2023
Þegar langvinnur sjúkdómur fellur ykkur í skaut
Janúar 2023


„Þegar langvarandi veikindifalla ykkur í skaut,“ Líahóna, jan. 2023.

Eldast trúfastlega

Þegar langvinnur sjúkdómur fellur ykkur í skaut

Að takast á við daglegt mótlæti, getur hjálpað okkur að vaxa að samúð, samkennd og þolgæði.

Ljósmynd
hendur eins manns halda í hönd annars manns

Áður en móðir mín lést úr illvígum sjúkdómi, brosti hún oft og sagði: „Ekkert okkar kemst lifandi frá þessu, svo við getum allt eins gert það besta úr því sem við höfum.“

Það var á hennar góðu dögum. Í lífi sínu átti hún marga góða daga.

Hún átti þó líka daga sem voru ekki svo ánægjulegir. Á þeim dögum sagði hún: „Taktu við því sem verður á vegi þínum og gættu að því hvort þú getir enn gert eitthvað gott í heiminum.“

Á heimsvísu lifir fólk mun lengur en í fortíðinni.1 Þó við lifum lengur, þá erum við líka líklegri til að þróa með okkur langvinna sjúkdóma: sykursýki, Parkinsons, krabbamein, þunglyndi, Alzheimer og listinn heldur áfram. Hvernig ættuð þið þá að bregðast við þegar langvarandi veikindi falla ykkur í skaut?

Sækja fram í trú

„Hlustaðu á tónlistina, jafnvel þótt þú náir ekki að nefna lagið,“ segir bróðir sem neyðist til að taka sér örorkuleyfi og eiginkona hans þarf að fara aftur út á vinnumarkaðinn til að framfleyta fjölskyldunni. Hann telur okkur of oft setja upp brosandi andlit til að þurfa ekki að vinna úr tilfinningum okkar eða bætt viðhorf okkar. „Í stað þess að sækja fram í trú, stöðnum við og bíðum eftir kraftaverki eða möglum ef það kemur ekki,“ segir hann. Hann mætir þessu með því að hlusta á ritningarnar og aðalráðstefnuræður og með því að vitja vina og fjölskyldu í símanum.

„Það er hversdagsleiki hvers dags sem getur dregið úr mér kjark,“ segir systir, en eiginmaður hennar er langveikur. „Heilsa mannsins míns mun aldrei batna. Ég sætti mig við það. Það eru þó erfiðleikarnir við öll hin venjubundnu, smávægilegu verkefni sem eru andlega, líkamlega og huglega lýjandi.“ Hún metur mikils heimsóknir þjónustusystra. „Þegar þær koma við, lýsir það sannlega upp daginn minn.“

„Stundum gleymum ég og eiginkona mín hlutum og verðum örg út í hvort annað,“ segir annar aldraður bróðir. „Okkur finnst svekkjandi að vera svona gleymin og sjáum sérlega eftir reiðilegum orðum sem við segjum við hvort annað. Þau hafa lært að skrifa hjá sér minnispunkta, til að hjálpa þeim að gleyma ekki. Þau gefa hvort öðru tíma til að róa sig áður en þau tala saman. „Og,“ segir hann, „við höfum lært enn betur mikilvægi þess að segja: ,Þakka þér fyrir,‘ og ,Ég elska þig.‘“

Önnur eldri hjón komust af með fastar tekjur þar til lyfjaverðið tvöfaldaðist. Þökk sé fjölskyldumeðlimum og deild þeirra,var hugað að þörfum þeirra. „Í fyrstu vorum við vandræðaleg að biðja um hjálp, einkum frá börnum okkar,“ sagði bróðirinn. „Allir voru þó fúsir til að aðstoða.“

Ljósmynd
Jesús læknar mann

Hluti af Hann læknaði marga af hvers kyns sjúkdómum, eftir J. Kirk Richards, óheimilt að afrita

Ábendingar og athuganir

Hér eru nokkrar ábendingar og athuganir frá þeim sem takast á við langvarandi sjúkdóma:

  1. Þau sem snúa sér til frelsarans munu finna von. „Ég hélt að enginn gæti skilið hvað ég var að ganga í gegnum,“ segir bróðir með langvarandi þreytuheilkenni (CFS). „Þá einn sunnudag þegar ég tók sakramentið, áttaði ég mig á því að frelsarinn skildi þjáningar mínar. Ég vissi að ég fengi staðist með því að nálgast hann.“ (Sjá Alma 7:11–12; Kenning og sáttmálar 121:8; 122:8.)

  2. Samúð þess eykst sem „stenst það vel“ (Kenning og sáttmálar 121:8). „Til hvers leitum við að hjálp og huggun á dögum sorgar og hörmunga? … Þetta eru karlar og konur sem hafa þjáðst og þjáningum þeirra vex auðlegð samúðar og samkenndar, til blessunar hinum nauðstöddu. Gætu þau gert þetta, hefðu þau ekki þjáðst sjálf?“2

  3. Taka einn dag í einu. „Fyrir nokkrum árum var sársaukinn svo mikill að ég sá ekki hvernig ég gæti borið hann lengur. Ég tók að finna fyrir sjálfsvígshugsunum,“ segir systir sem þjáist af MS-sjúkdómnum. Hún skráði sig á geðdeild á sjúkrahúsi. Í ráðgjöfinni urðu einkunnarorð hennar ekki bara „standast allt til enda“ (1. Nefí 22:31), heldur fremur „standast allt til enda dags.“

  4. Þróa ný áhugamál og finna nýjar leiðir til að þjóna. Fremur en að syrgja það sem þið getið ekki lengur, uppgötvið þá ný áhugamál. Systir með MS komst að því að hún gæti ekki gert hluti sem hún hafði unun af áður, eins og að fara í hestaferðir eða í mjúkbolta. Í staðinn lærði hún skrautskrift. Nú notar hún nýþróaða hæfileika sína til að búa til upplýst handrit af Mormónsbók fyrir fjölskyldu sína.

Þegar langvarandi sjúkdómur verður staðreynd í lífinu, er það sannlega áskorun. Með trú, von á Krist og löngun til að halda áfram að þjóna, getur það að takast á við daglegt mótlæti hjálpað okkur að vaxa að samúð, samkennd og þolgæði.

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Heimildir

  1. Sjá Susanne Reiff, „Increasing Life Expectancy: People Are Getting Older and Older,“ Alumniportal Deutschland, sept. 2017, alumniportal-deutschland.org/en/global-goals/sdg-03-health/increasing-life-expectancy-age-ageing.

  2. Orson F. Whitney, „A Lesson from the Book of Job,“ Improvement Era, nóv. 1918, 7.