Aðalráðstefna
Finna gleði í Kristi
Aðalráðstefna október 2020


Finna gleði í Kristi

Öruggasta leiðin til að finna gleði í þessu lífi er að hjálpa Kristi við að liðsinna öðrum.

Drottinn býður ekki hinum ungu Aronsprestdæmishöfum okkar að gera allt, en það sem hann býður þeim er undursamlega innblásandi.

Fyrir nokkrum árum gekk litla fjölskyldan mín í gegnum nokkuð sem margar fjölskyldur standa frammi fyrir í þessum fallna heimi. Yngsti sonur okkar, Tanner Christian Lund, fékk krabbamein. Hann var dásamleg sál, eins og níu ára börn eru oft. Hann var skemmtilega uppátækjasamur og jafnframt hrífandi andlega meðvitaður. Púki og engill, óþekkur og þægur. Þegar hann var ungur og var daglega að koma okkur á óvart með uppátækjum sínum, veltum við fyrir okkur hvort hann yrði spámaður eða bankaræningi þegar hann yxi úr grasi. Hvort heldur sem var, þá virtist hann ætla að setja mark sitt á heiminn.

Hann varð síðan alvarlega veikur. Næstu þrjú árin fóru saman hetjulegar aðgerðir og nútímalækningar, þar með talið tvær beinmergsígræðslur, þar sem hann fékk lungnabólgu og var 10 vikur meðvitundarlaus í öndunarvél. Fyrir kraftaverk náði hann sér í stuttan tíma; síðan tók meinið sig aftur upp.

Nokkru áður en Tanner andaðist, hafði sjúkdómur hans komist í beinin og jafnvel með sterkum deyfilyfjum fann hann enn sársaukann. Hann komst varla framúr rúminu. Sunnudagsmorgun einn kom mamma hans, Kalleen, inn í herbergi hans til að athuga með hann áður en fjölskyldan færi í kirkju. Hún undraðist að honum hafi einhvern veginn tekist að klæða sig og hann sat á rúmstokknum og reyndi sárþjáður að hneppa skyrtunni. Kalleen settist hjá honum. „Tanner,“ sagði hún, „ertu viss um að þú sért nógu frískur til að fara í kirkju? Kannski ættir þú að vera heima og hvíla þig í dag.“

Hann starði niður í gólfið. Hann var djákni. Hann var í sveit. Og hann var með verkefni.

„Ég á að bera út sakramentið í dag.“

„Ég er viss um að einhver gæti gert það fyrir þig.“

„Já,“ sagði hann, „en … ég sé hvernig fólk horfir á mig þegar ég útdeili sakramentinu. Ég held að það hjálpi því.“

Kalleen hjálpaði honum að hneppa skyrtunni og hnýta bindið og þau óku í kirkju. Augljóslega var eitthvað mikilvægt að gerast.

Ég kom inn úr öðrum fundi og var undrandi að sjá Tanner sitja í djáknaröðinni. Kalleen sagði mér hljóðlega afhverju hann væri þarna og það sem hann hafði sagt: „Það hjálpar fólki.“

Ég fylgdist því með þegar djáknarnir fóru að sakramentisborðinu. Hann hallaði sér varlega upp að öðrum djákna, er prestarinir réttu þeim brauðbakkana. Tanner haltraði síðan á sinn tilsetta stað og studdi sig við endann á kirkjubekknum er hann bauð sakramentið.

Svo virtist sem hvert auga í salnum beindist að honum og skynjaði baráttu hans við að framfylgja sínu einfalda hlutverki. Einhvern veginn tjáði Tanner þögla prédikun, þegar hann fór hátíðlega, haltrandi frá röð til raðar – með hárlaust höfuðið rakt af svita – sem erindreki frelsarans, á þann hátt sem djáknar gera. Þessi eitt sinn óbugandi djákni var svolítið marinn, brotinn og rifinn á líkama, og þjáðist sjálfviljugur til að þjóna fólkinu með því að bera táknin um friðþægingu frelsarans inn í líf þess.

Að sjá hvernig hann var farinn að hugsa um hlutverk sitt sem djákna, fékk okkur til að hugsa öðruvísi – um sakramentið, um frelsarann og um djákna og kennara og presta.

Ég velti fyrir mér hinu ósagða kraftaverki sem þennan morgun hafði hvatt hann til að bregðast svo hugdjarflega við hinu hjóða, kyrrláta kalli til að þjóna, og um styrk og getu allra okkar ungmenna, er þau keppist við að hlýða kalli spámanns um að ganga til liðs við hersveitir Guðs og taka þátt í verki sáluhjálpar og upphafningar.

Í hvert sinn er djákni heldur á sakramentisbakka, erum við minnt á hina helgu frásögn um síðustu kvöldmáltíðina, Getsemanegarðinn, Hauskúpuhæð og garðgröfina. Þegar frelsarinn sagði við postula sína: „Gjörið þetta í mína minningu,“1 var hann einnig að tala til okkar í gegnum tímans rás. Hann var að tala um kraftaverkið sem hann myndi veita, er framtíðar djáknar, kennarar og prestar, myndu rétta fram táknin hans og bjóða börnum hans að meðtaka friðþægingargjöf hans.

Öll tákn sakramentis vísa til þessarar gjafar. Við ígrundum brauðið sem hann eitt sinn braut – og brauðið sem djáknarnir fyrir framan okkur eru að brjóta núna. Við hugsum um merkingu hins helgaða vökva, fyrr og síðar, er orð sakramentisbænanna berast á hátíðlegan hátt af vörum ungu prestanna inn í hjörtu okkar og til himna, og endurnýjar sáttmála sem tengir okkur við sjálfa krafta sáluhjálpar Krists. Þarna getum við íhugað merkingu þess er djákni færir okkur hin helgu tákn, standandi þar sem Jesús stæði,, ef hann væri hér, og byðist til að létta byrðar okkar og lina sársauka okkar.

Til allrar hamingju þurfa piltar og stúlkur ekki að verða veik til að uppgötva gleði og tilgang í þjónustu við frelsarann.

Öldungur David A. Bednar kenndi að til þess að verða eins og trúboðar eru, þá ættum við að gera það sem trúboðar gera og síðan „getum við, „setning á setning ofan, … og smám saman orðið sá trúboði … sem frelsarinn væntir.“2

Ef við þráum „að verða eins og Jesús,“3 þá ættum við að gera það sem Jesús gerir og með einni dásamlegri setningu útskýrir Drottinn hvað það er sem hann gerir, er hann sagði: „Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“4

Ætlunarverk frelsarans hefur ávallt verið og mun verða að þjóna föður sínum, með því að frelsa börnin hans.

Öruggasta leiðin til að finna gleði í þessu lífi er að hjálpa Kristi við að liðsinna öðrum.

Þetta er hinn einfaldi sannleikur sem innblæs áætlun barna og unglinga.

Öll starfsemi og kennsla barna og ungmenna snýst um að hjálpa unga fólkinu að líkjast Jesú meira með því að taka með honum þátt í verki sáluhjálpar og upphafningar.

Áætlun barna og unglinga hjálpar öllum Barnafélagsbörnum og ungmennum að vaxa í lærisveinshlutverki sínu og fyllast trúarlegri sýn á leið hamingju. Þau geta vænst og þráð þá stiklusteina og vegvísa á sáttmálsveginum, þar sem þau verða skírð og staðföst með gjöf heilags anda og munu brátt tilheyra sveitum og Stúlknafélagsbekkjum og finna gleði í því að hjálpa öðrum með kristilegri breytni og þjónustu. Þau setja sér markmið, stór og smá, sem veita þeim jafnvægi í lífinu er þau líkjast meira frelsaranum. Rástefnur og tímaritin Til styrktar ungmennum, Barnavinur og Gospel Living smáforritið, munu hjálpa þeim að finna gleði í Kristi. Þau munu njóta blessana þess að hafa takmörkuð musterismeðmæli og skynja anda Elía með áhrifum heilags anda, er þau sækjast eftir blessunum musterisins og ættarsögu. Þau munu láta leiðast af patríarkablessunum. Er tímar líða, munu þau fara í musterið til að hljóta kraft, finna þar gleði, er þau eru eilíflega sameinuð, komi það sem koma má, fjölskyldu sinni.

Í mótvindi heimsfaraldurs og hörmunga eru öll fyrirheit hinnar nýju áætlunar barna og unglinga sett fram og eru enn í bígerð – og það er brýnt. Ungmenni okkar geta ekki beðið eftir að heimurinn lagist áður en þau kynnast frelsaranum. Þau eru, jafnvel núna, að taka ákvarðanir sem þau myndu ekki taka, ef þau þekktu eigið auðkenni – og hans.

Áríðandi er því kallið frá hersveitum Guðs til örlagaríkrar þjálfunar: „Allir upp á þilfar!“

Mæður og feður, synir ykkar þarfnast stuðnings ykkar núna, af sama áhuga og þið gerðuð áður, er þeir fengust við lítilvægari hluti, eins og afreksmerki og brjóstnálar. Mæður og feður, leiðtogar prestdæmis og Stúlknafélags, ef ungmenni ykkar eiga í baráttu, getur áætlun barna og unglinga leitt þau til frelsarans og frelsarinn mun veita þeim frið.5

Sveitar- og bekkjarforsetar, rísið upp og takið ykkar réttar stöður í verki Drottins.

Biskupar, tengið lykla ykkar við lykla sveitarforseta, þá munu sveitir ykkar – og deildir ykkar – breytast eilíflega.

Ég vitna fyrir ykkur, sem eruð af hinni upprennandi kynslóð, að þið eruð synir og dætur Guðs og að hann ætlar ykkur verk að vinna.

Er þið rísið til að efla köllun ykkar af öllu hjarta, mætti, huga og styrk, munuð þið finna fyrir elsku til Guðs og halda sáttmála ykkar og treysta á prestdæmi hans, er þið vinnið að því að blessa aðra, fyrst á eigin heimili.

Ég bið þess, að þið munið kappkosta af auknum krafti, verðug þessa tíma, að iðka trú, iðrast og bæta ykkur dag hvern, til að verða hæf til að hljóta blessanir musterisins og varanlega gleði, sem eingöngu fæst með fagnaðarerindi Jesú Krists. Ég bið þess að þið búið ykkur undir að verða kostgæfinn trúboði, tryggur eiginmaður eða eiginkona, ástríkur faðir eða móðir, sem ykkur hefur verið heitið, með því að vera sannur lærisveinn Jesú Krists.

Megið þið búa heiminn undir síðari komu frelsarans, með því að bjóða öllum að koma til Krists og hljóta blessanir friðþægingar hans. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Lúkas 22:19.

  2. David A. Bednar, „Að verða trúboði,“ aðalráðstefna, október 2005.

  3. „Mig langar að líkjast Jesú og feta í fótspor hans. Sem hann vil ég einnig elska í orðum og verkum manns,“ („Mig langar að líkjast Jesú,“ Barnasöngbókin, 40).

  4. HDP Móse 1:39.

  5. Ég lýsi persónulega þakklæti til dyggra foreldra og leiðtoga í gegnum sögu okkar sem hafa hjálpað ungu fólki svo djarflega að þroskast. Ég viðurkenni að hið nýja starf barna og unglinga á mikið að þakka hverju því verkefni og afreksáætlun sem á undan fór.