Aðalráðstefna
Ljós laðast að ljósi
Aðalráðstefna apríl 2021


Ljós laðast að ljósi

Þegar við eflum trú á Krist, hljótum við aukið ljós, uns það eyðir öllu myrkri.

Kæru bræður mínir og systur, ég fagna með ykkur á þessum blessaða páskasunnudegi og furða mig á hinu dýrðlega ljósi sem rann upp á jörðu með upprisu Drottins okkar og frelsara Jesú Krists.

Í jarðneskri þjónustu sinni sagði Jesús: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“1 Andi Krists „er í öllu og gefur öllu líf.“2 Það bar sigur yfir myrkri, því ella værum við umlukt því.

Fyrir mörgum árum var ég í ævintýraleit með sonum mínum tveimur og hópi ungra manna í hellinum Stynjanda [Moaning Cavern], sem bar það nafn vegna hljóðs sem eitt sinn bergmálaði út úr munna hans. Hellirinn er stromphellir sem opnast niður í 55 metra djúpan geim, sá stærsti sinnar tegundar í Kaliforníu.

Ljósmynd
Hellirinn Stynjandi [Moaning Cavern]

Það eru aðeins tvær leiðir niður: öruggur hringstigi eða niðursig á hellisgólfið; ég og synir mínir völdum sigið. Eldri sonur minn fór fyrstur og ég og sá yngri á eftir honum, svo við gætum sigið saman niður.

Eftir að leiðsögumennirnir höfðu leiðbeint okkur og fest sigbúnaðinn með sterkt reipi, sigum við aftur á bak niður, þar til við stóðum á lítilli syllu og töldum í okkur kjarkinn, því það var síðasti staðurinn til að snúa við og sá síðasti til að sjá sólarljós hellismunnans.

Í næsta skrefi aftur á bak steyptumst við ofan í hellistómið, sem var svo djúpt að það hefði getað rúmað alla Frelsisstyttuna. Þarna dingluðum við í hægum snúningi meðan augun aðlöguðust jafnóðum myrkrinu. Þegar við héldum áfram að síga, lýsti ljómi rafmagnsljósanna upp vegg ólýsanlegra glitrandi dropasteinskerta.

Fyrirvaralaust slokknuðu ljósin skyndilega. Við héngum í hyldýpinu umluktir myrkri, svo algjöru að við sáum jafnvel ekki hendurnar á reipunum fyrir framan okkur. Rödd heyrðist þegar í stað: „Pabbi, pabbi, ertu þarna?“

„Ég er hér, sonur, ég er hér,“ svaraði ég.

Þessu óvænta ljósleysi var ætlað sýna fram á að án rafmagnsljósa væri myrkrið í hellinum algjört. Það tókst; við „fundum“ fyrir myrkrinu. Þegar ljósið var aftur kveikt, hörfaði myrkrið samstundis, því eðli myrkurs er að gefa eftir fyrir ljósi, jafnvel fyrir daufasta ljósi. Ég og synir mínir búum að þessari minningu um myrkur sem við höfðum aldrei áður kynnst og meira þakklæti fyrir ljósið sem við gleymum aldrei og fullvissunni um að við erum aldrei ein í myrkrinu.

Hellissigi okkar mætti að nokkru líkja við ferð okkar um jarðlífið. Við yfirgáfum hið dýrðlega ljós himins og fórum í gegnum gleymskuhulu ofan í myrkvaðan heim. Himneskur faðir lét okkur ekki myrkrinu eftir, heldur lofaði okkur ljósi fyrir ferð okkar, með sínum elskaða syni, Jesú Kristi.

Við vitum að sólarljós er lífsnauðsynlegt öllu lífi á jörðu. Ljósið sem stafar frá frelsara okkar er ekki síður mikilvægt andlegu lífi okkar. Af sinni fullkomnu elsku, gefur Guð hverjum manni ljós Krists „sem í heiminn kemur,“3 svo þeir megi „þekkja gott frá illu“4 og „gjöra sífellt það sem gott er.“5 Þetta ljós, sem birtist í því sem við oft köllum samvisku okkar, hvetur okkur alltaf til að framkvæma og verða betri, til að verða okkar allra besta.

Þegar við eflum trú á Krist, hljótum við aukið ljós, uns það eyðir öllu myrkri sem gæti umlukið okkur. „Það, sem er frá Guði, er ljós. Og sá, sem veitir ljósinu viðtöku og er staðfastur í Guði, öðlast meira ljós. Og það ljós verður skærara og skærara þar til hinn fullkomna dag.“6

Ljós Krists býr okkur undir að meðtaka þjónandi áhrif heilags anda, sem er „hið sannfærandi afl Guðs … um sannleika fagnaðarerindisins.“7. Þriðji meðlimur Guðdómsins, heilagur andi, er „andavera.“8 Hið stærra ljós, sem himneskur faðir veitir ykkur í jarðlífinu, veitist með heilögum anda, en áhrif hans munu „upplýsa huga [ykkar og] fylla sál [ykkar] gleði.“9

Í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eruð þið skírð með niðurdýfingu til fyrirgefningar synda með endurreistu prestdæmisvaldi. Hendur eru síðan lagðar á höfuð ykkar og þessi dásamlega, „ólýsanlega gjöf“10 heilags anda er ykkur gefin.

Þar á eftir, þegar þrár ykkar og verk einskorðast við sáttmálsveginn, mun heilagur andi, sem ljós innra með ykkur, opinbera og vitna um sannleikann11, vara við hættum, hugga12 og hreinsa13 og veita sál ykkar frið14.

Þar sem „ljós laðast að ljósi,“15 mun hinn stöðugi förunautur, heilgur andi, leiða ykkur til að velja það sem viðheldur ljósinu í ykkur; en, hins vegar, sé valið án áhrifa heilags anda er hætta á því að þið látið leiðast í skugga og myrkur. Eins og öldungur Robert D. Hales kenndi: „Þegar ljós er fyrir hendi, er myrkrið yfirunnið og verður að víkja. … Þegar hið andlega ljós heilags anda er ríkjandi, víkur myrkur Satans.“16

Ég bendi á að ef til vill er þetta sá tími til að spyrja ykkur sjálf: Hef ég þetta „ljós“ í lífi mínu? Ef ekki, hvenær hafði ég það síðast?

Á sama hátt og sólarljósið umlykur jörðu, til að endurnýja og viðhalda lífi, getið þið daglega aukið ljósið hið innra þegar þið veljið að fylgja honum – Jesú Kristi.

Sólargeisli bætist við í hvert sinn sem þið leitið til Guðs í bæn, lærið ritningarnar til að „hlýða á hann“17 eða bregðist við leiðsögn og opinberun okkar lifandi spámanns og haldið boðorðin og „farið í öllu eftir helgiathöfnum Drottins.“18

Þið bjóðið andlegu sólarljósi í sál ykkar og friði í líf ykkar í hvert sinn sem þið iðrist. Þegar þið meðtakið sakramentið í hverri viku, til að taka á ykkur nafn frelsarans, hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, mun ljós hans skína í ykkur.

Það er sólskin í sál ykkar í hvert sinn sem þið miðlið fagnaðarerindinu og gefið vitnisburð ykkar. Í hvert sinn sem þið þjónið öðrum eins og frelsarinn gerði, munið þið finna yl hans í hjarta. Ljós himnesks föður dvelur ætíð í hans heilögu musterum og í öllum þeim sem dvelja í húsi Drottins. Ljós hans í ykkur eykst með kærleiksverkum ykkar, þolinmæði, fyrirgefningu, elsku og sést á glaðlegri ásjónu ykkar. Aftur á móti köllum við yfir okkur skugga, séum við skjót til reiði eða of treg til að fyrirgefa. „Þegar þið lyftið höfði í átt að sólarljósinu, munu skuggar aðeins falla aftan við ykkur.“19

Þegar þið lifið verðug samfélags heilags anda, munið þið sannlega „auka andlega hæfni til að hljóta opinberun.“20

Lífið færir áskoranir og áföll og öll þurfum við að takast á við eitthverja myrka daga og storma. Í þessu öllu, ef við „látum Guð ríkja í lífi okkar,“21 mun ljós heilags anda opinbera að það felst tilgangur í erfiðleikum okkar og að þeir munu endanlega breyta okkur í betri og fullgerðari einstaklinga, með sterkari trú og bjartari von í Kristi, í vissu um að Guð var allan tímann með okkur á hinum myrku stundum. Eins og Nelson forseti hefur sagt: „Hið aukna myrkur, sem fylgir þrengingum, gerir ljósi Jesú Krists kleift að skína sífellt bjartar.“22

Lífið getur stundum farið með okkur á óvænta og óvelkomna staði. Ef syndin hefur leitt ykkur þangað, sviptið þá tjaldi myrkurs frá og leitið þegar til himnesks föður ykkar með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda. Hann mun hlusta á einlæga bæn ykkar. Verið hugrökk í dag og „nálgist [hann] og [hann] mun nálgast [ykkur].“23 Þið eruð aldrei utan græðandi máttar friðþægingar Jesú krists.

Ég er af góðum foreldrum kominn og trúföstum áum, sem breyttu samkvæmt ljósi Jesú Krists og fagnaðarerindi hans, sem blessaði líf þeirra og kynslóða sem á eftir komu með andlegu úthaldi. Pabbi talaði oft um föður sinn, Milo T. Dyches, og sagði frá því hvernig trú á Guð hefði verið honum sem ljós daga og nætur. Afi var skógarvörður og reið oft einn um fjöllin og treysti eflaust á leiðsögn og handleiðslu Guðs.

Síðla haust nokkurt var afi einn uppi í fjöllum. Veturinn hafði þegar sýnt sig þegar hann söðlaði einn eftirlætis hestinn sinn, Prins gamla, og reið að sögunarmyllunni, til að vigta og mæla trjáboli áður en hægt var að saga þá í timburborð.

Hann lauk verkinu í rökkrinu og klifraði aftur upp á hnakkinn. Þá hafði hitastigið hríðfallið og snjóbylur var að hylja fjallið. Hann hafði hvorki ljós né stíg til að komast leiðar sinnar, en snéri Prins í áttina sem hann taldi liggja til varðstöðvarinnar.

Ljósmynd
Milo Dyches á ferð í stormi

Eftir að hafa riðið í marga kílómetra í myrkrinu, hægði Prins á sér og stoppaði síðan alveg. Afi hvatti Prins endurtekið að halda áfram, en hesturinn neitaði. Snjóþæfingurinn varnaði þeim sýn og Afa varð ljóst að hann þarfnaðist hjálpar Guðs. Eins og hann hafði gert alla sína ævi, [bað hann auðmjúkur] í trú, án þess að efa.“24 Hljóð, kyrrlát rödd svaraði: „Milo, láttu Prins leiða.“ Afi gerði það og þegar hann gaf eftir tauminn, snéri Prins sér í aðra átt og þrammaði áfram. Klukkustundum síðar stoppaði Prins aftur og beygði niður höfuðið. Í gegnum sjóþæfinginn sá afi að þeir höfðu komist klakklaust að hliði varðstöðvarinnar.

Að morgni í sólinni rakti afi óskýr spor Prins í snjónum. Hann saup hveljur þegar hann sá hvar hann hafði gefið Prins eftir stjórnina; það var rétt við háa fjallsbrún, þar sem eitt skref til viðbótar hefði orðið til þess að bæði maður og hestur hefðu hrapað til dauða í stórgrýtið fyrir neðan.

Byggt á þessari upplifun og mörgum öðrum, sagði afi að „besti og öruggasti félaginn sem hægt væri að hugsa sér sé faðir okkar á himnum.“ Þegar pappi sagði söguna af afa, minnist ég þess að hann hafi vitnað í ritninguna:

„Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.

Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“25

Ljósmynd
Frelsarinn með lampa í hendi

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er hið ævarandi ljós sem „skín í myrkrinu.“26 Það er ekkert myrkur sem megnar að yfirskyggja, slökkva eða ónýta það ljós. Himneskur faðir gefur ykkur fúslega það ljós. Þið eruð aldrei einsömul. Hann heyrir og svarar hverri bæn. Hann hefur „[kallað] yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“27 Þegar þið spyrjið: „Faðir, faðir, ertu þarna?“ Þá mun hann svara: „Ég er hér, barnið mitt, ég er hér.“

Ég ber vitni um að Jesús Kristur uppfyllti áætlun himnesks föður sem frelsari okkar og lausnari;28 hann er ljósið, lífið og vegurinn. Ljósið hans mun aldrei slokkna,29 dýrð hans aldrei linna, elska hans til ykkar er eilíf – í gær, í dag og ævarandi. Í nafni Jesú Krists, amen.