Aðalráðstefna
Varanlegur kraftur
Aðalráðstefna október 2020


Varanlegur kraftur

Eingöngu trú og orð Guðs, sem fylla innri sál okkar, duga okkur til framdráttar – og veita okkur aðgang að krafti hans.

Eftir að hafa endurskoðað kennslu okkar ástkæra spámanns Russells M. Nelson forseta, kom ég auga á orð sem hann notar í mörgum ræðum. Orð þetta er kraftur.

Á fyrstu aðalráðstefnu eftir að hann var studdur sem postuli, talaði Nelson forseti um kraft.1 Með árunum hefur hann haldið áfram að kenna um kraft. Síðan við studdum Nelson forseta sem spámann, hefur hann kennt um reglu kraftsins – sérstaklega krafts Guðs – og hvernig við getum hlotið hann. Hann hefur kennt hvernig við getum notað kraft Guðs er við þjónum öðrum,2 hvernig iðrun býður heim krafti Jesú Krists og friðþægingar hans í lífi okkar,3 og hvernig prestdæmið – kraftur og valdsumboð Guðs – blessar alla sem gera og halda sáttmála við hann.4 Nelson forseti hefur vitnað um að kraftur Guðs flæðir til allra sem hlotið hafa musterisgjöf sína, er þeir halda sáttmála sína.5

Ég var sérstaklega hrifinn af áskorun sem Nelson forseti setti fram á aðalráðstefnunni í apríl 2020 . Hann bauð okkur „að læra meira um kraftinn og þekkinguna sem [okkur] hefur veist – eða sem [okkur] mun veitast.“6

Til að bregðast við þessu, hef ég lesið og beðist fyrir og lært nokkur gagnleg atriði um kraftinn og þekkinguna sem mér hefur veist – eða sem mér mun veitast.

Það er ekki auðvelt að skilja það sem gera þarf til að hafa aðgang að krafti Guðs í lífi okkar, en ég hef komist að því að það er gerlegt þegar við ígrundum þetta og biðjum um að heilagur andi upplýsi okkur.7 Öldungur Richard G. Scott veitti skýra leiðsögn um hvað kraftur Guðs er: Það er „kraftur til að áorka meiru en við sjálf fáum áorkað.“8

Nauðsynlegt er að fylla hjörtu okkar og sál með orði Guðs og grundvöll trúar á Jesú Krist til að hljóta kraft Guðs okkur til aðstoðar á þessum erfiðu tímum. Án orða Guðs og trúar á Jesú Krist djúpt í hjörtum okkar, getur vitnisburður okkar og trú brugðist og við gætum misst aðgang okkar að þeim krafti sem Guð vill veita okkur. Yfirborðstrú er ekki nægjanleg. Eingöngu trú og orð Guðs, sem fylla innri sál okkar, duga okkur til framdráttar – og veita okkur aðgang að krafti hans.

Þegar systir Johnson og ég vorum að ala upp börnin okkar, hvöttum við sérhvert þeirra til að læra á hljóðfæri. Við leyfðum þeim hins vegar eingöngu að fara í tónlistarnám ef þau gerðu sinn hluta og æfðu sig daglega á hljóðfærið. Laugardag einn var dóttir okkar, Jalynn, spennt fyrir því að fara út að leika sér við vini sína, en hafði ekki enn æft sig á píanóinu. Minnug þess að hún hafði skuldbundið sig til að æfa í 30 mínútur, ráðgerði hún að nota skeiðklukku, vegna þess að hún vildi ekki æfa sig mínútu lengur en krafist var.

Þegar hún gekk framhjá örbylgjuofninum á leið sinni að píanóinu, stoppaði hún og ýtti á nokkra takka. Í stað þess að stilla tímastillinn , setti hún örbylgjuofninn á 30 mínútur í eldun og ýtti á start. Eftir að hafa æft sig í um 20 mínútur, gekk hún í eldhúsið til að athuga hversu mikill tími væri eftir og sá þá að kviknað hafði í örbylgjuofninum.

Hún hljóp út í bakgarðinn, þar sem ég var við garðvinnu og hrópaði að kviknað hafi í húsinu. Ég hljóp í flýti inn í húsið, og mikið rétt, ég fann örbylgjuofninn alelda.

Í því skyni að bjarga húsinu frá bruna, teygði ég mig aftur fyrir örbylgjuofninn, tók hann úr sambandi og notaði snúruna til að lyfta ofninum upp af borðplötunni. Í þeirri von að reynast hetja og samtímis að bjarga deginum og heimili okkar, sveiflaði ég örbylgjuofninum í hringi með snúrunni til að halda honum frá líkama mínum, komst út í garð og með annarri sveiflu endasenti ég örbylgjuofninum út á lóðina. Þar tókst okkur að slökkva eldtungurnar með vatnsslöngu.

Hvað fór úrskeiðis? Örbylgjuofn þarfnast einhvers til að draga í sig orkuna, en þegar ekkert er innan í honum til að draga í sig orkuna, dregur hann í sig orkuna sjálfur, verður funheitur og kviknað getur í honum, uns hann eyðileggst í logum og ösku.9 Örbylgjuofninn okkar eyðilagðist í eldi og brann vegna þess að ekkert var inni í honum.

Á líkan hátt geta þeir, sem eiga trú og orð Guðs djúpt í hjörtum sínum, dregið í sig og sigrast á eldtungum sem andstæðingur okkar vissulega sendir til að tortíma okkur.10 Annars gæti trú okkar, von og sannfæring ekki dugað og við gætum farist, rétt eins og tómi örbylgjuofninn.

Ég hef komist að því, að með orði Guðs djúpt í sálu minni, og trú á Jesú Krist og friðþægingu hans, hef ég aðgang að krafti Guðs til að sigrast á andstæðingnum og öllu því sem hann varpar að mér. Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum, getum við treyst loforði Drottins, eins og Páll kenndi: „Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“11

Við vitum að frelsarinn, sem barn, „óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.“12 Við vitum að Jesús „þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum,“ er hann varð eldri.13 Við vitum að menn, sem til hans heyrðu á þeim tíma er þjónustustarf hans hófst, „undruðust … mjög kenningu hans, því að vald fylgdi orðum hans.“14

Með undirbúningi óx frelsarinn að krafti og var fær um að standast allar freistingar Satans.15 Er við fylgjum fordæmi frelsarans og undirbúum okkar með því að nema orð Guðs og auka trú okkar, getum við einnig átt aðgang að krafti Guðs til að standast freistingar.

Á þessum tímum samkomubanns, sem útilokar musterissókn, hef ég í raun og veru ráðgert að halda áfram að lesa og læra meira um kraft Guðs sem til okkar streymir, er við gerum og höldum musterissáttmála. Við förum út úr musterinu brynjuð krafti Guðs, eins og lofað var í vígslubæn musterisins í Kirtland.16 Enginn fyrningardagur tengist þeim krafti sem Guð veitir þeim sem gera og halda musterissáttmála eða takmarkaður aðgangur að þeim krafti í heimsfaraldri. Kraftur hans minnkar aðeins í lífi okkar ef okkur tekst ekki að halda sáttmála okkar og við lifum ekki þannig að við getum stöðugt verið hæf til að hljóta kraft hans.

Meðan elskulega eiginkona mín og ég þjónuðum sem trúboðsleiðtogar í Tælandi, Laos og Mjanmar, urðum við sjónarvottar að því hvernig kraftur Guðs veitist þeim sem gera og halda helga sáttmála í musterinu. Hjálparsjóður fyrir musterisþjóna gerði mörgum heilögum í þessum þremur löndum kleift að fara í musterið eftir að hafa gert allt sem þau gátu með persónulegum fórnum og undirbúningi. Ég man eftir að hafa hitt 20 trúfasta heilaga frá Laos á flugvelli í Bangkok í Tælandi, til að hjálpa þeim að komast að öðrum flugvelli í Bangkok, svo að þau næðu fluginu sínu til Hong Kong. Meðlimir þessir iðuðu af spenningi yfir því að geta loks ferðast til húss Drottins.

Ljósmynd
Meðlimir í Laos

Þegar við hittum þessa góðu heilögu við heimkomuna, var þroski í fagnaðarerindinu og tilheyrandi kraftar sem hlutust af musterisgjöf þeirra og sáttmálsgjörð við Guð, afar augljós. Þessir heilagir gengu greinilega úr musterinu „[brynjaðir] krafti [hans].“17 Þessi kraftur, til að áorka meiru en þeir sjálfir fengju áorkað, veitti þeim styrk til að standast áskoranir þess að vera meðlimir kirkjunnar í heimalandi sínu og ganga fram til að flytja „í sannleika stórfengleg og dýrðleg tíðindi,“18 er þeir halda áfram að byggja upp ríki Drottins í Laos.

Höfum við, á þeim tíma sem okkur er ekki unnt að sækja musterið, treyst á þá sáttmála sem við gerðum í musterinu, til að marka okkur óhagganlega stefnu í lífinu? Ef við höldum þessa sáttmála, veita þeir okkur sýn og væntingar varðandi framtíðina og skíra staðfestu til að vera hæf til að meðtaka allt sem Drottinn hefur veitt okkur fyrirheit um fyrir staðfestu okkar.

Ég býð ykkur að leita eftir þeim krafti sem Guð vill veita ykkur. Ég ber vitni um, að ef við leitumst eftir þeim krafti, munum við blessuð með auknum skilningi á þeirri elsku sem himneskur faðir hefur fyrir okkur.

Ég ber ykkur vitni um, að vegna þess að himneskur faðir elskar þig og mig, sendi hann sinn eingetna son, Jesú Krist, til að vera frelsari okkar og lausnari. Ég ber vitni um Jesú Krist, hann sem allan kraftinn hefur19 og geri svo í nafni Jesú Krists, amen.