2023
Ofbeldi, ættleiðing – og lækning
Janúar 2023


„Ofbeldi, ættleiðing – og lækning,“ Líahóna, jan. 2023.

Ungt fullorðið fólk

Ofbeldi, ættleiðing – og lækning

Fjölskyldan mín var ofbeldishneigð og óstöðug, en fyrir Krist, hef ég nú von um framtíðarfjölskyldu mína.

Ljósmynd
ung fullorðin kona situr í rúminu og biðst fyrir

Ljósmyndin er uppstilling

Ég ólst upp í óstöðugu umhverfi. Líffræðilegir foreldrar mínir beittu mig ofbeldi og vanræktu mig og ég lenti í miklum og erfiðum áskorunum. Ég glímdi við kvíða, líkamsímyndarrvandamál, lystarstol og ástandsþunglyndi sem hélt mér fanginni í mörg ár.

Líffræðilegir foreldrar mínir höfðu verið innsiglaðir í musterinu, en fljótlega eftir að ég lét skírast átta ára tóku þau að fjarlægjast kirkjuna. Því lengra sem þau fjarlægðust sáttmála sína, því verri varð staða okkar.

14 ára var ég umönnunaraðili einhverfs bróður míns og móður minnar. Ég var týnd og stjórnlaus. Ég hataði sjálfa mig og aðstæður mínar og trúði að líf mitt myndi aldrei breytast.

Svo gerðist kraftaverk. Líffræðilegri móður minni varð ljóst að hún gæti ekki séð um mig og hringdi í bróður sinn í Singapúr til að spyrja hvort hann vildi ættleiða mig. Með pakkaðar töskur og tárvot augu fór ég um borð í flugvél til að hefja nýtt líf – sem var laust við ofbeldi. Það var samt erfitt að aðlagast ættleiddri fjölskyldunni minni og nýrri menningu og ég átti erfitt með að takast á við lífið.

Kjörforeldrar mínir gerðu allt sem þeir gátu til að hjálpa mér. Ég fór til meðferðaraðila og lækna. Ég tók líka að fara í kirkju aftur, en að læra um himneskan föður sem elskaði mig og hefði tilgang fyrir mig, reyndist mér erfitt, því ég trúði því ekki eftir allt sem ég hafði mátt þola.

Ég var ekki hamingjusöm. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að læknast af fortíðinni og var enn vonlaus um framtíðina.

Þrá til að læknast

Einn daginn var ég að velta fyrir mér hversu stutt jarðlífið væri. Ég vildi ekki sóa því í óhamingju. Ég þurfti að læra af raunum mínum, lifa eftir reglum fagnaðarerindisins, sem mér höfðu verið kenndar og bjóða Kristi inn í líf mitt.

Ég tók trúarskref og fór að krjúpa og biðja himneskan föður á hverjum degi um kraft til að fyrirgefa líffræðilegum foreldrum mínum, breyta ótta mínum í trú, finna lækningu og hamingju og þekkja elsku í lífi mínu. Ég fór í trúarskóla eldri deildar og tók að læra ritningarnar og lifa eftir sannleika fagnaðarerindisins.

Ég leitaði sannlega að lækningarmætti Jesú Krists og friðþægingar hans. Með tímanum tók líf mitt svo að breytast. Þegar ég var þolinmóð, fór í gegnum lækninga- og lyfjameðferð og fyllti líf mitt andanum á hverjum degi, byrjaði ég að læknast: Mér fannst ég ekki eins óframfærin og líkari sjálfri mér. Mér fannst ég vera örugg. Ég þjónaði öðrum. Ég elskaði, fyrirgaf og sættist við sjálfa mig. Ég myndaði heilbrigð, ástúðleg sambönd. Ég tók að finna elsku himnesks föður til mín Í fyrsta sinn í lífinu fann ég sanna gleði.

Kristur býður okkur framtíðarvon

Ég get ekki breytt fortíð minni, en líkt og segir í Kenningu og sáttmálum 122:7: „Allt mun þetta veita [mér] reynslu og verða [mér] til góðs.“ Ég veit að frelsarinn styður mig gegnum baráttu mína. Þrátt fyrir hana, þá hef ég vaxið svo mikið vegna löngunar minnar til að breytast og vegna þess að ég held áfram að snúa mér til hans.

Ef þið eruð í erfiðum fjölskylduaðstæðum, vitið þá að þið eigið föður á himnum sem þekkir ykkur og elskar ykkur og mun opna ykkur dyr að bjartri framtíð. Áður en ég var ættleidd, sagði ég við sjálfa mig að aðstæður mínar myndu aldrei breytast og að ég myndi aldrei giftast eða eignast börn, vegna þess að ég var hrædd um að þau myndu þjást eins og ég gerði. Ég hef þó lært að sama hvaða erfiðleika við höfum upplifað í fjölskyldum okkar, þá getum við byggt framtíðarheimili okkar og eilífar fjölskyldur þegar við leitum Krists með von, sannleika fagnaðarerindisins og kærleika.

Líkt og öldungur Clark G. Gilbert, af hinum Sjötíu, kenndi: „Við byrjum [öll] á mismunandi stöðum með mismunandi lífsgjafir. Sumir fæðast með háan upphafspunkt, með ótal tækifærum. Aðrir standa frammi fyrir … aðstæðum sem eru krefjandi. … Við þróumst síðan eftir hallalínu persónulegra framfara. Framtíð okkar ræðst mun minna af upphafspunkti okkar og miklu meira af hallalínunni. Jesús Kristur sér guðlega möguleika hvar sem við byrjum. … [Hann mun] gera allt sem hann getur til að hjálpa okkur að snúa hallalínunni okkar í átt til himins.“1

Hverjar sem aðstæður okkar eru, þá er von og lækningu að finna í Jesú Kristi! Hann er með ykkur og hann mun leiða ykkur til friðar og gleði þegar þið leitið hans – alltaf.