Aðalráðstefna
Græðandi kraftur Jesú Krists
Aðalráðstefna október 2020


Græðandi kraftur Jesú Krists

Þegar við komum til Jesú Krists með því að iðka trú á hann, iðrast og gera og halda sáttmála, getum við læknast af brestum okkar.

Frá upphafi þessa árs höfum við tekist á við margar óvæntar uppákomur. Manntjón og tekjumissir vegna heimslægs faraldurs hefur haft alvarleg áhrif á samfélag og efnahagslíf heimsins.

Jarðskjálftar, gróðureldar og flóð á ólíkum svæðum í heiminum, ásamt öðrum veðratengdum hörmungum, hafa skilið fólk eftir hjálparlaust, vonlaust og niðurbrotið, er það hugleiðir hvort að líf þeirra muni nokkurn tíma verða samt aftur.

Leyfið mér að segja ykkur persónulega sögu þess að vera niðurbrotinn.

Þegar börn okkar voru ung ákváðu þau að þau vildu læra á píanó. Eiginmaður minn, Rudy, og ég vildum veita börnum okkar þetta tækifæri en við áttum ekkert píanó. Við höfðum ekki efni á nýju píanói svo Rudy hóf leit að notuðu píanói.

Um jólin þetta ár, kom hann okkur öllum á óvart með píanói og í gegnum árin lærðu börnin að spila.

Ljósmynd
Gamalt píanó

Þegar synir okkar uxu úr grasi og yfirgáfu heimilið safnaði gamla píanóið bara ryki svo við seldum það. Nokkur ár liðu og við höfðum safnað okkur smá fjármagni. Dag einn sagði Rudy: „Ég held að það sé kominn tími til að við eignumst nýtt píanó.“

Ég spurði: „Hvers vegna ættum við að fá okkur nýtt píanó, þegar hvorugt okkar spilar?“

Hann sagði: „Já, en við getum fengið okkur píanó sem spilar sjálft! Með því að nota spjaldtölvu, getur þú forritað píanóið til að spila rúmlega 4000 lög þar með talið sálma, lög með Laufskálakórnum, alla Barnafélagssálmana og margt fleira.

Rudy er sannarlega frábær sölumaður.

Ljósmynd
Nýtt píanó

Við keyptum okkur fallegt nýtt spilarapíanó og nokkrum dögum seinna komu tveir stórir sterkir menn með það heim til okkar.

Ég sýndi þeim hvar ég vildi hafa það og steig svo til hliðar.

Ljósmynd
Píanóið flutt

Þetta var þungur flygill af minni gerð og til að hann myndi passa í gegnum dyrnar, fjarlægðu þeir fæturna og náðu að setja píanóið upp á hlið ofan á litla handtrillu sem þeir höfðu komið með.

Hús okkar var í smá halla og því miður hafði snjóað þennan dag og allt var blautt og krapakennt. Getið þið séð hvert þetta er að fara?

Á meðan þeir fluttu píanóið upp þennan litla halla, rann það til og ég heyrði hátt brothljóð. Píanóið hafði fallið af handtrillunni og lent svo harkalega á jörðinni að það skildi eftir sig dæld í túninu.

Ég sagði: „Hamingjan góða. Er allt í lagi með ykkur?“

Sem betur fer var allt í lagi með báða mennina.

Augu þeirra voru galopin er þeir litu á hvor annan, svo á mig og sögðu: „Okkur þykir þetta mjög leitt. Við förum með það tilbaka í búðina og verslunarstjórinn hringir í ykkur.“

Fljótlega var verslunarstjórinn í símanum að ræða við Rudy um að senda nýtt píanó. Rudy er ljúfur og umburðalyndur maður og sagði verslunarstjóranum að þetta væri í lagi, ef þeir myndu bara laga skemmdina og koma tilbaka með sama píanó, en verslunarstjórinn krafðist þess að við fengjum nýtt.

Rudy svaraði því til: „Þetta gæti ekki verið svo slæmt. Lagið það bara og komið með það.“

Verslunarstjórinn sagði: „Viðurinn er brotinn og þegar viðurinn er brotinn verður hljómurinn aldrei samur. Þið fáið nýtt píanó.“

Bræður og systur erum við ekki eins og þetta píanó, smá brotin, sprungin og skemmd og finnst við aldrei verða söm aftur. Þegar við hins vegar komum til Jesú Krists með því að iðka trú á hann, iðrast og gera og halda sáttmála, getum við læknast af brestum okkar. Þetta ferli, sem býður græðandi mætti frelsarans inn í líf okkar, endurreisir okkur ekki bara til fyrri stöðu heldur gerir okkur betri en nokkru sinni áður. Ég veit að við getum öll verið bætt, gerð heil og uppfyllt tilgang okkar, eins og fallega hljómandi, glænýtt píanó, í gegnum frelsara okkar, Jesú Krist.

Russel M. Nelson forseti sagði: „Þegar sár oss veröld veitir, er tími kominn til að dýpka trú okkar á Guð, að vinna vel og þjóna öðrum. Þá mun hann lækna hjartans sorgir okkar. Hann mun veita okkur persónulegan frið og huggun. Þessar miklu gjafir verða aldrei að engu gerðar, jafnvel ekki í dauðanum.“1

Jesús sagði:

„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Matteus 11:28–30).

Ljósmynd
Frelsari okkar, Jesú Kristur

Til þess að græða bresti með því að koma til hans, verðum við að hafa trú á Jesú Kristi. „Að hafa trú á Jesú Kristi þýðir að treysta algerlega á hann – treysta á takmarkalausan kraft hans … og elsku. Það þýðir að trúa kenningum hans. Það þýðir að trúa því að jafnvel þó að við skiljum ekki alla hluti, þá gerir hann það. Vegna þess að hann hefur upplifað allan sársauka okkar, þjáningar og breyskleika, þá veit hann hvernig best er að hjálpa okkur að rísa upp yfir daglega erfiðleika okkar.“2

Þegar við komum til hans „getum [við] fyllst gleði, friði og huggun. Hvaðeina sem ósanngjarnt er í lífinu er hægt að færa í réttar skorður fyrir friðþægingu Jesú Krists.“3 Hann hefur ráðlagt okkur: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki“ (Kenning og sáttmálar 6:36).

Í Mormónsbók, þegar Alma og fólk hans voru næstum kramin undan þeirri byrði sem lögð var á þau, sárbað það um lausn. Drottinn fjarlægði ekki byrði þeirra heldur gaf þeim loforð:

„Og ég mun einnig létta byrðarnar, sem lagðar hafa verið á herðar yðar, já, svo að þér finnið ekki fyrir þeim á bökum yðar, jafnvel á meðan þér eruð ánauðug. Og þetta gjöri ég, til að þér verðið vitni mín héðan í frá og megið vita með vissu, að ég, Drottinn Guð, vitja fólks míns í þrengingum þess.

„Og nú bar svo við, að byrðarnar, sem lagðar höfðu verið á Alma og bræður hans, urðu þeim léttari. Já, Drottinn gaf þeim svo mikinn styrk, að þeir gátu borið byrðar sínar léttilega og lutu vilja Guðs með gleði og þolinmæði“ (Mósía 24:14–15).

Öldungur Tad R. Callister hefur kennt okkur um hæfni frelsarans til að græða og létta byrðar.

„Ein af blessunum friðþægingarinnar er að við getum meðtekið af líknandi kröftum frelsarans. Jesaja talaði ítrekað um græðandi, róandi áhrif frelsarans. Hann bar vitni um að frelsarinn væri ‚vörn lítilmagnans, vörn hins þurfandi í þrengingum hans, skjól í skúrum, hlíf í hita‘ (Jesaja 25:4). Hvað varðar þá sem syrgja sagði Jesaja að frelsarinn hefði kraftinn til að ‚hugga þá sem hryggir eru‘ (Jesaja 61:2) og ‚þerra tárin af hverri ásjónu‘ (Jesaja 25:8; sjá einnig Opinberunarbókin 7:17); ‚glæða þrótt hinna lítillátu‘ (Jesaja 57:15); og ‚græða þá sem hafa sundurmarin hjörtu‘ (Jesaja 61:1; sjá einnig Lúkas 4:18; Sálmarnir 147:3). Svo víðtækur er líknandi máttur hans að hann gat sett ‚höfuðdjásn í stað ösku á syrgjendur í Síon, fagnaðarolíu í stað sorgarklæða, skartklæði í stað hugleysis‘ (Jesaja 61:3).

„Ó hve vonin stígur hátt í þessum loforðum! … Andi hans græðir; hann fágar; hann huggar; hann andar nýju lífi inn í vonlítil hjörtu. Hann hefur kraftinn til að umbreyta öllu því sem er ljótt, grimmt og einskisvirði í eitthvað fullt af óviðjafnanlegum og dýrðlegum ljóma. Hann hefur kraftinn til að breyta jarðneskri ösku í fegurð eilífðarinnar.“4

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er ástkær frelsari okkar, lausnari okkar, hinn mikli græðari og trúr vinur okkar Ef við snúum okkur til hans mun hann lækna okkur og gera okkur heil á ný. Ég ber þess vitni að þetta er kirkjan hans og að hann er að undirbúa að snúa tilbaka á ný til að ríkja í krafti og dýrð hér á jörðu. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson, „Jesús Kristur – hinn mikli græðari,“ aðalráðstefna, október 2005.

  2. Faith in Jesus Christ [Trú á Jesú Krist]“ Gospel Topics, topics.ChurchofJesusChrist.org.

  3. Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu, KirkjaJesuKrists.is.

  4. Sjá Tad R. Callister, The Infinite Atonement (2000), 206–7.