Aðalráðstefna
Guð mun gera nokkuð ólýsanlegt
Aðalráðstefna október 2020


Guð mun gera nokkuð ólýsanlegt

Guð hefur undirbúið börn sín og kirkju sína fyrir þennan tíma.

Stuttu eftir að hinir Síðari daga heilögu komu í Saltvatnsdalinn, byrjuðu þeir að byggja sitt heilaga musteri. Þeir töldu sig loks hafa fundið stað þar sem þeir gætu tilbeðið Guð í friði, lausir við ofsóknir.

Í þann mund sem undirstöðu musterisins var að ljúka, kom bandarísk hersveit aðvífandi til að setja nýjan fylkisstjóra með valdi.

Þar sem leiðtogar kirkjunnar vissu ekki hversu óvinveittur herinn yrði, bauð Brigham Young hinum heilögu að rýma grunninn og grafa undirstöðuna í jörðu.

Ég er viss um að sumir meðlimir kirkjunnar hafi velt fyrir sér hvers vegna erfiði þeirra við að byggja upp ríki Guðs biði stöðugt hnekki.

Að lokum dró úr hættunni og undirstaða musterisins var grafin upp og skoðuð. Það var þá sem þessir brautryðjendur og byggjendur uppgötvuðu að nokkrir hinna upprunalegu sandsteina höfðu sprungið, sem gerði þá ónothæfa sem undirstöðu.

Brigham bauð þeim því að gera við undirstöðuna, svo hún gæti borið granítsteinveggi1 hins tignarlega Salt Lake musteris.2 Að endingu gátu hinir heilögu sungið sálminn „Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál“3 í þeirri vissu að hið heilaga musteri þeirra væri byggt á traustri undirstöðu sem entist kynslóðir.

Ljósmynd
Undirstaða Salt Lake musterisins

Þessi frásögn getur kennt okkur hvernig Guð notar mótlæti til að koma tilgangi sínum til leiðar.

Heimsfaraldur

Ef þetta hljómar kunnuglega miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag, er það vegna þess að það er það.

Ég efast um að það sé einhver sem heyrir rödd mína eða les orð mín sem hefur ekki orðið fyrir áhrifum þessa heimsfaraldurs.

Við syrgjum með þeim sem hafa misst fjölskyldumeðlimi og vini. Við biðjum himneskan föður að hugga og hughreysta ykkur.

Langtíma afleiðingar þessarar veiru ná lengra líkamlegri heilsu. Margar fjölskyldur hafa misst tekjur og þeim er ógnað með hungri, óvissu og ótta. Við dáumst að óeigingjarnri viðleitni svo margra til að koma í veg fyrir útbreiðslu þessa sjúkdóms. Við finnum til auðmýktar yfir hljóðlátri fórn og göfugri viðleitni þeirra sem hafa stefnt eigin öryggi í hættu til að liðsinna, lækna og styðja fólk í neyð. Hjörtu okkar eru full af þakklæti fyrir gæsku ykkar og samúð.

Við biðjum máttuglega að Guð ljúki upp gáttum himins og fylli líf ykkar eilífri blessun Guðs.

Við erum sáðkorn

Það er margt sem enn er ekki vitað um þessa veiru. Ef það er eitthvað eitt sem ég veit, þá er það að þessi veira kom himneskum föður ekki á óvart. Hann þurfti ekki að safna saman herskörum engla, boða til neyðarfunda eða fá úrræði frá heimsköpunardeildinni til að takast á við óvæntar þarfir.

Boðskapur minn í dag er, að þrátt fyrir að þessi heimsfaraldur sé ekki það sem við vildum eða áttum von á, þá hefur Guð undirbúið börn sín og kirkju sína fyrir þennan tíma.

Við munum vissulega sigrast á þessu. Við munum líka gera meira en að gnísta tönnum, halda að okkur höndum og bíða eftir því að hlutirnir fari aftur í sama gamla farið. Við munum halda áfram og við verðum betri fyrir vikið.

Að vissu leyti erum við sáðkorn. Grafa verður sáðkorn til þess að það taki að spíra og nái möguleikum sínum. Það er vitnisburður minn, að þótt okkur finnist við stundum vera grafin af þrengingum lífsins eða umlukin tilfinningalegu myrkri, þá mun kærleikur Guðs og blessun hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists leiða fram nokkuð ólýsanlegt.

Blessanir koma af erfiðleikum

Sérhver ráðstöfun hefur tekist á við þrautir og þrengingar.

Enok og fólk hans lifði á tímum illsku, styrjalda og blóðsúthellinga. „En Drottinn kom og dvaldi með fólki sínu.“ Hann hafði nokkuð ótrúlegt í huga fyrir það. Hann hjálpaði því að stofna Síon – fólk sem „[í huga] og hjarta voru eitt“ og „lifði í réttlæti.“4

Hinum unga Jósef, syni Jakobs, var hent í gryfju, hann seldur í þrældóm, svikinn og yfirgefinn.5 Jósef hlýtur að hafa velt fyrir sér hvort Guð hefði gleymt honum. Guð hafði nokkuð ótrúlegt í huga fyrir Jósef. Hann notaði þetta tímabil prófrauna til að styrkja persónuleika Jósefs og setja hann í aðstöðu til að bjarga fjölskyldu sinni.6

Ljósmynd
Joseph í Liberty-fangelsinu

Hugsið um spámanninn Joseph Smith meðan hann var innilokaður í Liberty-fangelsinu, hvernig hann bað um líkn fyrir þjáða heilaga. Hann hlýtur að hafa velt því fyrir sér hvernig hægt væri að koma Síon á fót við þessar aðstæður. Drottinn veitti honum frið og hin dýrðlega opinberun sem fylgdi í kjölfarið færði hinum heilögu frið – og hún heldur áfram að færa mér og þér frið.7

Hversu oft á fyrstu árum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu örvæntu ekki hinir heilögu og veltu fyrir sér hvort Guð hefði gleymt þeim? Með ofsóknum, háska og hótunum um útrýmingu, hafði Drottinn Guð Ísraels eitthvað annað í huga fyrir litlu hjörðina sína. Nokkuð ótrúlegt.

Hvað lærum við af þessum dæmum – og ótal öðrum í ritningunum?

Í fyrsta lagi: Hinir réttlátu fá ekki frípassa sem gerir þeim kleift að forðast dali myrkurs. Við verðum öll að ganga í gegnum erfiða tíma, því það er á þessum tímum mótlætis sem við lærum þær reglur sem styrkja persónuleika okkar og valda því að við komumst nær Guði.

Í öðru lagi: Faðir okkar á himnum veit að við þjáumst og vegna þess að við erum börn hans, mun hann ekki yfirgefa okkur.8

Hugsið um hinn miskunnsama, frelsarann, sem varði svo miklum hluta lífs síns við að þjóna sjúkum, einmana, vondaufum og örvæntingarfullum.9 Haldið þið að hann beri minni umhyggju fyrir ykkur?

Ástkæru vinir mínir, elsku bræður mínir og systur, Guð mun vaka yfir ykkur og hirða um ykkur á þessum tímum óvissu og ótta. Hann þekkir ykkur. Hann heyrir bænir ykkar. Hann er trúfastur og áreiðanlegur. Hann mun uppfylla loforð sín.

Guð hefur eitthvað ótrúlegt í huga fyrir ykkur persónulega og kirkjuna alla – dásemdarverk og undur.

Vorn spámann vér þökkum þér, Drottinn

Besti tíminn er framundan, ekki að baki. Það er ástæða þess að Guð veitir okkur nútíma opinberun! Án hennar gæti lífið virst eins og að fljúga í gegnum þykka þoku og bíða þess að henni létti, svo við gætum lent örugglega. Tilgangur Drottins fyrir okkur er miklu æðri en það. Þar sem þetta er kirkja hins lifandi Krists og hann leiðbeinir spámönnum sínum, þá stefnum við áfram og upp, til staða sem við höfum aldrei augum litið, til hæða sem við fáum vart ímyndað okkur!

Þetta þýðir ekki að við munum ekki upplifa ókyrrð í flugi okkar í gegnum jarðlífið. Þetta þýðir ekki að ekki muni koma upp óvænt tækjabilun, vélræn bilun eða alvarlegar veðurfarsáskoranir. Reyndar gætu hlutirnir versnað áður en þeir lagast.

Sem orrustuflugmaður og flugstjóri flugfélags, lærðist mér að þótt ég gæti ekki valið mótlætið sem upp kæmi í flugi, þá gæti ég valið að undirbúa mig og hvernig ég brygðist við. Það sem þarf á erfiðum tímum er rósemd og óhagganlegt traust.

Hvernig gerum við það?

Við viðurkennum staðreyndir og hverfum aftur til grundvallarreglna fagnaðarerindisins, til þess sem mestu skiptir. Þið styrkið trúarlega breytni ykkar – eins og bæn og ritningarnám og haldið boðorð Guðs. Þið takið ákvarðanir á grundvelli bestu sannreyndra aðferða.

Einbeitið ykkur að því sem þið getið gert en ekki að því sem þið getið ekki gert.

Þið varðveitið trú ykkar. Þið hlustið á leiðbeinandi orð Drottins og spámannsins til að leiða ykkur í öruggt skjól.

Munið að þetta er kirkja Jesú Krists – hann er við stjórnvölinn.

Hugsið um hinar mörgu innblásnu framfarir sem hafa átt sér stað á síðasta áratug. Svo að aðeins eitthvað sé nefnd:

  • Sakramentið var áréttað sem þungamiðja hvíldardagstilbeiðslu okkar.

  • Kom, fylg mér var veitt sem heimilismiðað og kirkjustyrkt verkfæri til að styrkja einstaklinga og fjölskyldur.

  • Við tókum upp æðri og helgari leið til að þjóna öllum.

  • Notkun tækni til að miðla fagnaðarerindinu og vinna verk Drottins hefur dreifst út um kirkjuna.

Meira að segja þessi aðalráðstefna væri ekki möguleg án hinnar dásamlegu verkfæra tækninnar.

Bræður og systur, með Krist við stjórnvölinn verða hlutirnir ekki bara í lagi, þeir verða ótrúlegir.

Verkið að safna saman Ísrael heldur áfram

Í fyrstu kann svo að hafa virst sem að heimsfaraldurinn yrði vegartálmi í verki Drottins. Hefðbundnar aðferðir til að miðla fagnaðarerindinu hafa til dæmis ekki verið mögulegar. Hins vegar eru nýjar og frumlegar leiðir að koma fram í heimsfaraldrinum, til að ná til heiðvirðra í hjarta. Verkið að safna saman Ísrael hefur aukist að afli og ákefð. Hundruð og þúsundir sagna votta þetta.

Góður vinur sem býr í hinu fallega landi Noregi skrifaði mér og Harriet um nýlega fjölgun skírna. „Á stöðum þar sem kirkjan er fámenn,“ skrifaði hún, „verða kvistir að greinum og greinar að deildum!“

Í Lettlandi var kona nokkur, sem hafði uppgötvað kirkjuna með því að smella á netauglýsingu, svo spennt að læra um fagnaðarerindi Jesú Krists að hún mætti klukkustund of snemma í tímann sinn og áður en trúboðarnir luku fyrstu lexíunni, bað hún um dagsetningu til að láta skírast.

Í Austur-Evrópu hrópaði ein kona sem fékk símtal frá trúboðunum: „Systur, af hverju hafið þið ekki hringt fyrr? Ég hef beðið!“

Margir trúboða okkar eru annasamari en nokkru sinni fyrr. Margir kenna fleirum en nokkru sinni áður. Aukin tengsl eru nú á milli meðlima og trúboða.

Hér áður gætum við hafa verið svo bundin af hefðbundnum aðferðum að það þurfti heimsfaraldur til að opna augu okkar. Kannski vorum við enn að byggja með sandsteinum þegar granít var þegar til. Af nauðsyn lærum við nú að nota ýmsar aðferðir, þar á meðal tæknina, til að bjóða fólki – eðlilega og blátt áfram – að koma og sjá, koma og hjálpa og koma og tilheyra.

Hans verk, hans háttur

Þetta er verk Drottins. Hann býður okkur að finna sínar leiðir til að vinna sitt verk og þær geta verið frábrugðnar okkar fyrri reynslu.

Þetta upplifðu Símon Pétur og aðrir lærisveinar sem fóru til veiða á Tíberíasjó.

„En þá nótt fengu þeir ekkert.

Þegar dagur rann, stóð Jesús á ströndinni. …

Hann sagði: Kastið netinu [hinumegin] við bátinn, og þér munuð verða varir.“

Þeir köstuðu netinu [hinumegin] og „nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn.“10

Guð hefur opinberað og mun halda áfram að opinbera almáttuga hönd sína. Sá dagur mun koma þegar við munum líta til baka og vita að á þessum tíma mótlætis var Guð að hjálpa okkur að finna betri leiðir – sínar leiðir – til að byggja ríki sitt á traustri undirstöðu.

Ég ber vitni um að þetta er verk Guðs og hann mun halda áfram að gera margt ótrúlegt meðal barna sinna, fólks síns. Guð heldur á okkur í hönd umhyggju og samúðar.

Ég ber vitni um að Russell M. Nelson forseti er spámaður okkar tíma.

Sem postuli Drottins, býð ég ykkur og blessa að þið megið „með glöðu geði gjöra allt, sem í okkar valdi stendur, og síðan getum við með fullri vissu beðið eftir að sjá hjálpræði Guðs, og arm hans opinberast.“11 Ég lofa að Drottinn mun sjá til þess að ótrúlegir hlutir munu verða ávöxtur réttláts erfiðis ykkar. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Kvartsmónasónít sem leit út eins og granít tekið úr grjótnámu við mynni Little Cottonwood gljúfurs, 32 kílómetrum suðaustur af borginni.

  2. Fyrir nánari skoðun á þessu tímabili sögunnar, sjá Saints [Heilagir]: The Story of the Church of Jesus Christ in the Latter Days, bindi 2, No Unhallowed Hand, 1846–1893 (2020), kaflar 17, 19 og 21.

  3. Sjá „Sjá, Guð hefur spámönnum gefið sitt mál,“ Sálmar, nr. 21.

    Versin í þessum dásamlega sálm geta þjónað sem þema fyrir okkar tíma og þegar við hlustum á textann með nýrri nálgun, þá veitir hann innsýn í þær áskoranir sem við blasa:

    Í sérhverri stöðu, í sæld og í þraut,

    í sjúkdómi og fátækt, á auðsældar braut.

    Í fjarlægð og heima, já, hvar sem þú ferð,

    mun hjálp hans þér verða … til farsældar gjörð.

    Ei hræðstu, ég Guð þinn mun gefa þér mátt,

    á göngunnar leið, sem þú fyrir þér átt.

    Þó reynist í heiminum vegferðin vönd,

    þig verndar og leiðir … mín almáttug hönd.

    Er þig kalla um djúp vötn að fara,

    munu sorgin og sútin ei fá þig sigrað,

    því ég verð þér með og blessa þitt líf,

    og helga þig … af mótlæti og byr.

    Er vegurinn liggur um þistla og þyrna,

    mun náð mín þér nægja á lífsins leið.

    Eldur mun þig ei særa, aðeins bæta

    og fegra þína sál … og hreinsa sem gull.

    Þá sál Jesús kaus sér að treysta og kalla

    vil ég ekki, get ekki, látið í óvinahendur falla;

    þá sál, þótt allir vindar heljar í móti blási,

    mun ég aldrei, … þig yfirgefa!

  4. Sjá HDP Móse 7:13–18.

  5. Jósef var mögulega 17 ára þegar bræður hann seldu hann í ánauð (sjá 1. Mósebók 37:2). Hann var 30 ára þegar hann gekk í þjónustu Faraós (sjá 1. Mósebók 41:46). Getið þið ímyndað ykkur hversu erfitt það var fyrir ungan mann á besta aldri að vera svikinn, seldur í ánauð, ranglega sakfelldur og síðan fangelsaður? Jósef er vissulega ekki bara fyrirmynd fyrir æsku kirkjunnar, heldur alla karla, konur og börn sem þrá taka upp krossinn og fylgja frelsaranum.

  6. Sjá 1. Mósebók 45:4–11; 50:20–21. Í Sálmum 105:17–18 lesum við: „Þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll. Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn.“ Í annarri þýðingu segir í 18. versi: „Þeir hafa þjáðst af fótum hans, járn er kominn í sál hans“ (bókstafleg þýðing Youngs). Mér finnst þetta benda til þess að erfiðleikar Jósefs hafi gefið honum sál jafn sterka og seiga og járn – eiginleika sem hann þyrfti fyrir þá miklu og ólýsanlegu framtíð sem Drottinn hafði að geyma honum.

  7. Sjá Kenning og sáttmálar 121–23.

  8. Ef Guð býður börnum sínum að vera meðvituð og miskunnsöm gagnvart hungruðum, bágstöddum, nöktum, veikum og þjáðum, þá verður hann vissulega meðvitaður um og miskunnsamur við okkur, börn sín (sjá Mormón 8:39).

  9. Sjá Lúkas 7:11–17.

  10. Sjá Jóhannes 21:1–6.

  11. Kenning og sáttmálar 123:17.