Aðalráðstefna
Verið vonglöð
Aðalráðstefna október 2020


Verið vonglöð

Óbifanleg trú okkar á kenningu hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists stýrir skrefum okkar og veitir okkur gleði.

Á síðustu dögum jarðneskrar þjónustu sinnar, sagði Jesús Kristur postulum sínum frá ofsóknunum og þrengingunum sem þeir myndu upplifa.1 Hann lauk með þessari dásamlegu fullvissu: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn“ (Jóhannes 16:33). Þessi orð eru ætluð öllum börnum himnesks föður. Þetta eru hin endanlegu góðu tíðindi fyrir hvert okkar hér í jarðlífinu.

Það var líka þörf á fullvissu til að vera hughraustur í þeim heimi sem hinn upprisni Kristur sendi postula sína í. „Á allar hliðar erum vér aðþrengdir,“ sagði Páll postuli síðar við Korintubúa, „en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki, ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki“ (2. Korintubréf 4:8–9).

Ljósmynd
Jesús þjónar einum í senn

Tvö þúsund árum síðar, erum við líka „aðþrengd á allar hliðar“ og höfum líka þörf fyrir þessi sömu orð um að örvænta ekki, heldur að vera hughraust. Drottinn hefur látið sér einkar annt um og elskað sínar dýrmætu dætur. Hann þekkir þrár ykkar, þarfir og ótta. Drottinn er almáttugur. Treystið honum.

Spámanninum Joseph Smith var kennt að „hvorki er unnt að ónýta verk Guðs, áætlanir hans eða tilgang, né gera þau að engu“ (Kenning og sáttmálar 3:1). Drottinn veitti hinum baslandi börnum sínum þessa fullvissu:

„Sjá, þetta er fyrirheit Drottins til yðar, ó þér, þjónar mínir.

Verið þess vegna vonglaðir og óttist ei, því að ég, Drottinn, er með yður og mun standa með yður. Og þér skuluð vitna um mig, já, Jesú Krist, að ég er sonur hins lifanda Guðs“ (Kenning og sáttmálar 68:5–6).

Drottinn er okkur nærri og hann sagði:

„Það sem ég segi einum segi ég öllum, verið vonglöð, litlu börn, því að ég er mitt á meðal yðar og ég hef ekki yfirgefið yður“ (Kenning og sáttmálar 61:36).

„Því að eftir mikið mótlæti koma blessanirnar“ (Kenning og sáttmálar 58:4).

Systur, ég ber vitni um að þessi loforð, gefin mitt í ofsóknum og persónulegum hörmungum, eiga við um hverja ykkar í hinum erfiðu aðstæðum okkar tíma. Þau eru dýrmæt og minna hvert okkar á að vera hughraust og gleðjast í fyllingu fagnaðarerindisins, er við sækjum fram í áskorunum jarðlífsins.

Andstreymi og áskoranir eru almenn upplifun jarðlífsins. Mótlæti er nauðsynlegur hluti hinnar guðlegu áætlunar til að hjálpa okkur að vaxa2 og mitt í þeirri framvindu höfum við fullvissu Guðs um að í eilífu ljósi mun mótlætinu ekki leyft að yfirbuga okkur. Með hans hjálp og trúfesti og þrautseigju okkar munum við sigra. Líkt og á við um hið jarðneska líf sem við erum hluti af, þá eru allar þrengingar einungis bundnar tíma. Í deilunum sem voru á undan hinu hörmulega stríði, minnti Abraham Lincoln forseti Bandaríkjanna áheyrendur sína á hinn forna vísdóm: „Þetta mun líka líða undir lok.“3

Eins og þið vitið, þá er það jarðneska mótlæti sem ég ræði um – sem erfitt er að vera hughraustur í – stundum almenns eðlis meðal margra, eins og á við um þær milljónir sem nú takast á við hinar mörgu afleiðingar Kóvíd-19 heimsfaraldursins. Að sama skapi, þá þjást milljónir Bandaríkjamanna vegna tímabils fjandskapar og árgreinings, sem alltaf virðist fylgja forsetakosningum, sem nú er ofsalegra en mörg okkar elstu fá munað.

Á persónulegum grunni tekst hvert okkar á við einhverja af mörgum áskorunum jarðlífsins, svo sem fátækt, kynþáttafordóma, heilsuleysi, atvinnumissi eða vonbrigði, villuráfandi börn, slæmt hjónaband eða löngun til hjónabands og áhrif syndarinnar – af eigin völdum eða annarra.

Mitt í þessu öllu, höfum við samt hina himnesku leiðsögn um að vera hughraust og gleðjast yfir reglum og loforðum fagnaðarerindisins og ávöxtum erfiðis okkar.4 Sú leiðsögn hefur alltaf verið í gildi, fyrir spámenn og okkur öll. Það vitum við af reynslu forvera okkar og því sem Drottinn sagði við þá.

Ljósmynd
Bróðir Joseph

Minnist aðstæðna spámannsins Josephs Smith. Sé horft í gegnum sjóngler mótlætis, þá bar líf hans vitni um fátækt, ofsóknir, vonbrigði, fjölskylduharmleik og loks píslarvætti. Þegar hann þoldi fangelsisvist, upplifðu eiginkona hans og börn og aðrir heilagir gríðarlegt harðræði þegar þau voru hrakin frá Missouri.

Þegar Joseph sárbað um líkn, svaraði Drottinn:

„Sonur minn, friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund.

Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum. Þú munt fagna sigri yfir öllum óvinum þínum“ (Kenning og sáttmálar 121:7–8).

Þetta var hin persónulega, eilífa leiðsögn sem hjálpaði spámanninum Joseph að viðhalda eðlislægu glaðlyndi sínu og kærleika og tryggð fólks síns. Þessir sömu eiginleikar styrktu leiðtoga og brautryðjendur sem fylgdu og geta líka styrkt ykkur.

Ljósmynd
Trúboðar fyrri tíðar á gangi í djúpum snjó

Hugsið um meðlimi fyrri tíðar. Þeir voru síendurtekið hraktir frá einum stað til annars. Að endingu þurftu þeir að takast á við þá áskorun að byggja upp heimili sín og kirkjuna í óbyggðunum.5 Tveimur árum eftir að fyrsta landnemasveitin kom í hinn mikla Saltvatnsdal, reyndist landnemunum enn erfitt og varasamt að búa á þessu óvinveitta svæði. Flestir meðlimanna voru enn á slóðinni yfir slétturnar eða í erfiðleikum með að afla sér aðfanga til þeirrar ferðar. Samt voru leiðtogar og meðlimir enn vongóðir og hughraustir.

Þótt hinir heilögu hefðu enn ekki komið sér fyrir í hinum nýju heimilum sínum, þá var ný sveit trúboða á aðalráðstefnu í október 1849 send til Skandinavíu, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Suður-Kyrrahafsins.6 Á því sem hefði verið hægt að telja þeirra lægstu lægðir, risu brautryðjendurnir upp í nýjar hæðir. Aðeins þremur árum síðar voru 98 kallaðir til viðbótar til að hefja samansöfnun hins tvístraða Ísraels. Einn af leiðtogum kirkjunnar útskýrði á þessum tíma að þessi trúboð „væru almennt ekki mjög löng; líklegt væri að hver maður verði fjarri fjölskyldu sinni svona frá 3 upp í 7 ár.“7

Systur, Æðsta forsætisráðið lætur sig skipta áskoranir ykkar. Við elskum og biðjum fyrir ykkur. Á sama tíma þökkum við oft fyrir að líkamlegar áskoranir okkar – fyrir utan jarðskjálfta, elda, flóð og fellibylji – eru yfirleitt minni en forverar okkar tókust á við.

Mitt í harðræðinu, verður hin guðlega fullvissa alltaf: „Verið vonglaðir, því að ég mun leiða yður. Ríkið er yðar og blessanir þess eru yðar og auðæfi eilífðarinnar eru yðar“ (Kenning og sáttmálar 78:18). Hvernig gerist þetta? Hvernig gerðist þetta meðal brautryðjendanna? Hvernig gerist þetta meðal kvenna Guðs á okkar tíma? Með því að við treystum hinni spámannlegu leiðsögn, að „hlið heljar [mun] eigi á [okkur] sigrast,“ eins og Drottinn sagði í opinberun í apríl 1830. „Já,“ sagði hann, „… Drottinn Guð mun dreifa valdi myrkursins frá yður og láta himnana bifast yður til góðs og nafni sínu til dýrðar“ (Kenning og sáttmálar 21:6). „Óttast þess vegna ekki, litla hjörð. Gjörið gott, leyfið jörð og helju að sameinast gegn yður, því að ef þér byggið á bjargi mínu, fá þær eigi á yður sigrast“ (Kenning og sáttmálar 6:34).

Með loforðum Drottins, „[lyftum við] upp hjarta [okkar] og [fögnum]“ (Kenning og sáttmálar 25:13) og „með léttu hjarta og svip“ (Kenning og sáttmálar 59:15), sækjum við fram á sáttmálsveginum. Flest stöndum við ekki frammi fyrir risastórum ákvörðunum, eins og að yfirgefa heimili okkar til að verða landnemar á óþekktu svæði. Ákvarðanir okkar snúast aðallega um daglegar venjur lífsins, en eins og Drottinn hefur sagt: „Þreytist þess vegna ekki á að gjöra gott, því að þér eruð að leggja grunninn að miklu verki. Og af hinu smáa sprettur hið stóra“ (Kenning og sáttmálar 64:33).

Það er ótakmarkaður kraftur í kenningu hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Óbifanleg trú okkar á þeirri kenningu stýrir skrefum okkar og veitir okkur gleði. Hún upplýsir huga okkar og glæðir verk okkar styrk og sjálfstrausti. Þessi leiðsögn og uppljómun og kraftur eru fyrirheitnar gjafir sem við höfum hlotið frá himneskum föður okkar. Með því að skilja þá kenningu og lifa eftir henni, þar á meðal hinni guðlegu gjöf iðrunar, þá getum við verið hughraust er við höldum okkur á veginum í átt að okkar eilífu örlögum – að sameiningu og upphafningu með okkar kærleiksríku himnesku foreldrum.

„Þið gætuð staðið frammi fyrir yfirþyrmandi áskorunum,“ sagði öldungur Richard G. Scott. „Stundum eru þær svo miklar og óvægnar að ykkur finnst þið ekki geta tekist á við þær. Takist ekki einsömul á við heiminn. ‚[Treystið] Drottni af öllu hjarta, en [reiðið ykkur] ekki á eigið hyggjuvit‘ [Orðskviðirnir 3:5]. … Lífinu var ætlað að vera áskorun, ekki til að ykkur mistækist, heldur til að þið nytuð farsældar og sigurs“8

Þetta er allt hluti af áætlun Guðs föður og sonar hans, Jesú Krists, sem ég ber vitni um, er ég bið þess að við megum öll sækja fram til okkar himneska ákvörðunarstaðar, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Jóhannes 13–16.

  2. Sjá 2. Nefí 2:11.

  3. Abraham Lincoln, ræða flutt í Landbúnaðarfélagi Milwaukee í Wisconsin-fylki, 30. sept. 1859; í John Bartlett, Bartlett’s Familiar Quotations, 18. bindi (2012), 444.

  4. Sjá Kenning og sáttmálar 6:31.

  5. Sjá Lawrence E. Corbridge, „Surviving and Thriving like the Pioneers,“ Ensign, júlí 2020, 23–24.

  6. Sjá „Minutes of the General Conference of 6 October 1849,“ almennt fundabókunarsafn kirkjunnar, Church History Library, Salt Lake City.

  7. George A. Smith, í Journal History of The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 28. ágúst 1852, 1, Church History Library, Salt Lake City.

  8. Richard G. Scott, Finding Peace, Happiness, and Joy (2007), 248–49.