Aðalráðstefna
Hin óviðjafnanlega gjöf sonarins
Aðalráðstefna október 2020


Hin óviðjafnanlega gjöf sonarins

Sökum Jesú Krists, getum við sloppið við að líða verðskuldaðar þjáningar vegna eigin siðferðisbresta og sigrast á óverðskulduðum þjáningum vegna ógæfu í lífi okkar.

Þegar ég las í Mormónsbók fyrir lexíu í Kom, fylg mér í sumar, varð ég sleginn yfir frásögn Alma um að „ekkert [hafi getað] verið jafn óviðjafnanlegt og biturt og sársauki [hans] var,“1 þegar hann varð fullmeðvitaður um syndir sínar. Ég játa að þetta tal um óviðjafnanlegan sársauka vakti athygli mína, að einhverju leiti vegna baráttu minnar við sjö millimetra nýrnastein þá vikuna. Aldrei hefur nokkur maður upplifað að „hið smáa og einfalda“ geti gert „hið stóra að [slíkum] veruleika.“2

Orðaval Alma vakti athygli mína, þar sem orðið óviðjafnanlegt í enskri þýðingu Mormónsbókar er venjulega notað til að lýsa einstaklega fallegum hlutum eða dæmalausum mikilfengleika. Joseph Smith skrifaði t.d. að engillinn Moróní hafi klæðst „óviðjafnanlega hvítum“ kyrtli, „hvítari en nokkuð jarðneskt,“ sem hann hafði nokkru sinni séð.3 Orðið óviðjafnanlegt getur þó einnig gefið til kynna ákaflega slæma hluti. Bæði Alma og leiðandi orðabækur tengja óviðjafnanlegan sársauka við það að „kveljast,“ „líða“ og „[hrjást] til hins ýtrasta.“4

Myndmál Alma endurspeglar þann umhugsunarverða raunveruleika að á einhverjum tímapunkti þurfum við að upplifa óbærilega sekt hverrar einustu syndar sem við höfum drýgt. Réttvísin krefst þess, sjálfur Guð getur ekki breytt því.5 Þegar Alma minntist „allra“ synda sinna – sérstaklega þeirra sem höfðu tortímt trú annarra – þá var kvöl hans óbærileg og hugsunin um að standa frammi fyrir Guði fyllti hann „ólýsanlegri skelfingu.“ Hann þráði að verða „að engu gjörður, bæði á líkama og sál.“6

Alma segir hins vegar að allt hafi tekið að breytast á því augnabliki sem „hugur [hans hafi náð] tökum“ á þeim spádómi „að Jesús nokkur Kristur, sonur Guðs, mundi koma og friðþægja fyrir syndir heimsins“ og hann „hrópaði í hjarta [sínu]: Ó Jesús, þú sonur Guðs, vertu mér miskunnsamur.“ Með einni hugsun og einu ákalli fylltist Alma „yfirþyrmandi“ gleði, „jafn yfirþyrmandi og kvalir [hans] höfðu áður verið.“7

Við megum aldrei gleyma því að megin tilgangur iðrunar er að umbreyta eymd yfir í alsælu. Þökk sé hinni „áþreifanlegu gæsku,“8 að hin ofurþunga syndabyrði færist af baki okkar sjálfra á bak frelsarans í sömu andrá og við komum til Krists, sýnum trú á hann og ósvikið breytt hjartalag. Þetta er aðeins mögulegt, því hann sem syndlaus er leið „takmarkalausar og ólýsanlegar þjáningar,“9 hverrar einustu syndar alheims, sem hann skapaði – svo miklar þjáningar að blóð draup úr hverri svitaholu hans. Í nútíma ritningu aðvarar frelsarinn okkur, af eigin persónulegri reynslu, að við höfum enga hugmynd um hversu „nístandi“ „þjáningar“ okkar verða, ef við iðrumst ekki. Með óskiljanlegu örlæti útskýrir hann: „Ég Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast“10 – iðrun sem veitir okkur „hlutdeild í hinni yfirþyrmandi gleði“ sem Alma kynntist.11 Ég „undrast“12 yfir þessari kenningu einni saman. Á undraverðan hátt býður Kristur jafnvel meira.

Stundum er synd ekki orsökin að óviðjafnanlegum sársauka heldur heiðarleg mistök, gjörðir annarra eða óstjórnanleg öfl. Á þeim augnablikum gætuð þið hrópað, líkt og hið réttláta sálmaskáld:

„Hjartað berst ákaft í brjósti mér, dauðans angist kemur yfir mig.

… og hryllingur fer um mig allan.

… Ó, að ég hefði vængi eins og dúfan, þá mundi ég fljúga burt og finna hvíldarstað.“13

Læknavísindi, fagleg ráðgjöf eða réttarbætur geta hjálpað við að lina slíkar þjáningar. Veitið því athygli að allar góðar gjafir – þessar þar á meðal – koma frá frelsaranum.14 Án tillits til orsaka okkar versta sársauka og hugarangurs, er endanleg uppspretta hjálpar okkar ávallt sú sama: Jesús Kristur. Hann einn hefur umboð og græðandi smyrsl til að leiðrétta öll mistök og misgjörðir, lagfæra allan ófullkomleika, græða öll sár og veita öllum þær blessanir sem við vonumst eftir. Ég vitna, eins og vottarnir frá fornu fari, að „ekki höfum við þann æðsta prest er eigi geti séð aumur á veikleika okkar,“15 heldur ástríkan lausnara sem steig niður úr hásæti sínu og „[þoldi] alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar … svo að hann megi vita … hvernig fólki hans verður best liðsinnt.“16

Þeir sem nú upplifa svo mikinn eða óviðjafnanlegan sársauka að þeim finnst enginn geta skilið sig, gætu haft eitthvað til síns máls. Mögulega veit enginn fjölskyldumeðlimur, vinur eða prestdæmisleiðtogi – hversu næmur og velviljaður sem hann er – nákvæmlega hvernig ykkur líður eða hefur réttu orðin sem gætu hjálpað ykkur að verða heil. Vitið þó þetta: Einn er sá sem skilur fullkomlega hvað þið gangið í gegnum. Sá er „máttugri en jörðin í heild“17 og hann „megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum.“18 Þetta ferli mun gerast á hans hátt og á hans tíma, en Kristur er ávallt fús til að græða hvern krók og kima angistar ykkar.

Þegar þið leyfið honum að gera það, munið þið uppgötva að þjáning ykkar var ekki til einskis. Fyrst við tölum um margar af mestu hetjum Biblíunnar og raunir þeirra, þá sagði postulinn Páll að „Guð hafi útvegað þeim nokkuð betra, fyrir tilstilli þjáningar þeirra, þar sem þeir gætu ekki verið fullkomnaðir án þjáninga.“19 Sjálft eðli Guðs og takmark jarðneskrar tilveru okkar er hamingja,20 en við getum ekki orðið fullkomnar verur himneskrar gleði án upplifana sem eru okkur prófraun, stundum gríðarleg prófraun. Páll segir jafnvel að frelsarinn hafi sjálfur verið eilíflega „[fullkomnaður] með þjáningum.“21 Varist því hvíslandi rödd djöfulsins um að væruð þið betri manneskjur mynduð þið forðast slíkar prófraunir.

Þið verðið líka að standast lygi álíka þessari, um að þjáningar ykkar feli á einhvern hátt í sér að þið séuð utan hóps hinna útvöldu Guðs, sem virðast svífa úr einu blessunarástandi yfir í annað. Í stað þess, skulið þið sjá ykkur sjálf eins og Jóhannes opinberari sá ykkur í sinni miklu opinberun um síðari daga. Jóhannes sá „[mikinn múg], sem enginn gat tölu á komið, af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum, [sem] stóð frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddur hvítum skikkjum … [sem] hrópaði hárri röddu: Hjálpræðið kemur frá Guði vorum.“22

Þegar hann var spurður: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“ Þá hlaut Jóhannes svarið: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins.“23

Bræður og systur, þjáningar í réttlæti gera ykkur kleift að teljast til hinna kjörnu Guðs, fremur en að greina ykkur frá þeim. Það gerir loforð þeirra að ykkar loforðum. Eins og Jóhannes segir, þá „mun [ykkur] hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna [ykkur] né nokkur breyskja vinna [ykkur] mein. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir [ykkar] og leiða [ykkur] til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum [ykkar].“24

„Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“25

Ég ber ykkur vitni um að sökum mikillar gæsku Jesú Krists og hans altæku friðþægingar, getum við sloppið við að líða verðskuldaðar þjáningar vegna eigin siðferðisbresta og sigrast á óverðskulduðum þjáningum vegna ógæfu í lífi okkar. Fyrir hans atbeina, verða guðleg örlög ykkar óviðjafnanleg að mikilfengleika og ólýsanleg að gleði – svo djúpri og einstæðri gleði að „[aska]“ ykkar verði fögur „umfram allt jarðneskt.“26 Svo þið fáið upplifað þessa hamingju nú og séuð fyllt henni til eilífðar, þá býð ég ykkur að gera það sem Alma gerði: Hafið hugfasta hina óviðjafnanlegu gjöf sonar Guðs, eins og hún er opinberuð með fagnaðarerindi hans í hinni sönnu og lifandi kirkju. Í nafni Jesú Krists, amen.