2020
Að nota fullt nafn kirkjunnar, var óþægilegt en þess virði
Apríl 2020


Einungis stafrænt: Ungt fullorðið fólk

Að nota fullt nafn kirkjunnar, var óþægilegt en þess virði

Það virtist einfalt að fylgja leiðsögn spámannsins, en varð erfiðara en ég vænti.

Þegar Nelson forseti ræddi um að rétt nafn kirkjunnar yrði notað, á aðalráðstefnu í október 2018, var boðskapur hans mér afar skýr: „Þetta er boð frá Drottni. …

… Að fjarlægja nafn Drottins úr kirkju Drottins, er mikill sigur fyrir Satan“ („Hið rétta nafn kirkjunnar,“ aðalráðstefna, október 2018).

Mér varð ljóst að ég þurfti að endurhugsa hvernig ég ræddi við fólk umhverfis mig, líka ákveðna viðskiptavini á vinnustaðnum, sem höfðu vanist því að kalla mig „mormóna“ og meðlim „mormónakirkjunnar.“

Ég beið næsta tækifæris til þess að segjast vera meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, staðráðinn í því að nota fullt nafn kirkjunnar. Það tækfæri veittist sannlega og þá aftur í tengslum við atvinnuna. „Þið mormónar eruð svo vinsamlegt fólk,“ sagði mögulegur viðskiptavinur við mig. „Já, þakka þér fyrir,“ svaraði ég. Við, sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, trúum að við séum öll bræður og systur.“ Samtalið við hann og alla aðra var svo á þeim nótum að rætt var um vinsemd „mormóna.“

Þótt ég hefði gert minn hlut við að koma fullu nafni kirkjunnar á framfæri, fannst mér eitthvað vanta. Vinir mínir og kunningjar litu enn á mig sem meðlim „mormónakirkjunnar,“ en ekki endilega sem fylgjanda Krists, hvað þá meðlim hinnar endurreistu kirkju Krists.

Var þetta erfiðisins virði?

Í áframhaldandi samskiptum um trú mína, hélt ég aðeins aftur af mér, því mér fannst kjánalegt að tilgreina hið fulla, langa nafn kirkjunnar ótal sinnum í sama samtali. Allir sem ég ræddi við virtust svara mér ankannalega. Í samtölum mínum var orðið „mormónar“ alltaf haft í hávegum.

Ég reyndi að gera samskipti mín eðlilegri og blátt áfram. Það reyndist þó mun erfiðara en ég hafði vænst, einkum í tilvikum einstaklinga sem ég vildi ekki misbjóða. Ég vildi ekki vera kindarlegur eða sjálfumglaður varðandi trúariðkun mína, en heldur ekki harðneskjulegur, þar sem margt af þessu fólki hafði áður kallað mig „mormóna,“ með mínu samþykki. Ég hafði líka heyrt að meðlimir kirkjunnar kölluðu sig sjálfa og aðra meðlimi kirkjunnar enn „mormóna,“ á hinum ýmsu samkomum og viðburðum.

Ég spurði sjálfan mig að því hvort notkun fulls nafns kirkjunnar væri í raun svo mikilvægt í hinu stóra samhengi alls. Auðkennið „mormónar“ var jú hvað sem öllu leið jákvætt í huga margra – að vera „mormóni,“ kom sér oft vel fyrir mig sjálfan. Þegar ég aftur á móti las ræðu Nelsons forseta aftur, hlaut ég staðfestandi innblástur um að það væri í raun afar mikilvægt, jafnvel þótt það fæli í sér að samtalið yrði ankannalegt. Ég einsetti mér því að gera betur næst.

Tækifæri til að vitna um Krist

Næst þegar ég þurfti að tilgreina fullt nafn kirkjunnar, var ég í heimsókn hjá vini sem var í annarri kirkju. Skælbrosandi maður kom þar til mín og spurði hvort ég væri mormóni. „Já,“ sagði ég, „ég er meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.“ Hann spurði mig nokkurra spurninga, sem hver hófst á: „Trúir mormónakirkjan að …?“ Í hvert sinn svaraði ég með orðtakinu: „Í hinni endurreistu kirkju Krists, trúum við að …“

Við skiptumst á þessum orðaleik fjórum eða fimm sinnum. Þegar honum varð ljóst að ég svaraði ekki hugtakinu „mormónar,“ spurði hann blátt áfram: „Ertu ekki mormóni?“

Ég spurði hann því hvort hann vissi hver Mormón væri – sem hann ekki gerði. Ég sagði honum að Mormón hefði verið spámaður, sagnritari, hershöfðingi og stjórnmálamaður í Ameríku til forna. Ég sagði að það væri mér heiður að vera bendlaður við mann sem hefði sýnt slíka trúmennsku í þjónustu við Guð og aðra.

Ég sagði þó ennfremur: „Mormón dó ekki fyrir syndir mínar. Mormón úthellti ekki blóði sínu fyrir mig eða þjáðist í Getsemane eða dó á krossinum. Mormón er ekki Guð minn. Jesús Kristur er Guð minn og frelsari. Hann er lausnari minn. Ég vil vera auðkenndur hans nafni á efsta degi og ég vona að ég verði auðkenndur hans nafni í daglegu lífi.“

Ég fann fullvissu og stuðning andans við að gefa þessum nýja vini mínum minn stutta vitnisburð. Eftir nokkurra mínútna þögn, sagði hann: „Þú er þá kristinn?“

„Já, ég er kristinn,“ svaraði ég, „og meðlimur hinnar endurreistu kirkju Krists.“

Það virtist einfalt að fylgja leiðsögn spámannsins, en varð þó erfiðara en ég vænti. Ég er enn ekki fullkominn í öllu sem mér er boðið að gera. Ég gæti þess þó vandlega, í hverju tilviki, að nota fullt nafn kirkjunnar.

Ég er þakklátur fyrir andann sem ég finn fyrir þegar mér gefst kostur á að vitna fyrir öðrum um frelsara minn og aðild mína að kirkju hans. Ég veit nú hvernig ég get eðlilega og blátt áfram vitnað um hina endurreistu kirkju hans, þegar ég er spurður að því hvort ég sé „mormóni.“