2020
Hvernig ungt fullorðið fólk lætur að sér kveða í yfirstandandi endurreisn
Apríl 2020


Ungt fullorðið fólk

Hvernig ungt fullorðið fólk lætur að sér kveða í yfirstandandi endurreisn

Ungt fullorðið fólk hefur alltaf átt mikilvægan þátt í sáluhjálparstarfinu.

Ljósmynd
young adults

Hvenær sem þið heyrið boð frá kirkjuleiðtoga um að taka þátt í hinni yfirstandandi endurreisn, eða hjálpa til við samansöfnun Ísraels, hugsið þið þá nokkurn tíma: „Hvað get ég gert? Ég er bara ein manneskja:“ „Ég er of ung/ungur,“ „Ég er ekki ennþá gift/giftur,“ eða „Ég veit ekki nægilega mikið. Hverju myndi mitt framlag breyta?“

Við eigum öll þessar hugsanir til á einhverjum tímapunkti. Er þið lesið eftirfarandi setningar, reynið þá að þagga niður í þessum sjálfsefa.

  • Joseph Smith var einungis 22 ára gamall þegar hann hóf þýðingu Mormónsbókar.

  • Oliver Cowdery var einnig 22 ára og John Whitmer var 26 ára (og báðir voru einhleypir!) þegar þeir hófu starf sem ritarar Josephs.

  • Árið 1835, þegar fyrsta Tólfpostulasveitin var kölluð, voru þeir frá 23 til 35 ára.

  • Margir hinna heilögu sem gengu í kirkjuna og boðuðu fagnaðarerindið voru ungt fullorðið fólk.

Þegar allt kemur til alls, þá vann Guð í gegnum ungt fullorðið fólk á upphafsárum endurreisnar fagnaðarerindis Jesú Krists. Fólk eins og ykkur.

Gerið ykkur grein fyrir því.

Kirkjan væri ekki útbreidd um jörðina í dag, ef engum fyndist þeir hafa neitt að segja. Þið – já þið! – eruð hluti af útvalinni kynslóð, til að viðhalda endurreisninni og leiða kirkju Jesú Krists í dag.

Þið voruð send hingað. Núna. Af ástæðu.

Þegar Russel M. Nelson forseti talaði um kynslóð okkar, sagði hann: „Þið lifið á hinni ‚elleftu stundu.‘ Drottinn hefur lýst því yfir að þetta sé í síðasta skiptið sem hann kallar verkamenn í víngarð sinn til að safna saman hinum útvöldu frá fjórum skautum jarðarinnar. (Sjá K&S 33:3–6.) Þið voruð send til að taka þátt í þessari samansöfnun.“1

Hugsið um fylkingu hinna 65.000 fastatrúboða sem miðla fagnaðarerindinu allan daginn, alla daga, um allan heim. Hugsið um allt unga fólkið sem gerir sáttmála í musterinu, nýtir sér hið endurreista prestdæmi og musterisblessanir og gerir sáttmála um að vera trúfast, styrkja fjölskyldur sínar og byggja upp ríki Guðs á jörðu. Hugsið um unga fólkið sem þjónar sem kirkjuleiðtogar um allan heim. Hugsið um þá sem sækja fram í að fylgja Jesú Kristi, þrátt fyrir ofureflið andspænis þeim. Ungt fullorðið fólk hefur verið mikilvægur þáttur í endurreisninni frá upphafi. Hin yfirstandandi endurreisn hefur verið mikilvægur þáttur í lífi óteljandi ungs fullorðins fólks í kirkjunni.

Merking endurreisnarinnar fyrir okkur

Hvað mörg okkar varðar, þá byggir þátttaka okkar í endurreisninni mikið á því sem hún hefur kennt okkur. Fyrir Venella Vakapalli, ungan trúskipting frá Andhra Pradesh í Indlandi, þá snýst „endurreisnin um að leita opinberana. Joseph Smith leitaði opinberana í skóginum. Hann ræddi við Drottinn, beið svars, hann var þolinmóður. Ég kann virkilega að meta það.“ Venella útskýrir: „Áður en ég heyrði um endurreisnina, hugsaði ég ekki mikið um opinberanir. Eitt það frábærasta og sem ég furða mig á, er hve miklum tíma hann varði í að fá opinberun frá Guði. Það er þetta sem ég lærði af endurreisninni.“

Emma og Jacob Roberts, ungt par frá Utah, Bandaríkjunum, eru sammála um að endurreisnin snúist um „áframhaldandi opinberun“ – fyrir okkur sjálf og heiminn – „að við getum haft spámann, talsmann Guðs hér á jörðu, sem sér til þess að við höfum einhvern sem starfar með Guði, biður til hans og ræðir við hann fyrir okkar hönd, sama hvaða áskoranir heimurinn býður upp á, og sér til þess að við séum undirbúin og hæf til að takast á við hvaða áskoranir sem heimurinn réttir að okkur er hann breytist.“

„Svo mikið af þeirri þekkingu sem kemur með endurreisninni gerir líf mitt auðveldara og minnkar álagið,“ segir Jacob. Það kemur allt með þeirri fullvissu að „það er Guð sem elskar okkur og vakir yfir okkur,“ segir Emma. „Tilgangur hans er hamingja okkar. Sem ungt fullorðið fólk, getum við algerlega treyst og fylgt honum, því við vitum að markmið hans er hamingja okkar. Við vitum að við erum eilífar verur og það veitir mér mikla von og trú, að hvað sem ég geri nú og hvaða mistök sem ég geri nú, þá get ég samt iðrast og að ég hef þennan tíma til að þroskast og læra.“

Þess konar fullvissa hjálpaði einnig Ramonu Morris, ungum einstaklingi frá Barbados, þegar hún heyrði fyrst um endurreisnina. Meðal annars öðlaðist hún vitnisburð um að „himneskur faðir er til staðar fyrir okkur. Endurreisnin færir þeim frið sem efast um líf sitt og áætlun Guðs fyrir þau.“

Þótt það hafi fært skýrleika inn í líf hennar að skilja endurreisnina, viðurkennir hún samt að „það sé erfitt að tengja við fagnaðarerindið þegar maður er svona langt frá höfuðstöðvum kirkjunnar, en vegna þess að ég hef átt sterkan vitnisburð um hið endurreista fagnaðarerindi, þá veit ég að, sama hve langt ég er í burtu, þá get ég samt upplifað mig sem hluta af endurreisninni, að ég er ekki einsömul.“

Það er hún ekki. Ungt fullorðið fólk um allan heim tekur þátt í endurreisninni með musterisþjónustu, ættarsögu og trúboðsstarfi. Með þeim skilningi sem við hljótum um persónulega opinberun af því að læra um Fyrstu sýn Josephs Smith og endurreisnina, getum við öll haldið áfram að leitast við að þekkja vilja Guðs og hvaða hlutverk okkur beri að inna af hendi í hinni yfirstandandi endurreisn.

Ljósmynd
world map

Kort frá Getty Images

Ungt fullorðið fólk leiðir kirkjuna

Við erum kannski ungt fullorðið fólk, en við getum verið leiðtogar í kirkjunni núna. Þótt Jönka Toronyi frá Györ, Ungverjalandi, sé eini meðlimur kirkjunnar í fjölskyldu hennar, þá finnur hún styrk frá þátttöku annars ungs fólks í kirkjunni á öðrum sviðum endurreisnarinnar: „Margir vina minna hafa farið í trúboð og það hefur verið svo gaman að fylgjast með ferli þeirra og síðan snúa þau aftur heim og hafa vaxið svo mikið af reynslu sinni. Það er stórkostleg upplifun fyrir okkur öll. Það er líka alltaf stórkostlegt að sjá vini mína, unga fullorðna fólkið, þjóna í köllunum sínum og stundum líka í sjálfskapandi tækifærum, eins og sjálfboðaliðar sem ráðgjafar í ráðstefnum FSY (Til styrktar æskunni). Mér finnst eins og að endurreisnin snúist ekki alltaf um að kenna fólki fagnaðarerindið – heldur að styrkja þá meðlimi sem við þegar höfum.“

Unga fólkið í Ungverjalandi skilur að það er framtíðarleiðtogar kirkjunnar. „Það er þörf fyrir okkur og við þurfum að rísa undir þessu verki, sem er stundum yfirþyrmandi,“ viðurkennir Janka. „Drottinn er að hraða verkinu og við erum hluti af því. Stundum hugsum við: ‚Hvernig á ég að fara að þessu?‘ Það er hins vegar gott að sjá að leiðtogar okkar hafa svo mikla trú á okkur. Það er hvetjandi fyrir þá sem elska kirkjuna og hafa sterkan vitnisburð, því við vitum að sá dagur kemur að við verðum gjörð ábyrg. Við verðum að taka ábyrgð á okkar eigin andlegu framþróun.“

Sean og Stefany Joseph, frá Vestur-Ástralíu, taka þátt í endurreisninni með því að leiðbeina unglingunum í deild þeirra. „Hvað mig varðar, þá snýst endurreisnin um að aðstoða framtíðarkynslóðir við að skilja hvað fagnaðarerindið snýst um og hvernig það getur liðsinnt þeim og öðrum í lífi þeirra,“ segir Stefany. „Við getum veitt aðstoð við að byggja sterkari grunn fyrir kirkjuna í landi okkar seinna meir.“

„Við viljum aðstoða unglingana við að öðlast vitnisburð um Mormónsbók og Joseph Smith og gera sér grein fyrir því að þau eru raunverulega börn Guðs,“ útskýrir Sean. „Við viljum ekki að það sé bara eitthvað sem þau sungu í Barnafélaginu – við viljum að þau viti raunverulega að það sé sannleikur.“

Það er ekki alltaf auðvelt fyrir Vennela að lifa eftir fagnaðarerindinu í Indlandi, en hún veit að styrkur unga fullorðna fólksins í kirkjunni þar mun innblása aðra og aðstoða við ferli endurreisnarinnar. „Allt unga fullorðna fólkið hér er mjög trúfast. Þau leita tækifæra til að miðla vitnisburðum sínum,“ segir hún. „Við erum nokkurs konar frumkvöðlar í Indlandi. Við flytjum frá ólíkum stöðum og sum okkar yfirgefa líka fjölskyldur sínar. Lífið hér getur verið áskorun, en við veljum samt að lifa samkvæmt fagnaðarerindinu. Ritningarnar veita mér mikla von, styrk og hugrekki.“

Við getum, sem ungt fullorðið fólk, haldið áfram að hafa sterk áhrif á hina yfirstandandi endurreisn með trú okkar og skuldbindingu við fagnaðarerindið, sama hvar við erum.

Framtíð kirkjunnar: Hún byggir á okkur

Við erum framtíð kirkjunnar. Við erum í lokabaráttunni. Himneskur faðir reiðir sig á að við hjálpum honum við verk hans – hið eilífa lífsumbreytandi verk hans. Hann veit að við erum nægilega sterk til að sækja fram og berjast gegn hverju því sem andstæðingurinn hefur uppi í erminni. Satan er einnig að verða örvæntingarfullur. Hann veit að hann berst tapaðri orrustu, því verk Drottins mun sigra.

„Við vitum að Drottinn er að hraða verkinu og enginn getur stöðvað það,“ segir Janka. „Við vitum að þetta mun gerast, sama hvað. Við verðum hins vegar að ákveða hvort við ætlum að taka þátt í þessu verki og styðja framrás þess eða fylgjast með á hliðarlínunni. Við höfum sjálfræðið til að taka þátt í því og við eigum vitnisburðinn til að velja hið rétta og velja að fylgja Kristi. Við verðum að taka þátt.“

Það er því okkar að ákveða hverjum við stöndum með.

Það er okkar að ákveða að vera hugrökk og standa á sannfæringu okkar.

Það er okkar að leita persónulegrar opinberunar fyrir líf okkar.

Það er okkar að leyfa þeim erfiðu áskorunum sem við tökumst á við, að styrkja trú okkar á frelsarann.

Það er okkar að fylgja honum og gera allt sem í okkar valdi stendur að leiða aðra til hans.

Það er okkar að standast allt til enda, eins vel og við getum.

Við erum sannlega á síðustu dögunum. Að leiða kirkjuna í því sem Nelson forseti kallar „mest knýjandi ráðstöfun í sögu heimsins,“2 hljómar eins og ógnvekjandi ábyrgð. Hugsið samt aðeins um þetta – himneskur faðir treysti okkur nægilega og geymdi okkur til að vera á þessari jörðu á nákvæmlega þessum tíma, tíma þar sem við stöndum frammi fyrir óteljandi freistingum, truflunum og fjölda andstæðra skoðana.

Með því að senda okkur hingað á mikilvægustu ráðstöfuninni, var himneskur faðir ekki að stilla okkur upp til að mistakast. Hann þekkir möguleika okkar, styrk okkar, hugrekki og það sem skiptir mestu og veit að við getum skipt sköpum í endurreisn kirkjunnar, burt séð frá aldri okkar eða hjúskaparstöðu. Hver gæti mögulega haft sigur gegn okkur, sama hve vonlausir erfiðleikar okkar eru eða hve ómögulegt það kann að virðast að leiða og miðla fagnaðarerindinu um alla jörðina, ef hann er við hlið okkar? Hann mun hjálpa okkur að koma hinu ómögulega til leiðar.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson, “Stand as True Millennials,” Liahona, okt. 2016, 48.

  2. Russell M. Nelson, “Stand as True Millennials,” Liahona, okt. 2016, 46.