2010–2019
Hvernig fæ ég skilið?
Apríl 2019


Hvernig fæ ég skilið?

Þegar við reynum af alvöru, hjartanlega, ákveðið og einlæglega að læra fagnaðarerindi Jesú Krists og kenna það öðrum, geta þessar kenningar umbreytt hjörtum.

Kæru bræður og systur, hve gleðilegt það er að vera hér aftur á þessari dásamlegu aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, undir stjórn okkar ástkæra spámanns, Russells M. Nelson forseta. Ég ber ykkur vitni um að við munum njóta þeirra forréttinda að hlusta á rödd frelsara okkar, Jesú Krists, í kenningum þeirra sem flytja bænir, syngja og tala á þessari ráðstefnu, um þarfir okkar tíma.

Eins og skráð er í Postulasögunni, þá kenndi boðberinn Filippus ákveðnum manni frá Eþíópíu, fagnaðarerindið, en hann var geldingur og settur yfir alla fjárhirslu drottningar Eþíópíu.1 Þegar hann koma frá tilbeiðslu í Jerúsalem las hann í Bók Jesaja. Filippus nálgaðist hann, knúinn af andanum, og sagði: „Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?

[Geldingurinn] svaraði: Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér? …

Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú.“2

Spurning þessa eþíópíska manns er áminning um hina guðlegu ábyrgð okkar allra að læra og kenna hvert öðru fagnaðarerindi Jesú Krists.3 Við erum í raun stundum eins og eþíópíski maðurinn er við lærum og kennum fagnaðarerindið – við þurfum hjálp trúfasts og innblásins kennara; og við erum stundum eins og Filippus – við þurfum að kenna og styrkja aðra í trú þeirra.

Tilgangur okkar með því að læra og kenna fagnaðarerindi Jesú Krists, verður að vera að efla trú okkar á Guð og hans dásamlegu sæluáætlun og á Jesú Krist og friðþægingarfórn hans og ná varanlegri trúarumbreytingu. Slík aukin trú og trúskipti, munu hjálpa okkur að gera og halda sáttmála við Guð, auka þrá okkar til að fylgja Jesú Kristi og vekja í okkur raunverulega andlega umbreytingu – munu, með öðrum orðum, skapa okkur að nýju, eins og Páll postuli kennir í bréfi sínu til Korintubúa.4 Þessi umbreyting mun leiða til hamingjuríkara, afkastameira og heilbrigðara lífs, með eilífri yfirsýn. Er þetta ekki einmitt það sem gerðist með eþíópíska geldinginn eftir að hann lærði um frelsarann og snerist til trúar á fagnaðarerindi hans. Ritningin segir hann hafa „[farið] fagnandi leiðar sinnar.“5

Boðið um að læra og kenna hvert öðru fagnaðarerindið er ekki nýtt; það hefur stöðugt verið endurtekið allt frá upphafi mannkynssögunnar.6 Við eitt ákveðið tækifæri, er Móse og fólk hans voru á sléttum Móabs, áður en þau fóru í fyrirheitna landið, innblés Drottinn hann til að minna fólkið á þá ábyrgð sína að læra lögmálin og sáttmálana sem það hafði meðtekið frá Drottni og kenna það afkomendum sínum,7 sem margir hverjir höfðu ekki upplifað förina yfir Rauðahafið eða opinberunina sem Móse hlaut á Sínaífjalli

Móse áminnti fólk sitt:

„Heyr þú nú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég kenni yður, til þess að þér haldið þau, svo að þér megið lifa og komast inn í það land, sem Drottinn, Guð feðra yðar, gefur yður, og fá það til eignar. …

… [gjörið það kunnugt] börnum [ykkar] og barnabörnum.“8

Móse sagði að endingu: „Þú skalt varðveita boð hans og skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig, og til þess að þú alla daga megir dvelja langa ævi í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.“9

Spámenn Guðs hafa stöðugt boðað nauðsyn þess að börn okkar séu alin upp í „umhyggju og [áminningum] Drottins“10 og „í ljósi og sannleika.“11 Nelson forseti sagði nýlega: „Á þessum tíma óstjórnlegs siðleysis og klámánetjunar, ber foreldrum að axla þá helgu ábyrgð að kenna börnum sínum mikilvægi Guðs [og Jesú Krists] fyrir líf þeirra.“12

Bræður og systur, þessi áminning spámanns okkar, undirstrikar ennfrekar þá persónulegu ábyrgð að læra og kenna börnum okkar að þekkja himneskan föður, sem elskar okkur og hefur búið börnum sínum dýrðlega sæluáætlun; að Jesús Kristur, sonur hans, er lausnari heimsins; og að sáluhjálp hljótist fyrir trú á nafn hans.13 Líf okkar þarf að vera grundvallað á bjargi lausnara okkar, Jesú Kristi, sem getur liðsinnt okkur persónulega og fjölskyldum okkar, við að rita hin andlegu áhrif í hjörtu okkar, sem geta gert okkur kleift að standast í trú allt til enda.14

Þið munið kannski eftir að tveir af lærisveinum Jóhannesar skírara tóku að fylgja Jesú Kristi, eftir að þeir heyrðu Jóhannes skírara vitna um að Jesús væri Guðslambið, Messías. Þessir góðu menn tóku á móti boði Jesú um að „[koma og sjá]“15 og fóru með honum þann dag. Þeir uppgötvuðu að Jesús var Messías, sonur Guðs, og fylgdu honum það sem eftir lifði ævi þeirra.

Þegar við, á sama hátt, tökum á móti boði frelsarans um að „koma og sjá,“ þurfum við að hlýða honum, sökkva okkur niður í ritningarnar, gleðjast yfir þeim, læra kenningu hans og reyna að lifa að hans hætti. Einungis þannig munum við þekkja hann, Jesú Krist, og rödd hans og vita að okkur mun aldrei hungra eða þyrsta, ef við komum til hans og trúum á hann.16 Við munum alltaf fá greint sannleikann, eins og átti við um lærisveinana tvo, sem hlýddu Jesú þennan dag.

Bræður og systur, það gerist ekki af hendingu. Að gera okkur samhljóma æðstu áhrifum guðleikans, er ekki einfalt mál; það krefst þess að við áköllum Guð og lærum hvernig hafa á fagnaðarerindi Jesú Krists að þungamiðju lífs okkar. Ef við gerum það, heiti ég ykkur því að áhrif heilags anda munu vekja sannleika í hjarta ykkar og huga og vitna um hann17 og kenna alla hluti.18

Spurning eþíópíska mannsins: „Hvernig ætti ég að fá [skilið] það, ef enginn leiðbeinir mér?“ hefur sérstaka merkingu varðandi ábyrgð okkar sjálfra við að hagnýta í lífi okkar þær reglur fagnaðarerindisins sem við höfum lært. Í tilviki eþíópíska mannsins, þá tileinkaði hann sér sannleikann sem hann lærði af Filippus. Hann fór þess á leit að hann fengi að skírast. Hann skildi að Jesús Kristur væri sonur Guðs.19

Bræður og systur, verk okkar verða að endurspegla það sem við lærum og kennum. Við þurfum því að sýna trú með lífsháttum okkar. Hin góða fyrirmynd er besti kennarinn. Að kenna eitthvað sem við sannlega lifum eftir, getur gert gæfumuninn í hjörtum þeirra sem við kennum. Ef við þráum að fólk, fjölskylda okkar eða aðrir, varðveiti ritningarnar af gleði og kenningar lifandi postula og spámanna okkar tíma, þurfa þau að sjá sál okkar hafa unun af þeim. Á sama hátt, ef viljum að þeir viti að Russell M. Nelson forseti sé spámaður, sjáandi og opinberari á okkar tíma, þurfa þeir að sjá okkur rétta upp hönd honum til stuðnings og að við lifum eftir innblásnum kenningum hans. Líkt og vel kunnugt bandarískt orðtak segir: „Verk tala hærra en orð.“

Kannski hugsa sum ykkar, einmitt á þessu andartaki: „Öldungur Soares, ég hef gert allt þetta og fylgt þessari fyrirmynd, bæði persónulega og í fjölskyldunni, en því miður hafa sumir vinir og ástvinir mínir fjarlægt sig Drottni. Hvað á ég að gera?“ Fyrir þau ykkar sem einmitt nú upplifa dapurleika, þjáningar og jafnvel eftirsjá, vitið að ástvinir ykkar eru ekki algjörlega glataðir, því Drottinn þekkir stöðu þeirra og vakir yfir þeim. Munið eftir að þau eru líka hans börn!

Það er erfitt að skilja nákvæmlega afhverju sumir hafa kosið sér annan veg. Það besta sem við getum gert fyrir þau í þessum aðstæðum, er einfaldlega að elska og styðja þau, biðja fyrir velferð þeirra og biðja Drottin að hjálpa okkur að vita hvað gera og segja skal. Gleðjist með þeim yfir velgengni þeirra og verið vinir þeirra og leggið áherslu á hið góða í þeim. Við ættum aldrei að gefast upp á þeim, heldur varðveita sambönd okkar. Hafnið þeim aldrei eða dæmið ranglega. Elskið þau bara! Dæmisagan um glataða soninn kennir að oft þrái börnin að koma heim, þegar þau koma til sjálfs sín. Ef það gerist, látið þá samúð fylla hjarta ykkar, hlaupið til þeirra, takið utan um þau og kyssið þau, líkt og faðir glataða sonarins gerði.20

Haldið loks áfram að lifa verðuglega, vera þeim góð fyrirmynd trúar og vera í nálægð frelsara okkar, Jesú Krists. Hann þekkir og skilur sársauka okkar og djúpa sorg og mun sjá til þess að viðleitni ykkar og hollusta verði ástvinum ykkar til blessunar, ef ekki í þessu lífi, þá því næsta. Hafið ætíð í huga, kæru systkin, mikilvægi vonar í áætlun fagnaðarerindisins.

Á mörgum þjónustuárum mínum í kirkjunni, hef ég séð trúfasta meðlimi sem hafa stöðugt tileinkað sér þessar reglur. Það á við um einstæða móður, sem ég mun nefna „Mary.“ Dapurlegt var að Mary fór í gegnum átakanlegan skilnað. Á þeim tímamótum varð Mary ljóst að mikilvægustu ákvarðanir hennar varðandi fjölskylduna, væru andlegs eðlis. Ættu bænir, ritninganám, fasta og kirkju- og musterissókn áfram að vera henni mikilvægt?

Mary hafði ávallt verið trúföst og á þessum mikilvægu tímamótum ákvað hún að halda fast við það sem hún vissi þegar að var sannleikur. Hún fann styrk í „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ sem, meðal margra annarra dásamlegra reglna, kennir að „foreldrar beri þá helgu skyldu að ala börn sín upp í kærleika og réttlæti“ og kenna þeim að lifa alltaf eftir boðorðum Guðs. 21 Hún leitaði stöðugt svara hjá Drottni og miðlaði þeim börnunum sínum fjórum við hin ýmsu tækifæri fjölskyldunnar. Þau töluðu oft um fagnaðarerindið og miðluðu hvert öðru upplifunum og vitnisburðum.

Þrátt fyrir sorgarstundir barna hennar, lærðu þau að elska fagnaðarerindi Krists og þráðu að þjóna og miðla því öðrum. Þrjú þeirra þjónuðu í trúfastlega í trúboði og hið yngsta þjónar nú í Suður-Ameríku. Elsta dóttir hennar, sem ég þekki nokkuð vel, sem nú er gift og sterk í trú sinni, sagði: „Mér fannst mamma aldrei ein við uppeldið, því Drottinn var alltaf á heimili okkar. Við tókum öll að fara til hans með eigin spurningar, eftir því sem hún bar okkur vitni um hann. Ég er svo þakklát fyrir að hún gæddi fagnaðarerindið lífi.“

Bræður og systur, þessari góðu móður tókst að gera heimili sitt að miðstöð andlegs lærdóms. Líkt og með spurningu eþíópíska mannsins, þá spurði Mary sig sjálfa nokkrum sinnum: „Hvernig geta börnin mín lært án leiðsagnar móður?“

Kæru félagar mínir í fagnaðarerindinu, ég ber vitni um að þegar við lærum fagnaðarerindi Jesú Krists af alvöru, hjartanlega, af ábyrgð og einlæglega og kennum það öðrum af einlægum ásetningi og með áhrifum andans, geta þessar kenningar umbreytt hjörtum og innblásið þrá til að lifa í samhljóm við sannleika Guðs.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er frelsari heimsins. Hann er lausnarinn og hann lifir. Ég veit að hann leiðir kirkju sína fyrir meðalgöngu spámanna sinna, sjáenda og opinberara. Ég ber einnig vitni um að Guð lifir, að hann ann okkur. Hann vill fá okkur aftur í nærveru sína – öllsömul. Hann hlustar á bænir okkar. Um þann sannleika vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.