef til vill sú kenning hans sem hvað mest er vitnað í. Við komum auga á kraftmikil dæmi um slíkar innblásnar leiðbeiningar í orðum hinna útvöldu þjóna Drottins í dag.

Reglan að valda ekki ónæði

Á aðalráðstefnu 1998 talaði Dallin H. Oaks forseti um skyldur Aronsprestdæmishafa varðandi undirbúning og þjónustu sakramentisins. Hann lýsti þeirri reglu að valda ekki ónæði og benti á að handhafi Aronsprestdæmisins myndi aldrei leyfa að eitthvað í útliti hans eða framkomu yrði einhverjum meðlim kirkjunnar til ónæði við tilbeiðslu eða endurnýjun sáttmála hans. Oaks forseti lagði einnig áherslu á álíka reglur varðandi snyrtimennsku, hreinleika, lotningu og dyggð.

Áhugavert er, að Oaks forseti sá piltunum ekki aðeins fyrir löngum lista yfir það sem á að gera eða ekki gera. Þess í stað útskýrði hann grundvallarregluna með væntingu um að piltarnir og foreldrar þeirra og kennarar notuðu eigin dómgreind og innblástur við að fylgja þessari leiðsögn.

Hann útskýrði: „Ég vil ekki leggja til nákvæmar reglur, því aðstæður í hinum ýmsu deildum og greinum í heimskirkju okkar eru svo margvíslegar, að sérstök regla sem hentar á einum stað gæti verið óviðeigandi á öðrum. Ég mun fremur leggja til reglu sem byggist á kenningum. Ef allir skildu þessa reglu og lifðu í samræmi við hana, væri lítil þörf fyrir reglur. Ef þörf er á reglum og ráðgjöf í einstaka máli, geta staðarleiðtogar veitt þær, í samræmi við kenningar og reglur sem þeim tengjast.“7

Regla hvíldardagsins sem teikn

Á aðalráðstefnu 2015 kenndi Russell M. Nelson forseti að „hvíldardagurinn [væri] feginsdagur.“8 Hann útskýrði einnig hvernig hann sjálfur hefði vaknað til skilnings á þeirri reglu að heiðra hvíldardaginn:

„Hvernig helgum við hvíldardaginn? Þegar ég var mikið yngri, ígrundaði ég verk þeirra sem höfðu búið til lista yfir það sem gera og gera ætti ekki á hvíldardegi. Það var svo síðar sem mér lærðist í ritningunum að breytni mín og viðhorf á hvíldardegi væri teikn á milli mín og himnesks föður. Þegar mér bættist sá skilningur, þá þurfti ég ekki lista yfir það sem á að gera og ekki gera. Þegar ég þurfti að taka ákvörðun um hvort eitthvað væri viðeigandi eða ekki á hvíldardegi, þá spurði ég einfaldlega sjálfan mig: ‚Hvaða teikn vil ég gefa Guði?‘ Þessi spurning gerði mér kleift að greina glögglega á milli valkosta á hvíldardegi.“9

Hin einfalda en áhrifamikla spurning Nelsons forseta dregur fram reglu sem kveður niður alla óvissu um hvað í því felst og hvað gera ætti til að heiðra hvíldardaginn. Spurning hans dregur saman leiðsögn og staðal sem getur blessað okkur öll í mismunandi kringumstæðum.

Reglan að láta Guð ríkja fúslega

Á aðalráðstefnu fyrir 6 mánuðum lýsti Nelson forseti gleði sinni yfir nýjum skilningi sínum á merkingu orðsins Ísrael. Hann sagði okkur frá gleði sálar sinnar er hann lærði að „nafnið Ísrael [ætti] við um þann einstakling sem er fús til að láta Guð ríkja í eigin lífi.“10 Nelson forseti nefndi síðan nokkrar mikilvægar ályktanir sem mætti draga af þessari innsýn.

Boðskapur hans um að láta Guð ríkja fúslega er athyglisvert dæmi um að kenna rétta reglu, svo að við getum stjórnað okkur sjálf. Nelson forseti setti fram spurningar, grundvallaðar á reglum, sem eru leiðbeiningar og staðlar fyrir sérhvert okkar, rétt eins og hann gerði í boðskap sínum um að gera hvíldardaginn að feginsdegi.

„Ert þú fús til að láta Guð ríkja í lífi þínu? Ert þú fús til að láta Guð vera áhrifaríkastan alls í lífi þínu?“

Hann hélt áfram:

„Íhugið hvernig slík auðsveipni gæti blessað ykkur. Ef þið eruð ógift í leit að eilífum lífsförunaut, mun sú þrá ykkar að vera ,Ísrael’ hjálpa ykkur að ákveða hverjum skal kynnast og hvernig.

Ef þið eruð gift lífsförunaut sem hefur brotið sáttmála sína, mun auðsveipni ykkar til að láta Guð ríkja í lífi ykkar leyfa að sáttmálar ykkar við Guð verði áfram óskertir. Frelsarinn mun græða brostið hjarta ykkar. Himnarnir munu ljúkast upp er þið leitist við að vita hvernig sækja skal fram. Þið þurfið ekki að villast eða velkjast í vafa.

Ef þið hafið einlægar spurningar um fagnaðarerindið eða kirkjuna, er þið veljið að láta Guð ríkja, munið þið leidd til að finna og skilja hinn altæka, eilífa sannleika sem mun vísa ykkur veg og gera ykkur kleift að vera staðföst á sáttmálsveginum.

Þegar þið standið frammi fyrir freistingu – jafnvel þótt það gerist þegar þið eruð úrvinda eða einmana eða misskilin – hugsið ykkur þá hugrekkið sem þið getið sýnt með því að velja að láta Guð ríkja í lífi ykkar, er þið biðjið hann jafnframt að styrkja ykkur.

Þegar sterkasta þrá okkar verður að láta Guð ríkja, að verða hluti af Ísrael, munu svo margar ákvarðanir verða einfaldari. Svo mörg vandamál leysast! Þið vitið hvernig best er að huga að útliti ykkar sjálfra. Þið vitið hvað má horfa á og lesa, hvar má verja tíma sínum og hverja má umgangast. Þið vitið hverju þið viljið fá áorkað. Þið vitið hvers konar manneskja þið viljið verða.“11

Takið eftir að hægt er hafa áhrif á margar mikilvægar ákvarðanir og lífreynslu með þeirri reglu að láta Guð ríkja fúslega: Tilhugalíf og hjónaband, spurningar og áhyggjur í fagnaðarerindinu, freistingar, persónulegt hreinlæti, hvað horfa skal á og lesa, hvar verja á tíma sínum, hverja á að umgangast og margt, margt fleira. Hinar innblásnu spurningar Nelsons forseta leggja áherslu á einfalda reglu sem veitir leiðsögn fyrir hvert svið lífs okkar og gerir okkur kleift að stjórna okkur.

Mjög lítið stýri

Þegar Joseph Smith sat í Liberty fangelsinu, ritaði hann leiðbeiningarbréf til kirkjumeðlima og leiðtoga og minnti þá á að „mjög stórt skip [hefði] afar mikið gagn af mjög litlu stýri, sem beitir því upp í vind og sjóa.“12

Ljósmynd
Skipsstýri

„Stýri“ er hjól eða sveif og er búnaðurinn tengdur honum notaður til að stýra skipi eða báti. Að „[beita] því upp í vind og sjóa,“ merkir að snúa skipi, þannig að það haldi jafnvægi og velti ekki í stormi.

Ljósmynd
Viðsnúningur skips í stormi

Reglur fagnaðarerindisins eru eins og stýri á skipi fyrir mig og ykkur. Réttar reglur gera okkur kleift að finna leiðina og standa sterk, staðföst og óbifanleg, þannig að við missum ekki jafnvægi og föllum í byljandi stormum myrkurs og ringulreiðar hinna síðari daga.

Við höfum verið ríkulega blessuð á þessari ráðstefnu að læra um innblásnar reglur í orðum hinna útvöldu þjóna Drottins. Ábyrgð hvers og eins okkar núna er að stjórna okkur sjálf samkvæmt sannleikanum sem þeir hafa vitnað um.13

Vitnisburður

Ezra Taft Benson forseti kenndi: „Næstu sex mánuðina ætti aðalráðstefnuritið [Líahóna] að vera við hlið helgiritanna og mikið notað.“14

Með gjörvöllum styrk sálar minnar býð ég okkur öllum að læra, lifa og elska grundvallarreglur réttlætisins. Eingöngu sannleikur fagnaðarerindins getur gert okkur kleift „[að gjöra allt] með glöðu geði, sem í okkar valdi stendur, og síðan getum við með fullri vissu beðið eftir að sjá hjálpræði Guðs, og arm hans opinberast.“15

Ég veit að kenningar og reglur fagnaðarerindis Jesú Krists eru undirstaða leiðsagnar fyrir líf okkar og varanlegrar gleði í jarðlífinu og eilífðinni. Á þessum dýrðlega páskasunnudegi, vitna ég gleðilega að hinn lifandi frelsari er sá brunnur sem þessi sannleikur flæðir frá. Um það vitna ég í heilögu nafni Drottins, Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. John Taylor, í Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 284.

  2. Kenning og sáttmálar 42:12.

  3. Kenning og sáttmálar 88:78.

  4. Sjá Trúaratriðin 1:1-3.

  5. Sjá Trúaratriðin 1:4.

  6. Kenning og sáttmálar 89:3-4.

  7. Dallin H. Oaks, „The Aaronic Priesthood and the Sacrament,“ Liahona, jan. 1999, 45–46.

  8. Sjá Russell M. Nelson, „Hvíldardagurinn er feginsdagur,“ aðalráðstefna, apríl 2015.

  9. Russell M. Nelson, „Hvíldardagurinn er feginsdagur,” skáletrað hér.

  10. Russell M. Nelson, „Lát Guð ríkja,“ aðalráðstefna, október 2020.

  11. Russell M. Nelson, „Lát Guð ríkja.“

  12. Kenning og sáttmálar 123:16.

  13. Harold B. Lee forseti (1899-1973) hvatti meðlimi til að láta ráðstefnuræður „vera leiðsögn þeirra í orðum og verki næstu 6 mánuði.“ Hann útskýrði: „Þetta eru þau mikilvægu mál sem Drottinn ákvað að opinbera fólki sínu á þessum degi“ (aðalráðstefna apríl 1946).

    Spencer W. Kimball forseti (1895–1985) lagði einnig áherslu á mikilvægi boðskapar aðalráðstefnu. Hann sagði: „Ekkert ritverk eða ritmál, utan helgirita kirkjunnar, ætti að vera okkur mikilvægara í okkar persónulega bókasafni – ekki vegna fagurs stílbragðs eða mælsku, heldur vegna hins efnislega innihalds sem vísar veginn til eilífs lífs“ (Úr In the World but Not of, Brigham Young University Speeches of the Year [14. maí, 1968], 3).

    Thomas S. Monson forseti (1927–2018) staðfesti mikilvægi þess að læra ráðstefnuræður. Hann sagði: „Megum við muna um langa hríð það sem við höfum heyrt á þessari aðalráðstefnu. Allar ræðurnar sem hafa verið fluttar verða birtar í næsta tölublaði af tímaritunum Ensign og Líahóna. Ég hvet ykkur til þess að nema þær og íhuga kennslu þeirra“ (Thomas S. Monson, „Uns við hittumst heil,“ aðalráðstefna, október 2008).

  14. Ezra Taft Benson, „Come unto Christ, and Be Perfected in Him,“ Ensign, maí 1988, 84.

  15. Kenning og sáttmálar 123:17.