2020
Berglind Guðnason – Hveragerði, Íslandi
Apríl 2020


Fyrirmynd trúar

Berglind Guðnason

Hveragerði, Íslandi

Ljósmynd
sisters hugging

Berglind (vinstri) með systur sinni, Elínu (hægri). Þegar þunglyndi Berglindar var sem verst, fannst henni hún ekki geta haldið áfram. Með því að opna sig og segja fjölskyldu og vinum frá þessari baráttu, fann hún andlega og tilfinningalega lækningu með þeim úrræðum sem himneskur faðir sér okkur fyrir.

Mindy Selu, ljósmyndari

Ég hef háð baráttu við þunglyndi frá 13 ára aldri. Á einum tímapunkti varð ástandið svo slæmt að ég reyndi að svipta mig lífi. Á þessum tíma var ég full vonleysis. Ég hugsaði: „Ég verð aldrei hamingjusöm. Ég mun engu afreka.“

Um stund fannst mér það lausn á vanda mínum að fara frá kirkjunni, því mér fannst allt algjörlega vonlaust. Á Íslandi er svo auðvelt að gera það sem betur væri látið ógert. Kirkjan er svo fámenn hér. Á uppvaxtarárunum voru það bara ég og systkini mín sem vorum í námsbekkjum kirkjunnar. Ég var einmana og á tímabili vildi ég helst ekki fara í kirkju.

Flestir á Íslandi vilja ekki trúarbrögð. Fólk byrjar áfengisneyslu mjög snemma. Ég festist í því og varð lítt virk um tíma í lífi mínu. Ég er ekki stolt af þessu, en þetta er hluti af þeirri reynslu sem ég hef lært af. Ég las ræðu eftir öldung Jeffrey R. Holland og hreifst af þessum orðum hans: „Læra ætti af fortíðinni en ekki lifa í henni. … Þegar við höfum lært það sem læra þarf, … þá horfum við fram á við og munum að trú beinist alltaf að framtíðinni.“1

Dag einn, þegar ég átti mjög erfitt, las ég patríarkablessun mína. Við lesturinn varð mér ljóst að ég átti mér framtíð. Guð hefur áætlun fyrir mig og hann elskar mig í raun. Að fara í kirkju, meðtaka sakramentið, lesa ritningarnar og biðjast fyrir, hefur veitt mér svo mikið ljós og mikla hamingju. Fljótt varð mér ljóst: „Þetta raunverulega hjálpar mér.“ Ég vissi þá að ég vildi alltaf hafa fagnaðarerindið í lífi mínu. Ég veit, eftir allt sem ég hef gengið í gegnum, að fagnaðarerindið hefur bjargað lífi mínu og það veitir mér mikla gleði.

Það hefur líka hjálpað mér mikið að tala við fjölskyldu og vini um þunglyndi mitt. Það leiddi líka til aukinnar hjálpar. Ég vildi hvorki taka lyf, né fara í meðferð. Ég sagði stöðugt við sjálfa mig: „Ég hef Guð.“ Guð sér okkur þó fyrir mörgum öðrum úrræðum, eins og lyfjum og meðferðum, sem við getum nýtt, auk andlegra hluta.

Þegar ég tók að lesa ritningarnar oftar og daglega og komast nær Guði með bæn, hlaut ég margar blessanir og opinberanir um að mér væri ætlað að hjálpa öðrum. Mér finnst svo margir glíma við geðræna erfiðleika og reyna að fela það. Af baráttunni við þunglyndið hefur mér lærst að betra er að opna sig og tengjast öðrum. Vinkona mín opnaði sig nýlega og sagði mér frá baráttu sinni við þunglyndi. Við ræddum saman um það og skildum virkilega hvor aðra.

Við sjáum ekki alltaf hvað aðrir glíma við, en stundum á göngu minni virði ég aðra fyrir mér og þá verður mér ljóst að Guð þekkir hvert einasta okkar. Hann elskar okkur og veit nákvæmlega hvað við öll tökumst á við. Við getum hjálpað hvert öðru.

Í baráttu minni við þunglyndið hefur mér lærst að spyrja: „Hvað get ég lært af þessari reynslu?“ í stað þess að spyrja: „Afhverju þarf ég að takast á við þetta?“ Ég ann Eter 12:27, þar sem segir að hið veika getur orðið að styrk, ef við trúum á Jesú Krist. Þetta hughreystir mig alltaf.

Við völdum öll að koma hingað til jarðar. Við vissum að við mundum þjást í raunum lífsins. Satt að segja, þá gerir þetta lífið stórkostlegt. Því við vitum að við getum vænst góðra hluta. Við vitum að við getum öðlast eilíft líf, ef við fylgjum frelsaranum í hverju þrautarskrefi, og allar þær blessanir sem okkur eru geymdar.

Ég hef vissulega tekið eftir að ég hef breyst í báráttunni við þunglyndið. Friðþæging frelsarans er raunveruleg, ég hef breyst í hjarta og er orðin sterkari. Mér finnst ég vera önnur en ég var áður. Fólk tekur eftir því og segir: „Þú hefur breyst.“ Ein stúlka í skólanum sagði jafnvel: „Ég sé breytingu og ljós í þér.“ Það var skrítið, því hún er ekki meðlimur kirkjunnar og við höfðum í raun varla rætt saman áður.

Þegar þunglyndið var einna mest, sagði fólk við mig: „Þetta á eftir að lagast.“ Það þreytti mig svo að heyra þetta, en svo furðulegt sem það nú er, þá reyndist þetta rétt.

Við þurfum þó að vilja verða betri. Mér hefur lærst að ekki sé hægt að vænta bata, ef ekkert er að gert. Við þurfum að vilja verða hamingjusöm og hafa trú á möguleikum okkar og framtíðinni. Mikilvægt er að hafa hugfast að við erum elskuð af svo mörgum, líka föður okkar á himnum. Allir þessir reyna að liðsinna okkur.

Það hvarflaði ekki að mér að ég gæti verið jafn hamingjusöm og ég er núna. Ég á enn erfitt suma daga, en með þeim úrræðum sem himneskur faðir hefur séð mér fyrir, þá get ég tekist á við það. Þegar ég nú finna að þunglyndið er að koma yfir mig, segi ég við mig sjálfa að ég er elskuð, hef fólk til að tala við og að þetta eigi eftir að lagast.

Ljósmynd
Berglind sitting down

Barátta Berglindar við þunglyndi hefur gert hana meðvitaðri um hvernig við getum hjálpað hvert öðru að takast á við áskoranir. „Guð þekkir hvert einasta okkar. Hann elskar okkur og veit nákvæmlega hvað við öll tökumst á við. Við getum hjálpað hvert öðru.“

Ljósmynd
Berglind smiling

Berglind hefur tekið eftir að hún hefur breyst sökum áskorana sinna. „Friðþæging frelsarans er raunveruleg,“ segir hún. „Ég hef breyst í hjarta og er orðin sterkari. Mér finnst ég vera önnur en ég var áður.“

Ljósmynd
Berglind reading scriptures

„Þegar ég tók að lesa ritningarnar oftar og daglega,“ segir Berglind, „hlaut ég margar blessanir og opinberanir um að mér væri ætlað að hjálpa öðrum. Ég ann Eter 12:27, þar sem segir að hið veika getur orðið að styrk, ef við trúum á Jesú Krist. Þetta hughreystir mig alltaf.“

Heimildir

  1. Jeffrey R. Holland, „,Remember Lot’s Wife‘: Faith Is for the Future“ (trúarsamkoma í Brigham Young háskóla, 13. jan. 2009), speeches.byu.edu.