2020
Framtíð kirkjunnar: Búa heiminn undir síðari komu frelsarans
Apríl 2020


Framtíð kirkjunnar: Búa heiminn undir síðari komu frelsarans

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er að búa heiminn undir þann tíma þegar „jörðin [verður] full af þekkingu á Drottni“ (Jesaja 11:9).

Ljósmynd
painting of the Savior’s hand

Innan seilingar, eftir Jay Bryant Ward, óheimilt að afrita

Þið og ég fáum að taka þátt í yfirstandandi endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists. Það er dásamlegt! Hún er ekki gerð af höndum manna! Hún er frá Drottni, sem sagði: „Ég mun hraða verki mínu þegar að því kemur“ (Kenning og sáttmálar 88:73). Þetta verk er gætt krafti guðlegrar yfirlýsingar fyrir 200 árum. Hún samanstendur aðeins af [níu] orðum: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann! (sjá Joseph Smith – Saga 1:17).

Almáttugur Guð kom fram með þessa tilkynningu og kynnti hinn unga Joseph Smith fyrir Drottni, Jesú Kristi. Þessi [níu] orð voru innleiðing hins endurreista fagnaðarerindis hans. Hvers vegna? Vegna þess að okkar lifandi Guð er kærleiksríkur Guð! Hann vill að börn sín hljóti ódauðleika og eilíft líf! Hið mikla síðari daga verk, sem við tökum þátt í, var innleitt á tilsettum tíma, til að blessa óþreyjufulla og hrjáða veröld.

Ég get ekki rætt um endurreisnina í mildum tóni. Þessi staðreynd sögunnar er algjörlega töfrandi! Hún er ótrúleg! Hún er hrífandi! Hve dásamlegt er að sendiboðar komu frá himni til að glæða þetta verk valdi og mætti.

Verki Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á okkar tíma miðar áfram á auknum hraða. Kirkjan mun eiga sér fordæmislausa, óviðjafnanlega framtíð. „Auga [hefur ekki séð og eyra ekki heyrt] … allt það sem Guð [fyrirbýr] þeim, er elska hann. (1. Korintubréfið 2:9; sjá einnig Kenning og sáttmálar 76:10).

Hafið hugfast að fylling þjónustu Krists bíður framtíðar. Spádómar um síðari komu hans eiga enn eftir að uppfyllast. Við erum einungis að undirbúa jarðveg þessarar síðustu ráðstöfunar – þegar síðari koma frelsarans verður að raunveruleika.

Samansöfnun Ísraels beggja vegna hulunnar

Nauðsynlegur undanfari þeirrar síðari komu er hin langþráða samansöfnun hins dreifða Ísraels (sjá 1. Nefí 15:18; sjá einnig titilsíðu Mormónsbókar). Kenningin um samansöfnunina er ein mikilvægasta kenning Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Drottinn hefur lýst yfir: „Ég gef yður tákn, … þegar ég mun safna saman þjóð minni eftir langæja tvístrun, ó Ísraelsætt, og mun aftur stofnsetja mína Síon meðal þeirra“ (3. Nefí 21:1).

Við kennum ekki einungis þessa kenningu, heldur tökum þátt í henni. Það gerum við með því að hjálpa við samansöfnun hinna kjörnu Drottins, beggja vegna hulunnar. Endurlausn látinna ættmenna okkar er hluti af þeirri áætlun sem ráðgerð er fyrir jörðina og íbúa hennar (sjá Kenning og sáttmálar 128:15). Til allrar hamingju, þá nær boðið um að „koma til Krists“ (Jakob 1:7; Moróní 10:32; Kenning og sáttmálar 20:59) líka til þeirra sem dáið hafa án þess að þekkja fagnaðarerindið (sjá Kenning og sáttmálar 137:6–8). Hluti af undirbúningi þeirra gerir þó kröfu um jarðneskt verk annarra. Við höldum ættartölur, útfyllum fjölskyldublöð og gerum staðgengilsverk í musteri, til að leiða fólk til Drottins og samansöfnunar einstaklinga og fjölskyldna (sjá 1. Korintubréfið 15:29; 1. Pétursbréfið 4:6).

Ljósmynd
painting of Salt Lake Temple

Heilagleiki til Drottins, eftir Jay Bryant Ward, óheimilt að afrita

Innsigla þarf fjölskyldur um alla eilífð (sjá Kenning og sáttmálar 2:2–3; 49:17; 138:48; Joseph Smith – Saga 1:39). Mynda þarf bindandi hlekk á milli feðra og barna. Á okkar tíma þarf að verða heil,algjör og fullkomin eining og samanhlekkjun ráðstafana, lykla og valds (sjá Kenning og sáttmálar 128:18). Í þessum helga tilgangi eru musteri nú reist víða um heim. Ég legg enn áherslu á að bygging þessara mustera breytir ekki endilega lífi ykkar, en þjónustan sem þið innið af hendi þar mun vissulega gera það.

Sá tími er fyrir höndum að þeir sem ekki hlýða Drottni verði aðskildir þeim sem það gera (sjá Kenning og sáttmálar 86:1–7). Öryggi okkar verður best tryggt með því að vera alltaf verðug inngöngu í hans heilaga hús. Æðsta gjöfin sem þið getið gefið Drottni, er að halda ykkur óflekkuðum af heiminum, verðug þess að fara í heilagt hús hans. Gjöf hans til ykkar verður friðurinn og öryggið sem felst í því að vita að þið séuð verðug þess að mæta honum, hvenær sem sá dagur verður.

Auk musterisverksins, er framkoma Mormónsbókar öllum heiminum tákn um að Drottinn hefur hafið samansöfnun Ísraels og uppfyllingu sáttmálans sem hann gerði við Abraham, Ísak og Jakob (sjá 1. Mósebók 12:2–3; 3. Nefí 21; 29). Mormónsbók lýsir yfir kenningunni um samansöfnunina (sjá t.d. 1. Nefí 10:14). Hún fær fólk til að læra um Jesú Krist, trúa á fagnaðarerindi hans og ganga í kirkjuna. Ef Mormónsbók væri ekki til, gæti hin fyrirheitna samansöfnun Ísraels í raun ekki átt sér stað.

Trúboðsstarf er líka nauðsynlegt fyrir þessa samansöfnun. Þjónar Drottins munu ganga fram og kunngjöra endurreisnina. Í mörgum löndum hafa meðlimir og trúboðar leitað þeirra sem eru meðal hins dreifða Ísraels; þeir hafa veitt þá „í bergskorunum“ (Jeremía 16:16); og þeir hafa fiskað þá, eins og gert var til forna.

Trúboðsstarf tengir fólk sáttmálanum sem Drottinn gerði við Abraham til forna:

„Þú munt verða eftirkomandi niðjum þínum blessun, svo að þeir færi í höndum sér öllum þjóðum þessa helgu þjónustu og þetta prestdæmi –

Og ég mun blessa þá fyrir nafn þitt, því að allir þeir, sem meðtaka þetta fagnaðarerindi, skulu kenndir við nafn þitt og teljast niðjar þínir, og þeir munu rísa á fætur og blessa þig sem föður sinn“ (Abraham 2:9–10).

Trúboðsstarf er einungis upphafið að blessuninni. Þessar blessanir uppfyllast þegar þeir sem fara ofan í skírnarvatnið fullkomna eigið líf að því marki að þeim leyfist innganga í hið heilaga musteri. Þegar meðlimir kirkjunnar taka þar á móti musterisgjöf, verða þeir innsiglaðir sáttmála Abrahams.

Sá valkostur að koma til Krists, snýst ekki um líkamlega staðsetningu. Hún snýst um persónulega skuldbindingu. Allir meðlimir kirkjunnar hafa aðgang að kenningu, helgathöfnum, prestdæmislyklum og blessunum fagnaðarerindisins, burt séð frá staðsetningu þeirra. Hægt er að leiða fólk „til þekkingar á Drottni“ (3. Nefí 20:13), án þess að það yfirgefi heimalönd sín.

Rétt er að fólk flutti oft búferlum þegar það meðtók trú á fyrri tímum kirkjunnar. Nú á samansöfnunin sér þó stað í hverju landi. Drottinn hefur fyrirskipað stofnun Síonar (sjá Kenning og sáttmálar 6:6; 11:6) á hverjum þeim vettvangi sem hann hefur veitt sínum heilögu fæðingarrétt sinn og þjóðerni. Staður samansöfnunar hina heilögu í Brasilíu er Brasilía: staður samansöfnunar hinna heilögu í Nígeríu er Nígería; staður samansöfnunar hinna heilögu í Kóreu er Kórea. Síon er „hinir hjartahreinu“ (Kenning og sáttmálar 97:21). Hún er hvarvetna þar sem réttlátir heilagir eru.

Andlegt öryggi verður ætíð háð því hvernig menn lifa, ekki hvar þeir búa. Ég lofa, ef við gerum okkar besta til að iðka trú á Jesú Krist og iðrast fyrir kraft friðþægingar hans, munum við hafa þekkingu og kraft Guðs okkur til hjálpar við að færa öllum þjóðum, kynkvíslum, tungum og lýðum hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists og búa heiminn undir síðari komu Drottins.

Síðari koman

Drottinn mun snúa aftur til þess lands sem hann helgaði með jarðneskri þjónustu sinni. Hann mun koma aftur sigrihrósandi til Jerúsalem. Íklæddur rauðri konunglegri hempu, til tákns um blóð sitt, sem draup úr hverri svitaholu, mun hann snúa aftur til borgarinnar helgu (sjá Kenning og sáttmálar 133:46–48). Þar og víðar, „mun [dýrð Drottins] birtast, og allt hold mun sjá það“ (Jesaja 40:5; sjá einnig Kenning og sáttmálar 101:23). „Hann mun kallaður: Hinn dásamlegi, ráðgjafi, voldugur Guð, ævarandi faðir, friðarhöfðingi“ (Jesaja 9:6).

Hann mun ríkja frá tveimur höfuðborgum heimsins: Í hinni fornu Jerúsalem (sjá Sakaría 14) og í hinni Nýju Jerúsalem „[reistri] á meginlandi Ameríku (Trúaratriðin 1:10). Frá þessum borgum mun hann stjórna málefnum kirkju sinnar og ríkis. Annað musteri á enn eftir að byggja í Jerúsalem. Frá því musteri mun hann ríkja að eilífu sem Drottinn drottna. Vatn mun streyma undan musterinu. Vatn Dauðahafsins verður heilnæmt. (Sjá Esekíel 47:1–8.)

Á þeim tíma mun hann kallaður nýjum nöfnum og umlukinn sérstökum heilögum. Hann mun þekktur sem „Drottinn drottna og konungur konunga“ og „þeir, sem með [honum] eru, [verða] hinir kölluðu og útvöldu og trúu,“ (Opinberunarbókin 17:14) því sem þeim var treyst fyrir hér í jarðlífinu. Hann mun síðan „ríkja um aldir alda“ (Opinberunarbókin 11:15).

Jörðin mun endurnýjuð og aftur hljóta paradísardýrð sína. Það verður nýr himinn og ný jörð (sjá Opinberunarbókin 21:1; Eter 13:9; Kenning og sáttmálar 29:23–24).

Það er ábyrgð okkar – forréttindi okkar – að leggja því lið að búa heiminn undir þann dag.

Ljósmynd
Jesus with little boy

Gæt sauða minna, eftir Jay Bryant Ward, óheimilt að afrita

Horfa til framtíðar í trú

Fram að þessu munum við, hér og nú, búa við umbrotatíma. Jarðskjálftar og flóðbylgjur valda eyðileggingu, ríkisstjórnir falla, efnahagsástand er alvarlegt, fjölskyldan sætir árásum og tíðni hjónaskilnaða hækkar. Við höfum ríkar ástæður til að hafa áhyggjur. Við þurfum þó ekki að láta óttann yfirskyggja trú okkar. Við getum sigrast á óttanum með því að efla trú okkar.

Afhverju þurfum við slíka óhagganlega trú? Af því að örðugar tíðir eru fyrir höndum. Í komandi framtíð verður hvorki auðvelt né vinsælt að vera trúfastur Síðari daga heilagur. Sérhvert okkar verður reynt. Páll postuli varaði við því að á síðari dögum „munu [þeir] ofsóttir verða,“ sem af kostgæfni fylgja Drottni (2. Tímoteusarbréfið 3:12). Slíkar ofsóknir geta hvort heldur gert ykkur þögul og veiklunduð eða knúið ykkur til betra fordæmis og aukins hugrekkis í daglegu lífi ykkar.

Hvernig þið takist á við erfiðleika lífsins er hluti af trúarlegri framþróun ykkar. Styrkur hlýst af því að hafa hugfast að þið eruð af guðlegu eðli og erfingjar óendanlegs verðmætis. Drottinn hefur gert ykkur, börnum ykkar og barnabörnum ljóst að þið eruð réttmætir erfingjar, að á himnum hafi ykkur verið ætlað að fæðast á þessum tíma og stað, til að vaxa og verða merkisberar og sáttmálsþjóð hans. Þegar þið gangið réttlætisveg Drottins, munuð þið blessuð til að sækja fram í gæsku hans og verða ljós og frelsarar fólki hans (sjá Kenning og sáttmálar 86:8–11).

Gerið allt sem þarf til að efla trú ykkar á Jesú Krist, með því að auka skilning ykkar á kenningunni sem kennd er í hans endurreistu kirkju og leita stöðugt sannleikans. Grundvölluð í hreinni kenningu, munuð þið geta sótt fram í trú og þolgæði og gert allt léttilega sem í ykkar valdi stendur til að framfylgja tilgangi Drottins.

Þið munuð upplifa daga vonleysis. Biðjið því um hugrekki til að gefast ekki upp! Því miður munu sumir svíkjast undan merkjum sem þið tölduð vera vini ykkar. Sumt mun líka einfaldlega virðast ósanngjarnt.

Ég lofa ykkur þó að þið munuð finna varanlegan frið og sanna gleði, ef þið fylgið Jesú Kristi. Þegar þið haldið sáttmála ykkar af aukinni staðfestu og verjið kirkjuna og ríki Guðs á jörðu í dag, mun Drottinn blessa ykkur með styrk og visku til að gera það sem einungis meðlimir Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu fá komið til leiðar.

Okkur er ætlað að þróa trú á Guð, trú á Drottin Jesú Krists og trú á kirkju hans. Okkur er ætlað að þróa fjölskyldur og innsiglast í helgum musterum. Okkur er ætlað að byggja upp kirkjuna og ríki Guðs á jörðu (sjá Matteus 6:33). Okkur er ætlað að búa okkur undir guðleg örlög okkar; dýrð, ódauðleika og eilíf líf (sjá Rómverjabréfið 2:7; Kenning og sáttmálar 75:5).

Af auðmýkt ber ég ykkur vitni um – eins og spámaðurinn Joseph Smith lýsti yfir – að hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists „mun sækja fram óháð, ákveðið og göfugt, þar til það hefur farið um hvert meginland, vitjað hvers lands, þrætt hvert hérað og hljómað í hverju eyra, þar til tilgangi Guðs er náð og hinn mikli Jehóva segir að verkinu sé lokið“ (History of the Church, 4:540).

Við erum þátttakendur í verki almáttugs Guðs. Ég bið þess að blessanir hans verði með sérhverju ykkar.