Aðalráðstefna
Leitið að Kristi með hverri hugsun
Aðalráðstefna október 2020


Leitið að Kristi með hverri hugsun

Það þarf lífstíð af dugnaði og trúfesti til að berjast á móti freistingum. Hafið það þó hugfast að Drottinn er fús til að aðstoða okkur.

Í þessum ljóðræna lofgjörðarsálmi kunngjörði sálmaskáldið:

„Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,

hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það og alla vegu mína gjörþekkir þú.“1

Í merkingarfræðilegum sambærileika þessa kvæðis, lofar sálmaskáldið himneskan eiginleika alvisku Drottins, því hann þekkir sannlega allar hliðar sálar okkar.2 Þar sem hann er meðvitaður um allt það sem okkur er nauðsynlegt í þessu lífi, býður hann okkur að nálgast sig með hverri hugsun og fylgja sér af öllu hjarta.3 Þetta er loforð um að við getum gengið í ljósi hans og að leiðsögn hans komi í veg fyrir áhrif myrkursins á líf okkar.4

Það að nálgast Krist með hverri hugsun og að fylgja honum af öllu hjarta, krefst þess að við samræmumst honum í huga okkar og þrám.5 Ritningarnar vísa til þessarar samræmingar með orðunum: „Standið þá stöðug í Drottni.“6 Þessi framgangur felur það í sér að við séum stöðugt samstíga fagnaðerindi Krists og einblínum daglega á allt sem er gott.7 Aðeins þá getum við upplifað „[frið] Guðs, sem er æðri öllum skilningi,“ sem mun „varðveita hjörtu [okkar] og hugsanir … í Kristi Jesú.“8 Í febrúar 1831 kenndi sjálfur frelsarinn öldungum kirkjunnar: „Varðveitið þetta í hjörtum yðar og látið hátíðleika eilífðarinnar hvíla í hugum yðar.“9

Þrátt fyrir stöðuga viðleitni okkar við að leita að Drottni, geta óviðeigandi hugsanir komið í huga okkar. Þegar slíkum hugsunum er leyft og jafnvel boðið að halda kyrru fyrir, geta þær mótað þrár hjarta okkar og leitt okkur að því sem við verðum í þessu lífi og um síðir að því sem við erfum í eilífðinni.10 Öldungur Neal A. Maxwell lagði eitt sinn áherslu á þessa kenningu með því að segja: „Þrár okkar … ákvarða hver útkoman verður, sem er meðal annars ástæða þess að ‚margir eru kallaðir en fáir eru útvaldir.‘“11

Spámenn okkar fyrr og síðar hafa stöðugt minnt okkur á að standast freistingar til að forðast það að missa andlegt grip og verða ringluð, áttavillt og vonsvikin í lífinu.

Á óeiginlegan hátt er það að gefa eftir freistingu eins og að nálgast segul með málmhlut. Ósýnilegur kraftur segulsins dregur málmhlutinn að sér og nær föstum tökum á honum. Segulkrafturinn mun engin áhrif hafa á hlutinn þegar hann er staðsettur langt frá seglinum. Á sama hátt og kraftur segulsins nær ekki tökum á málmhlut sem er utan áhrifasviðs hans, þá dregur úr áhrifum freistinga á huga okkar og hjarta þegar við stöndumst þær og þar með á gjörðir okkar.

Þessi líking minnir mig á upplifun sem afar trúr meðlimur kirkjunnar sagði mér frá fyrir nokkru. Þessi meðlimur sagði að þegar hún hefði vaknaði einn morguninn hafi óviðeigandi hugsun, sem hún hafði ekki kynnst áður, óvænt komið í huga hennar. Þótt að þetta hafi komið henni í opna skjöldu, þá brást hún á andartaksbroti við ástandinu og sagði við sjálfa sig og hugsunina: „Nei!“ Síðan beindi hún hugsunum sínum að einhverju góðu til að útiloka hina óvelkomnu hugsun. Hún sagði að þegar hún iðkaði sjálfræði sitt í réttlæti, hafi hin neikvæða, óæskilega hugsun horfið þegar í stað.

Þegar Moróní kallaði fólkið til trúar á Krist og til iðrunar, brýndi hann fyrir því að það skyldi nálgast frelsarann af öllu hjarta og losa sig við allt sem óhreint væri. Moróní bauð þeim þar að auki að biðja til Guðs af óhagganlegri staðfestu um að fá staðist allar freistingar.12 Að beita þessum reglum í lífi okkar krefst meira en einungis trúar, það krefst þess að við samræmum huga okkar og hjarta þessum himnesku reglum. Slíkar breytingar krefjast daglegrar og stöðugrar áreynslu, auk þess að treysta frelsaranum, því jarðneskar hneigðir munu ekki hverfa af sjálfu sér. Það þarf lífstíð af dugnaði og trúfesti til að berjast á móti freistingum. Hafið það þó endilega hugfast að Drottinn er fús til að aðstoða í viðleitni okkar og gefur fyrirheit um einstakar blessanir ef við stöndumst allt til enda.

Á einkar erfiðum tíma, þegar Joseph Smith og samfangar hans í Liberty-fangelsinu voru sviptir öllu frelsi nema frjálsri hugsun, gaf Drottinn þeim gagnlega leiðsögn og loforð, sem á líka við um okkur öll:

„Lát brjóst þitt og vera fullt af kærleika til allra [karla og kvenna] og til heimamanna trúarinnar. Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust, og þá mun traust þitt vaxa og styrkjast í návist Guðs; …

Heilagur andi verður þér stöðugur förunautur, og veldissproti þinn óbreytanlegur veldissproti réttlætis og sannleika.“13

Þegar við gerum svo, munu helgar hugsanir fylla huga okkar og hreinar þrár leiða okkur til réttlátra verka.

Moróní minnti fólk sitt líka á það að verða ekki gagntekið ágirnd.14 Orðið ágirnd vísar til djúprar löngunar og óviðeigandi þrár eftir einhverju.15 Það nær yfir allar slæmar hugsanir og illar þrár sem valda því að menn einbeita sér frekar að eigingjarnri breytni og veraldlegum eigum, heldur en að gjöra gott, vera vinsamlegir, halda boðorð Guðs o.þ.h. Oft eru holdlegustu kenndir sálarinnar birtingarmyndir hennar. Postulinn Páll benti á sumar þessara tilfinninga, svo sem: „[Óhreinleika, frillulíf], … [fjandskap], … reiði, deilur, … öfund … og annað þessu líkt.“16 Auk allra hinna illu birtingarmynda ágirndar, megum við ekki gleyma að þegar óvinurinn freistar okkar til að gera eitthvað rangt, þá notar hann hana sem leynilegt og blekkjandi vopn gegn okkur.

Kæru bræður mínir og systur, ég ber þess vitni að þegar við treystum á bjarg hjálpræðis, frelsara sálna okkar, og fylgjum leiðsögn Morónís, þá mun okkur ganga verulega betur að hafa stjórn á hugsunum okkar. Ég get fullvissað ykkur um að við munum vaxa hraðar að andlegum þroska, umbreytast í hjarta og verða líkari Jesú Kristi. Þar að auki munu áhrif heilags anda verða sterkari og stöðugri í lífi okkar. Þá mun smám saman draga úr áhrifum freistinga óvinarins á okkur, sem leiðir til hamingjusamara, hreinna og dyggðugra lífs.

Ég fullvissa þá, sem einhverra hluta vegna falla í freistni og dvelja við óréttláta breytni, um að það er til leið til baka, að það er von í Kristi. Fyrir nokkrum árum fékk ég tækifæri til að heimsækja kæran meðlim Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, sem átti afar erfiða tíma í lífi sínu eftir að hafa brotið alvarlega af sér. Fyrst þegar ég hitti hann sá ég dapurleika í augum hans, en vonarljós stafa af ásýnd hans. Yfirbragð hans endurspeglaði auðmjúku og umbreyttu hjarta. Hann hafði verið hollur kristinni trú og ríkulega blessaður af Drottni. Hann hafði þó leyft að ein óviðeigandi hugsun næði tökum á huga hans, sem síðan urðu fleiri. Þegar hann varð stöðugt frjálslyndari gagnvart þessum hugsunum, þá festu þær rætur í huga hans og tóku að vaxa djúpt í hjarta hans. Loks kom að því að hann brást við þessum óréttlátu þrám, sem varð til þess að hann tók ákvarðanir gegn öllu því dýrmætasta í lífi hans. Hann sagði að ef hann hefði ekki dvalið við þessa heimskulegu hugsun í upphafi, þá hefði hann ekki orðið berskjaldaður og viðkvæmur fyrir freistingum óvinarins – freistingum sem leiddu til svo mikillar sorgar í lífi hans, a.m.k. um tíma.

Til allrar hamingju „kom hann til sjálfs sín,“ eins og glataði sonurinn í hinni þekktu dæmisögu í Lúkasarguðspjalli, og vaknaði upp frá martröðinni.17 Hann endurnýjaði traust sitt á Drottni, iðraðist sannlega og þráði að snúa einhvern tíma aftur heim í hjörð Drottins. Þennan dag fundum við báðir fyrir endurleysandi elsku frelsarans til okkar. Við lok þessarar stuttu heimsóknar vorum við báðir tilfinningalega hrærðir og fram til þessa dags man ég eftir skínandi gleðinni á andliti hans þegar hann yfirgaf skrifstofuna mína.

Kæru vinir, þegar við stöndumst litlu freistingarnar sem koma oft óvænt í líf okkar erum við betur í stakk búin til að forðast alvarleg brot. Líkt og Spencer W. Kimball sagði: „Það er sjaldgæft að einhver brjóti alvarlega af sér án þess að gefa sig fyrst að minni brotum, sem síðan opna gættina að þeim alvarlegri. … ,Snyrtilegt tún verður ekki skyndilega þakið illgresi.‘“18

Á meðan frelsarinn Jesús Kristur bjó sig undir að inna af hendi himneskt ætlunarverk sitt hér á jörðu, sýndi hann mikilvægi þess að sporna gegn öllu því sem gæti ráðið okkur frá því að uppfylla eilífan tilgang okkar. Eftir nokkrar árangurslausar atlögur óvinarins, sem reyndi að beina honum frá ætlunarverki hans, þá vísaði hann djöflinum afdráttarlaust á bug með því að segja: „Vík brott, Satan! … Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.“19

Getið þið ímyndað ykkur, bræður og systur, hvað myndi gerast ef við gætum öðlast styrk og hugrekki frá frelsaranum og sagt „nei“ og „vík brott“ við siðlausum hugsunum, um leið og þær kæmu í huga okkar? Hver yrðu áhrifin á hjartans þrár okkar? Hvernig myndu verkin sem af því hljótast halda okkur nærri frelsaranum og gera stöðug áhrif heilags anda í lífi okkar möguleg? Með því að fylgja fordæmi Jesú veit ég að við munum forðast harmleiki og óæskilega hegðun sem gætu valdið fjölskylduvandamálum og ósætti, neikvæðum tilfinningum og hneigðum, að við beittum aðra óréttlæti eða misnotkun, yrðum háð illri fíkn og öllu öðru sem fer gegn boðorðum Drottins.

Í sögulegum og hjartnæmum boðskap okkar kæra spámanns, Russells M. Nelson forseta, frá því í apríl á þessu ári, gaf hann loforð um að allir þeir sem fúslega vildu „hlýða á hann“ – hlýða á Jesú Krist – og fylgja boðorðum hans, „[munu blessaðir] með meiri getu til að takast á við freistingar, erfiðleika og veikleika“ og aukinni gleði, jafnvel þótt umrótið verði meira.20

Ég ber ykkur vitni um að loforðin sem okkar kæri spámaður gaf eru loforð frá sjálfum frelsaranum. Ég býð okkur öllum að „hlýða á hann“ í hverri hugsun og fylgja honum af öllu hjarta, svo við öðlumst þann styrk og það hugrekki að geta sagt „nei“ og „vík brott“ við allt sem gæti fært óhamingju í líf okkar. Ef við gerum svo, þá lofa ég því að Drottinn mun senda heilagan anda sinn í ríkara mæli til að styrkja okkur og hugga og við getum orðið einstaklingar að skapi Drottins.21

Ég gef minn vitnisburð um að Jesús Kristur lifir og að við sökum hans getum við sigrast á illum áhrifum óvinarins og öðlast eilíft líf með Drottni og í návist okkar elskaða himneska föður. Ég vitna um þessi sannindi af allri minni elsku til ykkar og frelsara okkar, en nafni hans veiti ég dýrð, heiður og lof, ævinlega. Ég segi þetta í helgu nafni Jesú Krists, amen.