2023
Veita hirðisþjónustu með meiri þekkingu
Janúar 2023


„Veita hirðisþjónustu með meiri þekkingu,“ Líahóna, jan. 2023.

Reglur hirðisþjónustu

Veita hirðisþjónustu með meiri þekkingu

Þið þurfið ekki að hafa svör við öllu, en að þekkja hann betur mun hjálpa ykkur að þjóna eins og frelsarinn þjónaði.

Ljósmynd
Jesús í musterinu sem drengur

Hluti af Kristur í musterinu, eftir Heinrich Hofmann

Jesús sýndi okkur lærdómsmynstur

Þegar frelsarinn fullorðnaðist, „óx [hann] og styrktist, [fylltist] visku, og náð Guðs var yfir honum“ (Lúkas 2:40). Hugtakið óx þýðir að vaxa smám saman, eins og tunglið verður fyllra yfir mánuðinn. Lúkas segir líka: „Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum“ (Lúkas 2:52). Jesús hlaut ekki skyndilega fyllingu þekkingar – hann hlaut hana með tímanum (sjá Kenning og sáttmálar 93:12–14).

Þegar Jesús var 12 ára gamall, fundu foreldrar hans hann í musterinu – megin tilbeiðslustað Jerúsalem. „Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, og þeir hlustuðu á hann og spurðu hann spurninga“ (Þýðing Josephs Smith, Lúkas 2:46 [í Lúkas 2:46, neðanmálstilvísun c]). Þar sem lærdómur hafði verið mikilvægur þáttur í vexti hans, var hann undirbúinn þegar tækifæri gafst til að kenna þeim sem voru í musterinu. Kennsla hans þar hafði undraverð áhrif á þá og foreldra hans.

Nota þekkingu í þjónustu

Hér eru þrjár leiðir til að þróa hinn kristilega eiginleika þekkingar sem getur hjálpað okkur í hirðisþjónustu okkar:

  1. Þegar við förum að þekkja frelsarann og lærum um eiginleika hans, munum við vita betur hvað hann myndi gera ef hann þjónaði í okkar stað.

  2. Þegar þekking okkar og skilningur verður meiri á fagnaðarerindinu, mun heilagur andi eiga betur með að minna okkur á allt nauðsynlegt þegar við þurfum á því að halda (sjá Jóhannes 14:26). Þetta getur hjálpað okkur að skilja þarfir þeirra sem við þjónum og svara spurningum þeirra eða áhyggjumálum.

  3. Eftir því sem við aukum hæfni okkar til að læra, verðum við betur í stakk búin til að tengjast eða þjóna öðrum. Við gætum lært meira um ákveðið efni til að tengjast vini sem hefur áhuga á því eða við gætum lært ákveðna færni sem gæti hjálpað við að uppfylla þörf.

Að afla sér þekkingar, getur hjálpað við margs konar þjónustu. Að auki: „Hvert það vitsmunastig, sem við öðlumst í þessu lífi, mun fylgja okkur í upprisunni“ (Kenning og sáttmálar 130:18).

Ljósmynd
ungur fullorðinn lærir ritningarnar

Þróun þekkingar

Hvernig getum við þróað kristilegan eiginleika þekkingar? Hér eru nokkrar hugmyndir:

  1. Munið að meira að segja Jesús lærði smám saman með tímanum. Verið kostgæfin, en verið þolinmóð við ykkur sjálf. Þekking veitist „orð á orð ofan og setning á setning ofan“ (2. Nefí 28:30).

  2. Lærðu að þekkja áreiðanlegar heimildir upplýsinga. (Sjá „Finding Truth in the Misinformation Age [Finna sannleikann á tíma misvísandi upplýsinga]“ í stafrænni grein í Liahona, október 2022.)

  3. Verið forvitin. Lærið af því sem er að gerast í kringum ykkur á hverjum degi. Spyrjið spurninga. Lesið góðar bækur og verið upplýst. (Sjá Kenning og sáttmálar 88:79, 118; 90:15.)

  4. Sækist eftir fræðslu með námi og einnig með trú (sjá Kenning og sáttmálar 88:118). Hæfni ykkar til að skilja sannleikann um hvaða efni sem er, verður meiri með því að samtvinna ykkar bestu vitsmunalegu viðleitni og ykkar bestu andlegu viðleitni. Lifið á þann hátt að þið getið notið hjálpar heilags anda.