2023
Undirbúa sinn andlega jarðveg
Janúar 2023


„Undirbúa sinn andlega jarðveg,“ Líahóna, jan. 2023.

Kom, fylg mér

Undirbúa sinn andlega jarðveg

Dæmisagan um sáðmanninn getur hjálpað okkur að búa okkur undir námið í Kom, fylg mér í Nýja testamentinu á þessu ári.

Ein af eftirlætis dæmisögunum mínum í Nýja testamentinu er dæmisagan um sáðmanninn í Matteusi 13:3–23 (sjá einnig Markús 4:3–20; Lúkas 8:5–15). Í þessari dæmisögu er sagt frá því hvernig fólk tekur við orðinu (sáðkorninu) og því líkt við mismunandi jarðvegstegundir. Við lærum að hver jarðvegstegund hefur mikilvæga eiginleika, ýmist góða eða slæma.

Við lesum þessa dæmisögu oft og teljum hana lýsa vilja fólks til að meðtaka og lifa eftir fagnaðarerindinu. Þó að það sé rétt, held ég að dæmisagan geti líka lýst okkar einstaklingsbundnu framförum, er við vöxum í trú og þekkingu á fagnaðarerindinu. Með öðrum orðum, þá erum við ekki varanlega læst í ákveðinni tegund eða stigi trúar. Við getum, með trú og verkum, bætt okkar andlega jarðveg, svo hann framleiði betri ávexti.

Mig langar að velta fyrir mér þessari hugsun með ykkur, vegna þess að hún hefur hjálpað mér að skilja betur þessa dæmisögu. Ég trúi að þegar við búum okkur undir nám í Nýja testamentinu með Kom, fylg mér á komandi ári, þá geti upprifjun á dæmisögunni um sáðmanninn auðveldað okkur að búa hjörtu okkar undir að taka á móti sannleika fagnaðarerindisins.

Taka á móti trúarlegum sáðkornum

Í dæmisögunni segir að þegar sáðmaðurinn sáði:

  • Féllu nokkur sáðkorn við veginn og fuglar átu þau.

  • Sum féllu í grýttan jarðveg. Þau tóku að spíra en sviðnuðu af sólinni.

  • Sum féllu meðal þyrna og þyrnarnir kæfðu þau.

  • Sum féllu í góða jörð og báru ávöxt.

Drottinn útskýrir:

„Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki þá kemur hinn vondi og rænir því sem sáð var í hjarta hans. Það sem sáð var við götuna merkir þetta.

Það sem sáð var í grýtta jörð merkir þann sem tekur orðinu með fögnuði um leið og hann heyrir það

en hefur enga rótfestu. Hann er hvikull og er þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins bregst hann þegar.

Það er sáð var meðal þyrna merkir þann sem heyrir orðið en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið svo það ber engan ávöxt.

En það er sáð var í góða jörð merkir þann sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt“ (Matteus 13:19–23; skáletrað hér).

Við skulum skoða hverja jarðvegstegund og sjá hvað hægt er að gera til að bæta jarðveginn.

Ljósmynd
sáðkorn og fuglar

Myndskreyting: David Green

Jarðvegur í vegkanti

Dallin H. Oaks forseti, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði: „Sáðkornið sem ,sáð var við götuna‘ (Markús 4:4) féll því ekki í góðan jarðveg, þar sem það hefði hugsanlega getað vaxið. Það er líkt kenningum sem ekki festa rætur í hörðu og óundirbúnu hjarta.“1

Að auki skiljum við stundum ekki það sem við heyrum eða lesum í ritningunum, vegna þess að hjörtu okkar eru ekki undirbúin. Hvað eigum við að gera þegar svo er?

Við getum leitað skýringa hjá þeim sem skilja. Við gætum spurt trúboðana, kennara sunnudagaskólans, leiðtoga prestdæmisins eða aðildarfélaga, kennara trúarskóla eldri eða yngri deilda, hirðisþjóna okkar eða trúfasta foreldra og fjölskyldumeðlimi. Við getum lesið aðalráðstefnuræður. Smáforritið Gospel Library býður upp á margs konar úrræði sem geta hjálpað okkur að leita að meiri skilningi.

Við ættum að biðja til Guðs eftir auknu ljósi. Ef hjarta okkar er einlægt, ásetningur okkar ósvikinn og við höfum trú á Krist, munum við hljóta þekkingu á sannleika fagnaðarerindisins (sjá Moróní 10:4–5). Drottinn sagði:

„Biðjið, og yður mun gefið verða, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða“ (3. Nefí 14:7–8).

Ljósmynd
sáðkorn og steinar

Grýttur jarðvegur

Sumir heyra hið endurreista fagnaðarerindi hjá trúboðunum, finna kærleika Krists og fara á kirkjusamkomur og njóta þess. Erfiðleikar lífsins halda þó áfram. Þau komast að því að lífið hefur ekki breyst í straum endalausra blessana. Það dregur úr trú þeirra og þau hverfa frá.

Sumir sjá líka „grýtta staði“ þegar þeir koma á samkomu eða ráðstefnu og hljóta innblástur til að gera allt rétt frá þeirri stundu. Síðan, á mánudegi, huga þau aftur að sínum venjubundnu skyldum. Áskoranirnar á vinnustað eru enn erfiðar. Freistingar virðast sérlega aðlaðandi. Vegna þessa dregur úr eða hverfur algjörlega löngun þeirra til að bæta sig andlega.

Þeim lærist sú erfiða lexía að án djúpra andlegra róta til að halda okkur föstum í vindinum, næra okkur er hungur sverfur að eða endurnýja okkur er sólin hitar, getum við farist andlega.

Hvernig getum við bætt grýttan jarðveg? Með því að fjarlægja steinana og dýpka okkar andlegu rætur.

Það getur verið erfitt að fjarlægja steina. Það getur kallað á að skapa trúarhvetjandi umhverfi. Það gæti krafist þess að stofna til nýrra vinasambanda og halda sig frá birtingu hins illa (sjá 1. Þessaloníkubréf 5:22).

Ljósmynd
hendur halda á steinum

Til að hafa styrk til að fjarlægja steina, þurfum við hjálp frelsarans. Hann hlýst þegar við tökum á móti sáttmálunum sem hann býður. Það hefst á því að taka á móti boði hans um að láta skírast. Það merkir að vera staðfestur og taka á móti gjöf heilags anda. Það merkir að taka á móti öllum þeim sáttmálum sem við enn erum án, eins og að taka á móti prestdæminu eða fara í musterið. Það merkir að mæta í kirkju og endurnýja sáttmálana, með því að meðtaka sakramentið í hverri viku.

Þegar prófraunir og freistingar koma, getum við haldið okkur fast að þeim sáttmálum sem við höfum gert við Drottin. „Við erum tryggilega bundin frelsaranum þegar við höfum þá hugfasta af trúmennsku og gerum okkar besta til að lifa í samræmi við þær skyldur sem við höfum tekið á okkur,“ sagði öldungur David A. Bednar, í Tólfpostulasveitinni. Sú tenging við hann er uppspretta andlegs styrks á hverjum árstíma lífs okkar.“2

Ljósmynd
sáðkorn og þyrnar

Jarðvegur með þyrnum

Í þessum jarðvegi geta plöntur þrifist, líka þyrnar. Þyrnarnir eru „[áhyggjur, auðæfi og nautnir lífsins,“ sem geta valdið því að við „[berum] ekki þroskaðan ávöxt“ (Lúkas 8:14).

Hvað gerist þegar við tökum á móti sáttmálum, en göngum ekki lengur sáttmálsveginn? Eða við meðtökum sakramentið, en biðjum ekki um fyrirgefningu, því við hugsum ekki einu sinni um mistök okkar lengur. Eða við getum beðið um fyrirgefningu en neitað að fyrirgefa öðrum. Við tökum á móti sáttmálum musterisins en látum bregðast að þjóna þeim sem þurfa á því að halda. Við nýtum ekki tækifæri til að miðla fagnaðarerindinu, vegna þess að við óttumst að það gæti virst óviðeigandi eða vandræðalegt eða vegna þess að við vitum ekki lengur hvað við eigum að segja.

Lausnin er að lifa eftir sáttmálanum sem við gerðum þegar við vorum skírð, „að syrgja með syrgjendum, … [að] hugga þá, sem huggunar þarfnast, og standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem [við kunnum] að vera, já, allt til dauða“ (Mósía 18:9).

Við fjarlægjum illgresið þegar við iðrumst á hverjum degi, gerum litlar eða stórar breytingar og snúum aftur á hinn beina og þrönga veg sáttmálans.

Við neitum að láta illgresi lífsins kæfa okkur. Þetta gerum við með því að breyta heimilum okkar í griðarstað trúar. Við sækjumst eftir því sem kallar á áhrif andans. Við höfnum hverju því sem hrekur þessi áhrif burtu. Og við þjónum í ríki Guðs – í köllun okkar, í musterinu, í trúboði, í fjölskyldum okkar.

Góður jarðvegur

Það eru margir sem heyra orðið, skilja það og láta það vaxa í hjörtum sínum. Við þá segir Drottinn: „Ég [hef] útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir“ (Jóhannes 15:16). Svarið fyrir slíka er að sækja fram í trú og góðum verkum.

Oaks forseti spurði: „Hvernig förum við með kenningar frelsarans í okkar dagalega lífi?“3 Á þessu ári, þegar við búum okkur undir að læra Nýja testamentið, megum við þá nálgast frelsarann og bæta okkar andlega jarðveg, svo að við getum meðtekið orðið. Við getum þá borið ávöxtinn sem hann býður að við gerum, með með því að taka á okkur og endurnýja sáttmálana sem binda okkur honum, með því að þjóna Guði og elska náunga okkar og með því að halda áfram á sáttmálsveginum, sem einhvern tíma mun leiða okkur aftur til okkar himneska heimilis.