2023
Hvar hefur þú verið?
Janúar 2023


„Hvar hefur þú verið?“ Líahóna, jan. 2023.

Frá Síðari daga heilögum

Hvar hefur þú verið?

Ég varð að sætta mig við tímasetningu og tilgang Guðs, þegar ég lærði að elska ömmu eins og himneskur faðir og Jesús Kristur elska hana.

Ljósmynd
amma og barnabarn hlæja saman

Allt sem amma gerir fyrir mig, þrátt fyrir veikindi sín, gerir hún vegna þess að hún elskar mig.

Ljósmynd birt með leyfi höfundar

„Hvar hefur þú verið, barnið mitt?“ spurði amma um leið og hún kom til dyra eftir að ég hafði bankað á hurðina hjá henni. Ég var nýkominn heim úr trúboði í El Salvador. Augu ömmu fylltust gleði við að sjá mig aftur. Handleggir hennar voru mjúkir og hlýir þegar hún vafði þeim um háls mér.

Við áttum skemmtilegt samtal þegar ég svaraði spurningum hennar um trúboðið mitt. Ég varð tilfinningasamur þegar ég sagði henni frá fólkinu, matnum, starfinu og kraftaverkum trúboðs míns. Eftir að ég hafði lokið máli mínu, varð hún allt í einu hljóð. Hún spurði síðan: „Hvar hefur þú verið, barnið mitt?“

Augljóslega hafði hún ekki hlustað. Við byrjuðum því samtalið okkar aftur. Rétt um 20 mínútum síðar spurði hún í þriðja sinn: „Hvar hefur þú verið, barnið mitt?“

Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Ég komst fljótlega að því að um ári eftir að ég fór í trúboðið hafði amma greinst með alzheimersjúkdóm.

Ég fann fyrir mikilli löngun til að hjálpa ömmu. Í tvö ár hafði ég boðað kærleika Guðs til barna hans. Mér gafst nú tækifæri til að lifa eftir þessum kenningum. Þótt ég vissi að það yrði erfitt, bauðst ég til að flytja inn til hennar svo ég gæti hjálpað henni.

Fyrstu mánuðirnir voru erfiðastir. Eins og á trúboðsakrinum, þá varð það fullt starf að halda þolinmæði og hafa stjórn á gremju. Ég varð að sætta mig við tímasetningu og tilgang Guðs, eins og í trúboði mínu, þegar ég lærði að elska ömmu eins og himneskur faðir og Jesús Kristur elska hana.

Að búa með ömmu, er stundum eins og að búa með þremur ólíkum manneskjum. Stundum þolir hún ekki að hafa einhvern annan í húsinu. Stundum vill hún umhyggju mína og athygli, ánægð að hún er ekki ein. Stundum hugsar hún bara um hvað hún eigi að gefa barnabarni sínu að borða, sem er nýkomið er úr trúboði. „Ekki gera þetta!“ getur fljótt orðið „af hverju gerirðu þetta ekki?“

Amma mín hefur engu að síður verið mér mikil blessun. Ég veit að allt sem amma gerir fyrir mig, þrátt fyrir veikindi sín, gerir hún vegna þess að hún elskar mig.

Ljúfustu og einlægustu orð ömmu, eru sögð í hvert sinn sem ég kem heim úr skóla eða vinnu. Með blíðu augnaráði faðmar hún mig, kyssir vanga mína og spyr ástúðlega: „Hvar hefur þú verið, barnið mitt?“