Aðalráðstefna
Hvað hefur frelsari okkar gert fyrir okkur?
Aðalráðstefna apríl 2021


Hvað hefur frelsari okkar gert fyrir okkur?

Jesús Kristur hefur gert allt sem nauðsynlegt er fyrir ferð okkar í gegnum jarðneskt líf í áttina að þeim örlögum sem útlistuð eru í áætlun himnesks föður.

Á laugardagsfundi á stikuráðstefnu fyrir mörgum árum, hitti ég konu sem sagði að vinir hennar hefðu beðið hana að koma aftur til kirkjunnar eftir mörg ár í lítilli virkni, en hún gat ekki hugsað upp neina ástæðu þess að hún ætti að gera það. Til að hvetja hana, sagði ég: „Þegar þú hugleiðir alla þá hluti sem frelsarinn hefur gert fyrir þig, finnurðu margar ástæður til að koma tilbaka og tilbiðja hann og þjóna.“ Ég var forviða þegar hún svaraði: „Hvað hefur hann gert fyrir mig?“

Ljósmynd
Síðari koman

Hvað hefur Jesús Kristur gert fyrir hvert og eitt okkar? Hann hefur gert allt sem nauðsynlegt er fyrir ferð okkar í gegnum jarðneskt líf í áttina að þeim örlögum sem útlistuð eru í áætlun himnesks föður. Mig langar að ræða fjögur aðalatriði þessarar áætlunar. Í hverri þeirra er eingetinn sonur hans, Jesús Kristur þungmiðjan. Það sem knýr þetta allt áfram „er elska Guðs, sem breiðir úr sér í hjörtum mannanna barna, hún er því eftirsóknarverðust af öllu“(1. Nefí 11:22).

I.

Rétt fyrir páskasunnudag er rétti tíminn til að ræða fyrst um upprisu Jesú Krists. Upprisa frá dauðum er hinn traustvekjandi persónulegi þáttur trúar okkar. Hún gefur kenningu okkar þýðingu, hegðun okkar hvatningu og framtíð okkar von.

Af því að við trúum frásögninni um upprisu Jesú Krists bæði í Biblíunni og Mormónsbók, þá samþykkjum við einnig hinar fjölmörgu ritningargreinar sem kenna um samskonar upprisu hjá öllum dauðlegum mannverum sem lifað hafa á jörðunni.1 Eins og Jesús kenndi: „Ég lifi og þér munuð lifa“ (Jóhannes 14:19). Postular hans kenndu einnig að „þá munu dauðir upp rísa óforgengilegir“ og „hið forgengilega breytist og verður ódauðlegt“ (1. Korintubréf 15:52, 54).

Ljósmynd
Upprisan

Upprisan gefur okkur samt meira en þessa fullvissu um ódauðleika. Hún breytir því hvernig við lítum jarðlífið.

Upprisan gefur okkur heildarsýnina og styrkinn til að standast jarðneskar áskoranir sem við og ástvinir okkar þurfum öll að takast á við. Hún veitir okkur nýja leið til að horfa á þá líkamlegu, hugarfarslegu og tilfinningalegu annmarka sem við höfum við fæðingu eða öðlumst í jarðnesku lífi. Hún veitir okkur styrk til að þola sorgir, mistök og vonbrigði. Þar sem hvert okkar á upprisuna örugga, vitum við að þessir dauðlegu annmarkar og mótlæti er einungis tímabundið ástand.

Upprisan er okkur líka sterk hvatning til að halda boðorð Guðs í jarðnesku lífi okkar. Þegar við rísum frá dauðum og höldum til hins forspáða lokadóms, viljum við vera gjaldgeng fyrir bestu blessanirnar sem lofaðar eru upprisnum einstaklingum.2

Ljósmynd
Við getum lifað eilíflega sem fjölskyldur

Að auki er það loforð að upprisan geti gefið okkur tækifæri til að vera með fjölskyldu okkar – eiginmanni, eiginkonu, börnum, foreldrum og afkomendum – öflug hvatning til að uppfylla fjölskylduábyrgð okkar í jarðlífinu. Það hjálpar okkur að búa saman í kærleika í þessu lífi og huggar okkur við dauða ástvina. Við vitum að þessi dauðlegi aðskilnaður er einungis tímabundinn og við horfum fram til gleðilegra endurfunda og sambanda í framtíðinni. Upprisan veitir okkur von og styrkinn til að vera þolinmóð er við bíðum. Hún undirbýr okkur með hugrekki og virðingu til að takast á við eigin dauða – jafnvel ótímabæran dauðdaga.

Öll þessi áhrif upprisunnar eru hluti af fyrsta svarinu við spurningunni: „Hvað hefur Jesús Kristur gert fyrir mig?“

II.

Fyrir flest okkar er fyrirgefning synda okkar stærsti þáttur friðþægingar Jesú Krists. Við syngjum lotningarfull við tilbeiðslu:

Og fórn þá Jesús fús til var,

að færa á sinni braut.

Hann saklaus vorar syndir bar,

og sýknun veröld hlaut.3

Frelsari okkar og lausnari þoldi óskiljanlegar þjáningar til að verða fórn fyrir syndir allra dauðlegra manna sem myndu iðrast. Friðþægingarfórnin fól í sér hið fullkomna góða, hið saklausa og lýtalausa lamb, fyrir alla hugsanlega illsku, syndir alls heimsins. Hún opnaði okkur dyr til að hreinsast af persónulegum syndum okkar svo að við gætum komist aftur í návist Guðs, eilífs föður okkar. Þær dyr eru öllum börnum Guðs opnar. Við syngjum við tilbeiðslu:

Mig furðar að hann kom til jarðar frá himins dýrð,

svo hrokafull sál mín til frelsunar yrði skírð.

Að ástin hans víðfeðma veraldar leiðum á.4

Hin stórkostlegu og óskiljanlegu áhrif friðþægingar Jesú Krists byggja á elsku Guðs til okkar allra. Hún staðfestir yfirlýsingu hans um að „verðmæti sálna“ – allra – „er mikið í augum Guðs“ (Kenning og sáttmálar 18:10). Í Biblíunni útskýrði Jesús Kristur þetta út frá kærleika himnesks föður okkar: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf“ (Jóhannes 3:16). Í nútíma opinberunum hefur lausnari okkar Jesús Kristur lýst því yfir að hann „elskaði svo heiminn, að hann gaf líf sitt, svo að allir þeir, sem trúa myndu, gætu orðið synir Guðs“ (Kenning og sáttmálar 34:3).

Er það nokkur furða þá að Mormónsbók, „Annað vitni um Krist,“ ljúki með kenningu um að til að „fullkomnast“ og „helgast í Kristi“ verðum við „að [elska] Guð með öllum mætti [okkar], huga og styrk“? (Moróní 10:32–33). Áætlun hans sem er sprottin af kærleika verður að vera meðtekin af kærleika.

III.

Hvað annað hefur frelsari okkar, Jesús Kristur, gert fyrir okkur? Í gegnum kenningar spámanna hans og persónulega þjónustu hans sjálfs, kenndi Jesús okkur sáluhjálparáætlunina. Þessi áætlun felur í sér sköpunina, tilgang lífsins, nauðsyn andstæðna í öllu og gjöf sjálfræðis. Hann kenndi okkur einnig boðorðin og sáttmálana sem við verðum að hlýða og helgiathafnirnar sem við verðum að meðtaka til að komast aftur heim til himneskra foreldra okkar.

Ljósmynd
Fjallræðan

Í Biblíunni lesum við um kenningar hans: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins“ (Jóhannes 8:12). Í nútíma opinberunum lesum við: „Sjá. Ég er Jesús Kristur, … ljós, sem ekki er unnt að dylja í myrkrinu“ (Kenning og sáttálar 14:9). Ef við fylgjum kenningum hans, lýsir hann veg okkar í þessu lífi og tryggir örlög okkar í hinu næsta.

Vegna þess að hann elskar okkur, skorar hann á okkur að einblína á sig, frekar en á hluti heimsins. Í hinni miklu ræðu sinni um brauð lífsins, kenndi Jesús að við ættum ekki að vera á meðal þeirra sem heillast mest af því sem þessa heims er – þess sem viðheldur lífi á jörðunni en veitir enga næringu fyrir eilíft líf.5 Eins og Jesús bauð okkur ítrekað: „Fylg mér.“6

IV.

Að lokum kennir Mormónsbók að Jesús Kristur hafi „[þolað] alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar“ sem hluta af friðþægingu sinni „Og svo [hafi orðið], til að orðið [mætti] rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns“ (Alma 7:11).

Af hverju þoldi frelsari okkar slíkar „alls kyns“ þjáningar? Alma útskýrði: „Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess“ (Alma 7:12).

Ljósmynd
Kristur í Getsemane

Frelsarinn skynjar og þekkir baráttu okkar, sorgir, freistingar og þjáningar, því hann upplifði það af eigin raun, sem hluta af friðþægingu sinni. Aðrar ritningar staðfesta þetta. Nýja testamentið segir: „Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu“ (Hebreabréfið 2:18). Jesaja kenndi: „Óttast eigi því að ég er með þér … Ég styrki þig, ég hjálpa þér“ (Jesaja 41:10). Þeir sem lifa við einhverskonar jarðneskar hamlanir ættu að hafa í huga að frelsarinn upplifði líka þess konar þjáningar og að fyrir friðþægingu sína, veitir hann styrk til að umbera þær.

Spámaðurinn Joseph Smith dró þetta allt saman í þriðja trúaratriðinu: „Vér trúum, að fyrir friðþægingu Krists geti allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“

„Hvað hefur Jesús Kristur gert fyrir mig?“ spurði þessi systir. Undir áætlun himnesks föður skapaði hann „himna og jörð“ (Kenning og sáttmálar 14:9) svo að hvert okkar gæti hlotið þá jarðnesku reynslu sem nauðsynleg er til að leita eftir guðlegum örlögum okkar. Sem hluti af áætlun föðurins, var upprisa Jesú Krists, sem sigraðist á dauðanum, til að tryggja okkur öllum ódauðleika. Friðþægingarfórn Jesú Krists veitir okkur öllum tækifæri til að iðrast synda okkar og að snúa aftur hrein til okkar himneska heimilis. Boðorð hans og sáttmálar vísa okkur veginn og prestdæmi hans veitir okkur valdsumboðið til að framkvæma helgiathafnirnar sem eru nauðsynlegar til að öðlast þau örlög. Frelsari okkar var fús til að upplifa allan jarðneskan sársauka og veikindi, svo hann mætti vita hvernig best að styrkja okkur í erfiðleikum okkar.

Ljósmynd
Jesús Kristur

Jesús Kristur gerði þetta allt vegna þess að hann ann öllum börnum Guðs. Kærleikurinn er hvatinn að baki þessu öllu og þannig var það frá upphafi. Guð hefur sagt okkur í nútíma opinberunum að „hann skapaði … karl og konu í sinni eigin mynd … og gaf þeim boðorð, að þau skyldu elska hann og þjóna honum“ (Kenning og sáttmalar 20:18–19).

Ég ber vitni um þetta allt og bið þess að við munum öll minnast þess sem frelsarinn hefur gert fyrir hvert og eitt okkar að við munum öll elska og þjóna honum, í nafni Jesú Krists, amen.