2020
Heldur fortíðin aftur af ykkur?
Apríl 2020


Einungis stafrænt

Heldur fortíðin aftur af ykkur?

Frelsarinn hefur þegar reitt gjaldið af höndum. Takið í hönd hans og haldið áfram.

Fyrir nokkru bauð biskupinn í deildinni okkar, okkur að hugsa um einhvern veikleika eða synd sem við gætum í óeiginlegri merkingu skilið eftir við sakramentisborðið, svo Jesús Kristur gæti fjarlægt hana. Á yngri fullorðinsárum hef ég tekist á við syndabyrði sem ég hef reynt að sigrast á, en ekki tekist fyrir bæn og eigin viljastyrk. Þrátt fyrir eigin vöxt í áranna rás, þá var mér ljóst að ég yrði að sigrast á þessum syndum, til að geta þróast áfram.

Á sunnudeginum, eftir þessa áskorun biskupsins, ákvað ég að skilja einungis eina synda minna eftir við sakramentisborðið, sem var efnislegt tákn um frelsarann og friðþægingarfórn hans. Þegar ég bjó mig undir að meðtaka sakramentið, minntist ég þess að klæðið eða dúkurinn sem huldi það táknaði greftrunarklæði hans og brauðið og vatnið táknuðu líkama hans og blóð.

Af einlægum ásetningi hjartans, endurnýjaði ég skírnarsáttmála minn og flutti bæn í hjarta mér og einsetti mér að segja skilið við þessa synd og bað himneskan föður um að hjálpa mér. Þá gerðist nokkuð sem ég hafði alls ekki vænst: Þrá mín til að syndga hvarf algjörlega. Ég reyndi þetta nokkrum sinnum í viðbót og það sama gerðist með aðrar syndir mínar. Var þetta of gott til að vera satt?

Ég laut vilja hans

Í næstu viku vissi ég hvaða synd ég vildi skilja eftir við sakramentisborðið, en fannst ég ekki tilbúinn að segja skilið við hana. Þegar ég lít um hæl, verður mér ljóst að hjarta mitt var ekki á réttum stað. Ég var ekki nægilega einlægur í hjarta til að vilja breytast. Ég vissi þó hve mikið syndin særði himneskan föður. Ég vissi að ég þurfti að samstilla mig vilja hans og hafa hann að þungamiðju til að hljóta lausn. Ég gerði því mitt besta til að svo yrði.

Ég forðaðist allar freistingar sem gætu knúið mig til þessarar syndar. Ég breytti háttum mínum, las ritningarnar daglega og ígrundaði og tileinkaði mér þær einlæglega. Ég einsetti mér að vera einlægur í þeirri skuldbindingu að breytast og reyndi dag hvern að breyta að vilja Drottins, en ekki eigin vilja. Ég hafði hann í fyrirrúmi, því ég vissi að ég gæti ekki sagt skilið við þessa synd, án friðþægingar frelsarans. Mér tókst að segja skilið við þessa synd við sakramentisborðið með því að hafa hann í fyrirrúmi. Ég var loks frjáls frá því sem hafði verið mér dragbítur í svo mörg ár.

Í þessu ferli komst ég nær himneskum föður og frelsara mínum. Ég sé þá fyrir mér horfa niður til mín öll þessi ár, af þolinmæði og kærleika – í þeirri vissu að ég mundi að lokum segja skilið við þær syndir sem hindruðu andlega framþróun mína. Þegar ég yrði fús til að segja skilið við þær, væri Jesús Kristur þar til að lyfta mér – taka um hönd mína og veita mér fyrirgefningu og styrk. Hann hafði þegar séð mér fyrir leið með friðþægingu sinni til að sigrast á syndum mínum. Hann reiddi gjaldið af höndum fyrir veikleika mína, misgjörðir og syndir. Ég þurfti bara að treysta honum.

Þið getið haldið áfram

Á þessum tíma las ég orð öldungs Richards G. Scott (1928–2015), í Tólfpostulasveitinni, sem voru mér nauðsynleg hvatning: „Ef líf ykkar er í ólestri og ykkur líður óþægilega og óverðuglega … , verið þá ekki áhyggjufull. Hann veit þegar af þessu öllu. Hann bíður þess að þið krjúpið í auðmýkt og takið fyrsta skrefið. Biðjið um styrk. … Biðjið þess að elska frelsarans megi fylla hjarta ykkar.“1

Þegar ég söng „Um Jesú ég hugsa“ (eftirlætis sálm minn) í næstu viku hljómuðu öll orðin sönn; mig furðaði í raun – að það sem ég hafði burðast með í yfir áratug hefði verið létt af mér. Ég furðaði mig á því að ég gat haldið áfram fyrir tilverknað krafts friðþægingar frelsarans. Að hann gæti læknað allar syndir og öll sár, svo engin merki væru þar eftir. Að fortíðin væri mér ekki fjötur um fót.

Ég á enn svo margt ólært og óunnið, en líf mitt er á uppleið. Ég finn meiri gleði og frið. Ég finn aukið þakklæti. Ég finn aukna nálægð himnesks föður og frelsarans og sterkari vitnisburð um þá. Þegar ég dag hvern ákveð að reyna aftur, kemst ég einu skrefi nær þeim og að verða sú manneskja sem þeir vita að ég get orðið.

Heimildir

  1. Richard G. Scott, „True Friends That Lift,“ Ensign, nóv. 1988, 77.