Aðalráðstefna
Ég trúi á engla
Aðalráðstefna október 2020


Ég trúi á engla

Drottinn er alltaf meðvitaður um þær áskoranir sem þið standið frammi fyrir. Hann þekkir ykkur, hann elskar ykkur og ég lofa ykkur því að hann mun senda engla til að liðsinna ykkur.

Bræður og systur, ég trúi á engla og mig langar að miðla ykkur minni reynslu af þeim. Með því að gera það vona ég að við munum gera okkur ljóst mikilvægi þeirra í lífi okkar.

Hér koma orð öldungs Jeffrey R. Hollands úr fyrri ráðstefnu: „Þegar ég tala um þá sem eru verkfæri í höndum Guðs, kemur okkur í hug að ekki eru allir englar frá hinni hlið hulunnar komnir. Sumum þeirra göngum við með og tölum við – hér, núna, og á hverjum degi. Sumir þeirra búa í okkar eigin nágrenni. … Sannarlega virðist himinninn aldrei nær en þegar við sjáum elsku Guðs birtast í vinsemd og hollustu fólks sem er svo gott og hreint að engill er eina orðið sem í hugann kemur til að lýsa því („Þjónusta engla,“ aðalráðstefna, október 2008).

Mig langar að tala um englana sem finna má hérna megin hulunnar. Englarnir sem ganga meðal okkar í daglegu lífi okkar eru kröftug áminning um elsku Guðs til okkar.

Fyrstu englarnir sem mig langar að minnast á eru tveir systurtrúboðar sem kenndu mér fagnaðarerindið þegar ég var ungur maður, systir Vilma Molina og systir Ivoneta Rivitti. Mér og yngri systur minni var boðið á kirkjuskemmtun þar sem við hittum þessa tvo engla. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hve mikið þessi einfalda skemmtun ætti eftir að breyta lífi mínu.

Foreldrar mínir og systkini höfðu ekki áhuga á að læra meira um kirkjuna á þessum tíma. Þau voru ekki einu sinni fús til að fá trúboðana heim til okkar, svo ég tók á móti kennslunni í kirkjubyggingu. Þetta litla herbergi í samkomuhúsinu varð „helgi lundurinn“ minn.

Ljósmynd
Öldungur Godoy, ungur, með systur sinni.

Mánuði eftir að þessir englar kynntu mér fagnaðarerindið, skírðist ég. Ég var 16 ára gamall. Því miður á ég ekki mynd af þessum helga atburði, en ég á mynd af systur minni og mér þegar við tókum þátt í þessari skemmtun. Mig langar til að útskýra hver er hvað á þessari mynd. Ég er þessi hávaxnari til hægri.

Eins og þið getið ímyndað ykkur þá var erfitt fyrir ungling sem hafði nýverið breytt lífstíl sínum, að haldast virkur í kirkjunni og sem átti fjölskyldu sem var ekki á sömu leið.

Mér fannst ég útundan þegar ég var að reyna að aðlagast nýju lífi, nýrri menningu og nýjum vinum. Mér fannst ég einn og oft raunamæddur. Ég vissi að kirkjan var sönn en ég átti erfitt með að finnast ég passa inn. Á sama tíma og mér fannst aðstæður óþægilegar og óvissar, og ég reyndi að aðlagast nýrri trú minni, fann ég hugrekki til að taka þátt í þriggja daga ungdómsráðstefnu sem ég hélt að myndi hjálpa mér í vinaleit minni. Það var þá sem ég hitti annan bjargandi engil að nafni Mônica Brandão.

Ljósmynd
Systir Godoy

Hún var nýflutt á svæðið annars staðar að í Brasilíu. Hún fangaði athygli mína fljótt og sem betur fer samþykkti hún að vera vinur minn. Ég reikna með að hún hafi horft meira á mig innan frá en út frá útlitinu.

Af því að hún gerðist vinur minn, var ég kynntur vinum hennar sem urðu svo mínir vinir er við nutum hinna ýmissa ungdómsviðburða seinna meir. Þessir viðburðir skiptu svo miklu máli í samlögun minni inn í þetta nýja líf.

Ljósmynd
Vinir öldungs Godoy

Þessir góðu vinir skiptu miklu máli, en það setti áframhaldandi trúarumbreytingu mína í hættu að hafa fagnaðarerindið ekki heima hjá mér með stuðning frá fjölskyldunni. Samskipti mín innan kirkjunnar urðu enn mikilvægari í vaxandi umbreytingu minni. Þá voru tveir viðbótarenglar sendir til mín frá Drottni.

Einn þeirra var Leda Vettori, trúarskólakennari minn árla morguns. Hún veitti mér daglegan skammt af „hinu góða orði Guðs“ (Moróní 6:4), með kærleikríkri viðurkenningu og hvetjandi kennslustundum, sem voru mér svo nauðsynlegar í amstri dagsins. Þetta hjálpaði mér að öðlast þann andlega styrk sem hélt mér gangandi.

Annar engill sem mér var sendur var Piltafélagsforseti minn, Marco Antônio Fusco. Ég fékk hann einnig sem eldri félaga minn í heimiliskennslu. Þrátt fyrir reynsluleysi mitt og óvenjulegt útlit, veitti hann mér verkefni til að kenna á prestasveitarfundum og í heimsóknarkennslustundum. Hann veitti mér tækifæri til að framkvæma og að læra, en ekki vera bara áhorfandi fagnaðarerindisins. Hann treysti mér meira en ég treysti mér sjálfum.

Þökk sé þessum englum og mörgum öðrum sem ég hitti á þessum mikilvægu upphafsárum, þá tók ég á móti nægilegum styrk til að halda mér á sáttmálsveginum er ég öðlaðist andlegt vitni um sannleikann.

Vel á minnst, þessi unga englastúlka, Mônica? Eftir að við þjónuðum bæði í trúboði, varð hún eiginkona mín.

Ég held ekki að það hafi verið nein tilviljun að góðir vinir, kirkjuábyrgð og að nærast á hinu góða orði Guðs voru þættir í ferlinu. Vitur orð Gordons B. Hinckley voru: „Það er ekki auðvelt að verða meðlimur þessarar kirkju. Það þýðir að slíta gömul bönd. Það þýðir að yfirgefa vini. Það gæti þýtt að leggja kærar lífsskoðanir til hliðar. Það gæti krafist breytingar á venjum og að halda aftur af eigin löngunum. Í mörgum tilfellum þýðir það einmannaleika og jafnvel ótta við hið óþekkta. Á þessu erfiða tímabili í lífi trúskiptings, verður að koma til umönnun og styrking“ („There Must Be Messengers,“ Ensign, okt. 1987, 5).

Síðar sagði hann einnig: „Hver og einn þarfnast þriggja hluta, vinar, ábyrgðar og að nærast á ‚[hinu góða orði Guðs]‘“ („Converts and Young Men,“ Ensign, maí 1997, 47).

Hvers vegna er ég að deila þessari reynslu með ykkur?

Í fyrsta lagi þá er það til að senda skilaboð til þeirra sem eru að fara í gegnum samskonar ferli núna. Kannski eruð þið ný í kirkjunni eða að koma til baka til kirkjunnar eftir að hafa villst frá í einhvern tíma, eða kannski bara einhver sem á erfitt með að aðlagast. Má ég biðja ykkur um að gefast ekki upp á því að verða hluti af þessari stóru fjölskyldu. Þetta er hin sanna kirkja Jesú Krists!

Þegar kemur að hamingju ykkar og sáluhjálp þá er það alltaf erfiðisins virði að halda áfram að reyna. Það er þess virði að breyta líferni ykkar og hefðum. Drottinn er alltaf meðvitaður um þær áskoranir sem þið standið frammi fyrir. Hann þekkir ykkur, hann elskar ykkur og ég lofa ykkur því að hann mun senda engla til að liðsinna ykkur.

Frelsarinn sagði eigin orðum: „Ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings“ (Kenning og sáttmálar 84:88).

Annar tilgangur þess að miðla þessari reynslu með ykkur, er til að senda skilaboð til allra meðlima kirkjunnar – til okkar allra. Við ættum að mun að það er ekki auðvelt fyrir nýja meðlimi, endurkomna vini og þá sem hafa öðruvísi lífsstíl, að falla strax í hópinn. Drottinn er meðvitaður um þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir og hann er að leita að englum sem eru tilbúnir til að hjálpa. Drottinn er alltaf að leita að fúsum sjálfboðaliðum til að vera englar í lífi annarra.

Bræður og systur, væruð þið til í að vera verkfæri í höndum Drottins? Mynduð þið vilja vera einn þessara engla? Vera sendiboði, sendur frá Guði, hérna megin hulunnar fyrir einhvern sem hann hefur áhyggjur af? Hann þarfnast ykkar. Þau þarfnast ykkar.

Að sjálfsögðu getum við alltaf treyst á trúboðana okkar. Þeir eru ávallt til staðar, þeir fyrstu til að bjóða sig fram til englaverka. Þeir eru samt ekki duga þó ekki til.

Ef þið horfið vandlega í kringum ykkur þá munið þið finna marga sem þarfnast aðstoðar engla. Þetta fólk er kannski ekki í hvítum skyrtum, kjólum eða neinum stöðluðum sparifötum. Þau sitja kannski ein, aftast í kapellunni eða kennslustofunni og finnst þau oft vera ósýnileg. Kannski er hárgreiðsla þeirra svolítið yfirgengileg eða málfar þeirra öðruvísi, en þau eru þarna og eru að reyna.

Sumir eru jafnvel að hugsa: „Ætti ég að halda áfram að koma? Ætti ég að halda áfram að reyna?“ Aðrir gætu verið að velta því fyrir sér hvort að þeim muni nokkurn tíma finnast þau njóta viðurkenningar og vera elskuð. Það er þörf fyrir engla á þessum tíma, engla sem eru fúsir að yfirgefa þægindaramma sinn til að umfaðma þá; „[fólk] sem er svo gott og hreint að engill er eina orðið sem í hugann kemur til að lýsa því“ (Jeffrey R. Holland, „Þjónusta engla“).

Bræður og systur, ég trúi á engla! Við erum öll hér í dag, risa stór hersveit engla sem höfum verið geymd fram á þessa síðari daga, til að þjóna öðrum sem framlenging handa kærleiksríks skapara. Ég lofa því að ef við erum fús til að þjóna, mun Drottinn veita okkur tækifæri til að verða þjónustuenglar. Hann veit hver þarfnast aðstoðar engla og hann mun setja þau á veg okkar. Drottinn stýrir þeim sem þarfnast aðstoðar engla, inn á veg okkar dag hvern.

Ég er svo þakklátur fyrir hina mörgu engla sem Drottinn hefur sett á minn veg í mínu lífi. Það var þörf fyrir þá. Ég er einnig þakklátur fyrir fagnaðarerindi hans sem hjálpar okkur að breytast og veitir okkur tækifæri til að verða betri.

Þetta er fagnaðarerindi kærleika, fagnaðarerindi hirðisþjónustu. Um þetta vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.