2020
Gjörbreyting í hjarta
Apríl 2020


Lexíur úr Mormónsbók

Gjörbreyting í hjarta

Þökk sé friðþægingu Jesú Krists, að við getum ekki aðeins hreinsast af synd, heldur líka læknast af syndsemi.

Ljósmynd
rusted metal heart

Með Falli Adams komu synd og sjúkdómar í heiminn. Hvort tveggja getur verið banvænt á sinn hátt. Af öllum sjúkdómum, er krabbamein líklega almennast og átakanlegast. Í sumum löndum fær rúmlega einn þriðji hluti allra íbúanna einhvers konar krabbamein og það er orsök næstum eins fjórða hluta allra dauðsfalla.1 Krabbamein hefst oft á einni frumu, sem er svo lítil að hún verður einungis séð í smásjá. Meinið getur þó vaxið hratt og dreift úr sér.

Krabbameinssjúklingar fara í meðferð til að eyða meinvarpinu. Algjör eyðing meinvarpsins, þýðir að engin merki séu lengur greinanleg um sjúkdóminn. Læknar benda þó sjúklingi fljótt á að þótt meinvarpinu hafi verið eytt, merki það ekki endilega að lækning sé tryggð.2 Þótt eyðing meinvarps veki hugarró og von, þá vonast krabbameinssjúklingar alltaf eftir meiru en bara eyðingu meinsins – þeir vonast eftir lækningu. Ein heimild segir: „Sá sem vonast eftir lækningu, þarf að bíða og sjá hvort krabbameinið geri vart við sig aftur, svo tíminn er því mikilvægur þáttur. Ef mein sjúklings gerir ekki aftur vart við sig að nokkrum árum liðnum, gæti sjúklingur verið fulllæknaður. Ákveðnar tegundir krabbameins geta blossað upp aftur, mörgum árum eftir meinvarpseyðingu.“3

Sjúkdómar og synd

Syndin er jafnvel enn hættulegri sálinni, en krabbameinið líkamanum. Syndin er yfirleitt smávægileg í fyrstu – stundum ómerkjanlega smávægileg – en getur vaxið hratt. Hún tærir, bæklar og drepur loks sálina. Hún er megin orsök – eiginlega eina orsök – andlegs dauða, alls þess sem skapað er. Iðrun er meðferð við synd. Sönn iðrun er 100 prósent árangursrík við eyðingu syndar eða að gera syndaaflausn mögulega. Syndaaflausn veitir sálinni líkn og gleði. Að hljóta syndaaflausn og vera laus við einkenni og áhrif syndar, merkir þó ekki endilega að hinn syndugi hafi verið fulllæknaður. Það er eitthvað sem tengist hjarta hins fallna manns, sem gerir hann taman syndinni. Syndin getur því jafnvel gert vart við sig á ný mörgum árum eftir syndaaflausn. Að viðhalda syndaaflausn eða, með öðrum orðum, viðhalda fyrirgefningu synda, er algjörlega nauðsynlegt til að læknast algjörlega.

Hreinsuð og læknuð

Þessi samlíking hjálpar okkur að skilja þá andlegu merkingu, að ekki nægir að við hreinsumst af synd, heldur þurfum við líka að læknast af syndsemi. Sú hugarfarslega togstreita að gera gott, en ekki slæmt, sem okkur er eðlislægt, getur verið lýjandi. Ef við erum trúföst, verðum við sigursæl, ekki vegna þess að við höfum þröngvað hugann til að breyta gegn því sem okkur er eðlislægt, heldur vegna þess að við hofum lotið vilja Guðs, sem síðan breytir eðli okkar.

Benjamín konungur kenndi: „Hinn náttúrlegi maður er óvinur Guðs og hefur verið það frá falli Adams og mun verða það alltaf og að eilífu, nema hann láti undan umtölum hins heilaga anda, losi sig úr viðjum hins náttúrlega manns … fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins“ (Mósía 3:19). Fólk Benjamíns konungs svaraði þessu og öðrum kenningum með því að biðja: „Ó, miskunna oss og beit þannig friðþægingarblóði Krists, að vér megum hljóta fyrirgefningu synda vorra og hjörtu vor megi hreinsast“ (Mósía 4:2; skáletrað hér). Eftir að fólkið hafði beðist fyrir, svaraði Drottinn hinni tvíþættu bæn þess. Fyrst: „Kom andi Drottins yfir þá, og þeir fylltust fögnuði yfir að hafa fengið fyrirgefningu synda sinna og frið við samvisku sína“ (Mósía 4:3).

Benjamín konungur, sem sá að fólk hans hafði hlotið syndaaflausn, hvatti það til að keppa að endanlegri lækningu, með því að kenna því að viðhalda eigin syndaaflausn (sjá Mósía 4:11–30). „Ef þér gjörið þetta,“ lofaði hann, „munuð þér ætíð fagna og fyllast Guðselsku, og ætíð njóta fyrirgefningar syndanna“ (Mósía 4:12).

Fólkið trúði og skuldbatt sig orðum Benjamíns konungs, þá skipti engum togum að Drottinn svaraði síðari hluta bænar þess – um að „hjörtu [þess] megi hreinsast.“ „Því að andi Drottins almáttugs hefur valdið svo mikilli breytingu á okkur, eða í hjörtum okkar, að við hneigjumst ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka“ (Mósía 5:2). Benjamín konungur útskýrði að þessi mikla breyting sýndi að fólkið hafði fæðst af Guði (sjá Mósía 5:7).

„Hvernig má það vera?“

Spámaðurinn Alma kenndi að við verðum bæði að iðrast og fæðast aftur – fæðast af Guði, gjörbreytast í hjarta (sjá Alma 5:49). Þegar við iðrumst stöðugt, mun Drottinn afmá allar syndir okkar og afmá hið eðlislæga, sem fær eða knýr okkur til að syngda. Enos spurði hins vegar: „Drottinn, hvernig má það vera?” (Enos 1:7). Svarið er einfalt, en þó djúpstætt og eilíft. Við þá sem hafa læknast af hvers kyns ástandi, líkamlegu eða andlegu, hefur Drottinn sagt: „Trú þín hefur bjargað þér“ (sjá Markús 5:34; Enos 1:8).

Sú gjörbreyting í hjarta sem Alma upplifði varð „fyrir trú hans“ og fylgjendur hans upplifðu breytingu í hjarta, er þeir „lögðu traust sitt á hinn sanna, lifanda Guð“ (Alma 5:12, 13). Hjörtu fólks Benjamíns konungs höfðu „breyst fyrir trú á nafn [frelsarans]“ (Mósía 5:7).

Ef við viljum hafa þessa sömu trú, að við fáum treyst Drottni af öllu hjarta, verðum við að gera það sem leiðir til trúar og gera það sem trú leiðir okkur til að gera. Drottinn hefur, meðal þess marga sem leiðir til trúar, og varðar þessa breytingu hjartans, lagt áherslu á föstu, bæn og orð Guðs. Þótt trú leiði til margra hluta, þá er iðrun fyrsti ávöxtur hennar.

Ígrundið eftirfarandi tvö vers í Bók Helamans, sem undirstrika þessar reglur. Fyrst lesum við um fólk sem „fastaði… og baðst oft fyrir og varð … stöðugt ákveðnara í trúnni á Krist, … já, sem hreinsaði og helgaði hjörtu þess, þeirri helgun, sem fæst með því að gefa hjörtu sín Guði“ (Helaman 3:35). Við lærum líka af lamaníska spámanninum, Samúel: „Heilagar ritningar, já, [spádómar] hinna heilögu spámanna, … leiða … til trúar á Drottin og til iðrunar, þeirrar trúar og iðrunar, sem umbreytir hjörtum“ (Helaman 15:7).

Ljósmynd
diamond heart

Setja traust á Guð

Við ættum aðeins að staldra hér við og átta okkur á að þessi mikla breyting sem rætt er um, á sér stað innra með okkur; hún er ekki af okkar völdum. Við getum iðrast, breytt atferli okkar, viðhorfi okkar, jafnvel þrám og trú, en við höfum hvorki mátt, né getu til að breyta eigin eðli. Við erum algjörlega háð almáttugum Guði, hvað þessa gjörbreytingu varðar. Það er hann sem náðarsamlega hreinsar hjörtu okkar og breytir eðli okkar „að afloknu öllu, sem vér getum gjört“ (2. Nefí 25:23). Boð hans er óhagganlegt og öruggt: „Iðrist og [komið] til mín í einlægum ásetningi, og ég mun gjöra [yður] heila“ (3. Nefí 18:32; skáletrað hér).

Áhrif þess að læknast af syndsemi eru þau að við munum „hverfa úr viðjum holdlegs og fallins hlutskiptis í faðm réttlætisins, … verða synir hans og dætur [og] á þennan hátt [verðum við] ný sköpun“ (Mósía 27:25, 26). Ásjóna okkar mun ljóma ljósi Krists. Ritningarnar segja ennfremur að „hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki“ (1. Jóhannesarbréfið 5:18). Þannig er það ekki vegna þess að við getum ekki syndgað, heldur vegna þess að það er nú eðli okkar að syndga ekki. Það er vissulega mikil breyting.

Hafa skal hugfast að gjörbreyting hjartans er ferli sem gerist í rás tímans, en ekki á einum tímapunkti. Breytingin gerist yfirleitt smám saman, stundum ómerkjanlega í áföngum, en hún er raunveruleg, hún er kröftug og hún er nauðsynleg.

Ef þið hafið enn ekki upplifað líka gjörbreytingu, spyr ég ykkur: Hafið þið iðrast og hlotið syndaaflausn? Lærið þið hinar helgu ritningar? Biðjið þið og fastið oft, svo þið vaxið stöðugt og ákveðið að trú á Krist? Hafið þið næga trú til að treysta Drottni af öllu hjarta? Eruð þið óhagganleg í þeirri trú? Gætið þið hugsana ykkar, orða og verka og hlítið boðorðum Guðs? Ef þið gerið þetta, munuð þið ætíð fagna og fyllast Guðselsku, og ætíð njóta fyrirgefningar syndanna. Ef þið viðhaldið syndaaflausn ykkar, munuð þið upplifa lækningu og breytingu!

Jesús Kristur hefur mátt til að hreinsa okkur af synd og líka að lækna okkur af syndsemi. Hann hefur máttinn til að frelsa og þar með máttinn til að breyta. Ef við gefum honum hjarta okkar, iðkum trú, með því að gera allar þær breytingar sem við getum gert, mun hann virkja mátt sinn í okkur, til að koma hinni miklu breytingu til leiðar í hjarta okkar (sjá Alma 5:14).

Heimildir

  1. Sjá Stacy Simon, „Facts & Figures 2019: US Cancer Death Rate Has Dropped 27% in 25 Years,” American Cancer Society, 8. jan 2019, cancer.org.

  2. Sjá „Remission: What Does It Mean?“ webMD.com.

  3. Cathy Sweat, The Gates to Recovery (2019).