2010–2019
Heimili þar sem andi Drottins dvelur
Apríl 2019


Heimili þar sem andi Drottins dvelur

Þið munið finna einhverja mestu gleðina í því að gera heimili ykkar að stað trúar á Drottin Jesú Krist og stað sem er fylltur kærleika.

Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir boðið um að tala til ykkar á þessari 189. aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Á þessum degi, árið 1830, stofnaði Joseph Smith kirkjuna, með leiðsögn Drottins. Það átti sér stað á heimili Whitmer-fjölskyldunnar, nærri Fayette, New York. Dag þennan voru sex meðlimir saman komnir þar og um 50 aðrir áhugasamir.

Þótt ég viti ekki hvað spámaðurinn Joseph sagði eða hvernig hann leit út þegar hann stóð frammi fyrir þessum fámenna hópi, þá skil ég líðan þessa fólks, sem átti trú á Jesú Krist. Það skynjaði heilagan anda og fannst það vera á helgum stað. Vissulega fannst þeim þau vera sameinuð sem eitt.

Þá dásamlegu tilfinningu þráum við öll á heimili okkar. Sú tilfinning á rætur í því sem Páll sagði vera „hyggja andans.“1

Í dag ætla ég að útskýra hvernig við getum tileinkað okkur þessa tilfinningu oftar og lengur í fjölskyldum okkar. Það er ekki auðvelt, líkt og þið vitið af eigin reynslu. Halda þarf deilum, drambi og synd í skefjum. Hin hreina ást Krists verður að ríkja í hjörtum allra í fjölskyldunni.

Adam og Evu, Lehí og Saríu og öðrum foreldrum, sem við þekkjum í ritningunum, fannst það mikil áskorun. Það eru þó dæmi um varanlega hamingju í fjölskyldum og á heimilum sem hvetja okkur og hughreysta. Þessi dæmi sýna hvernig það getur orðið að veruleika hjá okkur og í okkar eigin fjölskyldum. Þið munið eftir frásögninni í 4. Nefí:

„Og svo bar við, að engar deilur voru í landinu vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins.

Og engin öfund var, né erjur, róstur, hórdómur, lygar, morð eða nokkurt lauslæti. Og vissulega gat ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað.

Engir ræningjar voru, né morðingjar, né voru þar Lamanítar eða yfirleitt nokkrir -ítar, heldur voru allir eitt, börn Krists og erfingjar að Guðsríki.

Og hve blessaðir þeir eru! Því að Drottinn blessaði öll verk þeirra. Já, þau voru blessuð, og þeim vegnaði vel, þar til eitt hundrað og tíu ár voru liðin. Og fyrsta kynslóðin eftir Krist var liðin undir lok, og engar deilur voru í öllu landinu.“2

Líkt og ykkur er ljóst, þá var þessi hamingjutíð ekki varanleg. Frásögnin í 4. Nefí greinir frá þeim einkennum andlegrar hnignunar sem urðu að lokum í samfélagi góðs fólks. Þetta er mynstur sem í aldanna rás hefur sýnt sig meðal heilla þjóða, safnaða og, enn hryggilegra, meðal fjölskyldna. Við getum, með því að skilja mynstrið, séð hvernig við gætum viðhaldið elsku og jafnvel aukið þá tilfinningu í fjölskyldu okkar.

Hér er mynstur hnignunar sem sýndi sig eftir að fólkið hafði lifað í 200 ár í þeim algjöra friði sem felst í fagnaðarerindinu:

Drambið læddist að.

Fólkið hætti að miðla því sem það átti saman.

Það tók að sjá sig sem æðri eða lægri stéttir.

Það tók að draga úr trú þess á Jesú Krist.

Það tók að hata.

Það tók að drýgja hvers kyns syndir.

Skynsamir foreldrar taka fljótt eftir þessum einkennum þegar þau koma fram í fjölskyldumeðlimum. Auðvitað verða þau áhyggjufull. Þau vita þó að megin ástæðan felst í þeim áhrifum Satans að reyna að leiða gott fólk inn á veg syndar og frá áhrifum heilags anda. Hið skynsama foreldri mun því skilja að lausnin felst í því að leiða hvert barn, og sig sjálft, til að meðtaka það boð Drottins að koma til hans af heilum huga.

Árangur ykkar gæti verið takmarkaður við að kalla barn til iðrunar, til að mynda vegna drambs. Þið gætuð reynt að sannfæra börn um að gefa meira af sér. Þið gætuð beðið þau að láta af því að finnast þau betri en einhver annar í fjölskyldunni. Þá komum við að þeim einkennum sem ég lýsti svona áður: „Það tók að draga úr trú þess á Jesú Krist.“

Þetta er lykillinn að því að leiða fjölskyldu ykkar að þeim andlega stað sem þið óskið henni – og að þið verðið þar með henni. Þegar þið hjálpið fjölskyldu ykkar að vaxa í trú á að Jesús Kristur sé kærleiksríkur frelsari þeirra, munu þau þrá að iðrast. Þegar það gerist, mun auðmýkt koma í stað drambs. Þegar þau taka að skynja það sem Drottinn hefur gefið þeim, munu þau verða fúsari til að gefa af sér. Draga mun úr misklíð og metingi um eigið ágæti. Illvilji mun lúta fyrir elsku. Loks, eins og gerðist meðal fólksins sem Benjamín konungur snéri til trúar, mun þráin til að gera gott vernda þau gegn freistingu syndar. Fólk Benjamíns konungs vitnaði að það „[hneigðist] ekki lengur til illra verka.“3

Að byggja upp trú á Jesú Krist, er því upphafið að því að snúa við andlegri hnignun í fjölskyldu og á heimili ykkar. Slík trú er líklegri til að leiða til iðrunar, en prédikun ykkar gegn öllum einkennum andlegrar hnignunar.

Þið leiðið best með fordæmi. Fjölskyldumeðlimir og aðrir þurfa að sjá ykkur vaxa í trú á Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Nýlega hefur ykkur hlotnast mikið liðsinni. Foreldrar í kirkjunni hafa verið blessaðir með innblásnu námsefni fyrir fjölskyldur og einstaklinga. Með því að nota það munuð þið auka trú ykkar sjálfra og barna ykkar á Drottin Jesú Krist.

Vaxa í trú

Trú ykkar á frelsarann hefur vaxið er þið hafi fylgt þeirri leiðsögn Russells M. Nelson forseta að endurlesa Mormónsbók. Þið merktuð við vers og orð sem áttu við um frelsarann. Trú ykkar á Jesú Krist hefur vaxið. Slík trú á Jesú Krist mun visna, líkt og ný planta, nema þið einsetjið ykkur að biðja og ígrunda til að auka við hana.

Ekki er víst að allir í fjölskyldu ykkar fylgi því fordæmi ykkar að vaxa í trú á þessari stundu. Gætið þó að upplifun Alma yngri. Í sárri neyð fyrir iðrun og fyrirgefningu, minntist hann trúar föður síns á Jesú Krist. Börn ykkar gætu minnst ykkar trúar á frelsarann einhvern tíma þegar þau hafa mikla þörf á iðrun. Alma sagði um slíka stund:

„Og svo bar við, að meðan ég þannig leið nístandi kvöl og hrjáðist af endurminningunni um hinar mörgu syndir mínar, sjá, þá minntist ég einnig þess að hafa heyrt föður minn spá fyrir fólkinu, að Jesús nokkur Kristur, sonur Guðs, mundi koma og friðþægja fyrir syndir heimsins.

Þegar hugur minn náði nú tökum á þessari hugsun, hrópaði ég í hjarta mínu: Ó Jesús, þú sonur Guðs, vertu mér miskunnsamur, sem fastur er í beiskjugalli og reyrður ævarandi hlekkjum dauðans.

Og sjá. Þegar ég hugleiddi þetta, gleymdi ég kvölum mínum. Já, minningin um syndir mínar hrjáði mig ekki lengur.“4

Biðja af elsku

Auk fordæmis ykkar um að vaxa í trú, getur bænagjörð fjölskyldu ykkar verið mikilvægur þáttur í að gera heimilið að helgum stað. Einn einstaklingur er yfirleitt valinn til að biðja fyrir hönd fjölskyldu. Þegar bænin er auðheyranlega til Guðs í þágu þeirra sem krjúpa og hlusta, vaxa allir að trú. Þau geta skynjað kærleikstjáningu til himnesks föður og frelsarans. Þegar svo sá sem flytur bænina minnist þeirra sem krjúpa í fjölskylduhringnum og eru í neyð, fær sérhver skynjað kærleiksþelið á milli allra í fjölskyldunni.

Bænin getur styrkt kærleiksböndin, jafnvel þótt fjölskyldumeðlimur búi ekki á heimilinu. Bæn fjölskyldu getur náð þvert yfir heiminn. Oftar en einu sinni hef ég frétt að fjölskyldumeðlimur á fjarlægum stað hafi beðist fyrir á sama tíma og ég sjálfur og um sama efnið. Mér finnst að bæta mætti við hið gamla orðtak „fjölskylda sem biður saman, stendur saman,“ og segja, „fjölskylda sem biður saman, stendur saman, jafnvel fjarri hvert öðru.“

Kenna iðrun í tíma

Þar sem ekkert okkar er fullkomið og auðvelt er að særast tilfinningalega, geta fjölskyldur aðeins orðið helgur griðarstaður með því að iðrast einlæglega í tíma. Foreldrar geta sýnt fordæmi. Iðrast má skjótt og einlæglega vegna óvæginna orða eða hugsana. Græða má sár og bjóða fram bæði fyrirgefningu og elsku með því einfaldlega að segja: „Mér þykir það leitt.“

Spámaðurinn Joseph Smith var okkur fyrirmynd er hann brást við forhertum árásum svikara og jafnvel ósætti innan fjölskyldu hans. Hann var fljótur til að fyrirgefa, jafnvel þótt hann vissi að sá hinn sami gæti ógnað aftur. Hann baðst fyrirgefningar og fyrirgaf fúslega.5

Leggja rækt við trúboðsanda

Synir Mósía voru staðráðnir í því að færa öllum fagnaðarerindið. Sú þrá spratt af persónulegri reynslu þeirra af iðrun. Þeir fengu ekki borið þá hugsun að einhver þjáðist af völdum syndar, líkt og þeir höfðu gert. Þeir tókust því á við margra ára höfnun, áþján og hættu við að færa óvinum sínum fagnaðarerindið. Við þá iðju upplifðu þeir gleði yfir þeim mörgu sem iðruðust og fundu gleði fyrirgefningar fyrir tilstilli friðþægingar Jesú Krists.

Fjölskylda okkar mun hljóta aukna þrá til að miðla fagnaðarerindinu þegar hún finnur gleði fyrirgefningar. Það getur jafnvel gerst þegar þau endurnýja sáttmála sína með viðtöku sakramentis. Andi trúboðs mun aukast á heimilum okkar, þegar börn og foreldrar finna gleði fyrirgefningar við þjónustu sakramentis. Bæði foreldrar og börn geta, með fordæmi lotningar, hjálpað hvert öðru að finna þá gleði. Sú gleði getur að miklu leyti gert heimili okkar að trúboðsskóla. Ekki er víst að þau þjóni öll í trúboði, en öll munu þau þrá að miðla fagnaðarerindinu, sem varð til þess að þau fundu fyrirgefningu og frið. Allir geta fundið gleði í því að færa öðrum fagnaðarerindið, hvort sem þeir þjóna nú í fastatrúboði eða ekki.

Sækja musterið heim

Í musterinu er best að upplifa kærleikstilfinningu helgra staða, bæði fyrir foreldra og börn. Það á einkum við þegar börnin eru ung. Börnin fæðast með ljós Krists. Jafnvel ungt barn getur fundið heilagleika musterisins. Foreldrar elska litlu börnin sín og musterið táknar vonina um að þau geti haft börn sín hjá sér til að elska í eilífri fjölskyldu þeirra – um eilífð.

Sum ykkar eigið ljósmyndir af musterum á heimili ykkar. Þar sem musterum fer fjölgandi á jörðunni, er mörgum foreldrum mögulegt að fara með fjölskylduna á musterislóðir. Einhverjir gætu jafnvel farið í opið hús, eftir byggingu mustera. Foreldrar gætu spurt börnin hvernig þeim líði að vera í musterinu eða í nálægð þess.

Allir foreldrar geta borið vitni um þýðingu musterisins fyrir sig. Ezra Taft Benson forseti, sem elskaði musterin, talaði oft um að hafa fylgst með móður sinni strauja vandlega musterisfatnað sinn.6 Hann talaði um þá minningu að hafa, sem drengur, horft á fjölskyldu sína fara að heiman til musterisins.

Þegar hann var forseti kirkjunnar, fór hann í musterið á sama degi í viku hverri. Hann framkvæmdi alltaf musterisverk fyrir áa. Það mátti að mestu rekja til fordæmis foreldra hans.

Vitnisburður minn

Þið munið finna einhverja mestu gleðina í því að gera heimili ykkar að stað trúar á Drottin Jesú Krist og stað sem er fylltur kærleika, hinni hreinu ást Krists. Endurreisn fagnaðarerindisins hófst með auðmjúkri spurningu sem ígrunduð var á fábrotnu heimili og svo getur einnig verið á heimili hvers okkar, ef við ræktum og iðkum þar reglur fagnaðarerindisins. Það hefur verið mín von og dýpsta þrá allt frá því að ég var lítill drengur. Þið hafið öll fengið nasasjón af slíku heimili. Mörg ykkar hafið, með hjálp Drottins, skapað þau.

Sum ykkar hafið reynt af einlægu hjarta að hljóta þá blessun, án þess að hún veittist. Ég lofa ykkur því sama og mér var eitt sinn lofað af fyrrverandi meðlimi Tólfpostulasveitarinnar. Ég sagði við hann að ég efaðist um að sumir í stórfjölskyldunni gætu verið með okkur í komandi heimi, vegna ákvarðana þeirra. Hann sagði, að því að ég best man: „Þú hefur áhyggjur af röngum vanda. Þú skalt sjálfur lifa verðugur himneska ríkisins og fjölskylduhagir þínir verða dásamlegri en þú færð ímyndað þér.“

Ég trúi að hann hefði fært þessa sæluvon sérhverju okkar í jarðlífinu, sem höfum gert allt í okkar valdi til að búa okkur sjálf og fjölskyldu okkar undir eilíft líf. Ég veit að áætlun himnesks föður er sæluáætlun. Ég ber vitni um að áætlun hans gerir sérhverju okkar, sem höfum gert allt í okkar valdi, mögulegt að innsiglast sem eilíf fjölskylda.

Ég veit að prestdæmislyklarnir sem endurreistir voru Joseph Smith, hafa í óslitinni línu verið veittir Russell M. Nelson forseta. Þeir lyklar gera innsiglun fjölskyldna mögulega á okkar tíma. Ég veit að himneskur faðir elskar okkur, andabörn sín, fullkominni elsku. Ég veit að sökum friðþægingar Jesú Krists, getum við iðrast, hreinsast og orðið verðug þess að lifa að eilífu sem kærleiksríkar fjölskyldur með himneskum föður og hans ástkæra syni, Jesú Kristi. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.