Aðalráðstefna
Með tilfinningu einingar öðlumst við kraft með Guði
Aðalráðstefna október 2020


Með tilfinningu einingar öðlumst við kraft með Guði

Er við leitumst eftir tilfinningu einingar, munum við kalla niður kraft Guðs til að verk okkar verði heilstætt.

Móðir Gordons sagði honum að ef hann myndi klára verkin sín, myndi hún búa til böku fyrir hann. Uppáhalds bökuna hans. Bara fyrir hann. Gordon hófst handa við að klára verkin sín og móðir hans flatti út bökudeigið. Eldri systir hans, Kathy, kom inn í húsið með vinkonu sinni. Hún sá bökuna og spurði hvort hún og vinkona hennar mættu fá sér sneið.

„Nei“ sagði Gordon, „þetta er bakan mín. Mamma bakaði hana fyrir mig og ég varð að vinna fyrir henni.“

Kathy hreytti ónotum í bróður sinn. Hann var svo eigingjarn og nískur. Hvernig gæti hann haldið þessu algerlega fyrir sig?

Mörgum tímum seinna, þegar Kathy opnaði bíldyrnar til að keyra vinkonu sína heim, lágu tvær samanbrotnar munnþurrkur á sætinu, tveir gafflar ofan á og tvær stórar sneiðar af böku á diskum. Kathy sagði þessa sögu í jarðaför Gordons til að sýna fram á hve fús hann var til að breyta um og sýna þeim góðvild sem áttu það ekki alltaf skilið.

Árið 1842 voru hinir heilögu að vinna hörðum höndum að því að byggja musterið í Nauvoo. Eftir að Líknarfélagið var stofnað í mars, kom spámaðurinn Joseph oft á fundina þeirra til að undirbúa þær fyrir þá helgu, sameinandi sáttmála sem þær myndu brátt gera í musterinu.

Þann 9. júní sagði spámaðurinn „að hann ætlaði að kenna þeim um miskunn[.] Segjum að Jesús Kristur og englarnir myndu vera ósáttir við okkur varðandi smámuni, hvað myndi þá verða um okkur? Við verðum að vera miskunnsöm og horfa framhjá smáatriðum.“ Smith forseti hélt áfram: „Það syrgir mig að það sé ekki til fyllra samfélag – ef einn þjáist, skynja það allir – með tilfinningu einingar öðlumst við kraft með Guði.“1

Þessari stuttu setningu sló niður í mig eins og eldingu. Með tilfinningu einingar öðlumst við kraft með Guði. Þessi heimur er ekki eins og ég myndi vilja að hann væri. Það er margt sem mig myndi langa til að hafa áhrif á og gera betra. Satt best að segja, þá er mikil andstaða gegn því sem ég vonast eftir og stundum finnst mér ég vanmáttug. Nýlega hef ég verið að spyrja sjálfa mig leitandi spurninga: „Hvernig get ég skilið fólkið í kringum mig betur? Hvernig mun ég stuðlað að þessar „tilfinningu einingar“ þegar allt er svo breytt? Hvaða kraft frá Guði gæti ég fengið aðgang að ef ég væri bara aðeins sameinaðri öðrum? Út frá sjálfskoðun minni legg ég fram þrjár tillögur. Kannski munu þær hjálpa ykkur.

Hafið miskunn

Jakob 2:17 segir: „Hugsið um bræður yðar á sama hátt og um yður sjálfa, og verið vinsamlegir við alla, og verið ekki fastheldnir á eigur yðar, svo að þeir geti auðgast jafnt og þér.“ Nú skulum við skipta út orðinu eigur með miskunn – verið ekki fastheldnir á miskunn ykkar, svo þeir geti auðgast jafnt og þér.

Við hugsum oft um eigur sem mat eða peninga, en kannski þurfum við meira á miskunn að halda í hirðisþjónustunni.

Líknarfélagsforsetinn minn sagði nýlega: „Það sem ég … lofa … ykkur er að ég mun varðveita orðstír ykkar … Ég mun sjá ykkur eins og þið eruð upp á ykkar besta. … Ég mun aldrei segja neitt um ykkur sem er óvinsamlegt, sem ekki mun lyfta ykkur upp. Ég bið ykkur að gera slíkt hið sama gagnvart mér því ég er skelfingu lostin yfir því að bregðast ykkur.

Þennan vissa dag í júní árið 1842, sagði Joseph Smith systrunum:

„Þegar fólk sýnir mér hina minnstu góðvild og kærleika, ó, hvílíkan mátt sem það hefur þá yfir huga mínum. …

… Því nær sem við komumst himneskum föður, því líklegri erum við til að líta til með glötuðum sálum – [okkur finnst við vilja] taka þær á herðar okkar og varpa syndum þeirra að baki okkar. [Ræða mín er ætluð] öllu þessu samfélagi – ef þið gætuð haft miskunn Guðs með ykkur, sýnið þá hver annarri miskunn.“2

Þetta var meint sérstaklega til Líknarfélagsins. Dæmum ekki hvert annað eða látum orðin særa. Varðveitum orðstír hvers annars og gefum gjöf miskunnar.3

Róið bát ykkar í takt

Árið 1936 var óþekkt róðrarlið frá Washington háskólanum, á ferðalagi til Þýskalands til að taka þátt í Ólympíuleikunum. Þetta var á hátindi Kreppunnar miklu. Þetta voru drengir úr verkamannafjölskyldum sem voru styrktir af námu- og timburbæjum sínum svo að þeir gætu ferðast til Berlínar. Allt virtist vera þeim í óhag en eitthvað gerðist í keppninni. Í róðrarheiminum kallast það „taktur.“ Hlustið á þessa lýsingu sem byggð er á bókinni The Boys in the Boat [Drengirnir í bátnum]:

Það er nokkuð sem gerist stundum sem er erfitt að ná og erfitt að greina: Það kallast „taktur.“ Það gerist aðeins þegar allir eru fullkomlega samstiltir í róðrinum og engin hreyfing er úr takti.

Ræðararnir verða að halda aftur af áköfu sjálfstæði sínu og jafnframt vera sannir einstaklingsgetu sinni. Klónar vinna ekki keppnir. Góðar áhafnir samanstanda af góðri blöndu – einhverjum til að leiða, einhverjum til að halda eftir einhverju aukalega, einhverjum til að berjast baráttunni, einhverjum til að stilla til friðar. Enginn ræðari er öðrum mikilvægari, allir eru bátnum mikils virði, en ef þeir eiga að róa vel saman, verður hver og einn að aðlaga sig þörfum og getu hinna – sá sem hefur styttri handleggi verður að teygja sig aðeins lengra og sá með lengri handleggina að teygja sig aðeins styttra.

Mismunurinn getur snúist upp í ávinning í staðinn fyrir galla. Einungis þá mun það virðast sem báturinn hreyfist sjálfkrafa. Aðeins þá mun sársaukinn algerlega hverfa fyrir fögnuðinum. Góður „taktur“ er eins og ljóð.4

Þvert á allar líkur náði liðið hinum fullkomna takti og sigraði. Ólympíugullið var spennandi, en einingin sem hver ræðari upplifði var heilög stund sem dvaldi með þeim allt þeirra líf.

Hreinsið burt hið slæma, eftir því sem það góða vex

Í hinni einstöku líkingasögu í Jakob 5, gróðursetti herra víngarðsins gott tré í góðan jarðveg, en með tímanum varð það spillt og bar slæman ávöxt. Herra víngarðsins sagði átta sinnum: „Mér fellur þungt að missa þetta tré.“

Þjónninn sagði við herra víngarðsins: „Hlífðu [tréinu] örlítið lengur. Og herrann sagði: Já, ég skal hlífa [því] örlítið lengur.“5

Svo koma leiðbeiningar sem geta átt við okkur, er við reynum að stinga upp og finna góðan ávöxt í okkar litlu aldingörðum: „Skuluð þið hreinsa burt slæmu greinarnar, eftir því sem þær góðu vaxa.“6

Eining gerist ekki bara eins og fyrir galdra, hún krefst vinnu. Það er klúðurslegt, stundum óþægilegt og gerist stig af stigi þegar við hreinsum burt það slæma, eftir því sem það góða vex.

Við erum aldrei ein í viðleitni okkar að skapa einingu. Jakob 5 heldur áfram: „Þjónarnir lögðu af stað og unnu af öllum mætti. Og herra víngarðsins vann einnig með þeim.“7

Sérhvert okkar mun upplifa djúpa særandi reynslu, upplifanir sem ættu aldrei að gerast. Sérhvert okkar mun einnig leyfa stundum að hroki og dramb spilli þeim ávöxtum sem við berum. Jesús Kristur er hins vegar frelsari okkar í öllu. Kraftur hans nær alla leið á botninn og er örugglega þar þegar við köllum á hann. Við sárbænum öll um miskunn fyrir syndir okkar og mistök. Hann veitir það fúslega. Hann biður okkur svo einnig að veita hvert öðru sömu miskunn og skilning.

Jesús sagði það beint út: „Verið eitt, og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir.“8 Ef við erum þá eitt – ef við getum gefið sneið af bökunni okkar eða notað hæfileika okkar til að róa í fullkomnum takti í bátnum – þá erum við hans. Hann mun þá hjálpa okkur að hreinsa burt það slæma eftir því sem það góða vex.

Spámannleg loforð

Við erum kannski ekki enn þar sem við myndum vilja vera og við erum ekki þar sem við munum vera. Ég trúi að sú breyting sem við leitum að í okkur sjálfum og í aðildarhópum okkar, muni síður gerast með aðgerðarstefnu og meira með því að reyna stöðugt dag hvern að skilja hvert annað. Hvers vegna? Af því að við erum að byggja Síon – samfélag þar sem „hugur … og hjarta … [eru] eitt.“9

Sem sáttmálskonur, höfum við víðtæk áhrif. Þau áhrif koma fram í hversdagslegum augnablikum eins og þegar við erum að læra með vinum, svæfa börnin, tala við sessunaut í strætó, undirbúa kynningu með samstarfsfélaga. Við höfum kraft til að fjarlægja fordóma og byggja einingu.

Líknarfélagið og Stúlknafélagið eru ekki bara námskeið. Þau geta einnig veitt ógleymanlega reynslu þar sem mjög ólíkar konur fara í sama bátinn og róa þar til þær finna taktinn sinn. Ég býð ykkur þetta: Verið hluti af sameiginlegu afli sem breytir heiminum til hins betra. Sáttmálsverkefni okkar er að þjóna, að lyfta máttvana örmum, að bera þá sem erfitt eiga á baki okkar eða í fangi okkar. Það er ekki flókið að vita hvað á að gera, en það fer oft gegn eigingjörnum hagsmunum okkar sjálfra og við verðum að reyna. Konurnar í þessari kirkju hafa ótakmarkaða getu til að breyta samfélaginu. Ég er þess andlega fullvissu að er við leitumst eftir tilfinningu einingar, munum við kalla niður kraft Guðs til að verk okkar verði heilstætt.

Þegar kirkjan minntist opinberunarinnar frá 1978, varðandi prestdæmið, veitti Russell M. Nelson forseti áhrifamikla spámannlega blessun: „Það er bæn mín og blessun sem ég veiti öllum þeim sem á hlusta að við megum sigrast á allri fordómabyrði og ganga upprétt með Guði – og hvert öðru – í fullkomnum friði og samhljómi.“10

Megum við kalla fram þessa spámannlegu blessun og nota einstaklings og sameiginlegt framtak okkar til að auka eininguna í heiminum. Ég skil eftir vitnistburð minn í orðum hinnar sígildu, auðmjúku bænar Drottins Jesú Krists: „Að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur.“11 Í nafni Jesú Krists, amen.