Aðalráðstefna
Þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki og álítið það eintómt gleðiefni!
Aðalráðstefna október 2020


Þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki og álítið það eintómt gleðiefni!

Þegar við iðkum þolinmæðin eykst trú okkar. Gleði okkar eykst jafnhliða trú okkar.

Fyrir tveimur árum fór yngsti bróðir minn, Chad, í gegnum huluna. Burtför hans skildi eftir tómarúm í hjarta mágkonu minnar, Stephanie; tveimur litlu barnanna þeirra, Brayden og Bella; sem og öðrum í fjölskyldunni. Við fundum huggun í orðum öldungs Neil L. Andersen á aðalráðstefnu vikunni áður en Chad dó: „Í deiglu jarðneskra prófrauna færir lækningarmáttur frelsarans okkur ljós, skilning, frið og von, á meðan við færumst þolinmóð áfram.“ („Hjartasár,aðalráðstefna, október 2018).

Ljósmynd
Chad Jaggi og fjölskylda

Við trúum á Jesú Krist; við vitum að við munum sameinast Chad aftur, en það er sárt að njóta ekki lengur nærveru hans! Margir hafa misst ástvini. Það er erfitt að vera þolinmóður og bíða þess að við sameinumst þeim.

Ári eftir að hann dó, fannst okkur sem skýjamyrkur hyldi okkur. Við leituðum huggunar með því að læra ritningarnar, biðjast heitar fyrir og fara oftar í musterið. Orðtak úr þessum sálmi lýsa tilfinningum okkar á þessum tíma: „Sjá, dagur rís, öll dimman flýr“ („Sjá, dagur rís,“ Sálmar, nr. 1).

Fjölskylda okkar einsetti sér að árið 2020 yrði gott ár! Síðla í nóvember 2019 vorum við að læra lexíu í Kom, fylg mér, um Jakobsbréfið í Nýja testamentinu, þegar ljósi var varpað á ákveðið þema. Í 2. versi í 1. kapítula Jakobsbréfs segir: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar þrengingar“ (Þýðing Josephs Smith, Jakobsbréfið 1:2 [í Jakobsbréfinu 1:2, neðanmálstilvísun a]). Af þrá til að hefja nýtt ár, nýjan áratug, með gleði, þá ákváðum við að „álíta það eintómt gleðiefni.“ Þetta höfðaði svo sterkt til okkar að síðustu jól gáfum við systkinum okkar boli sem á stóð stórum stöfum: „Álítið það eintómt gleðiefni.“ Árið 2020 yrði sannlega fyllt gleði og fögnuði.

Hér erum við svo – árið 2020 færði okkur þess í stað heimsfaraldurinn Kóvíd-19, borgaraerjur, fleiri náttúruhamfarir og efnahagserfiðleika. Himneskur faðir gefur okkur ef til vill tíma til að hugleiða og íhuga hvernig við skiljum þolinmæði og meðvitaða ákvörðun okkar um að velja gleði.

Jakobsbréfið hefur nú fengið aðra merkingu fyrir okkur. Jakobsbréfið, kapítuli 1, vers 3 og 4 segir ennfremur:

„Þið vitið að trúfesti ykkar vekur þolgæði

en þolgæðið á að birtast í því sem þið gerið, til þess að þið séuð fullkomin og alger og ykkur sé í engu ábótavant.“

Í þeirri viðleitni að finna gleði mitt í þrengingum okkar, höfðum við gleymt því að þolinmæði væri lykill að því slíkar þrengingar yrðu okkur til góðs.

Benjamín konungur kenndi hvað í því felst að losa sig úr viðjum hins náttúrlega manns og verða „heilagur fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins, og [verða] sem barn, undirgefinn, hógvær, auðmjúkur, þolinmóður, elskuríkur og reiðubúinn að axla allt“ (Mósía 3:19).

Í kafla 6 í Boða fagnaðarerindi mitt er greint frá mikilvægum eiginleikum Krists, sem við getum tileinkað okkur: „Þolinmæði er sá eiginleiki að geta sýnt biðlund í langan tíma, sigrast á erfiðleikum, andstreymi eða þjáningum, án þess að reiðast, láta hugfallast eða verða óþreyjufullur. Það er sá eiginleiki að fara að vilja Guðs og gangast undir hans tímasetningu. Þegar þú sýnir þolinmæði stenst þú álag og ert þess megnugur að sýna rósemi og vera vongóður í mótlæti“ (Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu uppfærð útg. [2019], 126).

Fullkomið verk þolinmæðinnar er einnig hægt að sýna í lífi eins af fyrstu lærisveinum Krists, Símoni Kanverja. Vandlætarar voru hópur þjóðernissinnaðra Gyðinga sem voru mjög andsnúnir yfirráðum Rómverja. Vandlátarahreyfingin beitti sér með ofbeldi gegn Rómverjum, samherjum þeirra meðal Gyðinga og Saddúkeum, með því að ráðast á matarbirgðir þeirra og gera ýmislegt annað til að styrkja eigin málstað (sjá Encyclopedia Britannica, „Zealot,“ britannica.com/topic/Zealot). Símon Kanverju var vandlætari (sjá Lúkas 6:15). Sjáið Símon fyrir ykkur reyna að telja frelsarann á það að taka upp vopn, fara fyrir árásagjörnum hópi eða skapa ringulreið í Jerúsalem. Jesús kenndi:

„Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. …

Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. …

Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða“ (Matteus 5:5, 7, 9).

Símon gæti hafa helgað sig þessum málstað sínum af kappi og ákefð, en ritningin segir að fyrir áhrif og fordæmi frelsarans, hafi áhersla hans breyst. Hann helgaði sig algjörlega því að vera lærisveinn Krists.

Þegar við gerum og höldum sáttmála við Guð, getur frelsarinn hjálpað okkur að „endurfæðast. Já, fæðast af Guði, hverfa úr viðjum holdlegs og fallins hlutskiptis í faðm réttlætisins, endurleyst af Guði og verða synir hans og dætur“ (Mósía 27:25).

Af öllum kappsömum félagslegum, trúarlegum og stjórnmálalegum viðfangsefnum samtímans, þá ættum við að helga okkur því mest að vera lærisveinn Jesú Krists. „Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera“ (Matteus 6:21). Við skulum líka ekki gleyma því að „þolgæðis [var] þörf,“ jafnvel eftir að trúfastir lærisveinar höfðu „[gert] Guðs vilja“ (Hebreabréfið 10:36).

Rétt eins og þolinmæðin eykst við prófraun trúar, þá eykst trúin þegar við sýnum þolinmæði. Gleði okkar eykst jafnhliða trú okkar.

Í mars síðastliðnum fór næst elsta dóttir okkar, Emma, í tilskipaða sóttkví, líkt og margir trúboðar kirkjunnar. Margir trúboðanna komu heim. Margra trúboðanna biðu önnur verkefni. Margir hlutu ekki musterisblessanir sínar áður en þeir fóru út á akur erfiðis. Þakka ykkur fyrir, öldungar og systur. Við elskum ykkur.

Það reyndi á Emmu og félaga hennar í Hollandi fyrstu vikurnar – svo mikið að tárin féllu oft. Traust Emmu á Guði jókst, þótt þeim hefði aðeins gefist fáein tækifæri til útiveru og samskipta við einstaklinga í eigin persónu. Við báðumst fyrir með henni á netinu og spurðum hvernig við gætum hjálpað. Hún bað okkur að tengjast vinum sem hún kenndi á netinu!

Fjölskylda okkar tók að tengjast vinum Emmu í Hollandi á netinu, einum í senn. Við buðum þeim að vera með í vikulegu fjarnámi stjórfjölskyldunnar í Kom, fylg mér. Floor, Laura, Renske, Freek, Benjamin, Stal og Muhammad hafa öll orðið vinir okkar. Sumir vina okkar frá Hollandi hafa farið „inn um þrönga hliðið“ (3. Nefí 14:13). Öðrum hefur verið kennt „að vegurinn er krappur og hliðið þröngt, sem þeim er ætlað að fara inn um“ (2. Nefí 31:9). Þau eru bræður okkar og systur í Kristi. Í hverri viku álítum við það „eintómt gleðiefni“ að vinna saman að framþróun okkar á sáttmálsveginum.

Við látum „þolgæðið birtast í fullkomnu verki“ (sjá Jakobsbréfið 1:4) er við getum ekki komið saman í eigin persónu sem deildarfjölskylda um hríð. Við álítum það gleði að trú fjölskyldna okkar aukist með nýjum fjarvinum og Mormónsbókarnámi í Kom, fylg mér.

Russell M. Nelson forseti hefur lofað: „Stöðugt framlag ykkar hvað þetta varðar – jafnvel þegar ykkur finnst þið ekki sérlega farsæl – mun breyta lífi ykkar, fjölskyldu ykkar og heiminum“ („Sækja fram í trú,“ aðalráðstefna, apríl 2020).

Sá staður þar sem við gerum helga sáttmála við Guð – musterið – er lokaður. Sá staður sem við höldum sáttmála við Guð – heimilið – er opinn! Við getum lært og ígrundað á heimili okkar hina óviðjafnanlega fegurð musterissáttmála. Þótt við getum enn ekki farið á þann helga stað, munu „hjörtu [okkar] … fagna ákaft yfir þeim blessunum, sem úthellt verður“ (Kenning og sáttmálar 110:9).

Margir hafa misst atvinnuna; aðrir hafa glatað tækifærum. Við gleðjumst þó með Nelson forseta, sem nýlega sagði: „Föstufórnir meðlima okkar hafa í raun aukist, sem og framlög þeirra í mannúðarsjóð okkar. … Saman munum við sigrast á þessum erfiða tíma. Drottinn mun blessa ykkur er þið áfram blessið aðra“ (Facebook-síða Russells M. Nelson, orðsending frá 16. ágúst 2020, facebook.com/russell.m.nelson).

„Verið hughraust“ er boð frá Drottni, ekki að vera óttaslegin (Matteus 14:27).

Stundum verðum við óþolinmóð þegar við teljum okkur „gera allt rétt“ og við fáum samt ekki þær blessanir sem við þráum. Enok gekk með Guði í 365 ár áður en hann og fólk hans voru ummynduð. Þrjú hundruð sextíu og fimm ár að reyna að gera allt rétt, og þá gerðist það! (Sjá Kenning og sáttmálar 107:49.)

Andlát Chads bróður míns varð örfáum mánuðum eftir lausn okkar frá forsæti Utah Ogden trúboðsins. Það var undursamlegt að á meðan við bjuggum í Suður-Kaliforníu, var okkur úthlutað Norður-Utah af öllum þeim 417 trúboðum sem hefðu getað fallið í okkar skaut árið 2015. Trúboðsheimilið var í 30 mínútna akstursfjarlægð frá heimili Chads. Krabbamein Chad greindist eftir að við fengum trúboðsverkefni okkar. Við vissum að himneskur faðir var okkur minnugur, jafnvel í erfiðustu aðstæðum, og hjálpaði okkur að finna gleði.

Ég vitna um endurleysandi, helgandi, auðmýkjandi og gleðilegan mátt frelsarans Jesú Krists. Ég ber vitni um að þegar við biðjum til himnesks föður okkar í nafni Jesú, þá mun hann svara okkur. Ég ber vitni um að þegar við hlýðum á og hlítum rödd Drottins og hans lifandi spámanns, Russells M. Nelson forseta, þá mun „þolgæðið birtast í fullkomnu verki“ og við munum „álíta það eintómt gleðiefni.“ Í nafni Jesú Krists, amen.