Aðalráðstefna
Biskupar – hirðar yfir hjörð Drottins
Aðalráðstefna apríl 2021


Biskupar – hirðar yfir hjörð Drottins

Biskup gegnir því mikilvæga hlutverki að þjóna sem hirðir við að leiða hina upprennandi kynslóð til Jesú Krists.

Kæru bræður mínir í prestdæminu, ein eftirminnilegasta setning ástsæls sálms er spurningin: „Mun Síons æsku bresta kjark?“1 Hjartnæm og ákveðin yfirlýsing mín sem svar við þeirri spurningu er: Nei!

Til að ganga úr skugga um að svarið fái staðist, ber ég í dag vitni um að stuðningur við hina upprennandi kynslóð á tímum óvenjulegra áskorana og freistinga, er grundvallarábyrgð sem himneskur faðir hefur falið foreldrum og biskupsráðum.2 Ég ætla að útskýra mikilvægi biskupsráðs með persónulegri reynslu.

Þegar ég var djákni flutti fjölskyldan mín í nýtt heimili í annarri deild. Ég var að byrja í unglingadeild og fór því líka í nýjan skóla. Það var stórkostlegur hópur ungra manna í djáknasveitinni. Flestir foreldrar þeirra voru virkir meðlimir. Móðir mín var alveg virk; faðir minn var framúrskarandi á allan hátt en var ekki virkur meðlimur.

Annar ráðgjafinn í biskupsráði,3 bróðir Dean Eyre, var dyggur leiðtogi. Þegar ég var enn að aðlagast nýju deildinni, var tilkynnt um feðgaviðburð í Bear Lake – í um 65 km fjarlægð. Ég vildi helst ekki mæta án föður míns. Bróðir Eyre bauð mér þó sérstaklega að fara með sér. Hann talaði af sæmd og virðingu um föður minn og lagði áherslu á mikilvægi þess að ég gæti verið með öðrum meðlimum djáknasveitarinnar. Ég ákvað því að fara með bróður Eyre og átti yndislega upplifun.

Bróðir Eyre var stórkostlegt dæmi um kristinn kærleika þegar hann framfylgdi þeirri ábyrgð biskupsráðs að styðja foreldra við að vaka yfir og næra ungmennin. Hann sá til þess að ég fékk frábæra byrjun í þessari nýju deild og var leiðbeinandi minn.

Nokkrum mánuðum áður en ég fór í trúboð árið 1960 lést bróðir Eyre úr krabbameini 39 ára að aldri. Hann skildi eftir sig eiginkonu og fimm börn, öll yngri en 16 ára. Elstu synir hans, Richard og Chris Eyre, hafa fullvissað mig um að í fjarveru föður þeirra, hafi biskupsráðið vakað yfir þeim, og yngri bræðrum þeirra og systur, af kristilegum kærleika og fyrir það er ég þakklátur.

Foreldrar bera alltaf megin ábyrgð á börnum sínum.4 Forsætisráð sveitar veitir meðlimum sveitarinnar líka nauðsynlegan stuðning með því að hjálpa þeim að hafa skyldur og kraft Aronsprestdæmisins að þungamiðju lífs þeirra.5

Ljósmynd
Hirðirinn með sauðinn

Í dag ætla ég að leggja áherslu á biskupa og ráðgjafa þeirra, sem viðeigandi er að séu kallaðir „hirðar yfir hjörð Drottins“ – og þá einkum hirðar hinnar upprennandi kynslóðar.6 Athyglisvert er að Pétur postuli sagði að Jesús Kristur væri „hirðir og biskup sálna [okkar].“7

Biskup hefur fimm megin ábyrgðarskyldur sem forsjármaður deildar sinnar:

  1. Hann er ráðandi háprestur í deild sinni.8

  2. Hann er forseti Aronsprestdæmisins.9

  3. Hann er almennur dómari.10

  4. Hann samræmir starf sáluhjálpar og upphafningar, þar með talið að annast hina þurfandi.11

  5. Hann hefur einnig yfirumsjón með skýrslum, fjármálum og notkun samkomuhússins.12

Í hlutverki sínu sem ráðandi háprestur, er biskupinn „andlegur leiðtogi.“13 Hann er „trúfastur lærisveinn Jesú Krists.“14

Auk þess „samræmir biskup starf sáluhjálpar og upphafningar í deildinni.“15 Biskupinn ætti að úthluta forsætisráðum öldungasveitar og Líknarfélags þeirri daglegu ábyrgð að miðla fagnaðarerindinu, efla nýja og endurkomna meðlimi, sjá um hirðisþjónustu og musteris- og ættarsögustarf.16 Biskup samræmir þetta starf á fundum deildarráðs og ungmennaráðs.

Biskup gegnir því mikilvæga hlutverki að þjóna sem hirðir til að leiða hina upprennandi kynslóð, þar með talið einhleypt ungt fullorðið fólk, til Jesú Krists.17 Russell M. Nelson forseti hefur lagt áherslu á hið mikilvæga hlutverk biskups og ráðgjafa hans. Hann hefur kennt að „megin ábyrgð þeirra sé að annast piltana og stúlkurnar í deildinni þeirra.18 Biskup styður forelda við að vaka yfir og næra börn og unglinga í deildinni. Biskup og forseti Stúlknafélagsins eiga samráð. Þau leitast við að hjálpa ungmennum að lifa eftir stöðlunum í Til styrktar æskunni, vera verðug þess að taka á móti helgiathöfnum og gera og halda sáttmála.

Þið gætuð spurt: „Af hverju er biskupi boðið að verja svo miklum tíma með ungmennunum?“ Drottinn hefur skipulagt kirkju sína til að framfylgja mikilvægum forgangsatriðum. Skipulagi kirkjunnar er þannig háttað að biskup hefur þar miklar ábyrgðarskyldur. Hann ber kenningarlega ábyrgð á allri deildinni, en ber líka sérstaka kenningarlega ábyrgð á prestasveitinni.19

Piltarnir sem eru prestar og stúlkurnar á sama aldri eru á afar mikilvægu aldurs- og þroskaskeiði. Á stuttu tímabili taka þau ákvarðanir sem hafa mikilvæg varanleg áhrif á allt lífið. Þau taka ákvarðanir um hvort þau muni vera verðug musterisins, að þjóna í trúboði,20 keppa að musterisgiftingu og búa sig undir lífsstarfið. Þessar ákvarðanatökur hafa djúpstæð andleg og hagnýt áhrif á það sem eftir er lífs þeirra. Biskupar, gætið þess að tiltölulega stuttur tími með ungum presti eða ungri konu eða ungum fullorðnum, getur hjálpað þeim að skilja kraftinn sem er þeim tiltækur með friðþægingu Jesú Krists. Á honum getur vaknað skilningur sem mun hafa mikil áhrif á allt þeirra líf.

Ljósmynd
Moa Mahe biskup og ráðgjafar hans

Eitt besta dæmið um biskup sem ég sá veita ungmennum sínum slíka hjálp, var Moa Mahe biskup. Hann var kallaður sem fyrsti biskup Tongan deildarinnar í San Francisco.21 Hann var innflytjandi frá Vava’u, Tonga Deildin hans var staðsett í nágrenni flugvallar San Francisco, Kaliforníu, þar sem hann starfaði.22

Ljósmynd
Tongan-deildin

Í deildinni var fjöldi ungmenna, flest frá fjölskyldum sem höfðu flust til Bandaríkjanna. Mahe biskup kenndi þeim ekki aðeins í orði og verki hvernig á að vera réttlátur lærisveinn Jesú Krists, heldur hjálpaði hann þeim líka að skilja hvað úr þeim gæti orðið og líka við að búa sig undir musterið, trúboð, menntun og atvinnu. Hann þjónaði í næstum átta ár og draumar hans og þrár fyrir ungmennin urðu að veruleika.

Næstum 90 prósent hinna ungu manna í sveitum Aronsprestdæmisins þjónuðu í trúboði. Fimmtán ungir menn og konur voru fyrstu meðlimir fjölskyldu sinnar til að fara í háskólanám.23 Hann hitti skólastjóra framhaldsskólans á staðnum (sem ekki var okkar trúar) og þeir urðu vinir og áttu samstarf um hvernig best mætti aðstoða hvert ungmenni til að ná verðugum markmiðum og sigrast á vanda. Skólastjórinn sagði mér að Mahe biskup hefði aðstoðaði hann við að vinna með innflytjendum af öllum trúarbrögðum sem áttu í erfiðleikum. Unga fólkið vissi að biskupinn elskaði það.

Því miður andaðist Mahe biskup þegar hann þjónaði sem biskup. Ég mun aldrei gleyma hinni hjartnæmu og andlega hvetjandi jarðarför hans. Það var mikill fjöldi. Kórinn var skipaður meira en 35 trúföstum ungum meðlimum, sem höfðu þjónað í trúboði eða voru í háskólanámi og höfðu verið ungmenni er hann þjónaði sem biskup. Einn ræðumaður tjáði mikið þakklæti ungmennanna og ungs fullorðins fólks í deildinn hans. Hann hrósaði Mahe biskup fyrir þann skilning sem hann hafði veitt þeim við að búa þau undir lífið og réttláta þjónustu. Mikilvægast var þó að Mahe biskup hafði hjálpað þeim að efla trú á Drottin Jesú Krist sem undirstöðu lífs síns.

Biskupar, hvar sem þið þjónið, þá getið þið veitt þennan sama skilning í viðtölum ykkar og öðrum samskiptum og byggt upp trú á Jesú Krist. Þið getið sent áhrifamikil boð um að breyta hegðun, búið þau undir lífið og hvatt þau til að vera áfram á sáttmálaveginum.

Að auki gætuð þið hjálpað einhverjum ungmennum sem eiga í deilum við foreldra vegna hluta sem eru tiltölulega ómerkilegir.24 Þegar ungt fólk virðist eiga í mestum erjum við foreldra sína, er sá sem er í forsjá sveitar þess og sem það ræðir við kirkjulega, hinn sami og foreldrar þess sækja heim til að fá musterismeðmæli. Það setur biskupinn í sérstaka stöðu til að leiðbeina bæði ungmennum og foreldrum þeirra þegar erjur valda sundrung. Biskupar geta hjálpað báðum að sjá hlutina út frá eilífu sjónarhorni og leysa mál sem eru af miklu eða litlu mikilvægi. Við mælum með því að biskupar hafi ekki úthlutaðar fjölskyldur í hirðisþjónustu, svo þeir geti varið tíma og orku til að þjóna ungmennum og fjölskyldum þeirra í slíkum aðstæðum.25

Mér er kunnugt um einn biskup sem gat leyst miklar erjur milli sonar og foreldra, komið á sátt á heimilinu og aukið skuldbindingu við fagnaðarerindið. Biskupinn hjálpaði foreldrunum að skilja að mikilvægara væri að reyna að vera lærisveinn Jesú Krists en hvernig og hvenær væri lokið við heimilisverkin.

Til þess að eyða meiri tíma með ungmennum, hvar sem þau eru, þar á meðal í skólaviðburðum eða athöfnum, hefur biskupsráði verið ráðlagt að úthluta viðeigandi fundum og ráðgjafartíma með fullorðnum. Þótt biskupar geti veitt leiðsögn um bráð og brýn mál, þá mælum við með því að ráðgjöf langvarandi síður mikilvægra mála, sem ekki fela í sér ákvarðanir um verðugleika, verði falin meðlimum öldungasveitar eða Líknarfélags – yfirleitt forsætisráðum eða þjónandi bræðrum og systrum. Andinn mun leiðbeina leiðtogum26 að velja réttu meðlimina til að taka að sér slíka ráðgjöf. Þeir sem er úthlutað slík ráðgjafaverkefni eiga rétt á opinberun. Þeir verða að sjálfsögðu alltaf að gæta fyllsta trúnaðar.

Umhyggjusamir leiðtogar hafa alltaf fórnað í þágu upprennandi kynslóðar. Þetta er það sem biskupsráð ver mestum tíma kirkjuþjónustu sinnar í.

Ég vil nú segja nokkur orð beint við ungmennin og síðan við biskupana okkar.

Mörg ykkar, dýrmæta unga fólk, skiljið ef til vill ekki fyllilega hver þið eruð og hver þið getið orðið. Þið eruð þó á þeim tímapunkti að taka mikilvægustu ákvarðanir lífs ykkar. Ráðfærið ykkur vinsamlega bæði við foreldra ykkar og biskup ykkar um mikilvægar ákvarðanir sem eru framundan. Leyfið biskupinum að vera vinur ykkar og ráðgjafi.

Við vitum að raunir og freistingar steypast yfir ykkur úr öllum áttum. Við þurfum öll að iðrast daglega eins og Nelson forseti hefur kennt. Ræðið við biskup ykkar um öll mál sem almennur dómari getur hjálpað ykkur með, ásamt Drottni, að koma reglu á, til að búa ykkur undir hið „mikla verk“ sem hann ætlar ykkur í þessari síðustu ráðstöfun.27 Eins og Nelson forseti hefur boðið, gerið ykkur hæf til að geta tekið þátt í æskulýðssveit Drottins!28

Nú nokkur orð til ykkar, dýrmætu biskupar, fyrir hönd leiðtoga og meðlima kirkjunnar. Við tjáum ykkur innilegt þakklæti. Með þær breytingar í huga sem þið hafið verið beðnir að gera á undanförnum árum, kæru biskupar, vitið þá að við elskum ykkur og erum þakklát fyrir ykkur. Framlag ykkar til ríkisins er næstum ólýsanlegt. Í kirkjunni þjóna 30.900 biskupar og greinarforsetar um allan heim.29 Við heiðrum hvern ykkar.

Sum orð og hinar helgu kallanir sem þau lýsa, eru innblásin næstum óviðjafnanlegri andlegri merkingu. Köllun biskups er vissulega í efsta sæti slíkrar merkingar. Að þjóna Drottni á þennan hátt, er á svo margan hátt undursamlegt. Köllun, stuðningur og embættisísetning biskups er reynsla sem aldrei gleymist. Mér finnst það ferli teljast meðal fárra guðlegra atburða sem spanna breitt svið djúpra tilfinninga. Það á sér öruggan stað meðal dýrmætra atburða, eins og hjónabands og faðernis, sem ekki er hægt að lýsa með nokkrum orðum.30

Biskupar, við styðjum ykkur! Biskupar, við elskum ykkur! Þið eruð sannlega hirðar yfir hjörð Drottins. Frelsarinn mun ekki láta ykkur eina eftir í þessari helgu köllun. Um þetta vitna ég á þessari páskahelgi, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „True to the Faith,“ Hymns, nr. 254

  2. Ungmennaleiðtogar, forsætisráð sveitar og námsbekkjar og aðrir kirkjuleiðtogar deila þessari ábyrgð.

  3. Biskup er forseti prestasveitar. Fyrsti ráðgjafi hans ber ábyrgð á kennarasveit og annar ráðgjafi á djáknasveit. (Sjá General Handbook: Serving in The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 10.3, ChurchofJesusChrist.org.)

  4. Sjá Kenning og sáttmálar 68:25–28.

  5. Sjá Quentin L. Cook, „Breytingar til styrktar ungmennum,“ aðalráðstefna, október 2019.

  6. Hugtakið biskup á jafnt við um trúfasta greinarforseta.

  7. 1. Pétursbréf 2:25.

  8. Sjá General Handbook, 6.1.1.

  9. Sjá General Handbook, 6.1.2.

  10. Sjá General Handbook, 6.1.3.

  11. Sjá General Handbook, 6.1.4.

  12. Sjá General Handbook, 6.1.5.

  13. General Handbook, 6.1.1; sjá einnig General Handbook, 6.1.1.1–6.1.1.4.

  14. General Handbook, 6.1.1.

  15. General Handbook, 6.1.4.

  16. Sjá General Handbook, 21.2; 23.5; 25.2.

  17. Sjá General Handbook, 6.1; 14.3.3.1; sjá einnig Quentin L. Cook, „Breytingar til styrktar ungmennum.“ Biskup er líka hvattur til að verja auknum tíma með eiginkonu sinni og fjölskyldu. Slíkt er gert mögulegt með því að hæfir fullorðnir leiðbeinendur og sérfræðingar eru kallaðir til að aðstoða forsætisráð Aronsprestdæmissveita og biskupráð í skyldum sínum.

  18. Russell M. Nelson, „Vitni, Aronsprestdæmissveitir og námsbekkir Stúlknafélagsins,“ aðalráðstefna, október 2019.

  19. Sjá Kenning og sáttmálar 107:87–88.

  20. „Drottinn væntir þess að hver hæfur ungur maður búi sig undir [trúboð] (sjá Kenning og sáttmálar 36:1, 4–7). Ungar konur og eldri meðlimir sem þrá að þjóna, ættu líka að undirbúa sig. Mikilvægur hluti undirbúnings er að kappkosta að efla trú á Jesú Krist og hið endurreista fagnaðarerindi hans. Þeir sem þrá að þjóna, undirbúa sig líka líkamlega, hugarfarslega, tilfinningalega og fjárhagslega“ (General Handbook, 24.0).

  21. Deildin var stofnuð 7. desember árið 1980. Öldungur John H. Groberg í fyrstu sveit hinna Sjötíu hjálpaði til við skipulag þessarar tonganmælandi deildar. (Sjá Gordon Ashby, formaður, og Donna Osgood, ritstj. The San Francisco California Stake: The First 60 Years, 1927–1987 [1987], 49–52.)

  22. Mahe biskup hafði verið hækkaður í stjórnunarstöðu hjá Pan American Airways í San Francisco, Kaliforníu, alþjóðaflugvellinum.

  23. Sjá The San Francisco California Stake, 49.

  24. Þeir gætu líka gert uppreisn gegn því sem hefur eilíft gildi.

  25. Sjá General Handbook, 21.2.1.

  26. Biskup mun samræma með forsætisráðum öldungasveitar og Líknarfélags varðandi hverjum skal fela verkefni og hvernig skal standa að ástúðlegri og umhyggjusamri eftirfylgni.

  27. Kenning og sáttmálar 64:33.

  28. Sjá Russell M. Nelson „Hope of Israel“ (heimslæg trúarsamkoma æskufólks, 3. júní, 2018), HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org.

  29. Frá og með 19. febrúar 2021, voru 24.035 biskupar og 6.865 greinarforsetar sem þjónuðu um allan heim.

  30. Ég var kallaður sem biskup í Burlingame-deildinni í Kaliforníu, árið 1974, af David B. Barlow forseta og settur í embætti 15. september 1974, af öldungi Neal A. Maxwell, sem nýlega hafði verið kallaður aðstoðarmaður Tólfpostulasveitarinnar.