Aðalráðstefna
Vakið því allar stundir og biðjið
Aðalráðstefna október 2020


Vakið því allar stundir og biðjið

Í dag færi ég öllum meðal allra landa heims þetta bænarboð.

Kæru bræður og systur, í síðustu viku jarðneskrar þjónustu sinnar, kenndi Jesús lærisveinum sínum: „Vakið því allar stundir og biðjið svo að þér megið umflýja allt þetta sem koma á og standast frammi fyrir Mannssyninum.“1

Meðal þess sem „á að verða“ fyrir Síðari komu hans, er „[hernaður] og ófriðartíðindi[,] … hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.“2

Í Kenningu og sáttmálum sagði frelsarinn: „Allt verður í uppnámi … , því að allir verða slegnir ótta.“3

Vissulega lifum við á tíma uppnáms. Margir óttast framtíðina og mörg hjörtu hafa snúist frá trú sinni á Guð og son hans, Jesú Krist.

Fréttir eru fullar af frásögnum um ofbeldi. Siðferðisbrot eru birt á netinu. Skemmdarverk hafa verið unnin á kirkjugörðum, kirkjum, moskum, samkunduhúsum og trúarlegum helgidómum.

Heimsfaraldurinn hefur náð til nánast hvers heimshorns - milljónir manna hafa smitast, meira en milljón látist. Skólaútskriftir, guðsþjónustur í kirkjunni, hjónabönd, trúboðsþjónusta og fjöldi annarra mikilvægra lífsviðburða hafa orðið fyrir truflunum. Að auki eru ótal margir umkomulausir og einangraðir.

Sviptingar í efnahagsmálum hafa valdið afar mörgum erfiðleikum, einkum hinum viðkvæmustu meðal barna föður okkar á himnum.

Við höfum séð fólk af eldmóð nýta sér rétt sinn til friðsamlegra mótmæla og við höfum séð reiði og múgsuppþot.

Á sama tíma sjáum við áfram átök um allan heim.

Ég hugsa oft til þeirra ykkar sem þjáist, hafa áhyggjur, hræðast eða eru einmana. Ég fullvissa alla um að Drottinn þekkir ykkur, að hann er meðvitaður um áhyggjur ykkar og angist og að hann elskar ykkur – náið og persónulega, innilega og eilíflega.

Á hverju kvöldi þegar ég biðst fyrir, bið ég Drottin að blessa alla sem eru hlaðnir sorg og sársauka og eru einmana og daprir. Ég veit að aðrir leiðtogar kirkjunnar enduróma þessari sömu bæn. Í hjarta höfum við, hver fyrir sig og öll til samans, samúð með ykkur og biðjum til Guðs í ykkar þágu.

Á síðasta ári varði ég nokkrum dögum í norðausturhluta Bandaríkjanna, við að fara á sögustaði Ameríku og kirkjunnar, og þar sótti ég samkomur með trúboðum okkar og meðlimum og heimsótti leiðtoga stjórnvalda og viðskipta.

Sunnudaginn 20. október talaði ég á fjölmennri samkomu nærri Boston í Massachusetts. Þegar ég talaði var ég hvattur til að segja: „Ég býð ykkur … að biðja fyrir þessu landi, fyrir leiðtogum okkar, fólkinu okkar og fjölskyldunum sem tilheyra þessari miklu þjóð sem Guð stofnaði.“4

Ég sagði líka að Bandaríkin og margar þjóðir jarðar, væru, eins og áður, á enn einum mikilvægum krossgötum og þyrftu á bænum okkar að halda.5

Þetta boð mitt var ekki fyrirfram ákveðið í ræðunni. Þessi orð komu til mín þegar mér fannst andinn hvetja mig til að bjóða viðstöddum að biðja fyrir landi sínu og leiðtogum þeirra.

Í dag færi ég öllum meðal allra landa heims þetta bænarboð. Sama hvernig eða til hvers þið biðjið, iðkið vinsamlega trú ykkar – hver sem hún kann að vera – og biðjið fyrir land ykkar og þjóðarleiðtogum ykkar. Eins og ég sagði í október síðastliðnum í Massachusetts, þá erum við nú á sögulega mikilvægum krossgötum og þjóðir jarðar eru í sárri þörf fyrir guðlegan innblástur og handleiðslu. Þetta snýst ekki um stjórnmálastefnur eða stefnumál. Þetta snýst um frið og lækningu sem einstakar sálir geta hlotið eða sálir þjóða – borga, bæja og þorpa – fyrir atbeina friðarhöfðingjans, uppsprettu allrar lækningar, Drottins Jesú Krists.

Undanfarna mánuði hefur knúið á hug minn að í núverandi ástandi heimsins væri öllum gagnlegast að setja aukið traust á Guð og beina hjörtum að honum í einlægri bæn. Að auðmýkja okkur sjálf og leita innblásturs himins, til að takast á við eða sigrast á því sem frammi fyrir okkur er, er öruggasta og vísasta leiðin til að sækja fram í fullvissu á þessum erfiðu tímum.

Ritningarnar leggja áherslu á bænir sem Jesús flutti, sem og kenningar hans um bænina í jarðneskri þjónustu hans. Þið munið eftir bæn Drottins:

„Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn,

til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér fyrirgefum vorum skuldunautum.

Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.“6

Þessi beinskeytta fallega bæn, sem oft hefur verið endurtekin í gegnum kristni, sýnir að viðeigandi er að biðja beint: „Faðir vor sem ert á himni,“ til bænheyrslu um það sem veldur okkur áhyggjum. Við skulum því biðja um guðlega leiðsögn.

Ég býð ykkur að biðja ávallt.7 Biðjið fyrir fjölskyldu ykkar. Biðjið fyrir leiðtogum þjóða. Biðjið fyrir því hugrakka fólki sem er í fremstu víglínu í yfirstandandi baráttu gegn félagslegum, umhverfislegum, pólitískum og líffræðilegum plágum, sem hafa áhrif á alla um allan heim, ríka og fátæka, unga og aldna.

Frelsarinn kenndi okkur að útiloka engan frá bænum okkar. Hann sagði: „Ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“8

Á krossinum á Golgata, þar sem Jesús dó fyrir syndir okkar, sýndi hann í verki það sem hann kenndi er hann bað: „Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gera.“9

Með því að biðja innilega fyrir þeim sem kunna að teljast óvinir okkar, sýnum við trú á að Guð geti breytt hjörtum okkar og annarra. Slíkar bænir ættu að styrkja vilja okkar til að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru í eigin lífi, fjölskyldum og samfélögum.

Sama hvar þið búið, hvaða tungumál sem þið talið eða áskoranir sem þið standið frammi fyrir, þá heyrir Guð og svarar ykkur á hans hátt og á hans tíma. Þar sem við erum börn hans, þá getum við leitað til hans eftir hjálp, huggun og aukinni þrá til að hafa jákvæð áhrif á heiminn.

Oft nægir ekki að biðja bara fyrir réttlæti, friði, fátækum og sjúkum. Eftir að við höfum kropið í bæn, þurfum við að standa upp og gera það sem við getum gert til hjálpar – bæði okkur sjálfum og öðrum.10

Ritningarnar eru fullar af dæmum um trúað fólk sem með bæn og verkum gerir gæfumun í eigin lífi og annarra. Í Mormónsbók lesum við til dæmis um Enos. Þar kemur í ljós að „í um tveimur þriðju hlutum hinnar stuttu bókar hans er lýsing á bæn eða mörgum bænum og síðan segir frá því sem hann gerði í kjölfar bænheyrslu sinnar.“11

Við höfum mörg dæmi um það í kirkjusögu okkar hvernig bænin gerði gæfumuninn, sem hófst á fyrstu bæn Josephs Smith í skóglendinu við býli foreldra hans vorið 1820. Joseph leitaði fyrirgefningar og andlegrar leiðsagnar, sem varð til að ljúka upp himninum. Við njótum þess nú að spámaðurinn Joseph og fleiri trúfastir Síðari daga heilagir, karlar og konur, báðust fyrir og gerðu sitt til að koma á fót Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Mér verður oft hugsað um bænir trúfastra kvenna, eins og Mary Fielding Smith, sem með hjálp Guðs og af hugrekki leiddi fjölskyldu sína frá vaxandi ofsóknum í Illinois, til öryggisins í þessum dal, þar sem fjölskylda hennar naut andlegrar og stundlegrar farsældar. Eftir að hafa beðist fyrir af einlægni á hnjánum, vann hún hörðum höndum að því að sigrast á áskorunum sínum og blessa fjölskyldu sína.

Bænin mun lyfta okkur og sameina okkur sem einstaklinga, sem fjölskyldur, sem kirkju og sem veröld. Bænin mun hafa áhrif á vísindamenn og hjálpa þeim að uppgötva bóluefni og lyf sem munu binda enda á heimsfaraldurinn. Bænin mun hugga þá sem hafa misst ástvin. Hún mun leiðbeina okkur til að vita hvað við eigum að gera til persónulegrar verndunar.

Bræður og systur, ég hvet ykkur til að auka skuldbindingu ykkar við bænina. Ég hvet ykkur til að biðja í herbergjum ykkar, í daglegum verkum ykkar, á heimili ykkar, í deildum ykkar og ætíð í hjarta ykkar.12

Fyrir hönd leiðtoga Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu þakka ég fyrir bænir ykkar í okkar þágu. Ég hvet ykkur til að halda áfram að biðja um að við fáum innblástur og opinberun til að leiða kirkjuna í gegnum þessa erfiðu tíma.

Bænin getur breytt lífi okkar sjálfra. Hvött af einlægri bæn getum við bætt okkur sjálf og hjálpað öðrum að gera slíkt hið sama.

Ég þekki mátt bænarinnar af eigin reynslu. Nýlega var ég einn í skrifstofunni minni. Ég var nýbúinn að fara í læknisaðgerð á hendi. Hún var svört og blá af bólgu og það var sárt. Þar sem ég sat við skrifborðið mitt, átti ég erfitt með að einbeita mér að mikilvægum málum sökum sársaukans.

Ég kraup í bæn og bað Drottin að skerpa athygli mína svo ég gæti lokið verkinu. Ég stóð upp og sneri mér að skjalabunkanum á borðinu. Næstum samstundis varð ég skýr og einbeittur í huga og gat lokið við þau brýnu mál sem fyrir mér lágu.

Óreiðuástand heimsins nú kann að virðast skelfilegt þegar við lítum á ótal vandamál og áskoranir. En það er innilegur vitnisburður minn um að ef við biðjum til himnesks föður um nauðsynlega blessun og leiðsögn, þá munum við vita hvernig við getum blessað fjölskyldur okkar, samferðafólk, samfélög og jafnvel löndin þar sem við búum.

Frelsarinn baðst fyrir og „gekk um, gerði gott“ eftir það13, með því að fæða hungraða, hughreysta og styðja hina nauðstöddu og liðsinna öllum þeim sem komu til hans með elsku, fyrirgefningu, friði og hvíld. Hann heldur áfram að liðsinna okkur.

Ég býð öllum kirkjumeðlimum, sem og öðru samferðafólki og vinum af annarri trú um heim allan, að gera það sama og frelsarinn bauð lærisveinum sínum: „Vakið því allar stundir og biðjið“ fyrir friði, huggun, öryggi og tækifæri til að þjóna öðrum.14

Hve máttur bænar er mikill og hve þörfin er mikil á því að við biðjum í trú á Guð og ástkæran son hans í heimi okkar tíma! Við skulum hafa í huga og meta áhrifamátt bænar. Í nafni Jesú Krists, amen.