Aðalráðstefna
Mikillar náðar Drottins aðnjótandi
Aðalráðstefna október 2020


Mikillar náðar Drottins aðnjótandi

Stundir þrenginga og vonbrigða breyta ekki vökulu auga Drottins sem lítur á okkur með velþóknun og blessar okkur.

Dag einn fyrir mörgum árum, þegar ég var ungur trúboði, urðum ég og félagi minn, sem þjónuðum í fámennri grein á litilli eyju að nafni Amami í Japan, himinlifandi þegar við fréttum að Spencer W. Kimball forseti ætlaði að heimsækja Asíu og að öllum meðlimum og trúboðum í Japan væri boðið til Tókýó, til að hlusta á spámanninn á svæðisráðstefnu. Ég og félagi minn og greinarmeðlimir tókum þegar í stað að gera áætlanir fyrir ráðstefnuna, sem gerði kröfu um12 tíma bátsferð yfir Austur-Kínahaf, til meginlands Japans og síðan 15 tíma lestarferð til Tókýó. Því miður varð þó ekkert úr þessu. Þau tilmæli bárust frá trúboðsforseta okkar um að ég og félagi minn gætum ekki farið á ráðstefnuna í Tókýó, sökum fjarlægðar og tíma.

Ljósmynd
Öldungur Stevenson og trúboðsfélagi hans

Þegar meðlimir hinnar fámennu greinar okkar héldu af stað til Tókýó, þá urðum við eftir. Næstu dagar virtust rólegir og tíðindalausir. Við héldum sakramentissamkomu einir í litlu kapellunni á meðan Síðari daga heilagir og aðrir trúboðar Japans sóttu ráðstefnuna.

Ljósmynd
Svæðisráðstefna í Asíu

Vonbrigði mín urðu jafnvel enn meiri þegar ég hlustaði af dálæti á greinarmeðlimi er þeir nokkrum dögum síðar komu til baka frá ráðstefnunni og sögðu Kimball forseta hafa tilkynnt að reisa skyldi musteri í Tókýó. Þeir ljómuðu af eftirvæntingu þegar þeir sögðu frá uppfyllingu draums síns. Þeir lýstu því hvernig meðlimir og trúboðar hefðu ekki ráðið við sig þegar þeir heyrðu musterið tilkynnt og klappað saman höndum í miklum fögnuði.

Ljósmynd
Kimball forseti tilkynnir musteri í Tókýó

Ár hafa liðið, en ég man enn eftir þeim vonbrigðum að hafa misst af þessari sögulegu samkomu.

Undanfarna mánuði hef ég velt þessari reynslu fyrir mér, er ég hef séð aðra verða fyrir miklum vonbrigðum og sorgum – miklu meiri en þeim sem ég upplifði sem ungur trúboði – af völdum heimsfaraldurs Kóvíd-19.

Fyrr á þessu ári, er faraldurinn var í algleymingi, bauð Æðsta forsætisráðið að „kirkjan og meðlimir hennar myndu áfram af trúmennsku vera góðir borgarar og nágrannar“1 og „sýna mikla aðgætni.“2 Þannig höfum við upplifað að kirkjusamkomum hafi verið aflýst um heim allan, að meira en helmingur allra trúboða hafi verið sendur til heimalanda sinna og að öllum musterum kirkjunnar hafi verið lokað. Þúsundir af ykkur bjuggu sig undir að fara í musterið fyrir helgiathafnir lifenda – þar á meðal musterisinnsiglanir. Önnur ykkar hafa lokið þjónustu sem trúboðar fyrr en ella eða verið afleyst tímabundið og kölluð aftur.

Ljósmynd
Trúboðar á heimferð mitt í Kóvíd

Á þessum tíma lokuðu leiðtogar stjórnvalda og menntamála skólum – sem settu útskriftir úr skorðum og stöðvuðu íþróttaviðburði og félagslega, menningarlega og skólatengda viðburði og athafnir. Mörg ykkar bjuggu sig undir sýningar og keppnir eða íþróttatímabil, sem ekki fóru fram.

Enn átakanlegri er hugsunin um þær fjölskyldur sem hafa misst ástvini á þessum tíma; flestar gátu ekki haldið jarðarfarir eða aðrar samkomur eins og vænst var.

Í stuttu máli, þá hafa ótal mörg ykkar tekist á við mikil og raunveruleg vonbrigði, sorg og vonleysi. Hvernig hljótum við þá lækningu, sýnum þrautseigju og sækjum fram í þessu ástandi?

Spámaðurinn Nefí hóf að grafa á litlu töflurnar þegar hann var fullorðinn maður. Þegar hann leit yfir líf sitt og þjónustu í fyrsta versi Mormónsbókar, fólst í því mikilvæg hugleiðing. Þetta vers geymir mikilvæga reglu til hugleiðingar fyrir okkar tíma. Við lesum hans kunnugu orð: „Ég, Nefí, er af góðum foreldrum kominn,“ ritar hann, „og enda þótt ég hafi mátt þola miklar þrengingar á lífsleið minni, hef ég engu að síður orðið mikillar náðar Drottins aðnjótandi alla mína ævi.“3

Við, sem nemendur Mormónsbókar, þekkjum hinar miklu þrengingar sem Nefí vísar til. Samt, eftir að hafa nefnt þrengingarnar á lífsleið sinni, greinir Nefí frá sínum trúarlega skilningi um að hafa orðið mikillar náðar Drottins aðnjótandi alla sína ævi. Stundir þrenginga og vonbrigða breyta ekki vökulu auga Drottins sem lítur á okkur með velþóknun og blessar okkur.

Ljósmynd
Trúboðsfjarfundur
Ljósmynd
Trúboðsfjarfundur með öldungi og systur Stevenson
Ljósmynd
Trúboðsfjarfundur með öldungi og systur Stevenson

Nýverið átti ég fjarfund með um 600 trúboðum í Ástralíu, sem flestir voru í einhverri einangrun eða kyrrsetningu vegna Kóvíd-19 og margir þeirra unnu að trúboði í íbúðum sínum. Saman hugleiddum við einstaklinga í Nýja testamentinu, Mormónsbók og Kenningu og sáttmálum sem Drottinn blessaði til stórræða í miklu mótlæti. Allir voru fremur skilgreindir af því sem þeir gátu gert með hjálp Drottins, en því sem þeir gátu ekki gert meðan þeir voru einangraðir og takmarkaðir.

Við lesum um Páll og Sílas í fangelsi í gapastokk, biðjandi, syngjandi, kennandi, vitnandi – og þeir skírðu jafnvel fangavörðinn.4

Við lesum líka um Pál í Róm, sem var í stofufangelsi í tvö ár, og á þeim tíma „skýrði hann og vitnaði [stöðugt] … um Guðs ríki“5 og „fræddi um Drottin Jesú Krist.“6

Svo og um Nefí og Lehí, syni Helamans, sem, eftir misþyrmingar og fangelsisvist, voru umluktir verndandi eldslogum, er „hljóðlát rödd [Drottins], full af mildi … smaug inn í [fangara þeirra] sjálfa sál [þeirra].“7

Svo og um Alma og Amúlek í Ammóníaborg, sem komust að því að margir „ trúðu … orðum [þeirra] og tóku að iðrast og kanna ritningarnar,“8 jafnvel þótt þeir væru þá hæddir og án matar, vatns eða klæða, keflaðir og lokaðir í fangelsi.9

Ljósmynd
Joseph Smith í Liberty fangelsinu

Svo loks um Joseph Smith sárkvalinn í Liberty-fangelsinu, sem fannst hann einn og yfirgefinn, en heyrði síðan þessi orð Drottins: „Allt mun þetta … verða þér til góðs“10 og „Guð verður með þér alltaf og að eilífu.“11

Allir þessir skildu hvað Nefí átti við: Að þótt þeir hefðu séð miklar þrengingar á ævidögum sínum, þá nutu þeir mikillar náðar Drottins.

Við, sem einstakir meðlimir og sem kirkja, getum séð hliðstæður í þessu varðandi það hvernig við höfum notið dálætis Drottins á þeim krefjandi tímum sem við höfum tekist á við undanfarna mánuði. Við skulum líka láta þessi dæmi sem ég nefni styrkja vitnisburð okkar um fyrirsjáanleika okkar lifandi spámanns, sem með aðlögunum bjó okkur undir óvæntan heimsfaraldur, svo við gætum tekist á við fyrirliggjandi áskoranir.

Númer eitt er að verða meira heimilismiðuð og kirkjustyrkt.

Fyrir tveimur árum sagði Nelson forseti „Við, sem Síðari daga heilög, erum orðin vön þeim hugsanagangi að ,kirkja‘ sé eitthvað sem gerist í samkomuhúsum okkar, með stuðningi þess sem á sér stað á heimilinu. Við þurfum að breyta þessari fyrirmynd … Í heimilismiðaða kirkju, með stuðningi þess sem á sér stað í … byggingum okkar.“12 Hvílík spámannleg aðlögun! Heimilismiðað trúarnám hefur komið til framkvæmda með tímabundinni lokun samkomuhúsa. Þegar heimurinn kemst aftur í samt horf og við förum aftur í kapellurnar, þá munum við vilja halda áfram hinni heimilismiðuðu fyrirmynd trúarnáms og fræðslu sem hefur þróast í heimsfaraldrinum.

Annað dæmið um að njóta mikils dálætis Drottins, er opinberunin um hirðisþjónustu á æðri og helgari hátt.

Ljósmynd
Þjónusta

Árið 2018 kynnti Nelson forseti hirðisþjónustu sem breytingu „á því hvernig við önnumst hvert annað.“13 Heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér fjölmörg tækifæri til að fínpússa þjónustuhæfni okkar. Þjónandi bræður og systur, stúlkur og piltar og aðrir hafa veitt liðsinni með samtölum, garðþjónustu, máltíðum, skilaboðum með tækninni og helgiathöfn sakramentis, til að blessa þá sem hafa þörf fyrir það. Kirkjan sjálf hefur líka þjónað öðrum í heimsfaraldrinum með fordæmalausri dreifingu á vörum í matarbanka, skýlum fyrir heimilislausa og stuðningsmiðstöðvum fyrir innflytjendur og með verkefnum þar sem tekist er á við alvarlegustu hunguraðstæður heims. Líknarfélagssystur og fjölskyldur þeirra brugðust við áskoruninni um að búa til milljónir gríma fyrir heilbrigðisstarfsmenn.

Ljósmynd
Mannúðarverkefni
Ljósmynd
Grímur búnar til

Síðasta dæmið um að hljóta blessanir í mótlæti, er að finna mikla gleði í endurkomu helgiathafna musterisins.

Ljósmynd
Systir Kaitlyn Palmer

Þessu er best lýst með sögu. Þegar systir Kaitlyn Palmer tók á móti trúboðsköllun sinni í apríl síðastliðnum, naut hún þess að vera kölluð sem trúboði, en fannst engu að síður mikilvægt og einstakt að fara í musterið til að taka á móti musterisgjöf sinni og gera helga sáttmála. Stuttu eftir að hún hafði tímasett musterisgjöf sína var tilkynnt að öll musteri yrðu tímabundið lokuð vegna heimsfaraldursins. Eftir að hafa fengið þessar sorglegu upplýsingar, komst hún að því að hún þyrfti að sækja trúboðsskólann (MTC) með fjartækni frá heimili sínu. Þrátt fyrir þessi vonbrigði lagði Kaitlyn áherslu á að vera andlega jákvæð.

Ljósmynd
Systir Kaitlyn Palmer og heimatrúboðsskóli

Á þeim mánuðum sem liðu, missti systir Palmer aldrei vonina um að komast í musterið. Fjölskylda hennar fastaði og bað þess að musteri opnuðust, áður en hún færi. Kaitlyn byrjaði morgnana heima í trúboðsskólanum oft á því að segja: „Mun kraftaverkið gerast í dag og musteri opnast aftur?“

Þann 10. ágúst tilkynnti Æðsta forsætisráðið að musteri Kaitlyn yrði opnað aftur fyrir helgiathafnir lifenda nákvæmlega sama dag og morgunflugið hennar í trúboðið var áætlað. Hún gæti ekki farið í musterið og síðan náð fluginu. Með litla von um árangur hafði fjölskylda hennar samband við forseta musterisins, Michael Vellinga, til að athuga hvort einhvern veginn væri hægt að koma kraftarverkinu sem þau höfðu beðið fyrir til leiðar. Föstu þeirra og bænum var svarað!

Ljósmynd
Palmer-fjölskyldan við musterið

Klukkan 2:00 eftir miðnætti, klukkustundum fyrir brottför flugsins, var systur Palmer og fjölskyldu hennar heilsað í tárum við dyr musterisins af brosandi musterisforseta með orðunum: „Góðan daginn, Palmer-fjölskylda. Velkomin í musterið!“ Eftir að hún hafði hlotið musterisgjöfina, voru þau hvött til flýta sér, því næsta fjölskylda beið við dyr musterisins. Þau óku beint út á flugvöll rétt í tæka tíð til að hún næði fluginu til trúboðsins.

Ljósmynd
Systir Palmer á flugvellinum

Musterishelgiathafnirnar sem við höfum þurft að bíða með í nokkra mánuði virðast ljúfari en áður, er musteri um allan heim opna aftur í áföngum.

Þegar ég lýk máli mínu, hlýðið þá vinsamlega á hvetjandi, hrífandi og uppbyggjandi orð spámannsins Josephs Smith. Aldrei hefði manni dottið í hug að hann hefði skráð þau í þrengingum og einangrun, nauðbeygður og takmarkaður á heimili í Nauvoo, falinn fyrir þeim sem reyndu að handtaka hann ólöglega.

„Hvað heyrum við nú í því fagnaðarerindi, sem við höfum meðtekið? Gleðiraust! Náðarraust frá himni, og sannleiksraust úr jörðu, gleðitíðindi fyrir hina dánu, gleðiraust fyrir hina lifandi og hina dánu, gleðitíðindi um mikinn fögnuð. …

… Eigum við ekki að halda áfram í þágu svo mikils málstaðar? Halda áfram en ekki aftur á bak. Hugrekki, … áfram til sigurs! Hjörtu ykkar fagni og gleðjist ákaft. Jörðin hefji upp söng.“14

Bræður og systur, ég trúi að dag einn muni hvert ykkar líta til baka til hinna aflýstu atburða, sorgar, vonbrigða og einmanaleika sem fylgja þeim erfiða tíma sem við tökumst á við, til að sjá það falla í skuggann af blessunum og aukinni trú og vitnisburði. Ég trúi að í þessu lífi og í komandi lífi, munuð þið helguð af þrengingum ykkar, Ammóníaborg ykkar, Liberty-fangelsi ykkar, ykkur til góðs.15 Ég bið þess að við, líkt og Nefí, fáum sætt okkur við þrengingarnar á lífsleið okkar og jafnframt skilið að við njótum mikils dálætis Drottins.

Ég lýk með vitnisburði mínum um Jesú Krist, sem sjálfur var ekki ókunnugur þjáningum og sem steig niður fyrir allt, er var hluti af altækri friðþægingu hans.16 Hann skilur sorg okkar, sársauka og örvæntingu. Hann er frelsari okkar, lausnari okkar, von okkar, huggun okkar og bjargvættur okkar. Um þetta vitna ég í hans heilaga nafni Jesú Krists, amen.