Aðalráðstefna
Persónulegt ferðalag barns Guðs
Aðalráðstefna apríl 2021


Persónulegt ferðalag barns Guðs

Við, sem sáttmálsbörn Guðs, elskum, heiðrum, nærum, verndum og tökum fagnandi á móti þeim öndum sem koma úr fortilverunni.

Heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á okkur öll, þar sem fjölskylda og vinir hafa óvænt farið handan jarðlífs. Ég ætla að minnast þriggja sem við söknum innilega og eru fulltrúar þeirra sem við elskum svo heitt.

Ljósmynd
Bróðir og systir Nsondi

Þetta eru bróðir Philippe og systir Germaine Nsondi. Bróðir Ngondi þjónaði sem patríarki í Brazzaville stiku í Lýðveldinu Kongó þegar hann féll frá. Hann var læknir, sem miðlaði öðrum örlátlega af hæfileikum sínum.1

Ljósmynd
Clara Ruano de Villareal

Þetta er systir Clara Elisa Ruano de Villareal frá Tulcán, Ekvador. Hún tók á móti hinu endurreista fagnaðarerindi 34 ára að aldri og var ástkær leiðtogi. Fjölskylda hennar kvaddi með því að syngja eftirlætis sálminn hennar: „Ég veit minn lifir lausnarinn.“2

Ljósmynd
Ray Tuineau og fjölskylda hans

Þetta er bróðir Ray Tuineau frá Utah, með sinni fallegu fjölskyldu. Eiginkona hans, Juliet, sagði: „Ég vil að [strákarnir mínir] [muni að faðir þeirra] reyndi alltaf að hafa Guð í fyrirrúmi.“3

Drottinn hefur sagt: „Þér skuluð búa saman í kærleika, svo að þér grátið missi þeirra er deyja.“4

Meðan við grátum, gleðjumst við líka yfir dýrðlegri upprisu frelsara okkar. Hans vegna munu ástvinir okkar og vinir halda áfram sínu eilífa ferðalagi. Eins og Joseph F. Smith forseti útskýrði: „Við getum ekki gleymt þeim; við hættum ekki að elska þau. … Þau hafa þróast áfram; við erum að þróast; við erum að vaxa eins og þau hafa vaxið.“5 Russell M. Nelson forseti sagði: „Sorgartár okkar … verða að tárum tilhlökkunar.“6

Við vitum að við lifum áður en við fæðumst

Eilíf yfirsýn okkar eykur ekki aðeins skilning okkar á þeim sem halda ferð sinni áfram handan jarðlífs, heldur lýkur líka upp skilningi á þeim sem eru að hefja ferð sína og eru í þann mund að koma í jarðlífið.

Sérhver manneskja sem kemur til jarðar er einstakur sonur eða dóttir Guðs.7 Persónulegt ferðalag okkar hófst ekki við fæðingu. Áður en við fæddumst, vorum við í heimi undirbúnings, þar sem við hlutum „fyrstu kennslu [okkar] í heimi andanna.“8 Jehóva sagði við Jeremía: „Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig. Áður en þú fæddist helgaði ég þig.“9

Sumir gætu spurt hvort lífið byrji með myndun fósturvísis, þegar hjartað byrjar að slá eða þegar barnið getur lifað utan móðurlífsins, en hvað okkur varðar er engin spurning að andadætur og synir Guðs fari í sitt eigið persónulega ferðalag til jarðar, til að íklæðast líkama og upplifa hið dauðlega líf.

Við, sem sáttmálsbörn Guðs, elskum, heiðrum, nærum, verndum og tökum fagnandi á móti þeim öndum sem koma úr fortilverunni.

Hið dásamlega framlag kvenna

Að eignast barn, getur verið mikil fórn fyrir konu, bæði líkamlega, tilfinningalega og fjárhagslega. Við elskum og heiðrum hinar dásamlegu konur í þessari kirkju. Af visku og vísdóm berið þið byrðar fjölskyldu ykkar. Þið elskið. Þið þjónið. Þið fórnið. Þið eflið trú, þjónið nauðstöddum og leggið mikið af mörkum til samfélagsins.

Hin helga ábyrgð að varðveita lífið

Fyrir mörgum árum, þegar Gordon B. Hinckley forseti hafði miklar áhyggjur af fjölda fóstureyðinga í heiminum, talaði hann til kvenna í kirkjunni, sem á við um okkar í dag. Hann sagði: „Þið, sem eruð konur og mæður, eruð akkeri fjölskyldunnar. Þið fæðið börnin. Hve mikil og helg ábyrgð það er. … Hvað er að gerast með skilning okkar á helgi mannlífsins? Fóstureyðingar, sem flæða yfir jörðina, eru vondar, vægðarlausar og virkilega viðurstyggilegar. Ég bið konur í þessari kirkju að sniðganga fóstureyðingu, að halda sig fjarri þeim aðstæðum málamiðlunar sem láta hana virðast ákjósanlega. Við fáeinar aðstæður gæti hún átt sér stað, en þær eru einkar takmarkaðar.10 … Þið eruð mæður sona og dætra Guðs og líf þeirra er heilagt. Að vernda þau, er guðlega gefin ábyrgð, sem við megum ekki léttilega leggja til hliðar.“11

Öldungur Marcus B. Nash sagði mér sögu um 84 ára konu sem í skírnarviðtali „játaði fóstureyðingu [mörgum árum áður].“ Hjartnæm sagði hún: „Ég hef borið þá byrði að hafa eytt fóstri alla daga lífs míns í 46 ár. … Ekkert sem ég gerði tók í burtu sársaukann og sektina. Ég var vonlaus þar til mér hafði verið kennt hið sanna fagnaðarerindi Jesú Krists. Ég lærði að iðrast … og skyndilega fylltist ég von. Mér varð loks ljóst að fyrirgefning var möguleg fyrir mig, ef ég sannlega iðraðist synda minna.“12

Hve þakklát við erum fyrir hina guðlegu gjafir iðrunar og fyrirgefningar.

Hvað getum við gert?

Hver er ábyrgð okkar sem friðelskandi lærisveinar Jesú Krists? Við skulum lifa eftir boðorðum Guðs, kenna þau börnum okkar og miðla þeim sem fúslega vilja hlusta.13 Við skulum miðla djúpum tilfinningum okkar um helgi lífsins með þeim sem taka ákvarðanir í samfélaginu. Þeir meta ef til vill ekki fyllilega það sem við trúum, en við biðjum þess að þeir muni skilja betur ástæðu þess að þetta er mikilvægara en einungis það sem einstaklingur vill fyrir eigið líf.

Sé óvænt barn í vændum, skulum við liðsinna með kærleika og hvatningu og, ef þörf er á, að hjálpa fjárhagslega og styrkja móður til þess að hún megi leyfa barni sínu að fæðast og takast á við ferðalag sitt í jarðlífinu.14

Fegurð ættleiðingar

Við, í fjölskyldu minni, höfðum verið ómælanlega blessuð, því fyrir tveimur áratugum komst 16 ára gömul stúlka að því að hún ætti von á barni. Hún og barnsfaðirinn voru ekki gift og sáu engan vegin fram á að þau ættu samleið. Hin unga kona trúði að lífið sem hún bar undir belti væri dýrmætt. Hún fæddi stúlkubarn og gerði réttlátri fjölskyldu mögulegt að ættleiða hana. Hún var þeim Bryce og Jolinne bænheyrsla. Þau nefndu hana Emily og kenndu henni að reiða sig á himneskan föður sinn og son hans, Jesú Krist.

Ljósmynd
Emily og Christian

Emily óx upp. Hve þakklát við erum að Emily og barnabarnið okkar, Christian, urðu ástfangin og giftu sig í húsi Drottins. Emily og Christian eiga nú sjálf saman litla stúlku.

Ljósmynd
Emily með dóttur

Emily skrifaði nýverið: „Á þessum síðustu níu mánuðum meðgöngunnar, hefur mér gefist tími til að íhuga atburðarrás eigin fæðingar. Ég hugsaði um blóðmóður mína, sem aðeins var 16 ára gömul. Þegar ég upplifði sársaukann og breytingarnar sem meðgöngu fylgir, komst ég ekki hjá því að ímynda mér hve erfitt það hefði reynst á 16 ára aldri. … Tárin streyma jafnvel nú er ég hugsa um blóðmóður mína, sem vissi að hún gæti ekki veitt mér það líf [sem hún þráði fyrir mig og gaf mig af óeigingirni] til ættleiðingar. Ég fæ ekki ímyndað mér hvað hún gæti hafa gengið í gegnum á þessum níu mánuðum – verið litin hornauga þegar líkaminn tók að breytast, misst af reynslu unglingsára, meðvituð um að eftir þetta erfiði móðurástar, myndi hún setja barn sitt í fang annars. Ég er svo þakklát fyrir hina óeigingjörnu ákvörðun hennar, að hún skyldi ekki hafa valið að nota eigið sjálfræði á þann hátt að það kæmi í veg fyrir að ég sjálf gæti notað mitt sjálfræði.“ Emily segir að lokum: „Ég er svo þakklát fyrir guðlega áætlun himnesks föður, fyrir ótrúlega foreldra mína sem [elskuðu mig og önnuðust] og fyrir musterin, þar sem við getum verið innsigluð fjölskyldum okkar um eilífð.“15

Ljósmynd
Skólamynd

Frelsarinn „tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá: ,Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér.‘“16

Þegar réttlátar þrár eru enn ekki uppfylltar

Ég tjái þeim réttlátu pörum elsku og samúð sem giftast og geta ekki eignast börn, sem þau þrá svo innilega og þeim konum og körlum sem hafa ekki fengið tækifæri til að giftast samkvæmt lögmáli Guðs. Erfitt er að skilja drauma sem ekki verða að veruleika, sé horft á þá út frá sjónarhorni jarðlífsins. Ég lofa ykkur, sem þjónn Drottins, að séuð þið trúföst Jesú Kristi og sáttmálum ykkar, munið þið hljóta samsvarandi blessanir í þessu lífi og réttlátar þrár munu uppfylltar að eilífri tímasetningu Drottins.17 Við getum verið hamingjusöm í jarðnesku ferðalagi okkar, jafnvel þótt allar réttlátar þrár okkar verði ekki uppfylltar.18

Að fæðingu lokinni, þurfa börn áfram liðsinni okkar. Sum þarfnast þess sárlega. Á hverju ári er líf margra milljóna barna blessað, með umhyggju biskups og rausnarlegum föstufórnum ykkar og greiðslum í mannúðarsjóð. Æðsta forsætisráðið tilkynnti nýlega um 20 milljón dollara viðbótarstyrk til að aðstoða UNICEF við hið alþjóðlega starf sitt að leggja til tvo milljarða bóluefnisskammta.19 Börn eru elskuð af Guði.

Hin helga ákvörðun að eignast barn

Það er áhyggjuefni að jafnvel í sumum löndum heims, þar sem velmegun er mest, fæðast færri börn.20 „Boðorð Guðs til barna hans um að margfaldast og uppfylla jörðina er enn í gildi.“21 Hvenær skal eignast barn og hversu mörg þau skulu vera, eru persónulegar ákvarðanir eiginmanns og eiginkonu og Drottins. Með trú og bæn, getur þessi helga ákvörðun orðið falleg upplifun að opinberun.22

Ég miðla frásögn um Laing-fjölskylduna í Suður-Kaliforníu. Systir Rebecca Laing skrifar:

Ljósmynd
Laing-fjölskyldan

„Sumarið 2011 virtist líf fjölskyldu okkar vera fullkomið. Við vorum hamingjusamlega gift með fjögur börn – á aldrinum 9, 7, 5 og 3ja ára. …

„Meðgöngur mínar og fæðingar [höfðu verið] afar áhættusamar … [og] okkur fannst við [mjög] blessuð að eiga fjögur börn, [og töldum] fjölskyldu okkar fullgerða. Í október þegar ég hlustaði á aðalráðstefnuna vaknaði hjá mér ótvíræð tilfinning um að við ættum að eignast annað barn. Þegar við LeGrand íhuguðum og báðumst fyrir, … vissum við að Guð hafði aðra áætlun fyrir okkur en við sjálf.

„Eftir enn eina erfiða meðgöngu og fæðingu, vorum við blessuð með fallegri telpu. Við gáfum henni nafnið Brielle. Hún var kraftaverk. Augnabliki eftir fæðingu hennar, meðan ég var enn í [fæðingarherberginu], heyrði ég ótvírætt rödd andans: ‚Það er önnur til.‘

Þremur árum síðar kom annað kraftaverk, Mia. Brielle og Mia eru fjölskyldu okkar miklir gleðigjafar.“ Hún segir að lokum: „Að vera opinn fyrir leiðsögn Drottins og fylgja áætlun hans fyrir okkur, mun alltaf leiða til meiri hamingju en … að reiða sig á eigin skilning.“23

Ljósmynd
Brielle og Mia Laing

Frelsarinn elskar hvert dýrmætt barn.

„Og hann tók litlu börnin þeirra, hvert af öðru, og blessaði þau. …

Og … fólkið … beindi … augum sínum til himins og sá … engla stíga niður af himni … umlukta eldsloga, og [englarnir] … umkringdu litlu börnin … og englarnir þjónuðu þeim.“24

Ég ber vitni um að ykkar eigið persónulega ferðalag, sem barn Guðs, hófst ekki þegar súrefni jarðar fyllti lungu ykkar í fyrsta sinn og því lýkur ekki við ykkar síðasta andardrátt í jarðlífinu.

Við skulum alltaf hafa hugfast að hvert andabarn Guðs kemur til jarðar í sitt eigið persónulega ferðalag.25 Megum við fagna þeim, vernda þau og ætíð elska þau. Þegar þið veitið þessum dýrmætu börnum viðtöku í nafni frelsarans og liðsinnið þeim í eilífu ferðalagi þeirra, lofa ég að Drottinn mun blessa ykkur með velþóknun sinni og úthella yfir ykkur kærleika. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Einkabréf.

  2. Einkabréf. Sjá „Ég veit minn lifir lausnarinn,“ Sálmar, nr. 36.

  3. Einkabréf.

  4. Kenning og sáttmálar 42:45.

  5. Joseph F. Smith, í Conference Report, apríl 1916, 3.

  6. Í Trent Toone, „,A Fulness of Joy‘: President Nelson Shares Message of Eternal Life at His Daughter’s Funeral,“ Church News, 19. jan. 2019, thechurchnews.com.

  7. Sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ kirkjajesukrists.is

  8. Kenning og sáttmálar 138:56.

  9. Jeremía 1:5. Nýja testamentið segir frá ófæddum Jóhannesi skírara sem tók viðbragð í móðurlífi Elísabetar þegar hún mætti Maríu sem átti von á barninu Jesú (sjá Lúkas 1:41).

  10. Opinber afstaða Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu:

    „Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur trú á helgi lífsins. Kirkjan leggst því gegn því að fóstureyðingar verði gefnar frjálsar, að eigin hentugleika eða samfélagsins, og ráðleggur þegnum sínum að gangast ekki undir fóstureyðingar, framkvæma eða greiða fyrir þær eða hvetja til þeirra.

    Kirkjan gengst við hugsanlegum undantekningum fyrir meðlimi sína, þegar:

    Þungun á sér stað eftir nauðgun eða sifjaspell, eða

    til þess hæfur læknir úrskurðar að líf eða heilsa móður sé í alvarlegri hættu eða

    hæfur læknir úrskurðar að fóstrið sé svo skaddað að barnið muni ekki lifa að fæðingu lokinni.

    Kirkjan kennir meðlimum sínum að jafnvel slíkar undantekningar réttlæti ekki sjálfkrafa fóstureyðingu. Fóstureyðing er alvarlegs eðlis og hana ætti aðeins að ígrunda eftir að viðkomandi hefur ráðfært sig við kirkjuleiðtoga heimasvæðis og fundið að slík ákvörðun er rétt eftir persónulegar bænir.

    „Kirkjan hefur ekki stutt eða staðið gegn lagafrumvörpum eða opinberum kynningum varðandi fóstureyðingar“ („Abortion,“ Newsroom, newsroom.ChurchofJesusChrist.org; sjá einnig General Handbook: Serving in The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 38.6.1, ChurchofJesusChrist.org).

  11. Gordon B. Hinckley, „Walking in the Light of the Lord,“ Ensign, nóv. 1998, 99; Liahona, jan. 1999, 117.

    Gordon B. Hinckley forseti sagði:

    „Fóstureyðing er ljótur hlutur, niðurlægjandi hlutur, hlutur sem óhjákvæmilega leiðir til eftirsjá og sorgar.

    Þótt við fordæmum hana, Þá leyfum við hana sé um að ræða þungun af völdum sifjaspels eða nauðgunar, þegar líf eða heilsa móður er í mikilli hættu eða þegar áreiðanlegir læknar vita að fóstrið hafi svo alvarlega galla að barninu sé ekki hugað líf eftir fæðingu.

    Slík tilvik eru þó sjaldgæf og einungis hverfandi líkur á að þau komi upp. Við þessar aðstæður eru þær eða þau sem standa frammi fyrir slíkri spurningu beðin að hafa samráð við kirkjuleiðtoga sína og biðjast fyrir af mikilli einlægni áður en áfram er haldið“ („What Are People Asking about Us?,“ Ensign, nóv. 1998, 71; Liahona, jan. 1999, 83–84).

  12. Neil L. Andersen, The Divine Gift of Forgiveness, (2019), 25.

    Eitt sinn í Frakklandi, í skírnarviðtali, talaði kona við mig um fóstureyðingu sína mörgum árum áður. Ég var þakklátur fyrir gæsku hennar. Hún var skírð. Um það bil ári síðar fékk ég símtal. Ári eftir skírn þessarar frábæru konu, hefur henni verið kennt af heilögum anda. Hún sagði grátandi: „Manstu eftir því … að ég sagði þér frá fóstureyðingu fyrir mögum árum? Ég var miður mín yfir því sem ég hafði gert. Ég hef þó breyst á þessu síðastliðnu ári. … Í hjarta hef ég snúið mér að frelsaranum. … Ég þjáist mikið fyrir alvarleika syndar minnar, sem ég get engan veginn bætt fyrir.“

    Ég skynjaði mikla elsku Drottins til þessarar konu. Boyd K. Packer forseti, sagði: „Megin tilgangur friðþægingar Krists er að endurreisa það sem þið fáið ekki endurreist, lækna það sem þið fáið ekki læknað og færa í samt lag það sem þið rufuð og getið ekki bætt fyrir. Þegar þrá ykkar er einlæg og þið eruð fús til að ‚[borga] síðasta eyri‘ [sjá Matteus 5:25–26], þá mun lögmál endurreisnar víkja. Ábyrgð ykkar færist þá yfir á Drottin. Hann mun gera upp skuld ykkar“ („The Brilliant Morning of Forgiveness,“ Ensign, nóv. 1995, 19–20). Ég fullvissaði hana um elsku frelsarans. Drottinn lyfti ekki aðeins syndinni af henni; hann styrkti og hreinsaði anda hennar. (Sjá Neil L. Andersen, The Divine Gift of Forgiveness, 154–56.)

  13. Sjá Dallin H. Oaks, „Vernda börnin,“ aðalráðstefna, október 2012.

  14. Að standa vörð um líf dóttur eða sonar Guðs, er einnig ábyrgð föðurins. Sérhver faðir ber tilfinningalega, andlega og fjárhagslega ábyrgð á því að taka vel á móti barninu sem kemur til jarðar og elska það og annast.

  15. Einkabréf.

  16. Markús 9:36–37.

  17. Sjá Neil L. Andersen, „A Compensatory Spiritual Power for the Righteous“ (trúarsamkoma í Brigham Young háskóla, 18. ágúst 2005), speeches.byu.edu.

  18. Sjá Dallin H. Oaks, „The Great Plan of Happiness,“ Ensign, nóv. 1993, 75; sjá einnig Russell M. Nelson, „Choices,“ Ensign, nóv. 1990, 75.

  19. Sjá „Bishop Caussé Thanks UNICEF and Church Members for COVID-19 Relief,“ Newsroom, 5. mars 2021, newsroom.ChurchofJesusChrist.org.

  20. Ef Bandaríkin hefðu t.d. viðhaldið frjósemishlutfalli sínu frá 2008, fyrir aðeins 13 árum, væru 5,8 milljónir barna á lífi í dag (sjá Lyman Stone, „5.8 Million Fewer Babies: America’s Lost Decade in Fertility,“ Institute for Family Studies, 3. feb. 2021, ifstudies.org/blog).

  21. Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ KirkjaJesuKrists.is, Frá leiðtogum/Yfirlýsingar. Í ritningunum segir: „Synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun“ (Sálmarnir 127:3). See Russell M. Nelson, „How Firm Our Foundation,“ Liahona, júlí 2002, 83–84; sjá einnig Dallin H. Oaks, „Sannleikur og áætlunin,“ aðalráðstefna, október 2018.

  22. Sjá Neil L. Andersen, „Börn,“ aðalráðstefna, október 2011.

  23. Persónulegt bréf, 10. mars 2021.

  24. 3. Nefí 17:21, 24.

  25. Við erum í raun öll ferðamenn – jafnvel landkönnuðir í hinu dauðlega lífi. Við getum ekki stuðst við persónulega fyrri reynslu. Við verðum að komast yfir hengiflug og ólgandi vötn í okkar eigin ferð hér á jörðu“ (Thomas S. Monson, „Brúarsmiðurinn,“ Boðskapur heimsóknarkennara, nóv. 2003).