2020
Teljið þið ykkur engan tilgang hafa sem ungt fullorðið fólk? Hugsið málið aftur
Apríl 2020


Einungis stafrænt: Ungt fullorðið fólk

Teljið þið ykkur engan tilgang hafa sem ungt fullorðið fólk? Hugsið málið aftur

Hugsunin um að leiða kirkjuna einhvern daginn getur verið yfirþyrmandi, en þið getið nú þegar byrjað að leiða á ýmsan hátt.

Þegar líða fer að Síðari komu Jesú Krists mun verða „[hernaður] og ófriðartíðindi.

„… Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.

Og enn fremur, sakir þess að misgjörðir þrífast, mun kærleikur manna kólna“ (Joseph Smith – Matteus 1:28-30).

Hver mun hjálpa við að leiða bræður okkar og systur, mitt í þessum ófriði, hvort heldur innan eða utan hjarðarinnar, aftur til himnesks föður?

Þar komum við að máli.

Hvernig við ættum að leiða

Við höfum verið sögð ein merkasta kynslóð ungs fullorðins fólks. Russell M. Nelson forseti lýsir okkur sem þeim „sem Guð treystir nægilega til að senda til jarðar á mest knýjandi ráðstöfun heimssögunnar“ („Stand as True Millennials,“ Liahona, okt. 2016, 46).

Hvernig getum við hámarkað getu okkar til að verða mikilhæfir leiðtogar í kirkju Drottins? Ef þið horfið í kringum ykkur, kunnið þið að sjá að þið eruð þegar leiðtogar á einn eða annan hátt.

Þið gætuð verið leiðtogar í kirkjuköllun ykkar. Sem trúboðar, gætuð þið leitt umræðu, verið í forsvari fyrir kennsluviðburðum eða verið tilnefnd sem svæðisleiðtogi eða systraleiðtogi. Þið gætuð verið leiðtogar í fjölskyldu ykkar eða meðal vina ykkar. Þið gætuð leitt áa ykkar til sáluhjálpar með ættarsögustarfi. Þið gætuð jafnvel orðið stjórnmálaleiðtogar og alltaf verið leiðandi á hvaða starfssviði sem þið kjósið ykkur.

Spurningin er hins vegar: Hvernig ættum við að leiða? Drottinn leiddi með fordæmi sínu. Hann leiddi með því að segja: „Kom, fylg mér“ fremur en „Mín leið er betri.“ Hann þjónaði, kenndi, elskaði og annaðist þá sem í kringum hann voru. Jesús Kristur er besta fordæmið um leiðtoga. Við getum, til að verða mikilhæf kynslóð leiðtoga, stefnt að því að vera eins og frelsarinn og gert þessa litlu hluti:

  1. Beðið fyrir þeim sem eiga í vanda, þurfa liðsinni eða sem þið berið ábyrgð á og reynt síðan að komast að því hvernig þið getið aðstoðað þá. Beðið fyrir þeim með nafni, sem einstaklingum, á sama hátt og frelsarinn þjónaði „[hverjum] af öðrum“ (3. Nefí 11:15).

  2. Gefið ykkur tíma til að leita sérstaklega í ritningunum að góðum leiðtogafordæmum, einkum sem tengjast frelsaranum sjálfum.

  3. Beðið fyrir leiðtogum deildar ykkar og stiku og aðalvaldhöfum kirkjunnar. Beðið einnig fyrir stjórnmálaleiðtogum, að þeir verði innblásnir og starfi í friði og einingu.

  4. Kynnst þeim sem í kringum ykkur eru. Kynnt ykkur áhugamál þeirra, fjölskyldur, nám og langanir og þrár í lífinu (sjá Efesusbréfið 2:19).

  5. Lesið patríarkablessun ykkar og hugleitt hvernig þið getið orðið besta útgáfa ykkar sjálfra.

Þegar við gerum okkar besta til að leiða í réttlæti, verðum við sannir lærisveinar og fylgjendur Krists og hæf fyrir samfélag heilags anda. Er við gerum og heiðrum helga sáttmála, eigum við rétt á andlegu alvæpni og nauðsynlegum undirbúningi til að heyja baráttu við andstæðinginn.

Þið getið hafist handa nú þegar

Hvernig leiðtogar verðið þið? Ef við vitnum í frelsarann: „Hvers konar [leiðtogar] ættuð þér því að vera? Sannlega segi ég yður, alveg eins og ég er“ (3. Nefí 27:27).

Þegar dregur að Síðari komunni, mun Drottinn þarfnast fleiri réttlátra leiðtoga sem munu fylgja spámanni hans og láta að sér kveða í þessari baráttu. Hann þarfnast okkar. Við erum á elleftu stundu og höfum mikið verk að vinna. Við getum hafist handa við að búa okkur undir að verða mikilhæf kynslóð leiðtoga. Það er aldrei of seint að byrja! Ef það er eitthvað sem þið þurfið að ræða við biskup ykkar, þá getur hann liðsinnt ykkur á vegi iðrunar. Ef þið þurfið leiðsögn til að geta bætt ykkur sjálf, byrjið þá á því að bæta samband ykkar við himneskan föður og Jesú Krist. Þeir geta hjálpað ykkur að vita hvert leiðin á að liggja. Þið og ég erum kölluð núna til að vinna verk Drottins og hjálpa spámanni okkar að leiða hús Ísraels til öryggis og ef við gerum einfaldlega okkar besta, munum við verða farsæl.