2020
Lítill fugl minnti mig á
Apríl 2020


Lítill fugl minnti mig á

Laura Linton

Utah, Bandaríkjunum

Ljósmynd
couple in front of tombstone

Myndskreyting eftir Carolyn Vibbert

Ég var 26 ára þegar við eiginmaður minn misstum okkar fyrsta barn. Kennedy greindist með heilaæxli þegar hún var einungis 13 mánaða gömul. Eftir þrjár aðgerðir, fimm umferðir af lyfjameðferð og mikið af lyfjum og meðferðum, lést hún í faðmi okkar 20 mánaða gömul.

Ég var niðurbrotin yfir að missa fallegu, forvitnu, þróttmiklu litlu stúlkuna mína. Hvernig getur svona gerst? Hvernig gat ég haldið áfram? Ég var uppfull af spurningum, en átti engin svör. Nokkrum dögum eftir jarðarförina heimsóttum við hjónin leiðið, það var enn þakið fallegum bleikum blómum og borðum eftir jarðarförina

Er ég hugsaði um dóttur mína sá ég lítinn fuglsunga, of lítinn til að fljúga, hoppa í grasinu. Þessi fugl minnti mig á Kennedy, því hún elskaði dýr. Fuglinn hoppaði yfir leiðið og lék sér í borðunum og blómunum. Ég brosti, því ég vissi að þetta var nákvæmlega það sem Kennedy hefði óskað sér. Þá hoppaði fuglinn í áttina til mín. Ég þorði ekki að hreyfa mig. Litli fuglinn hoppaði upp að mér, hallaði sér upp að fótleggnum á mér, lokaði augunum og fór að sofa.

Ég get varla lýst þeim tilfinningum sem ég upplifði á því augnabliki. Mér fannst eins og Kennedy mín væri að faðma mig. Ég gat ekki haldið á dóttur minni, en þessi litli fugl – sköpun himnesks föður okkar – gat komið og lagt örsmátt höfuð sitt á mig og minnt mig á að himneskur faðir skildi sársauka minn og myndi ávallt vera til staðar til að hugga mig og hjálpa mér í gegnum erfiðleika mína.

Öldungur David A. Bednar í Tólfpostulasveitinni sagði: „Þegar orðin geta ekki veitt þá huggun sem við þörfnumst … þegar rök og skynsemi ná ekki að veita viðeigandi skilning á ranglæti og misgjörðum þessa lífs, … þegar svo virðist sem við séum alein, þá erum við sannlega blessuð með mildri miskunn Drottins“ („Hin milda miskunn Drottins,“ aðalráðstefna, apríl 2005).

Ég hafði ekki enn öll svörin við spurningum mínum, en miskunn hans fullvissaði mig um að himneskur faðir elskaði bæði Kennedy og mig og að fyrir friðþægingarfórn sonar hans, Jesú Krists, á ég þá von að Kennedy, eiginmaður minn og ég verðum einhvern tíma aftur saman sem fjölskylda.