2010–2019
Máttur trúarlegs stuðnings
Apríl 2019


Máttur trúarlegs stuðnings

Er þið réttið upp hönd til stuðnings, gefið þið Guði loforð um að styðja þessa þjóna hans.

Oft hef ég heyrt prestdæmisleiðtoga færa þakkir fyrir styrkjandi trú þeirra sem þeir þjóna. Af raddblæ þeirra má ráða að þakklæti þeirra er innilegt og einlægt. Í dag ætla ég að tjá þakklæti Drottins fyrir stuðning ykkar við þjóna hans í kirkju hans. Það geri ég líka til að hvetja ykkur til að iðka þann kraft til að styðja aðra með trú ykkar og vaxa af því.

Áður en þið fæddust, sýnduð þið slíkan eiginleika. Hugsið um það sem við vitum um andaheiminn áður en við fæddumst. Himneskur faðir kynnti börnum sínum áætlun. Við vorum þar viðstödd. Lúsífer, andabróðir okkar, fór gegn áætluninni, sem leyfði að við hefðum valfrelsi. Jehóva, hinn ástkæri sonur himnesks föður, studdi áætlunina. Lúsífer var í forsvari uppreisnar. Samþykkjandi rödd Jehóva hafði betur og hann bauð sig fram sem frelsara okkar.

Sú staðreynd að þið eruð nú í jarðlífinu, staðfestir að þið tókuð afstöðu með föðurnum og frelsaranum. Það tók trú á Jesú Krist til að styðja sæluáætlunina og hlutverk Jesú Krists í henni, þegar þið vissuð harla lítið um þær áskoranir sem biðu ykkar í jarðlífinu.

Trú ykkar til að styðja þjóna Guðs hefur líka veitt ykkur hjartans gleði í þessu lífi. Þegar þið tókuð á móti áskorun trúboðanna um að biðjast fyrir til að vita að Mormónsbók væri orð Guðs, höfðuð þið trú til að styðja þjón Drottins. Þegar þið tókuð á móti boðinu um að láta skírast, studduð þið auðmjúkan þjón Guðs.

Þegar þið leyfðuð einhverjum að setja hönd á höfuð ykkar og segja: „Meðtak hinn heilaga anda,“ studduð þið hann sem Melkísedeksprestdæmishafa.

Frá þeim degi hafið þið, með dyggri þjónustu, stutt hvern þann sem veitti ykkur prestdæmið og hvern þann sem hefur vígt ykkur til embættis í því prestdæmi.

Snemma á reynslutíma ykkar í prestdæminu, var hver stuðningur einföld athöfn til stuðnings þjóni Guðs. Margir ykkar eru nú í þeirri stöðu að af ykkur er krafist meiri stuðnings.

Þið veljið hvort þið styðjið alla þá sem Drottinn kallar – til hvers sem hann hefur kallað þá. Þann valkost sýnum við á ráðstefnum víða um heim. Þann valkost höfum við sýnt á þessari ráðstefnu. Á slíkum samkomum eru lesin upp nöfn karla og kvenna – þjóna Guðs – og ykkur er boðið að rétta upp hönd til stuðning. Þið getið hafnað því að sýna stuðning eða heitið því að styðja í trú. Þið gefið loforð þegar þið réttið upp hönd til stuðnings. Þið gefið Guði loforð um að styðja þessa þjóna hans.

Þeir eru ófullkomnar manneskjur, rétt eins og þið. Það þarf óhagganlega trú til að halda loforðið, um að Guð hafi kallað þá. Það mun líka veita okkur eilífa hamingju að halda þessi loforð. Það mun kalla sorg yfir ykkur sjálfa og ástvini ykkar, ef þið haldið þau ekki – og jafnvel missi þess sem þið fáið ekki skilið.

Þið gætuð hafa verið spurðir, eða verðið spurðir, hvort þið styðjið biskup ykkar, stikuforseta, aðalvaldhafa og aðalembættismennn kirkjunnar. Það gæti gerst er þið eruð beðnir að styðja embættismenn og leiðtoga á ráðstefnu. Stundum gerist það í viðtali við biskup eða stikuforseta.

Ég ráðlegg ykkur að spyrja ykkur sjálfa þessara spurninga fyrirfram og íhuga þær af kostgæfni. Með því að gera það, gætuð þið líka íhugað hugsanir, orð og verk ykkar á nýliðnum tíma. Reynið að móta og leggja á minnið svör ykkar fyrir viðtalið við Drottin, í vissu um að það muni gerast. Þið gætuð undirbúið ykkur með því að spyrja ykkur sjálfa:

  1. Hef ég hugsað eða rætt um mannlega bresti þeirra sem ég hef lofað að styðja?

  2. Hef ég leitað sannana fyrir því að Drottinn leiði þá?

  3. Hef ég stöðugt og dyggilega fylgt leiðsögn þeirra?

  4. Hef ég rætt um sannindamerki sem ég fæ séð um að þeir séu þjónar Guðs?

  5. Bið ég reglulega fyrir þeim með nafni og af ástúð?

Þessar spurningar eru flestum okkar að einhverju marki óþægilegar og kalla á iðrun. Guð hefur boðið okkur að dæma ekki aðra óréttmætt, en okkur reynist það erfitt í verki. Næstum allt sem við gerum í samstarfi við fólk, knýr okkur til að leggja mat á það. Við berum okkur líka saman við aðra á næstum öllum sviðum lífsins. Margar ástæður geta legið þar að baki, sumar sanngjarnar, en oft verðum við gagnrýnin af því.

George Q. Cannon forseti setti fram aðvörun, sem ég gef ykkur sem mína eigin. Ég trúi að hann hafi mælt sannleika: „Guð hefur útvalið þjóna sína. Hann gerir tilkall til þess að fordæma þá, ef þeir þarfnast fordæmingar. Hann hefur ekki falið okkur að átelja þá og fordæma. Enginn maður, hversu sterkur sem hann kann að vera í trúnni eða hár í prestdæminu, getur talað illa um hina smurðu Drottins og gagnrýnt valdhafa Guðs á jörðu, án þess að kalla yfir sig vanþóknun Guðs. Heilagur andi mun yfirgefa slíkan mann og hann mun umlykjast myrkri. Sé þetta raunin, fáið þið þá ekki séð hve mikilvægt er að sýna varkárni?“1

Að mínu viti eru meðlimir kirkjunnar víða um heim almennt trúir hver öðrum og þeim sem eru í forsæti þeirra. Það eru þó umbætur sem við getum gert og verðum að gera. Við gætum eflt getu okkar við að styðja hvert annað. Það krefst trúar og verka. Hér eru fjórar ábendingar sem við getum tileinkað okkur á þessari ráðstefnu.

  1. Við gætum auðkennt ákveðna breytni sem ræðumenn hér hvetja til og byrjað nú þegar að tileinka okkur hana. Geta okkar til að styðja þá mun þá aukast.

  2. Við gætum beðið fyrir þeim við ræðuflutning, að heilagur andi megi flytja orð þeirra í hjörtu einhverra sem eru okkur kærir. Þegar við sjáum síðar að bæn okkar var svarað, mun geta okkar aukast til að styðja þessa leiðtoga.

  3. Við gætum beðið þess að ákveðnir ræðumenn verði blessaðir og efldir við að færa okkur boðskap sinn. Þegar við sjáum að þeir voru efldir, munum við vaxa varanlega að trú til að styðja þá.

  4. Við gætum hlustað á boðskap ræðuflytjenda, eftir svari við okkar persónulegu bænum um liðsinni. Þegar svarið berst, og það mun gerast, munum við vaxa að trú til að styðja alla þjóna Drottins.

Auk þess að auka getu okkar til að styðja þá sem þjóna í kirkjunni, mun okkur lærast að við getum bætt okkur á sama hátt á öðru sviði. Það getur jafnvel fært okkur enn æðri blessun. Það er á heimilinu og í fjölskyldunni.

Ég tala til yngri prestdæmishafana sem eiga föður á heimili sínu. Ég ætla að segja af eigin reynslu hversu mikilvægt það er föður að finna trúarlegan stuðning ykkar. Hann kann að virðast sjálfsöruggur. Áskoranir hans eru þó fleiri en þið áttið ykkur á. Stundum sér hann ekki fyrir enda vandamála sinna.

Aðdáun ykkar á honum mun að nokkru hjálpa. Elska ykkar til hans er honum jafnvel enn gagnlegri. Það sem er honum þó gagnlegast eru einlæg orð eins og: „Pabbi, ég bað fyrir þér og mér finnst Drottinn ætla að hjálpa þér. Allt mun fara vel. Ég veit að svo verður.“

Slík orðaskipti koma líka miklu til leiðar í hina áttina, frá föður til sonar. Þegar syni verður alvarlega á, kannski á andlegan hátt, finnst honum kannski hann hafða brugðist. Eftir að þið hafið beðist fyrir á slíkri stund, sem feður, til að vita hvað gera skuli, gætuð þið furðað ykkur á að heilagur andi knýr ykkur til að segja: „Sonur, ég styð við bakið á þér alla leið. Drottinn elskar þig. Með hans hjálp muntu koma til baka. Ég veit að þú getur það og munt gera það. Ég elska þig.“

Aukin trú í prestdæmissveit og í fjölskyldu, til stuðnings hvers annars, er háttur okkar við að byggja upp Síon, sem Drottinn vill að við gerum. Við getum og munum gera það með hans hjálp. Það er lærdómur að elska Drottin af öllu hjarta, mætti, huga og styrk og elska aðra eins og við elskum okkur sjálf.

Þegar við vöxum í þeirri hreinu ást Krists, munum við mildast í hjarta. Sú elska mun gera okkur auðmjúka og iðrunarfulla. Traust okkar mun vaxa til Drottins og samferðafólks okkar. Þá stefnum við að því að verða eitt, eins og Drottinn hefur lofað að geti orðið.2

Ég ber vitni um himneskur faðir elskar ykkur og þekkir. Jesús er hinn lifandi Kristur. Þetta er hans kirkja. Við berum prestdæmi hans. Hann mun heiðra viðleitni okkar til að vaxa að styrk við notkun þess og styðja hver annan. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Gospel Truth: Discourses and Writings of President George Q. Cannon ritstýrt af Jerreld L. Newquist (1974), 1:278.

  2. Sjá Kenning og sáttmálar 35:2.