Aðalráðstefna
Vona á Drottin
Aðalráðstefna október 2020


Vona á Drottin

Trú merkir að treysta Guði jafnt á góðum sem slæmum tímum, jafnvel þó að það þýði þjáningar, þar til við sjáum arm hans opinberast í okkar þágu.

Kæru bræður og systur, við erum öll spennt, ekki síst ég, að hlýða á lokaorð okkar ástkæra spámanns, Russells M. Nelson forseta. Þetta hefur verið undursamleg ráðstefna, en þetta er í annað sinn sem Kóvíd-19 faraldurinn hefur sett hefðbundnar venjur úr skorðum. Við erum svo þreytt á þessum faraldri að við vildum helst rífa af okkur hárið. Augljóslega virðast sumir bræðra minna þegar hafa tekið það til bragðs. Vitið með vissu að við biðjum stöðugt fyrir þeim sem á einhvern hátt hafa orðið illa úti, einkum þeim sem hafa misst ástvini. Allir geta verið sammála um að þetta hefur varað allt of lengi.

Hversu lengi bíðum við eftir líkn frá raunum sem yfir okkur dynja? Hvað með að standast persónulega erfiðleika meðan við bíðum og bíðum og hjálpin er svo sein á ferðinni? Hví þessar tafir þegar byrðarnar eru þyngri en við fáum borið?

Með slíkum spurningum getum við, ef við reynum, heyrt hróp annars manns frá rökum og myrkum fangaklefa meðan úti geysaði harðasti mældi vetur á þeim stað.

„Ó Guð, hvar ert þú?“ heyrum við úr viðjum Liberty-fangelsisins. Og hvar er tjaldið, sem hylur skýli þitt? Hversu lengi munt þú halda að þér hendi þinni?“1 Hversu lengi, ó Drottinn, hversu lengi?

Við erum því ekki þau fyrstu, né þau síðustu, til að spyrja slíkra spurninga þegar sorg fellur yfir okkur eða hjartabyrðin heldur áfram og áfram. Nú er ég ekki að tala um faraldur eða fangelsi, heldur um ykkur, fjölskyldu ykkar og nágranna sem glíma við margvíslegan vanda. Ég tala um löngun hinna mörgu sem gjarnan vilja vera gift, en eru það ekki, eða þá sem eru gift og óska þess að sambandið væri örlítið himneskara. Ég tala um þá sem fást við óvelkomið eða alvarlegt heilsufarsástand – ef til vill ólæknandi – eða glíma við meðfædda galla til lífstíðar sem ekki er hægt að laga. Ég tala um óendanlega baráttu við tilfinningalega og sálarlega erfiðleika, sem íþyngja mörgum svo mjög sem þjást af slíku, og hjörtu þeirra sem elska þá og þjást með þeim. Ég tala um hina fátæku, þeirra sem frelsarinn sagði okkur að gleyma ekki, og ég tala um þau sem bíða eftir að barn, á hvaða aldri sem er, og valið hefur aðra leið en þið hafið beðið um að hann eða hún muni ganga, snúi til baka.

Ég viðurkenni þó að þessi langa upptalning þess sem við þráum persónulega, nær ekki yfir hinar miklu áhyggjur af efnahagi, stjórnmálum eða samfélagi sem við öll stöndum frammi fyrir. Faðir okkar á himnum ætlast klárlega til að við ræðum um þessi erfiðu samfélagsmál, sem og persónuleg mál, en til eru tímar í lífi okkar þegar jafnvel besta andlega viðleitni okkar og einlægustu bænir veita ekki þá sigra sem við þráum, hvort sem um er að ræða alheimsmál eða lítil persónuleg mál. Meðan við því störfum og bíðum sameiginlega eftir svari við sumum bæna okkar, veiti ég ykkur postullegt fyrirheit um að þær eru heyrðar og þeim er svarað, þó ekki endilega á þeim tíma eða á þann hátt sem við vildum. En þeim er ávallt svarað á þeim tíma og á þann hátt sem alviturt og eilíflega miskunnsamt foreldri ætti að svara þeim. Ástkæru bræður og systur, verið svo væn að skilja, að sá sem aldrei sefur eða blundar2 er meira umhugað um hamingju og endanlega upphafningu barna sinna en nokkuð annað sem dýrðleg vera gæti fengist við. Hann er hin hreina ást, dýrðlega persónugerð, og Miskunnsamur faðir er nafn hans.

„Sé þetta svo,“ gætuð þið sagt, „ætti þá ást hans og miskunn ekki einfaldlega að kljúfa okkar persónulega Rauðahaf og leyfa okkur að ganga þurrum fótum í gegnum erfiðleika okkar? Ætti hann ekki að senda máfa 21. aldar, svífandi einhvers staðar að, til að háma í sig okkar hvimleiðu engisprettur 21. aldar?“

Svarið við slíkum spurningum er: „Já. Guð getur gert kraftaverk á stundinni, en fyrr eða síðar lærum við að tímar og tíðir jarðlífs okkar eru eingöngu undir hans stjórn.“ Hann hefur slíkt tímatal fyrir sérhvert okkar persónulega. Fyrir sérhvern mann, sem læknast samstundis er hann bíður eftir að laugast í Betesda-laug,3 mun einhver annar eyða 40 árum í eyðimörkinni og bíða eftir að komast inn í fyrirheitna landið.4 Fyrir sérhvern Nefí og Lehí, sem voru verndaðir af eldstungum vegna trúar sinnar,5 höfum við Abínadí, sem brenndur var á báli fyrir sína trú.6 Við munum einnig eftir því að sami Elía, sem á svipstundu kallaði niður eld frá himni til að vitna gegn prestum Baals,7 var einnig hinn sami Elía sem tórði tveggja ára tímabil án regns og fékk að borða af þeim litla mat sem hrafnaklær gátu borið.8 Að mínu mati gat það ekki hafa verið neitt í líkingu við það sem við köllum „gleðilega máltíð.“

Lexían? Lexían er sú, að trú merkir að treysta Guði jafnt á góðum sem slæmum tímum, jafnvel þó að það þýði þjáningar, þar til við sjáum arm hans opinberast í okkar þágu.9 Þetta getur reynst erfitt í nútíma heimi, þegar margir eru á þeirri skoðun að hið besta í lífinu sé að forðast allar þjáningar, að engin þurfi að hafa áhyggur af nokkru.10 En slík trú mun aldrei leiða að „vaxtartakmarki Krists fyllingar.“11

Ég bið öldung Neal A. Maxwell afsökunar á því að þora að gera örlitla breytingu á því sem hann sagði eitt sinn, en einnig ég segi, að „líf mannsins … getur ekki samtímis verið fyllt trú og streituleysi.“ Það virkar einfaldlega ekki að „svífa óafvitandi í gegnum lífið,“ eða að segja, er við súpum af sætum svaladrykk: „Drottinn, gefðu mér allar þínar bestu dyggðir, en sjáðu örugglega til þess að gefa mér hvorki angur, né sorg, sársauka eða mótlæti. Vinsamlega láttu engan mislíka við mig eða svíkja mig, og umfram allt, láttu mig aldrei finnast ég vera yfirgefinn af þér eða af þeim sem ég elska. Reyndar, vertu viss um, Drottinn, um að halda mér frá allri þeirri reynslu sem gerði þig dýrðlegan. En þegar harðræði annarra gagnvart mér er liðið, láttu mig þá vinsamlega dvelja með þér, þar sem ég get raupað af því hversu líkir við erum að styrk og eiginleikum, er ég svíf gleðilega um á mínu þægindaskýi kristinnar trúar.“12

Kæru bræður mínir og systur, kristin trú er hughreystandi en oft ekki þægileg. Leiðin til helgunar og gleði hér og í næsta lífi er löng og stundum ströng. Það krefst tíma og þrautseigju að ganga hana. En vitanlega eru launin gríðarmikil. Sannleikur þessi er kenndur á skíran og sannfærandi hátt í kapítula 32 í Alma í Mormónsbók. Þar kennir hinn mikli háprestur, að ef Guðs orð er gróðursett í hjörtu okkar sem sáðkorn og ef við sinnum því nógu mikið með vatni, sniðlun, næringu og hvatningu, mun það í framtíðinni bera ávöxt „sem er dýrmætur,…ljúffengari en allt, sem ljúffengt er,“ en neysla hans veldur því að maður verður hvorki þyrstur, né svangur aftur.13

Margar lexíur finnast í þessum merkilega kapítula, en rauði þráðurinn er sú frumregla að næra þarf sáðkornið og við þurfum að bíða eftir því að það þroskist og „vænta ávaxtar þess með augum trúarinnar.“14 Uppskera okkar, segir Alma, mun koma „senn.“15 Ekki að undra að hann lýkur þessari athyglisverðu leiðsögn á því að endurtaka þrisvar ákallið um kostgæfni og þolinmæði við að næra orð Guðs í hjörtum okkar og „[langlundargeð] við að „bíða,“ eins og hann segir, „eftir að tréð færi ykkur ávöxt.“16

Kóvíd og krabbamein, efasemdir og óánægja, fjárhagsvandræði og fjölskylduerfiðleikar. Hvenær léttir þessum byrðum? Svarið er „senn.“17 Hvort um sé að ræða langan tíma eða skamman, er ekki alltaf okkar að segja til um, en af náð Guðs munu blessanirnar koma til þeirra sem halda sér fast að fagnaðarerindi Jesú Krists. Mál þetta var til lykta leitt í einkagarði og á almenningshæð í Jerúsalem fyrir löngu síðan.

Er við hlýðum á ástkæran spámann okkar ljúka þessari ráðstefnu, skulum við minnast þess, eins og Russell Nelson hefur sýnt allt sitt líf, að þeir sem „vona á Drottin fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“18 Ég bið þess að senn – og fyrr eða síðar – munu blessanir þessar streyma til allra sem leita að líkn frá sorgum og frelsi frá harmi. Ég ber vitni um elsku Guðs og um endurreisn hins dýrðlega fagnaðarerindis hans, sem á einn eða annan hátt er svarið við öllum vanda lífsins. Í hinu endurleysandi nafni Drottins Jesú Krists, amen.