2010–2019
Leita þekkingar með andanum
Apríl 2019


Leita þekkingar með andanum

Við ættum ekki einungis að læra að greina sannleikann með rökhugsun okkar heldur einnig með hinni lágu og hljóðlátu rödd andans.

Kæru bræður og systur, Drottinn hefur ítrekað sagt okkur að „[sækjast] eftir fræðslu með námi og einnig með trú.“1 Við getum meðtekið ljós og skilning í gegnum leiðsögn og innblástur heilags anda, en ekki bara í gegnum rökhugsun.

Þessi enn frekari uppspretta þekkingar hefur ekki alltaf verið hluti af mínu lífi.

Ég og mín elskulega eiginkona, Irene, gengum í kirkjuna fyrir 31 ári, þegar við vorum nýgift. Við ólumst bæði upp í Kólumbíu en nokkrum mánuðum eftir brúðkaup okkar fluttum við til Þýskalands vegna atvinnu minnar. Við vorum mjög ung og full vonar og væntinga; þetta voru einstaklega spennandi og hamingjuríkir dagar fyrir okkur.

Ljósmynd
Systir og öldungur Held

Á meðan ég einbeitti mér að starfi mínu fannst Irene að við myndum fá einhverskonar skilaboð frá himnum, án þess þó að vita hvernig eða hvenær. Því hóf hún að hleypa inn til okkar alls kyns sölumönnum með alfræðiorðabækur, ryksugur, uppskriftabækur, eldhúsáhöld og svo framvegis, ávallt að bíða eftir þessum einstöku skilaboðum.

Kvöld eitt sagði hún mér að tveir ungir menn í dökkum jakkafötum hefðu bankað upp hjá okkur og að hún hefði fengið mjög skýra og greinilega tilfinningu um að hleypa þeim inn. Þeir sögðu henni að þeir vildu tala við hana um Guð en myndu koma aftur þegar ég væri einnig heima. Gætu þetta verið þessi væntanlegu skilaboð?

Þeir hófu að heimsækja okkur og með leiðsögn þeirra lásum við í ritningunum og lærðum að skilja hið áríðandi mikilvægi Jesú Krists sem frelsara okkar og lausnara. Við sáum fljótt eftir því að hafa verið skírð sem ungabörn, sem hafði ekki verið meðvitaður sáttmáli. Að skírast aftur þýddi, hins vegar, að við yrðum meðlimir þessarar nýju kirkju, svo við urðum fyrst að læra allt um hana.

Hvernig gáum við vitað hvort þetta sem trúboðarnir voru að kenna okkur um Mormónsbók, Joseph Smith og sáluhjálparáætlunina, væri í raun sannleikur? Við höfðum skilið af orðum Drottins að „af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.“2 Við hófum því að rannsaka kirkjuna á mjög skipulagðan máta, með því að leita þessara ávaxta með augum mikillar rökhyggju. Hvað fundum við? Jú, við fundum:

  • Vingjarnlegt og hamingjusamt fólk og yndislegar fjölskyldur sem skildu að okkur er ætluð hamingja í þessu lífi en ekki einungis þjáningar og vansæld.

  • Kirkju sem er ekki með launaða klerkastétt, heldur kirkju þar sem meðlimirnir axla verkefni og ábyrgð sjálfir.

  • Kirkju þar sem Jesús Kristur og fjölskyldur eru miðpunktur alls, þar sem meðlimir fasta einu sinni í mánuði og gefa til aðstoðar hinum fátæku og þurfandi, þar sem heilsusamlegar venjur eru í fyrirrúmi og okkur kennt að halda okkur frá skaðlegum vímuefnum.

Að auki:

  • Kunnum við vel við áherslurnar á persónulegan þroska, menntun, elju og sjálfsbjörg.

  • Við lærðum um hið merkilega mannúðarstarf.

  • Við vorum einnig hrifin af aðalráðstefnunum með yndislega tónlist og djúpstæðar andlegar kenningar sem þar var miðlað.

Er við litum þetta allt, gátum við ekki fundið galla á kirkjunni. Þvert á móti þá kunnum við vel við allt sem við sáum. Við gátum hins vegar ekki ákveðið að skírast því við vildum vita allt áður en við myndum taka skrefið.

Drottinn var samt að undirbúa okkur í þolinmæði sinni, þrátt fyrir óákveðni okkar, hann var að móta okkur og aðstoða okkur við að uppgötva það sem við ættum að læra til að greina sannleikann, ekki einungis í gegnum rökhugsun okkar heldur í gegnum hina lágu og hljóðlátu rödd andans, sem talar sértaklega til hjartna okkar.

Sú rödd, og tilfinningin sem fylgdi henni, kom kvöld eitt eftir að hafa lært um fagnaðarerindið í 10 mánuði, þegar við lásum í Mósía 18: „Þar sem þið þráið … að bera hver annars byrðar … hugga þá, sem huggunar þarfnast, … sé þetta hjartans þrá ykkar, hvað hafið þið þá á móti því að láta skírast í nafni Drottins?”3

Þessi hending úr Mormónsbók smaug inn í hjörtu okkar og sál og skyndilega fundum við og vissum að það var í raun engin ástæða fyrir því að skírast ekki. Við gerðum okkur grein fyrir því að þær þrár sem talað er um í þessum versum, voru einnig þrár hjartna okkar og það væri í raun það sem skipti máli. Það væri mikilvægara en að skilja alla hluti því við vissum þegar nægilega mikið. Við höfðum ávallt treyst á leiðbeinandi hönd ástríks himnesks föður og vorum sannfærð um að hann myndi halda áfram að leiða okkur.

Þann sama dag ákváðum við dagsetningu fyrir skírn okkar og brátt vorum við skírð, loksins!

Ljósmynd
Skírnir öldungs og systur Held

Hvað lærðum við af þessari reynslu?

Til að byrja með lærðum við að treysta fyllilega á himneskan föður, sem er sífellt að reyna að hjálpa okkur að verða sú manneskja sem hann veit að við getum orðið. Við staðfestum hinn djúpa sannleika orða hans er hann sagði: „Ég mun gefa mannanna börnum orð á orð ofan og setning á setning ofan, örlítið hér, örlítið þar. Og blessaðir eru þeir, sem hlusta á setningar mínar, … því að þeir munu öðlast visku. Því að þeim, sem tekur á móti, mun ég meira gefa.“4

Í öðru lagi lærðum við að til viðbótar við rökhugsun okkar, getur önnur vídd til að öðlast þekkingu, veitt okkur leiðsögn og skilning. Það er hin lága og hljóðláta rödd heilags anda hans sem talar til hjarta okkar og huga.

Mér finnst gaman að líkja þessari kenningu við sjónræna getu okkar. Himneskur faðir hefur ekki einungis veitt okkur eitt heldur tvö mannleg augu. Við getum séð þokkalega með einungis einu auga en tvö augu veita okkur annað sjónarhorn. Þegar bæði sjónarhornin eru sett saman í heila okkar, framleiða þau þrívíddarmynd af umhverfi okkar.

Á sama hátt hefur okkur verið gefnar tvær uppsprettur upplýsinga í gegnum efnislega og andlega getu. Hugur okkar framleiðir eina skynjun í gegnum líkamleg skynfæri okkar og í gegnum rökhugsun okkar. Hins vegar hefur faðirinn veitt okkur okkur aðra skynjun í gegnum gjöf heilags anda, sem er í raun sú mikilvægasta og sannasta, því hún kemur beint frá honum. Þar sem rödd andans er oft svo lágvær, eru margir ekki meðvitaðir um þessa aðra uppsprettu.

Þegar þessar tvær skynjanir tengjast í sál okkar, þá sýnir það eina heildarmynd af raunveruleika hlutanna, eins og þeir í raun eru. Í raun getur heilagur andi aukið skilning okkar á ákveðnum „veruleika,“ sem aðeins er hugrænn skilningur, og afhjúpað hann sem blekkingu eða hrein ósannindi. Minnist orða Moróni: „Fyrir kraft heilags anda getið þér fengið að vita sannleiksgildi allra hluta.“5

Á mínu 31 ári sem meðlimur kirkjunnar hef ég oft rekið mig á, að ef við treystum einungis á eigin rökhugsun og afneitum eða vanrækjum hinn andlega skilning sem við getum öðlast með hughrifum og innblæstri heilags anda, væri það eins og að takast eineygður á við lífið. Í óeiginlegri merkingu hefur okkur í raun verið gefin tvö augu. Einungis sambland beggja sjónarhorna veitir okkur hina sönnu og fullkomnu mynd alls sannleika og alls þess sem við upplifum í lífi okkar, ásamt hinum fulla og djúpa skilningi á auðkenni okkar og tilgangi sem börn himnesks föður.

Ég minnist þess sem Russell M. Nelson forseti kenndi okkur fyrir ári síðan, þegar hann sagði að „á komandi tíð verður ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda.“6

Mér hefur lærst með algjörri vissu að:

  • Við eigum kærleiksríkan föður á himnum og við samþykktum öll að koma til þessarar jarðar sem þátt í guðlegri áætlun.

  • Jesús er Kristur, hann lifir og er frelsari minn og lausnari.

  • Joseph, auðmjúkur sveitastrákur, var kallaður og varð hinn mikli spámaður sem hóf þessa ráðstöfun í fyllingu tímans, með öllum lyklum, krafti og valdi prestdæmis Guðs.

  • Mormónsbók er annað vitni um Jesú Krist og fjölskyldum er ætlað að vera saman um eilífð.

  • Drottinn okkar, Jesús Kristur, leiðir þessa endurreistu kirkju sína, í gegnum lifandi spámann okkar, Russel M. Nelson forseta, í dag

Þessi og annar dýrmætur sannleikur mynda andlegar byggingareiningar að því sem Guð er að hjálpa mér að verða. Ég hlakka einnig til þeirra mörgu nýju kenninga sem hann vill að við meðtökum er við ferðumst í gegnum þetta yndislega líf og „lærum … með námi og einnig með trú“

Ég veit að þessir hlutir eru sannir og vitna um þá, í nafni Jesú Krists, amen.