Aðalráðstefna
Nýtt eðlilegt ástand
Aðalráðstefna október 2020


Nýtt eðlilegt ástand

Ég býð ykkur að snúa hjörtum ykkar, huga og sál til himnesks föður okkar og sonar hans, Jesú Krists, í vaxandi mæli.

Kæru bræður og systur, þessir tveir aðalráðstefnudagar hafa verið dásamlegir! Ég er sammála öldungi Jeffrey R. Holland. Eins og hann nefndi, þá hefur boðskapurinn, bænirnar og tónlistin verið innblásin af Drottni. Ég er þakklátur öllum þeim sem á einhvern hátt hafa tekið þátt.

Á meðan á þessu hefur staðið, hef ég ímyndað mér ykkur hlusta á ráðstefnuna. Ég hef beðið Drottin að hjálpa mér að skilja það sem þið eruð að upplifa, hafið áhyggjur af eða eruð að reyna að finna lausn á. Ég hef hugleitt hvað ég gæti sagt til að ljúka þessari ráðstefnu sem gæti viðhaldið þeirri bjartsýni gagnvart framtíðinni sem ég veit að Drottinn þráir að þið skynjið.

Við lifum á stórkostlegum tímum, sem spámenn sáu fyrir í aldaraðir. Þetta er sú ráðstöfun þar sem engum andlegum blessunum verður haldið frá hinum réttlátu.1 Þrátt fyrir ófriðartíðindi heimsins,2 vill Drottinn að við horfum til framtíðar „með glaðlegri eftirvæntingu.“3 Við skulum ekki dvelja of lengi við minningar gærdagsins. Samansöfnun Ísraels þokast áfram. Drottinn Jesús Kristur leiðir kirkju sína og hún mun ná sínum guðlegu markmiðum.

Áskorunin fyrir ykkur og mig er að sjá til þess að hvert og eitt okkar muni ná sínum guðlegu markmiðum. Í dag heyrum við oft talað um „nýtt eðlilegt ástand.“ Ef þið í raun þráið nýtt eðlilegt ástand, býð ég ykkur að snúa hjörtum ykkar, huga og sál til himnesks föður okkar og sonar hans, Jesú Krists, í vaxandi mæli. Látið það verða ykkar nýja eðlilega ástand.

Meðtakið ykkar nýja eðlilega ástand með því að iðrast daglega. Leitist við að verða sífellt hreinni í hugsun, orðum og gjörðum. Þjónið öðrum. Hafið eilífa yfirsýn. Eflið kallanir ykkar. Hverjar sem áskoranir ykkar eru, kæru bræður og systur, lifið dag hvern þannig að þið séuð betur undir það búin að mæta skapara ykkar.4

Það er þess vegna sem við höfum musteri. Helgiathafnir Drottins og sáttmálar búa okkur undir eilíft líf, sem er mest allra blessana Guðs.5 Eins og ykkur er ljóst hefur KÓVÍD heimsfaraldurinn valdið tímabundnum lokunum á musterum okkar. Við höfum síðan hafið vandlega samræmda opnun í áföngum. Nú þegar 2. áfangi er kominn til framkvæmdar í mörgum musterum, hafa þúsundir para verið innsigluð og þúsundir meðtekið eigin musterisgjafir, einungis á þessum nokkrum mánuðum. Við horfum fram til þess dags að allir verðugir meðlimir kirkjunnar geti aftur þjónað áum sínum og tilbeðið í helgu musteri.

Nú er ég glaður að geta tilkynnt áætlanir um byggingu sex nýrra mustera á eftirfarandi svæðum: Tarawa, Kiribati; Port Vila, Vanuatu; Lindon, Utah; Stórhöfuðbogarasvæði Guatemala borgar, Guatemala; austurhluta São Paulo, Brasilíu; og Santa Cruz, Bólivíu.

Þegar við byggjum og viðhöldum þessum musterum, biðjum við þess að sérhvert ykkar hugi að byggingu og viðhaldi ykkar sjálfra, svo að þið getið verið verðug inngöngu í hið heilaga musteri.

Ég blessa ykkur nú, kæru bræður mínir og systur, með friði Drottins, Jesú Krists. Friður Guðs er æðri öllum mannlegum skilningi.6 Ég blessa ykkur með aukinni þrá og getu til að hlýða lögmálum Guðs. Ég lofa að ef þið gerið svo, mun blessunum úthellt yfir ykkur, þar með talið auknu hugrekki, fleiri persónulegum opinberunum, ljúfari samhljóm á heimili ykkar og gleði, jafnvel mitt í óvissunni.

Megum við sækja fram í sameiningu, til að uppfylla hið guðlega hlutverk okkar – sem er að undirbúa okkur sjálf og heiminn fyrir síðari komu Drottins. Ég bið þess af kærleika til ykkar allra, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.