Aðalráðstefna
Horfa til framtíðar í trú
Aðalráðstefna október 2020


Horfa til framtíðar í trú

Framtíðin verður þeim dýrðleg sem eru undirbúnir og halda áfram að vera verkfæri í höndum Drottins.

Þetta var ógleymanlegt kvöld. Kæru systur, það er ánægjulegt að vera meðal ykkar. Mér hefur svo oft verið hugsað til ykkar á þessum undanförnu mánuðum. Þið eruð rúmlega átta milljónir talsins. Þið eru ekki bara margar að tölu, heldur líka gæddar andlegum krafti til að breyta heiminum. Ég hef fylgst með ykkur gera einmitt það í þessum faraldri.

Sumar ykkar voru allt í einu í þeim sporum að leita að birgðum af skornum skammti eða nýju starfi. Margar ykkar kenndu börnum og gættu að nágrönnum. Aðrar fengu trúboða heim fyrr en ella og enn aðrar breyttu heimilum sínum í trúboðsskóla. Þið hafið notað tæknina til að tengjast fjölskyldu og vinum, þjóna þeim sem eru einangraðir og læra námsefnið Kom, fylg mér með öðrum. Þið hafið fundið nýjar leiðir til að gera hvíldardaginn að feginsdegi. Þið hafið búið til verndargrímur – milljónir af þeim!

Af hjartans kærleika og samúð verður mér hugsað til þeirra mörgu kvenna um heim allan sem hafa misst ástvini. Við syrgjum með ykkur. Við biðjum fyrir ykkur. Við hrósum og biðjum fyrir öllum sem vinna óþreytandi við að annast þá sem veikir eru.

Þið stúlkurnar hafið líka verið undraverðar. Þótt samfélagsmiðlar hafi verið uppfullir af þrætum og ágreiningi, hafa margar ykkar fundið leiðir til hvetja aðra og miðla ljósi frelsara okkar.

Systur, þið hafið allar verið dásamlegar hetjur! Ég undrast styrk ykkar og trú. Þið hafið sýnt að við erfiðar aðstæður sækið þið hugrakkar fram. Ég elska ykkur og fullvissa ykkur um að Drottinn elskar ykkur og sér hið dásamlega verk ykkar. Takk fyrir! Þið hafið enn og aftur sannað að þið eruð í raun von Ísraels!

Þið tókuð á móti þeirri von sem Gordon B. Hinckley batt við ykkur er hann kynnti skjalið „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“, fyrir 25 árum, í september 1995, á aðalfundi Líknarfélagsins.1 Það er mikilvægt að hann kaus að kynna þessa merkilegu yfirlýsingu fyrir systrunum í kirkjunni. Með því að gera það, undirstrikaði Hinckley forseti hin einstæðu áhrif kvenna í áætlun Drottins.

Ég myndi njóta þess að vita hvað þið hefðuð lært á þessu ári. Hafið þið vaxið nær Drottni eða hafið þið fjarlægst hann? Hvernig hafa yfirstandandi atburðir haft áhrif á hvað ykkur finnst um framtíðina?

Að vísu hefur Drottinn talað um okkar tíma í alvarlegum tón. Hann varaði við því að á okkar tíma myndu „hjörtu mannanna bregðast þeim“2 og að jafnvel hinum kjörnu stæði hætta af því að láta blekkjast.3 Hann sagði við spámanninn Joseph Smith að „friður [yrði] burtu tekinn af jörðu“4 og hörmungar kæmu yfir mannkyn.5

Drottinn hefur þó líka veitt okkur sýn á hversu dásamleg þessi ráðstöfun er. Hann innblés spámanninn Joseph Smith til að lýsa yfir að „verk … þessara síðustu daga væri gríðarlegt að umfangi. … Dýrð þess er ólýsanleg og mikilfengleiki þess óviðjafnanlegur.“6

Þið hefðuð kannski ekki notað orðið mikilfengleiki til að lýsa síðustu liðnu mánuðum! Hvernig eigum við að takast á við bæði hina dapurlegu spádóma og hinar dýrðlegu yfirlýsingar fyrir okkar tíma? Með einfaldri og áhrifaríkri fullvissu, hefur Drottinn boðið: „Séuð þér viðbúnir þurfið þér ekki að óttast.“7

Hve dásamlegt loforð! Það getur í raun breytt því hvernig við sjáum framtíð okkar. Ég heyrði nýlega konu, sem á sterkan vitnisburð, viðurkenna að faraldurinn, ásamt jarðskjálftunum í Saltvatnsdalnum, hefðu gert henni ljóst að hún væri ekki jafn undirbúin og hún taldi sig vera. Þegar ég spurði hvort hún væri að vísa til matarbirgða sinna eða vitnisburðar síns, þá brosti hún og sagði: „Já!“

Hvernig getum við best undirbúið okkur, ef viðbúnaður er lykill okkar að því að takast á við þessa ráðstöfun og framtíðina í trú?

Spámenn Drottins hafa í áratugi brýnt fyrir okkur að hafa matarforða, vatn og varasjóð fyrir erfiða tíma? Hinn yfirstandandi faraldur hefur undirstrikað visku þeirrar leiðsagnar. Ég hvet ykkur til að hefja stundlegan undirbúning. Ég hef þó enn meiri áhyggjur af ykkar andlega og tilfinningalega undirbúningi.

Við getum lært margt af Moróní höfuðsmanni hvað það varðar. Sem höfuðsmaður hersveita Nefítanna, mætti hann herafla sem var öflugri, fjölmennari og miskunnarlausari. Moróní undirbjó því fólk sitt á þrjá mikilvæga vegu.

Í fyrsta lagi hjálpaði hann því að undirbúa svæði þar sem það gat verið öruggt – eða „búið virki sín,“ eins og hann sagði.8 Í öðru lagi bjó hann „hugi fólksins undir staðfestu við Drottin Guð sinn.“9 Svo loks, í þriðja lagi, þá lét hann aldrei af því að undirbúa fólk sitt – líkamlega og andlega.10 Við skulum íhuga þessar þrjár reglur.

Regla númer eitt: Skapa örugga staði

Moróní varði allar borgir Nefíta með bökkum, virkjum og veggjum.11 Þegar Lamanítarnir fóru gegn þeim, urðu þeir „ákaflega undrandi yfir því, hve viturlega Nefítar höfðu búið virki sín.12

Við þurfum, á líkan hátt, að skapa staði þar sem við erum örugg, bæði líkamlega og andlega, þegar hörmungar geysa umhverfis okkur. Þegar heimili ykkar verður persónulegt athvarf trúar – þar sem andinn dvelur – verður það fremsta varnarlínan.

Stikur Síonar eru, á líkan hátt, „athvarf fyrir storminum,“13 því þeir sem hafa prestdæmislykla og iðka prestdæmisvald leiða þær. Þegar þið fylgið áfram leiðsögn þeirra sem Drottinn hefur falið að leiða ykkur, munið þið finna aukið öryggi.

Musterið – hús Drottins – er framar öðrum öruggur staður. Þar eruð þið systur gæddar prestdæmiskrafti með þeim helgu prestdæmissáttmálum sem þið gerið.14 Þar eru fjölskyldur ykkar innsiglaðar að eilífu. Meira að segja á þessu ári, er aðgangur að musterum hefur verið verulega takmarkaður, hafið þið stöðugan aðgang að þessum krafti Guðs, er þið heiðrið sáttmála ykkar við hann.

Öruggur staður er einfaldlega hvarvetna sem þið finnið nærveru heilags anda og látið leiðast af honum.15 Þegar heilagur andi er með ykkur, getið þið kennt sannleikann, jafnvel þótt hann fari gegn ríkjandi skoðunum. Þið getið líka íhugað einlægar spurningar um fagnaðaerindið í umhverfi opinberunar.

Ég hvet ykkur, kæru systur mínar, til að gera heimili ykkar að öruggum stað. Ég endurnýja boð mitt til ykkar um að auka skilning ykkar á krafti prestdæmisins og sáttmálum og blessunum musterisins. Að eiga sér öruggan stað til að hvílast á, mun gera ykkur kleift að takast á við framtíðina í trú.

Regla númer tvö: Búið huga ykkar undir trúfesti við Guð

Við höfum tekist á við það risastóra verkefni að lengja líf og afkastagetu Salt Lake musterisins.

Ljósmynd
Salt Lake musterið endurstyrkt

Sumir hafa efast um að þörf sé á slíku sértæku viðfangsefni. Það fór þó svo að þegar jarðskjálfti af 5.7 stiga styrkleika skók Saltvatnsdalinn fyrr á þessu ári, nægði það til að hrista þetta virðulega musteri svo til að lúðurinn á Morónístyttunni féll af!16

Ljósmynd
Engillinn Moróní og lúðurinn sem féll af

Á sama hátt og undirstaða Salt Lake musterisins verður að vera nægilega öflug til að standast náttúruhamfarir, svo og verður okkar andlega undirstaða að vera örugg. Svo þegar óeiginlegir jarðskjálftar skekja líf okkar, þá séum við „staðföst og óbifanleg“ sökum trúar okkar.17

Drottinn kenndi okkur hvernig efla skal trú okkar með því að sækjast eftir „fræðslu með námi og einnig með trú.“18 Við eflum trú okkar á Jesú Krist er við reynum að halda boðorð hans og „hafa hann ávallt í huga.“19 Trú okkar eflist líka í hvert sinn er við iðkum trú á hann. Það er merking þess að læra með trú.

Í hvert sinn sem við t.d. höfum trú til að hlýða lögmálum Guðs – jafnvel gegn vinsælum skoðunum – eða í hvert sinn sem við stöndumst skemmtanir eða hugmyndafræði sem stuðla að sáttmálsbrotum, erum við að iðka trú, sem svo aftur eflir trú okkar.

Fátt eflir trú meira en að sökkva sér reglubundið ofan í Mormónsbók. Engin önnur bók vitnar um Jesú Krist af slíkum krafti og skýrleika. Spámenn hennar sáu okkar tíma, líkt og Drottinn blés þeim í brjóst, og völdu þær kenningar og sannleika sem yrðu okkur að mestu gagni. Mormónsbók er okkar síðari daga leiðarvísir til að komast af.

Auðvitað felst endanlegt öryggi okkar í því að við tengjumst himneskum föður og Jesú Kristi! Líf án Guðs, er líf fyllt ótta. Líf með Guði, er líf fyllt friði. Það er sökum þess að andlegar blessanir veitast hinum trúföstu. Að hljóta persónulega opinberun, er ein mest þeirra blessana.

Drottinn hefur lofað að ef við spyrjum, getum við hlotið „opinberun á opinberun ofan.“20 Ég lofa, er þið aukið hæfni ykkar til að hljóta opinberun, að Drottinn mun blessa ykkur með aukinni leiðsögn fyrir líf ykkar og ómældum gjöfum andans.

Regla númer þrjú: Látið aldrei af undirbúningi

Þótt allt hafi farið vel, þá hélt Moróní höfuðsmaður áfram að undirbúa fólk sitt. Hann lét aldrei af því. Hann var aldrei andvaralaus.

Óvinurinn lét aldrei af árásum sínum. Við getum því aldrei látið af undirbúningi! Því meira sjálfbjarga sem við erum – stundlega, tilfinningalega og andlega – því betur erum við í stakk búin til að standast látlausar árásir Satans.

Kæru systur, þið eruð sérfræðingar í því að búa ykkur sjálfum og ástvinum ykkar örugga staði. Þið búið ennfremur yfir guðlegri gjöf sem gerir ykkur mögulegt að efla trú annarra á sannfærandi hátt.21 Þið látið aldrei af því. Það hafið þið sýnt enn einu sinni á þessu ári.

Haldið því endilega áfram! Árvekni ykkar við að vernda heimili ykkar og innræta trú í hjörtum ástvina ykkar, mun leiða af sér ávexti hjá komandi kynslóðum.

Kæru systur mínar, við höfum svo mikið til að hlakka til! Drottinn setti ykkur hér núna, því hann vissi að þið gætuð tekist á við flókinn veruleika síðari hluta þessara síðustu daga. Hann vissi að þið mynduð ná tökum á mikilleika verks hans og óðfúsar vilja koma því til leiðar.

Ég er ekki að segja að tíminn framundan verði auðveldur, en ég lofa að framtíðin verði þeim dýrðleg sem eru undirbúnir og búa sig áfram undir að vera verkfæri í höndum Drottins.

Kæru systur mínar, við skulum ekki bara þrauka þennan líðandi tíma. Við skulum horfa til framtíðar í trú! Ofsafengnir tímar eru okkur tækifæri til andlegs vaxtar. Á slíkum tímum geta áhrif okkar verið mun sterkari en á kyrrlátari tímum.

Ég lofa að Guð mun blessa okkur er við búum okkur öruggari staði, búum hugi okkar undir að vera trú Guði og látum aldrei af því að undirbúa okkur. Hann mun „varðveita okkur. Já, og orð hans [veita] okkur sálarfrið og mikla trú … [um] að við [getum] bjargast í honum.“22

Þegar þið búið ykkur undir að horfa til framtíðar í trú, munu þessi loforð verða ykkar! Ég ber þessu vitni í kærleika til ykkar allra og í trausti á ykkur, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.