Aðalráðstefna
Með þessu munum við reyna þá
Aðalráðstefna október 2020


Með þessu munum við reyna þá

(Abraham 3:25).

Nú er tíminn til undirbúnings og til að sýna að við erum fús og höfum getuna til að gera hvað það sem Drottinn Guð okkar býður okkur.

Ég bið þess að heilagur andi hjálpi okkur öllum er ég miðla þeim hugsunum og tilfinningum sem hafa sótt á huga minn og hjarta í undirbúningi fyrir þessa aðalráðstefnu.

Mikilvægi prófrauna

Áður en ég var kallaður til þjónustu innan kirkjunnar í fullu starfi, starfaði ég í rúmlega tuttugu ár sem háskólaprófessor og stjórnandi. Aðalábyrgð mín sem kennara fólst í því að aðstoða nemendur við að temja sér eigin lærdómstækni. Mikilvægur þáttur í starfi mínu var einnig að búa til próf, gefa einkunnir og veita nemendum endurgjöf fyrir framistöðu þeirra á prófum Eins og þið vitið kannski af eigin reynslu þá eru próf yfirleitt ekki sá hluti námsins sem nemendur kunna best við!

Hins vegar eru reglubundin próf algerlega nauðsynleg lærdómnum. Áhrifamikil próf kenna okkur að bera það saman sem við þurfum að vita, við það sem við raunverulega vitum um ákveðið efni. Það setur einnig upp mælikvarða sem við getum borið lærdóm okkar og þróun við.

Á sama hátt eru prófraunir skóla lífsins mikilvægur þáttur í eilífri framþróun okkar. Það er nokkuð áhugavert að hvergi er að finna orðið „próf“ í neinum ritningartexta í hinum stöðluðu ensku ritningum. Hins vegar eru orð eins og reyna, rannsaka og prófa notuð til að lýsa hinum ólíku leiðum sem við getum sýnt fram á andlega þekkingu okkar um skilning á og hollustu gagnvart hinni eilífu hamingjuáætlun himnesks föður okkar á viðeigandi hátt og getu okkar til að leita blessana friðþægingar frelsarans.

Hann sem var höfundur áætlunarinnar lýsti tilgangi okkar jarðneska reynslutímam með því að nota orð eins og reyna, rannsaka og prófa í fornum og nútíma ritningum. „Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim.“1

Hugleiðið fyrirbæn sálmaskáldsins Davíðs:

Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa nýru mín og hjarta.

Því að ég hefi gæsku þína fyrir augum, og ég geng í trausti til þín.“2

Drottinn sagði árið 1833: „Óttist þess vegna ekki óvini yðar, því að ég hef ákvarðað í hjarta mínu, segir Drottinn, að ég muni reyna yður í öllu, hvort þér séuð sáttmála mínum trúir, allt til dauða, svo að þér reynist verðugir.“3

Hvernig við erum reynd og prófuð í dag

Árið 2020 hefur auðkennst að hluta til af heimsfaraldri sem hefur reynt okkur, rannsakað og prófað á margan hátt. Ég bið þess að við sem einstaklingar og fjölskyldur séum að læra hinar dýrmætu lexíur sem einungis lærast af ögrandi reynslu. Ég vona einnig að við munum enn frekar viðurkenna „mikilleika Guðs“ og þann sannleika að „hann [muni] helga þrengingar [okkar, okkur] til góðs.“4

Tvö grunnlögmál geta leitt okkur og styrkt er við stöndum frammi fyrir prófraunum og erfiðum aðstæðum í lífi okkar, sama hverjar þær kunna að vera: (1) Lögmál undirbúnings og (2) lögmál þess að sækja fram staðföst í Kristi.

Prófraun og undirbúningur

Komið reglu á líf yðar „gjörið allt gagnlegt til reiðu og stofnið hús, já, hús bænar, hús föstu, hús trúar, hús lærdóms, hús dýrðar, hús reglu, hús Guðs.“5

Okkur er einnig lofað að „séuð þér viðbúnir þurfið þér ekki að óttast.

Og svo að þér megið komast undan valdi óvinarins og safnast til mín sem réttlátt fólk, flekklaust og vammlaust.“6

Þessi ritningarvers eru fullkomin umgjörð til að skipuleggja og undirbúa líf okkar og heimili, bæði veraldlega og andlega. Viðleitni okkar til að búa okkur undir prófraunir jarðlífsins ætti að fylgja fordæmi frelsarans, sem stigvaxandi „þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum “7– sem er blandað jafnvægi vitsmunalegs, líkamlegs og félagslegs undirbúnings.

Susan og ég gerðum vörutalningu á matarforða okkar og neyðarbirgðum einn eftirmiðdag fyrir nokkrum mánuðum síðan. Á þeim tíma var Kóvid-19 að breiðast hratt út og nokkrir jarðskjálftar höfðu skakað heimili okkar í Utah. Við höfðum unnið að því frá fyrstu dögum hjónabands okkar að fylgja ráðum spámannanna varðandi undirbúning fyrir ófyrirséða atburði, svo það virtist vera gott og tímabært að „rannsaka“ ástand viðbúnaðs okkar í miðjum faraldri og jarðskjálftum. Við vildum kanna einkunnir okkar á þessum skyndiprófum.

Við lærðum ýmislegt. Á margan hátt var viðbúnaður okkar á réttu róli. Hins vegar var nauðsynlegt að bæta sig á öðrum sviðum, því við höfðum ekki borið kennsl á og tekið á vissum þörfum tímanlega.

Við hlógum líka mikið. Við uppgötvuðum t.d. hluti lengst inni í skáp sem höfðu verið áratugi í matarforða okkar. Í raun vorum við hrædd við að opna og kanna sum ílátin af ótta við að koma af stað öðrum heimsfaraldri. Þið ættuð samt að gleðjast yfir því að við losuðum okkur örugglega við hættuleg efni, svo að hættunni gagnvart heilsufari heimsins var afstýrt.

Sumir kirkjumeðlimir telja að neyðaráætlanir og birgðir og matarforðar og 72. tíma neyðarpakkar séu ekki lengur mikilvæg þar sem bræðurnir hafi ekki nýlega rætt mikið um þessi og tengd málefni á aðalráðstefnum. Hinsvegar hafa leiðtogar kirkjunnar ítrekað mikilvægi undirbúnings í áratugi. Hið viðvarandi spámannlega ráð yfir langan tíma býr til kraftmikinn óm skýrleika og hljóðstyrk sem er mikið háværari en einsmannsflutningur getur nokkru sinni gert.

Á sama hátt og að erfiðleikatímar geta sýnt fram á vanbúnað í veraldlegum undirbúningi, þá geta veikleikar í andlegu kæruleysi og sinnuleysi haft mjög skaðleg áhrif á tímum prófrauna. Við lærum til dæmis í dæmisögunni um meyjarnar tíu að vanræksla í undirbúningi leiðir að árangurslausri prófraun Minnist þess hvernig hinar fávísu meyjar létu líða hjá að undirbúa sig á viðeigandi hátt fyrir það próf sem þær voru settar í daginn sem brúðguminn kom.

„Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér,

en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. …

Um miðnætti kvað við hróp: Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.

Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína.

En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ,Gef oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.‘

Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.

Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.

Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.“8

„En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.“9

Hinar fávísu meyjar sýndu það og sönnuðu, hið minnsta í þessu prófi, að þær voru einungis heyrendur orðsins en ekki gerendur.“10

Ég á vin sem var mjög samviskusamur nemandi í lögfræði. Eina önnina tók Sam frá tíma á hverjum degi til að lesa yfir, gera útdrætti og að læra úr glósum sínum fyrir hvert fag sem hann var skráður í. Hann fylgdi sama mynstri í öllum fögunum í lok hverrar viku og hvers mánaðar. Nálgun hans gerði honum kleift að læra lögin en leggja þau ekki bara á minnið. Þegar lokaprófin komu var Sam tilbúinn. Í raun þá uppgötvaði hann að próftímabilið var léttasti hluti laganáms hans. Áhrifamikill og tímabær undirbúningur kemur á undan farsælli prófraun.

Nálgun Sams að lögfræðinámi sínu undirstrikar eitt af aðalmynstrum Drottins fyrir vöxt og þroska „Svo segir Drottinn Guð: Ég mun gefa mannanna börnum orð á orð ofan og setning á setning ofan, örlítið hér, „örlítið þar. Og blessaðir eru þeir, sem hlusta á setningar mínar og ljá ráðum mínum eyra, því að þeir munu öðlast visku. Því að þeim, sem tekur á móti, mun ég meira gefa.“11

Ég býð okkur öllum að „sjá hvernig [okkur] hefur farnast“12 og [rannsaka] hvort trú [okkar] kemur fram í breytni [okkar], [prófum] okkur sjálf.“13 Hvað höfum við lært undanfarna mánuði af lífstílsbreytingum og hömlunum? Hvað þurfum við að bæta í lífi okkar andlega, líkamlega, félagslega, tilfinningarlega og vitsmunalega? Nú er tíminn til undirbúnings og til að sýna að við erum fús og höfum getuna til að gera hvað það sem Drottinn Guð okkar býður okkur.

Prófraunir og framsækni

Ég fór eitt sinn í jarðaför ungs trúboða sem lést í slysi. Faðir trúboðans talaði í athöfninni og lýsti þeim sársauka sem hlaust af óvæntum jarðneskum aðskilnaði við ástkært barn. Í hreinskilni lýsti hann því yfir að hann skildi ekki ástæður né tímasetningu slíks atburðar. Ég mun hins vegar alltaf muna eftir því að þessi góði maður sagði einnig að hann vissi að Guð vissi ástæður þess og tímasetningu að barn hans dó – og það dygði honum. Hann sagði söfnuðinum að hann og fjölskylda hans myndu verða í lagi, þó að þau syrgðu, að vitnisburður þeirra væri öruggur og staðfastur. Hann lauk orðum sínum með þessari yfirlýsingu: „Ég vil að þið vitið að hvað fagnaðarerindi Jesú Krists varðar, þá er fjölskylda okkar fyllilega með í verkinu. Við erum heil í verkinu.“ Við erum öll „heil í verkinu.“

Þrátt fyrir að missir ástvinar væri átakanlegur og erfiður, þá voru meðlimir þessarar hugprúðu fjölskyldu andlega undirbúnir til að sýna að þau gætu lært mikilvægar eilífar lexíur af öllu því sem þau þjáðust í gegnum.14

Trúfesta er ekki flónska eða öfgar. Það er frekar það að treysta og reiða sig á Jesú Krist sem frelsara okkar, á nafn hans og loforð hans. Þegar við sækjum fram, „[staðföst] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna,“15 erum við blessuð með eilífu sjónarmiði og sýn sem nær lengra en okkar takmarkaða jarðneska geta leyfir. Við munum geta „safnast saman og [staðið] á helgum stöðum“16 og [haggast] ekki, þar til dagur Drottins kemur.“17

Þegar ég þjónaði sem forseti Brigham Young háskólans í Idaho, kom öldungur Jeffrey R. Holland á skólalóðina í desember 1998 til að flytja ræðu á vikulegri trúarsamkomu okkar. Susan og ég buðum hópi nemenda að koma og hitta öldung Holland áður en hann flutti ræðu sína. Þegar samverunni var að ljúka spurði ég öldung Holland: „Ef þú gætir kennt þessum nemendum bara einn hlut, hver mundi hann þá vera?“

Hann svaraði:

„Við erum vitni að sístækkandi hreyfingu andstæðna. Valið um miðflötinn verður fjarlægður okkur Síðari daga heilögum. Miðjuvegurinn verður fjarlægður.

Ef þið troðið marvaðann í árstraumi þá munið þið fara eitthvert. Þið munið fara þangað sem straumurinn ber ykkur. Það dugar ekki að fylgja straumnum, fylgja öldunni.

Það verður að taka ákvarðanir. Það að taka ekki ákvörðun er að taka ákvörðun. Lærið að velja núna.“

Þessi fullyrðing öldungs Hollands um auknar andstæður hefur sýnt sig að voru spámannleg orð með samfélagslegum bylgjum og atburðum þeirra tuttugu og tveggja ára sem hafa liðið síðan hann svaraði spurningu minni. Þegar hann spáði fyrir þessari sundurgreiningu á milli leiðar Drottins og heimsins, þá varaði öldungur Holland við því að þeir þægilegu dagar, þar sem hægt var að hafa annan fótinn í hinni endurreistu kirkju og hinn í heiminum, voru að hverfa hratt. Þessi þjónn Drottins hvatti unga fólkið til að velja, undirbúa sig og að verða sannir lærisveinar frelsarans. Hann var að hjálpa þeim að undirbúa sig og sækja fram í gegnum raunir, rannsóknir og prófraunir lífs þeirra.

Fyrirheit og vitnisburður

Ferli þess að reyna okkur er grundvallarþáttur í hinni miklu hamingjuáætlun himnesks föður. Ég lofa því að þegar við bæði undirbúum okkur og sækjum fram með trú á frelsarann getum við öll hlotið sömu einkunn á hinu endanlega prófi lífsins: „Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“18

Ég ber vitni um að Guð hinn eilífi faðir er faðir okkar. Jesús Kristur er eingetinn og lifandi sonur hans, frelsari okkar og lausnari. Um þennan sannleika ber ég glaður vitni, í hinu helga nafni Drottins Jesú Krists, amen.