Aðalráðstefna
Guð meðal okkar
Aðalráðstefna apríl 2021


Guð meðal okkar

Guð er meðal okkar – og tekur persónulega þátt í lífi okkar og leiðbeinir börnum sínum á virkan hátt.

Um aldir hefur Guð talað fyrir munn þjóna sinna, spámannanna.1 Í morgun höfum við notið þeirra forréttinda að hlýða á spámann Guðs tala til alls heimsins. Við elskum þig, Nelson forseti, og ég hvet alla hér hvarvetna til að læra orð þín og hlíta þeim.

Áður en ég náði tólf ára afmælisdegi mínum, hafði fjölskylda mín tvisvar neyðst til að flýja heimili sitt og byrja að nýju í óreiðu, ótta og óvissu af völdum stríðs og stjórnmálaklofnings. Þetta var áhyggjufullur tími fyrir mig, sem hlýtur að hafa verið skelfilegur fyrir elskulega foreldra mína.

Móðir mín og faðir deildu lítið af þessari byrði með okkur fjórum börnunum. Þau báru hitann og þungann eftir bestu getu. Óttinn hlýtur að hafa verið lýjandi, langvarandi og dregið úr von þeirra.

Þessi ömurlegi tími eftir Síðari heimstyrjöldina setti mark sitt á heiminn. Hann setti mark sitt á mig.

Í mestu einsemd þess tíma velti ég oft fyrir mér: „Er einhver von eftir í heiminum?“

Englar meðal okkar

Þegar ég velti þessum spurningum fyrir mér, hugsaði ég um unga bandaríska trúboða sem þjónuðu meðal okkar á þessum árum. Þeir höfðu sagt skilið við þægindi og öryggi heimila sinna, hinu megin á hnettinum, og farið til Þýskalands – land nýlegra óvina – til að færa fólki okkar guðlega von. Þeir komu ekki til að ásaka eða skammast. Þeir gáfu fúslega af lífi sínu, án þess að hugsa um jarðneskan ávinning, og vildu aðeins hjálpa öðrum að finna gleðina og friðinn sem þeir höfðu fundið.

Mér fannst þessir ungu menn og konur fullkomin. Ég er viss um að þau höfðu galla, en mér fannst það ekki. Ég mun alltaf líta á þau sem stærri en sjálft lífið – engla ljóss og dýrðar, þjóna samkenndar, gæsku og sannleika.

Þegar heimurinn var fylltur tortryggni, biturð, hatri og ótta, fylltu fordæmi og kenningar þessa unga fólks mig von. Boðskapur fagnaðarerindisins sem þau færðu var æðri stjórnmálum, sögu, mögli, sorg og persónulegum viðfangsefnum. Hann veitti guðleg svör við mikilvægum spurningum sem við höfðum á þessum erfiðu tímum.

Boðskapurinn var sá að Guð lifði og lét sér annt um okkur, jafnvel í slíku uppnámi, ruglingi og glundroða. Að hann hafði í raun birst á okkar tíma, til að endurreisa ljós og sannleika – fagnaðarerindi sitt og kirkju. Að hann talaði aftur til spámanna; að Guð væri meðal okkar – og tæki persónulega þátt í lífi okkar og leiðbeindi börnum sínum á virkan hátt.

Það sætir furðu hvað við getum lært þegar við skoðum aðeins betur áætlun hjálpræðis og upphafningar himnesks föður, sæluáætlunina fyrir börn hans. Þegar okkur finnst við ómerkileg, hrakin og gleymd, munum við vita að við getum verið viss um að Guð hefur ekki gleymt okkur – í raun býður hann öllum börnum sínum eitthvað óumræðilegt: Að verða „erfingjar Guðs, en samarfar Krists“.2

Hvað merkir þetta?

Að við munum hljóta ævarandi fyllingu gleði3 og eiga möguleika á að „erfa hásæti, ríki, hátignir og völd.“4

Það vekur mikla auðmýkt að vita að þessi stórkostlega og yfirnáttúrlega framtíð sé möguleg – ekki vegna þess hver við erum heldur hver Guð er.

Hvernig gætum við nokkru sinni, möglað eða verið bitur, vitandi þetta? Hvernig gætum við nokkru sinni horft álút til jarðar þegar konungur konunganna býður okkur að taka flugið inn í ólýsanlega framtíð guðlegrar hamingju?5

Hjálpræði meðal okkar

Vegna fullkomins kærleika Guðs til okkar og eilífrar fórnar Jesú Krists, er hægt að afmá syndir okkar – bæði stórar og smáar – svo þeirra verður ekki minnst lengur.6 Við getum staðið frammi fyrir honum hrein, verðug og helguð.

Hjarta mitt er barmafullt af þakklæti fyrir föður minn á himnum. Mér verður ljóst að hann hefur ekki dæmt börn sín til að fara hrasandi í gegnum jarðlífið, án vonar um bjarta og eilífa framtíð. Hann hefur veitt leiðsögn sem opinberar leiðina aftur til hans. Þungamiðja alls þess er hans elskaði sonur, Jesús Kristur,7 og fórn hans fyrir okkur.

Hin altæka friðþæging frelsarans breytir algjörlega hvernig við gætum litið á brot okkar og ófullkomleika. Í stað þess að dvelja við þau og upplifa okkur óafturkræf, getum við lært af þeim og verið vongóð.8 Hin hreinsandi gjöf iðrunar gerir okkur kleift að segja skilið við syndir okkar og verða ný sköpun.9

Vegna Jesú Krists, þurfa mistök okkar ekki að skilgreina okkur. Þau geta fágað okkur.

Líkt og tónlistarmaður sem æfir tónstiga, getum við séð mistök okkar, bresti og syndir sem tækifæri til aukinnar sjálfsvitundar, dýpri og einlægari elsku til annarra og fágunar með iðrun.

Ef við iðrumst, gera mistök okkur ekki vanhæf. Þau eru hluti af framþróun okkar.

Við erum öll sem hvítvoðungar í samanburði við þá dýrð og þann mikilleika sem okkur er ætlað að hljóta. Enginn maður lærir að skríða og síðan að ganga og hlaupa, án þess að hrasa, fá skelli og marbletti. Þannig lærum við.

Ef við höldum einlæglega áfram að æfa okkur, reynum alltaf að halda boðorð Guðs og leggja okkur fram við að iðrast, standast og nota það sem við lærum, setning á setning ofan, munum við safna ljósi sálum okkar.10 Þótt við fáum ekki fyllilega skilið alla möguleika okkar að sinni, þá „vitum [við], að þegar [frelsarinn] birtist,“ munum við sjá ásýnd hans í okkur sjálfum og „sjá hann eins og hann er.“11

Hve dýrðlegt loforð!

Já, veröldin er í uppnámi. Við höfum vissulega veikleika. Við þurfum þó ekki að hengja haus í örvæntingu, því við getum treyst Guði, við getum treyst syni hans, Jesú Kristi, og við getum tekið við gjöf andans okkur til leiðsagnar á þessum vegi til lífs fylltu gleði og guðlegri hamingju.12

Jesús á meðal okkar

Ég hef oft velt fyrir mér hvað Jesús myndi kenna og gera væri hann nú á meðal okkar?

Eftir upprisu sína, uppfyllti Jesús Kristur loforð sitt um að vitja „[annarra sauða]“ sinna.13

Í Mormónsbók: Öðru vitni um Jesú Krist segir frá þeirri vitjun til fólksins í Ameríku til forna. Við höfum þessa dýrmætu heimild sem áþreifanlegt vitni um verk frelsarans.

Fólkið í Mormónsbók bjó hinumegin á hnettinum – saga þess, menning og stjórnmálaaðstæður voru afar frábrugðin fólksins þar sem Jesús kenndi í jarðneskri þjónustu sinni. Samt kenndi hann því margt af því sama og hann kenndi í Landinu helga.

Af hverju myndi hann gera það?

Frelsarinn kennir alltaf sígildan sannleika. Hann á við um fólk á öllum öldum, við allar aðstæður.

Boðskapur hans var og er boðskapur vonar og aðildar – vitnisburður um að Guð faðir okkar á himnum hefur ekki yfirgefið börn sín.

Að Guð sé meðal okkar!

Fyrir tvö hundruð árum, kom frelsarinn aftur til jarðar. Með Guði föðurnum, birtist hann hinum 14 ára Joseph Smith og innleiddi endurreisn fagnaðarerindis og kirkju Jesú Krists. Frá þessum degi lukust himnarnir upp og himneskir sendiboðar komu niður úr sölum ódauðlegrar dýrðar. Ljós og þekking streymdi frá hásæti himins.

Drottinn Jesús Kristur talaði enn á ný til heimsins.

Hvað sagði hann?

Okkur til blessunar, eru mörg orð hans skráð í Kenningu og sáttmála – og aðgengileg öllum hér í heimi sem vilja lesa og kynna sér þau. Hve dýrmæt þessi orð eru fyrir okkur í dag!

Við ættum ekki að furða okkur á því að frelsarinn kennir aftur megin boðskap fagnaðarerindis síns: „Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu, öllum mætti þínum, huga og styrk. Og í nafni Jesú Krists skalt þú þjóna honum.“14 Hann hvetur okkur til að leita Guðs15 og lifa eftir þeim kenningum sem hann hefur opinberað þjónum sínum, spámönnunum.16

Hann kennir okkur að elska hvert annað17 og vera „[full] af kærleika til allra manna.“18

Hann býður okkur að vera hendur sínar, að fara um og gera gott.19 „Elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.“20

Hann skorar á okkur að taka þessu mikla boði sínu: Að elska, að miðla og bjóða öllum fagnaðarerindið og kirkju hans.21

Hann býður okkur að reisa heilög musteri, að fara þangað og þjóna þar.22

Hann kennir að við verðum lærisveinar hans – að hjörtu okkar sækist ekki eftir persónulegu valdi, ríkidæmi, viðurkenningu eða stöðu. Hann kennir okkur að „leggja til hliðar það, sem þessa heims er, og leita þess, sem betra er.“23

Hann hvetur okkur til að leita gleði, skilnings, friðar, hamingju24 og loforðsins um ódauðleika og eilíft líf.25

Við skulum taka þetta skrefi lengra. Ef Jesús kæmi í dag í deild ykkar eða grein eða á heimili ykkar. Hvað fyndist ykkur um það?

Hann sæi beint inn í hjarta ykkar. Ytra útlit myndi missa gildi sitt. Hann myndi þekkja ykkur eins og þið eruð. Hann myndi þekkja þrár hjarta ykkar.

Hann myndi uppörva hina lítillátu og auðmjúku.

Hann myndi lækna hina sjúku.

Þeim sem efast myndi hann vekja trú og hugrekki til að trúa.

Hann myndi kenna okkur að ljúka upp hjarta okkar fyrir Guði og liðsinna öðrum.

Hann myndi sjá og heiðra heiðarleika, auðmýkt, ráðvendni, trúfesti, samúð og kærleika.

Eitt auglit í augu hans og við yrðum aldrei söm. Við myndum að eilífu breytast. Umbreytt af þeim djúpa veruleika að Guð væri vissulega meðal okkar.

Hvað eigum við að gera?26

Ég lít til baka af góðvild á hinn unga mann sem ég var á uppvaxtarárum mínum. Ef ég gæti farið aftur í tímann, myndi ég hughreysta hann og segja honum að vera á hinum rétta vegi og leita áfram. Ég myndi líka biðja hann að bjóða Jesú Kristi í líf sitt, því að Guð er meðal okkar!

Ykkur, elsku bræður mínir og systur, kæru vinir, og öllum sem leita svara, sannleika og hamingju, gef ég sömu ráð: Haldið áfram að leita af trú og þolinmæði.27

Biðjið og ykkur mun hljótast. Knýið á, og fyrir ykkur mun upp lokið verða.28 Treystið Drottni.29

Í okkar daglega lífi er það mikilvægasta verkefni okkar og blessað tækifæri að mæta Guði.

Þegar við leggjum drambið til hliðar og nálgumst hásæti hans með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda,30 mun hann nálgast okkur.31

Þegar við leitumst við að fylgja Jesú Kristi og ganga veg lærisveinsins, setning á setning ofan, mun sá dagur koma að við upplifum hina ólýsanlegu gjöf að meðtaka fyllingu gleði.

Elsku vinir mínir, himneskur faðir elskar ykkur fullkominni elsku. Hann hefur sannreynt elsku sína á ótal vegu, en þó umfram allt með því að færa eingetinn son sinn sem fórn og sem gjöf til barna sinna, til að gera að veruleika endurkomuna til himneskra foreldra okkar.

Ég ber vitni um að himneskur faðir okkar lifir, að Jesús Kristur leiðir kirkju sína og að Russell M. Nelson forseti er spámaður hans.

Ég færi ykkur elsku mína og blessun á þessum gleðilegu páskum. Ljúkið upp hjarta ykkar fyrir frelsara okkar og lausnara, burt séð frá aðstæðum ykkar, raunum, þjáningum eða mistökum; þið getið vitað að hann lifir, að hann elskar ykkur og vegna hans, verðið þið aldrei ein.

Guð er meðal okkar.

Um það ber ég vitni í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.