Aðalráðstefna
Meðmæltur fyrir Drottin
Aðalráðstefna október 2020


Meðmæltur fyrir Drottin

Hefjið ferlið nú til að geta verið „meðmælt fyrir Drottin,“ svo að andi hans verði ríkulega með ykkur.

Góðan dag, kæru bræður og systur. Sem lærisveinn frelsara okkar, Jesú Krists, hef ég hlakkað til að koma saman rafrænt, allstaðar að úr heiminum, fyrir þessa ráðstefnu.

Ljósmynd
Durban-musterið, Suður-Afríku

Þetta hefur verið mjög óvenjulegt ár. Persónulega þá hófst það með verkefni frá Æðsta forsætisráðinu að vígja Drottni heilagt musteri í Durban, Suður Afríku. Ég mun aldrei gleyma glæsileik þeirrar byggingar. Frekar en bara staðinn, þá mun ég ávalt varðveita með mér tign fólksins sem var svo vel undirbúið að ganga inn í hina helgu og veglegu byggingu. Þau komu, tilbúin að meðtaka af einni af krýnandi blessunum endurreisnarinnar, vígslu húss Drottins. Þau komu með hjörtun full af elsku gagnvart honum og friðþægingu hans. Þau komu uppfull þakklætis til föðurins á himnum fyrir það að sjá þeim fyrir hinum helgu athöfnum sem myndu leiða til upphafningar. Þau komu verðug.

Ljósmynd
Meðlimir við Durban musterið í Suður-Afríku.

Sama hvar þau eru staðsett þá rísa musterin ofar háttalagi heimsins. Hvert musteri Síðari daga heilagra í heiminum – öll 168 – standa sem vitni um trú okkar á eilíft líf og gleði þess að verja því með fjölskyldum okkar og himneskum föður okkar. Musterisþjónusta eykur skilning okkar á guðdómnum og hinu ævarandi fagnaðarerindi, skuldbindingu okkar til að lifa og kenna sannleikann og vilja okkar til að fylgja fordæmi Drottins vors og frelsara, Jesú Krists.

Ljósmynd
Heilagleiki fyrir Drottin

Utan á hverju musteri í kirkjunni standa þessi viðeigandi orð: „Heilagleiki fyrir Drottin.“ Musterið er hús Drottins og skjól frá heiminum. Andi hans umvefur þá sem tilbiðja innan þessa helgu veggja. Hann setur upp staðla sem við uppfyllum til að koma sem gestir hans.

Ljósmynd
Blaine Twitchell

Tengdafaðir minn, Blaine Twitchell, sem var einn þeirra bestu manna sem ég hef kynnst, kenndi mér merka lexíu. Systir Rasband og ég fórum að heimsækja hann þegar hann var kominn nær endalokum jarðneskrar ferðar sinnar. Þegar við gengum inn í herbergið hans, var biskupinn hans að kveðja. Þegar við heilsuðum biskupnum, hugsaði ég: „En viðkunnalegur biskup. Hann er kominn hingað til að þjóna trúföstum meðlimi deildar sinnar.“

Ég minntist á það við Blaine, „Huggulegt af biskupinum að koma og heimsækja.“

Blaine leit á mig og svaraði: „Það var talsvert meira en það. Ég bað biskupinn að koma, því ég vildi fá musterismeðmælaviðtalið mitt. Ég vil fara meðmæltur fyrir Drottin.” Það gerði hann!

Þessi setning „meðmæltur fyrir Drottin,“ hefur setið í mér. Það setti alveg nýja sýn á að fara reglulega í viðtal við kirkjuleiðtoga okkar. Musterismeðmæli eru svo mikilvæg, að á upphafsárum kirkjunnar, þar til árið 1891, varð forseti kirkjunnar að ábyrgjast hver musterismeðmæli.1

Hvort sem um er að ræða ungmenni eða fullorðna einstaklinga, þá snúast musterismælaviðtöl ekki um hvað má og má ekki gera. Meðmæli er ekki gátlisti, gangapassi eða miði fyrir forgangssæti. Þau hafa mun æðri tilgang. Til þess að teljast hæf fyrir musterismeðmæli, verðið þið að lifa í samhljómi við kenningar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Í viðtalinu hafið þið tækifæri til að kanna hug ykkar um persónulega trú ykkar á Jesú Krist og friðþægingu hans. Þið hafið þá blessun að tjá vitnisburð ykkar um hið endurreista fagnaðarerindi, fúsleika ykkar til að styðja þá sem Drottinn hefur kallað til að leiða kirkju hans, trú ykkar á kenningar fagnaðarerindisins, hvort þið uppfyllið skyldur ykkar gagnvart fjölskyldu ykkar, heiðarleika ykkar, hreinlífi, tryggð, hlýðni, hlýðni við Vísdómsorðið, tíundarlögmálið og heilagleika hvíldardagsins. Þetta eru undirstöðulögmál þess lífs sem er helgað Jesú Kristi og verk hans.

Musterismeðmæli ykkar endurspegla rótgróið andlegt áform um að þið keppist að því að lifa eftir lögmálum Drottins og unna því sem hann ann, auðmýkt, lítillæti, staðfestu, kærleika, hugrekki, samúð, fyrirgefningu og hlýðni. Þið skuldbindið ykkur þessum stöðlum þegar þið skrifið nafnið ykkar undir þetta helga skjal.

Musterismeðmæli ykkar opna ykkur, og öðrum með sömu réttindi, hlið himna með réttindum og aðgangi að helgiathöfnum með eilíf gildi svo sem skírn, musterisgjöf, hjónabandi og innsiglun.

Það að vera „meðmæltur fyrir Drottin“ er að vera áminntur um það hvers er ætlast til af sáttmálshaldandi Síðari daga heilögum. Tengdarfaðir minn, Blaine, sá þetta sem ómetanlegan undirbúning fyrir þann dag er hann myndi standa auðmjúkur frammi fyrir Drottni.

Ljósmynd
Hinn logandi runni

Lítum á það þegar Móses gekk á Hórebfjall og Drottinn Jehóva birtist honum í logandi runna. Guð sagði við hann: „Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð.“2

Það að fara úr skónum við dyr musterisins er að láta af veraldlegum þrám eða nautnum sem draga okkur frá andlegum vexti og setja þá hluti til hliðar sem afvegaleiða okkar hjartfólgna jarðlíf, að rísa yfir þrætugirni og leitast eftir tíma til að vera heilagur.

Að guðlegri skipan er líkami okkar sköpun Guðs, musteri fyrir anda ykkar og hann ætti að annast með lotningu. Orðin í Barnafélagssálminum eru svo sönn: „Líkami minn er musteri, sem þarf að annast vel.“3 Þegar Drottinn birtist Nefítunum, bauð hann: „[helgist] fyrir móttöku heilags anda og þér fáið staðið flekklaus frammi fyrir mér.“4 „Hvers konar menn ættuð þér því að vera?“ spurði Drottinn og svaraði síðan: „Alveg eins og ég er.“5 Að vera „meðmæltur fyrir Drottin“ þýðir að við leitumst við að vera eins og hann er.

Ég minnist þess að hafa hlustað á Howard W. Hunter forseta, í fyrstu ræðu hans sem 14. forseta kirkjunnar. Hann sagði: „Það er dýpsta hjartans þrá mín að hver einasti kirkjuþegn sé verðugur þess að fara í musterið. Það myndi vekja velþóknun Drottins, ef sérhver fullorðinn kirkjuþegn yrði verðugur þess að hafa – og bæri á sér – musterismeðmæli.6 Mig langar að bæta því við að meðmæli með takmarkaðri notkun mun marka skýra leið fyrir hjartfólgin ungmenni okkar.

Nelson forseti rifjaði upp orð Hunters forseta: „Þann dag, 6. júní 1994, urðu musterismeðmælin er við berum, að annars konar hlut í seðlaveski mínu. Fram að því voru þau einungis leið að markmiði. Þau leyfðu mér að komast inn í heilagt hús Drottins, en eftir að hann sagði þetta urðu þau sjálft markmiðið. Þau urðu merki mitt um hlýðni við spámann Guðs.“7

Ljósmynd
Nauvoo-musterið

Ef þið hafið ekki enn fengið meðmæli, eða ef að þau hafa runnið út, farið þá í röð við dyrnar hjá biskupnum, á sama hátt og fyrstu meðlimirnir fóru í röð við dyr Nauvoo-musterisins árið 1846.6 Forfeður mínir voru á meðal þessara trúföstu. Þeir voru að yfirgefa sína fögru borg og stefndu vestur, en þeir vissu að það var heilög reynsla sem beið þeirra í musterinu. Sara Rich skrifaði frá hrjúfa slóðanum í Iowa: „Ef það hefði ekki verið fyrir þá trú og þekkingu sem við lutum í musterinu … hefði ferð okkar verið eins og að … taka stökk í myrkri.“9 Það er það sem við förum á mis við ef við förum í gegnum lífið alein, án þess innblásturs og friðar sem lofað er í musterinu.

Hefjið ferlið nú til að geta verið „meðmælt fyrir Drottin,“ svo að andi hans verði ríkulega með ykkur og staðlar hans veiti ykkur „frið við samvisku“ ykkar.10

Leiðtogar ungdómsins, öldungarsveitaforseti, Líknarfélagsforseti og þjónandi bræður og systur munu aðstoða ykkur við undirbúninginn og biskup ykkar eða greinarforseti mun leiða ykkur í kærleika.

Við höfum nú verið að upplifa tímabil þar sem musterin hafa verið lokuð eða í takmarkaðri starfsemi. Þessi innblásna ákvörðun um að loka musterunum var Nelson forseta og þeim er starfa við hans hlið, „sársaukafull“ og „þrungin áhyggjum.“ Nelson forseti stóð sig að því að segja: „Hvað myndi ég segja við spámanninn Joseph Smith? Hvað myndi ég segja við Brigham Young, Wilford Woodruff og hina forsetana, alla leiðina upp að Thomas S. Monson forseta?“11

Nú erum við þakksamlega að opna musterin smátt og smátt fyrir innsiglanir og musterisgjafir, þó að takmörkuðu leyti.

Það hefur hins vegar ekki verið lokað fyrir það að vera verðugur að fara í musterið. Leyfið mér að leggja áherslu á það að hvort sem þið hafið aðgang að musteri eða ekki, þá þurfið þið musterismeðmæli til að haldast örugglega á sáttmálsveginum.

Ljósmynd
Hópur í Nýja Sjálandi

Á síðasta ári vorum ég og systir Rasband í verkefni á Nýja Sjálandi, að tala við stóran hóp af ungum einhleypum einstaklingum. Þau höfðu engan auðveldan aðgang að musteri, verið var að endurnýja musterið í Hamilton og þau voru enn að bíða eftir fyrstu skóflustungunni að musterinu í Auckland. Hins vegar fann ég mig knúinn til að hvetja þau til að endurnýja eða biðja um musterismeðmæli.

Jafnvel þó að þau gætu ekki sýnt þau við musteri, gætu þau komið fram fyrir Drottin hrein og tilbúin að þjóna honum. Verðugleiki þess að hafa gild musterismeðmæli er vernd gegn andstæðingnum, vegna þess að þið hafið skuldbundið líf ykkar Drottni, og líka loforð um að andinn sé ætíð með ykkur.

Við framkvæmum musterisverk þegar við leitum áa okkar og sendum nöfn þeirra inn fyrir helgiathafnir. Á meðan að musteri okkar hafa verið lokuð, höfum við samt getað unnið í ættarsögu okkar. Með anda Guðs í hjörtum okkar, þá erum við staðgenglar til að þau geti verið „meðmælt fyrir Drottin.“

Þegar ég þjónaði sem aðalstjórnandi Musterisdeildarinnar, heyrði ég Gordon B. Hinckley forseta oft minnast á þessa ritningargrein þar sem Drottinn talar um Nauvoo-musterið: „Halda skal linnulaust áfram vinnu við musteri mitt og öll önnur verkefni, sem ég hef falið yður, og margfaldið kostgæfni yðar, þrautseigju, þolinmæði og afköst, og þér munuð í engu glata launum yðar, segir Drottinn hersveitanna.“12

Starf okkar í musterinu er tengt eilífri umbun okkar. Nýlega höfum við verið reynd. Drottinn hefur kallað okkur til starfa í musterunum af „kostgæfni … þrautseigju, [og] þolinmæði.“13 Það að vera „meðmæltur fyrir Drottin“ krefst þessara eiginleika. Við verðum að vera iðin í því að lifa eftir boðorðunum, halda ótrauð áfram með musterissáttmálana okkar og vera þakklát fyrir það sem Drottinn heldur áfram að kenna varðandi þá og vera þolinmóð er við bíðum eftir að musterin opnist að fullu.

Þegar Drottinn kallar eftir því að við „margföldum“ framlag okkar, þá er hann að biðja um að við eflumst í réttlæti. Til að mynda gætum við aukið ritningarnám okkar, ættarsögurannsóknir okkar og trúarbænir okkar, svo við fáum miðlað þeim elsku okkar til húss Drottins sem eru að búa sig undir að fá musterismeðmæli, einkum fjölskyldumeðlimum okkar.

Ég lofa ykkur því sem postuli Drottins Jesú Krists, að ef þið leggið ykkur fram við að margfalda réttlátt framlag ykkar, munið þið finna endurnýjaða trúfesti til Guðs föðurins og Jesú Krists, þið munið finna aukin áhrif heilags anda í að leiðbeina ykkur, þið munið vera þakklát fyrir helga sáttmála ykkar og þið munið skynja frið, vitandi að þið eruð „meðmælt fyrir Drottin.“ Í nafni Jesú Krists, amen.